Hér var rætt stuttlega við Elfu Björk Bragadóttur, Guðmund Ragnar Jóhannsson, Unnar Ragnarsson og Hannes Leifsson.
Þessir viðtalsstubbar voru teknir á Hólmavík þegar ég var í starfsnámi hjá Reykjavík Grapevine árið 2015. Það var einhver hugmynd að búa til flokk smáviðtala sem héti Town Profiles og taka þá stutt spjall við fólk sem maður hitti á förnum vegi á ákveðnum stöðum og heyra hvað það væri að sýsla.
Ég tók nokkra svona stubba bæði á Hólmavík og Drangsnesi en síðan varð ekkert úr þessum greinaflokki hjá Grapevine og þetta hefur því aldrei verið birt fyrr.
1.
Fullt nafn?
Elfa Björk Bragadóttir
Hvað gerir þú?
Ég er skrifstofumaður hjá Strandabyggð, og þar áður var ég á skrifstofunni hjá sýslumanninum á Hólmavík í áratugi. Ég vann þar til 2010.
Hvað felst í þessu starfi sem þú ert í núna?
Það er svona almenn skrifstofuvarsla, það er símavarsla, taka á móti tölvupóstum og flokka hann og senda áfram, skrá innkomna reikninga og gefa út reikninga, vinna fasteignagjöld og ýmislegt annað sem til fellur, þ.á.m. ef fólk er að flytja eða koma, og vill senda útflutningstilkynningu, og einnig ef fólk vill skrá sig á atvinnuleysisbætur, það þarf að koma og staðfesta rafræna umsókn, við tökum á móti henna og þá þarf fólk að mæta í eigin persónu, svona eitt og annað sem við reynum að hjálpa fólki með.
Hefurðu búið lengi á Hólmavík?
Ég er fædd hérna, bjó um tíma á Akranesi, fór í fjölbraut á Akranesi að mennta mig og svo þegar ég kom aftur heim átti ég litla dömu sem er að vísu fædd 79, svo á ég dreng sem er fæddur 83 og annan sem er fæddur 87, svo ég á 3 börn og 2 barnabörn sem verða 7 og 5 ára í sumar, og ég á von á því þirðja í ágúst.
Eru börnin þín eitthvað hér?
Nei, elsta býr á Akranesi, og drengirnir búa báðir núna í Reykjavík, dóttir mín er kennari, er að kenna við Brekkubæjarskóla á Akranesi, eldri sonur minn er íþróttafræðingur, vinnur í sporthúsinu, og yngri sonurinn era ð vinna á Stuðlum núna… svo á ég mann, hann er ekki héðan, hann er aðfluttur, hann er að vinna upp í sundlaug, pabbi hans var færeyskur og mamma hans þýsk.
Voru viðbrigði fyrir hann að koma hingað?
Nei, nei, hann er fæddur fyrir sunnan, hann er svona sveitabarn eins og ég.
Hvað finnst þér best við að vera hér?
Það er friðsældin og að geta gert meira af því sem mann langar til, og maður getur verið meira maður sjálfur, finnst mér, af því þetta er miklu fjölskylduvænna að búa í fámenni en fjölmenni, en það getur verið breytilegt, við höfum líka góða þjónustu, við höfum heilsugæslu sem ég þarf að stóla á því ég get ekki unnið nema 50% vinnu, þannig á meðan maður getur verið hérna, þá er þetta fínt.
Margir nefna þessa friðsæld og kyrrð og ró, eru Strandir ekki góður staður fyrir aktívara fólk?
Jújú, það getur fengið góða útrás, það er hérna öflugt leikfélag, svo er kirkjukór og kvennakór og golffélag og ungmennafélag og alls konar starfsemi, bridds félag meira að segja, ég held að flestir finni eitthvað við sitt hæfi ef þeir vilja vera mikið í félagslífinu, svo er mjög öflugt starf hjá Björgunarsveitinni, það er bara sjálfboðastarf sem því miður lender á mjög fáum, ekki allir sem gefa sig í það en það er eins og gengur og gerist.
Þannig þér finnst enginn skortur á afþreyingu hér?
Nei, í sjálfu sér ekki, þú getur sótt þér hvaða afþreyingu sem er í gegnum netið, t.d. hef ég verið að mennta mig í gegnum netið, í fjarnámi, mér finnst þetta með afþreyingu orðið svolítið tvíbent, af hverju þarf alltaf að hafa ofan af fyrir öllum, getur enginn haft ofan af fyrir sér sjálfur lengur? Það er eins og börn geti ekki lengur leikið sér, það verði alltaf að vera stíft prógramm, annað hvort í sjónvarpinu, eða einhvers konar leikjanámskeið, þau geta ekki bara verið þau sjálf, verið uppátektarsöm eins og maður fékk að vera í gamla daga, þó ég sé ekki að mæla með að þau geri allt sem ég gerði. Maður fékk að njóta sín meira sem einstaklingur, maður fór bara út að leika sér og svo kom maður heim þegar maður var svangur, það er ekkert hægt hvar sem er.
Nú er farið að fækka íbúum og fjölga sumarhúsum…
Já, það er sorgleg þróun, en á meðan þeim er haldið vel við er prýði af þeim, en það skapast engar tekjur af fasteignagjöldur, það eru engir íbúar sem skila útsvarstekjum til sveitafélagsins.Það er afþreying í boði fyrir þá sem koma hingað, þeir fara í mikið í sund og svo eru söfn hérna í kring á staðnum og mjög margt að sjá, ef þú hugsar út í það, þá er margt sem okkur finnst venjulegt, eins og kerlingin á Drangsnesi, þú sérð þetta á hverjum degi og svo er fólk sem hefur aldrei séð svona, og fær söguna með og þá er þetta eitthvað allt annað í þeirra augum,
Hvað er hægt að gera til að sporna við fólksfækkun?
Það er unga fólkið, það menntar sig í burtu, þegar það eru engin störf í boði sem hæfa þeirra menntun þá koma þau ekki aftur en það þarf líka að tryggja að þeir sem hafa alist hér upp og búa hérna að þeir haldist líka, ef þú hefur vinnu og húsnæði geturðu verið hvar sem er á landinu, ég held að stærsti vandinn sé að við erum að mennta unga fólkið okkar í burtu og við fáum ekki alveg til baka það sem stjórnvöld eru að lofa í sambandi við störf út á landi, eða standa kannski vitlaust að því ef þeim dettur það í hug, sbr. Fiskistofu, og sum störf er hægt að vinna í gegnum tölvu þannig maður getur verið hvar sem er.
Er nettengingin nógu góð?
Nei, ekki alveg nógu góð, það er verið að vinna í að gera hana góða, þeir hafa verið á fundum hérna frá Mílu.
2.
Fullt nafn?
Guðmundur Ragnar Jóhannsson
Þú ert sjómaður?
Já.
Hefurðu verið það alla tíð?
Nei, múrari líka.
Býrðu hérna allt árið?
Já, núna, ég er að verða 72 ára, þetta líður hratt.
Hvað finnst þér best við að búa hér?
Bara rólegheitin, hér er ekkert stress, a.m.k. ekki á mér, ég finn það bara áþreifanlega þegar ég kem í Ártúnsbrekkuna, þegar ég fer suður, þá dettur maður inn í umferðarhraðan og þetta allt.
Hvað annað hefur þú gert?
Ég hef verið mikið sjómaður, ég lærði múraraiðn, svo hef ég verið sjómaður mjög lengi.
Í hvers konar útgerð?
Í gamla daga var ég háseti á síldarbátum fyrir austan land, þá var ég á stærri bátum en þessum trillum.
Finnst þér betra eða verra að vera á stærri bátum?
Það er allt öðruvísi, það er varla hægt að bera það neitt saman.
Hvað ætlar þú að gera í dag?
Ég ætla að láta mér batna í úlnliðnum, þess vegna er ég ekki á sjó, ég er með liðvandamál í úlnliði.
Lentirðu í slysi?
Nei, nei.
3.
Fullt nafn?
Unnar Ragnarsson
Hvað ert þú að gera?
Ég er að smíða vagn undir bát, hann heitir Hilmir, svo það sé hægt að taka hann á land.
Er þetta starfið þitt?
Ja, ég á í bátnum, ég er orðinn gamall og hættur að vinna, nema bara svona það sem mig langar til.
Hefurðu búið hér alla ævi?
Já, ég er að verða 75 ára og er búinn að vera hér alla mína ævi, og verið á sjó síðan ’74, alltaf átt bát, ég hef verið á rækjuveiðum og svo á þorskveiðum á línu,
Hvað finnst þér best við að vera hér?
Bara frjálsræðið og ekkert stress, vera bara rólegur í tíðinni.
Heldurðu að það sé öðruvísi annars staðar?
Nei, nei, ég hef verið í Reykjavík, ég lærði þar, er sko járniðnaðarmaður eða vélvirki, lærði það í Reykjavík, en ég vil bara vera hérna heima.
Og ætlarðu að vera hér áfram?
Já, en maður getur ekkert sagt, hvar maður ætlar að vera og hvar ekki.
Áttu börn? Búa þau hér líka?
Ég á 2 dætur og þær eru báðar fyrir sunnan. Það er nú málið, ef þú lærir eitthvað og færð ekki vinnu við það hérna [geturðu ekki búið hérna].
Það er leiðinleg þróun..
Já.
Hefurðu einhverjar hugmyndir um hvað ungt fólk gæti gert hérna?
Nei í sjálfu sér ekki miklar hugmyndir, en það gæti verið einhver iðnaður, segjum hátækniiðnaður, en það er fjarlægðin, þetta er allt í Reykjavík, eins og með fiskinn, hann er unninn allur fyrir sunnan einhvers staðar, keyrður í burtu héðan, en það er samt unnin rækja hérna, sem kemur frá Bandaríkjunum, frá vesturströndinni á Bandaríkjunn, hún er keyrð í gegnum öll Bandaríkin og svo flutt hingað.
4.
Fullt nafn og starfsheiti?
Ég heiti Hannes Leifsson og ég er aðalvarðstjóri lögreglunnar á Hólmavík sem tilheyrir Vestfjörðum, er stjórnandi á þessari stöð á Hólmavík og er búinn að vera það í 15 ár.
Hafðirðu einhver tengsl við svæðið áður en þú komst hingað?
Nei.
Hvernig líkar þér?
Ég er búinn að vera hérna í 15 ár, segir það ekki allt sem segja þarf?
Ertu bara einn?
Nei, við erum tveir lögreglumenn hérna.
Er mikið að gera hjá ykkur?
Það er alltaf nóg að gera hjá okkur.
Hvað sjáið þið um stórt svæði?
Næsta lögreglustöð er í Búðardal, en við tilheyrum lögreglunni á Ísafirði, það eru 230 km á milli lögreglustöðva hérna.
Hvað eruð þið helst að gera?
Nánast allt, það fylgir því þegar það er svona langt á milli lögreglustöðva, þá þarftu að vera í stakk búinn til að gera allt, það þarf að leysa öll þau mál sem koma upp, þú hleypur ekkert að ná í eitthvað þegar þú ert kominn 100 km á leið í útkall, þannig að við erum þjálfaðir í að reyna að leysa nánast öll mál sem upp koma.
Er erfitt að vera í þessari stöðu á svona litlum stað?
Já, það er mjög erfitt, það er eiginlega erfiðasti parturinn af þessu starfi, að geta skautað á milli þess að geta tekið á erfiðum málum og vera óvinsæll fyrir bragið og þurfa að taka því mótlæti, það er mesta challengið við þetta starf, að þurfa og verða að takast á við það.
Ertu duglegur í ræktinni?
Já, ég kem hingað á hverjum einasta degi, það er bara hluti af okkar starfi, að vera í góðu formi, eins og ég segi, það eru 230 km á milli lögreglustöðva, þú þarft að vera tilbúinn, bæði andlega og líkamlega, til að klára þau verkefni sem þú lendir í, þú færð enga hjálp.
Geturðu undirbúið þig andlega? Hvernig?
Ég held það sé bara persónubundið, hvernig menn eru, hvar þú býrð, hvernig þeir eru aldir upp og hvernig hugsanagangurinn er, en þetta starf er þannig að þú ert aldrei undirbúinn undir öll þau verkefni sem þú lendir í, tökum sem dæmi, í Reykjavík, gefum okkur að það verði mjög alvarlegt umferðarslys, þar eru viðbragðsaðilar mögulega 3-5 mínútur á vettvang, hér verður kannski slys 100 km í burtu og ég er halftíma eða 3 korter að keyra þangað, þannig það er ansi langur tími frá því ég legg af stað héðan og þangað til ég kem á slysstað og þann tíma nota ég til að undirbúa mig undir það verkefni sem ég er að fara í, svoleiðis hef ég unnið úr því í gegnum tíðina.
Og ætlarðu að vera hérna áfram?
Ja, ég ætlaði bara að vera í 1 ár þegar ég kom fyrst, en þau eru orðin 15. Þetta er mjög krefjandi starf en líka mjög skapandi að mörgu leyti, það er líka gefandi. Maður finnur fyrir óheyrilegu þakklæti hjá fólki sem hefur þurft á okkar aðstoð að halda, eins og t.d. erlendir ferðamenn, þeir þekkja ekki þessa þjónustu sem þeir fá hérna, í heimalandinu sínu verða þeir bara að redda sér. Hér kemur lögreglan á vettvang og leysir öll mál, og við erum meira að segja að hjálpa þeim í sambandi við bílaleigubílana og tala við bílaleigurnar ef einhver lendir í umferðaróhappi, við fylgjum málinu eftir, það er svona bunki á borðinu mínu af heillaskeytum eða þakklætisskeytum, sérstaklega frá útlendingum sem lenda í einhverju, eru í ókunnugu landi, þekkja engan, vita ekkert, eru á bílaleigubíl frá leigu sem er kannski að reyna að svindla á þeim, þannig að við erum að hjálpa þessu fólki að standa í fæturnar og fá rétta meðferð. Ég fæ ótrúlega mikið af þakklæti og ótrúleg upplifun fyrir fólk að koma í svona samfélag þar sem við erum tilbúin til að hjálpa öllum.
Unnið fyrir grapevine.is. Óbirt.
Myndir: Art Bicnick