Þessi síða er til þess að halda utan um greinar sem ég hef og mun skrifa um fólkið á Ströndum.
Ég ólst upp á Drangsnesi og hef í seinni tíð fengið mikinn áhuga á því að skrá sögur fólksins þar. Það er skringilegt að hugsa til þess hve margt af þessu fólki hefur verið hluti af lífi mínu með einhverjum hætti en samt veit ég skammarlega lítið um það og þekki það í raun bara með nafni og í sjón (ef þá það).
Eftir að ég lauk háskólanámi, fór ég í starfsnám hjá tímaritinu Reykjavik Grapevine sem er helst ætlað erlendum ferðamönnum. Þangað fór ég með það að markmiði að koma Ströndum á kortið og tók þá m.a. nokkur viðtöl við ferðaþjónustuaðila, listafólk og fleiri á svæðinu. Þýðingar af mörgum þessara greina má finna á seiglugarðinum.
Árið 2022 var ég lausapenni fyrir strandir.is og skrifaði þá líka nokkrar greinar um ýmsa einstaklinga, viðburði og fyrirtæki á Ströndum. Þetta fannst mér afskaplega skemmtileg iðja svo mér þótti afar leitt þegar sú síða var lögð niður. Með leyfi eigenda strandir.is hef ég birt nokkrar þeirra hér líka.
Eftir þetta hálfleiddist mér, svo ég ákvað að búa til eigin síðu til að geta haldið þessum skrifum áfram og hún er hér! Vonandi hafa lesendur gagn og gaman af.
Ragna Ólöf Guðmundsdóttir
(Eflaust þarf ekki að skýra það fyrir öllum en ‘seiglugarðurinn’ er auðvitað vísun í Drangsnesbraginn, ég hef ekki hugmynd um hvort orðið merkir eitthvað annað en það sem það hljómar eins og; staður þar sem fólk er seigt og harðgert – eins og á Ströndum).
