Veiðiskapur og búskapur í Kollafirði
Ég bað pabba minn um tillögur að viðmælendum sem ég þekkti ekki og hann stakk upp á Torfa Halldórssyni, bónda á Broddadalsá í Kollafirði sem hafði mjög margt áhugavert að segja. Torfi er fæddur á Broddadalsá árið 1954 og hefur búið þar alla sína tíð. Forfeður hans í föðurætt voru ábúendur þar eitthvað aftur í ættir en foreldrar hans voru Halldór Jónsson og Guðbjörg Svava Eysteinsdóttir, og er hann næstyngstur fimm systkina.
Einstakt minni
Torfi hefur einstaklega gott minni sem nær lengra en hjá flestum og því bað ég hann að segja mér frá fyrstu minningunni sinni.
„Fyrsta minningin var þegar systur mínar voru að kíkja á mig nýfæddan og ég sá þær í móðu. Ég man eftir mér áður en ég gat talað og það á aldrei að tala barnamál við fólk. Það pirraði mig óskaplega mikið því ég skildi fólk. Ég verð mjög pirraður núna ef ég sé fólk tala barnamál við lítil börn, það á ekki að gera það, börn skilja þetta allt saman. Sjálfur tala ég við börn eins og þau skilji mig. Þau skilja allt löngu áður en þau geta talað. Ég beið eftir því að geta talað en svo kom það, þetta er mjög sérstakt.“
![Loftmynd af bænum Broddadalsá, séð til norðurs yfir eyjar og sker, Grímsey, Drangsnes og Bæjarfell í bakgrunni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/DJI_0798.jpg?resize=640%2C360)
Einnig segir Torfi frá áfalli sem hann varð fyrir í æsku sem hann telur að hafi mögulega haft áhrif á, og skerpt, þetta mikla minni hans. Hvort einhver vísindi styðji þá tilgátu, skal látið ósagt.
„Ég hef aldrei farið á spítala fyrir utan það þegar ég var þriggja ára. Þá fótbrotnaði ég á sleða, var að renna mér hérna með krökkunum sem voru í skóla og braut á mér löppina. Þá þurfti náttúrulega að fara með mig á spítala á Hólmavík og þar var góður læknir, Arnbjörn Ólafsson, sem setti þetta saman. En hann svæfði mig með eter og það var mjög slæmt. Þeir voru bara tveir, hann og pabbi, og þeir sögðu mér ekkert hvað stæði til. Þeir tóku mig snemma um morguninn og svæfðu mig með eter í tusku sem var sett fyrir vitin á mér. Ég hélt þeir ætluðu að drepa mig og ég barðist á móti af hörku þannig þeir náðu ekki að svæfa mig í fyrstu atrennu og líklega hef ég fengið taugaáfall og sennilega yngsti Íslendingurinn sem hefur fengið taugaáfall. Þeir höfðu mig í næstu atrennu, þá sofnaði ég, en mér leið mjög illa þegar ég vaknaði. Ég hafði grátið og öskrað svo mér logsveið í allan munninn, þetta hafði farið upp í mig og var mjög vont. Ég var mjög var um mig og hræddur eftir þessa aðgerð. Læknirinn var alltaf að koma og ég var alveg urrandi reiður þegar hann kom nálægt mér. Hann vildi vita hvort það væri ekki nóg blóðflæði og var að taka á tánum á mér, hvort þær væru ekki heitar. En þetta lánaðist mjög vel þannig það sér ekki á löppinni og ég er búinn að labba heilmikið á henni í gegnum tíðina og ekki fundið neitt til. En síðan hef ég verið mjög stressaður en ég er búinn að afsanna það sem menn hafa talað um í gegnum tíðina, um að stress hafi slæm áhrif. Ég er búinn að lifa stressaður í nærri 70 ár og hef lifað ágætu lífi. En ég hef aðlagast þessu stressi, þó ég virðist stressaður, er ég pollrólegur inni í mér og hugsa rökrétt en þetta áfall breytti lífi mínu heilmikið. Þetta var mjög slæmt að lenda í þessu svona ungur. Ef þeir hefðu bara sagt mér að þeir ætluðu að svæfa mig… en ég var alveg klár á því að nú ætti að drepa mig og ég ætlaði ekki að drepast átakalaust. En þetta hafði aftur á móti þau áhrif að ég fékk alveg hrikalega gott minni. Ég man alveg frá því ég var eins árs, og hafði í gengum tíðina rosalega gott minni. Ég mundi bókstaflega allt. Við fórum í ferðalag þegar ég var eins árs og ég man eftir ferðinni. Ég man hvar ég svaf, hvar ég vaknaði og man eftir landslaginu, og þegar við fórum að heimsækja afa og ömmu sem bjuggu á Ketilstöðum, þá gat ég lýst herberginu sem við sváfum í, hvernig það var á litinn og hvernig voru húsgögnin í því og hvað við gerðum þar, þó ég hafi bara verið eins árs.“
Vinna metin meira en menntun
Torfi segist vera einn af þeim síðustu sem var í farskóla á barnsaldri en þá komu kennarar á sveitabæina og kenndu bóndabörnum einhver grunnfög, og er það eina formlega menntunin sem hann hlaut. Hann segir þó að mögulega hefði verið sniðugt að mennta sig meira.
„Sumir héldu áfram, en ég hélt ekki áfram. Ég hætti 14 ára, eins og margir aðrir, og hrósaði happi yfir því á sínum tíma en var fljótur að skipta um skoðun. Þetta var vitleysa. Maður sá það eftir á, í dag myndi ég ekki hafa hætt 14 ára, og ég sá eftir því. En það hættu margir á mínum aldri 14 ára og fóru ekkert í framhaldsskóla. Það var ekki skylda þá en allflestir fóru í Reykjaskóla og lærðu meira og það átti maður að gera líka. Menn eiga ekkert að reyna að fara í gegnum lífið á handaflinu, þó mér hafi tekist það, þá mæli ég ekkert með því.“
En auðvitað lærir fólk oft mest í hinum svokallaða lífsins skóla sem endist ævilangt, og að sjálfsögðu er lærdómur í þess konar erfiðisvinnu sem Torfi byrjaði snemma í.
„Já, maður lærði að vinna. Ég hef alltaf haft óskaplega gaman af því að vinna og kunnað best við mig í drullugallanum að vera að vinna og það hefur hentað mér ágætlega. Ég hef verið líkamlega mjög hraustur, ég er aldrei veikur. Það er svo langt síðan ég varð veikur að ég man ekki eftir því.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi7.jpg?resize=640%2C434)
Fyrsta verk barnanna var oft að reka kýrnar á beit, sem þá voru á hverjum bæ, en meðfram þeirri vinnu gafst þó tími til leikja. Á uppeldisárum Torfa voru mörg börn í sveitinni og þau gátu alltaf fundið sér eitthvað að gera.
„Við fengum það starf að reka kýrnar á morgnanna, það var fyrsta starfið, maður var látinn reka beljurnar út með sjónum strax og maður gat, og labbaði fjöruna heim, og svo þurfti maður að moka fjósið. Það fengu allir krakkar að gera það, svo var bara vinna um leið og maður gat. Jújú, við lékum okkur líka, það var svo mikið af krökkum að við gátum verið með tvö fótboltalið. Við fórum á kvöldin krakkarnir, og höfðum í tvö fullskipuð lið, hérna á Broddanesi og Broddadalsá. Það var bæði mikið af krökkum á bæjunum og aðkomubörn. En við urðum að búa okkur til leiki sjálf, það var ekkert sjónvarp. Það var útvarpið, það var ekkert rafmagn, þetta var allt mjög frumstætt. En við urðum að finna upp á einhverju. Við vorum úti að leika okkur og vorum hugmyndarík og okkur leiddist ekki neitt. Við lásum mikið. Ég held að maður þroskist meira á því að finna eitthvað, ég smíðaði mikið af bátum og bílum. Ég smíðaði eiginlega öll mín leikföng sjálfur og hugsaði það út, allavega útfærslur, seglskip og annað og var alltaf að reyna að þróa eitthvað. Svo átti maður hjól og hjólaði mikið og okkur leiddist ekki neitt, svo renndi maður sér á veturna þegar það var snjór, maður fann alltaf upp á einhverju. Maður þurfti ekki að hafa neinn síma til að glápa á, enda er ég ekkert mikið fyrir það og hangi ekkert í símanum.“
Aðspurður segir Torfi að ekki hafi honum hugnast öll þau verk sem ætlast var til að hann ynni, a.m.k. til að byrja með.
„Ég man eftir því að þegar ég þurfti að slá með orfi, þá var ég alveg hundfúll. Pabbi fékk mér orf og ljá og ég rauk út í reiði minni og djöflaðist með ljáinn. Hann beit ekki neitt og það endaði með því að ljárinn fór í tvennt. Pabbi sagði ekki neitt og fékk mér bara nýjan ljá og kenndi mér að brýna. Þá áttaði ég mig á því að það var betra að nota lagið og lærði að brýna og þá fór að flugbíta hjá mér og ég sló mikið með orfi. Það var kunnátta sem hefur nýst mér, að kunna að brýna ljái og hnífa og annað. Maður varð að gera það, það var ekkert hægt að slá bara með aflinu en ég gerði það af því ég var hundfúll og kunni ekki neitt. Þetta var þrælerfitt. En svo komu vélarnar, fyrst komu sláttuvélar og svo komu sláttutætararnir og ég tætti helling og sló mikið með honum, var mjög ungur þegar ég byrjaði á því.“
![Svarthvít mynd af tveimur drengjum, Torfa og Jóni Halldórssonum.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi8.jpg?resize=625%2C1019)
Ólst upp með vélum
Á æskuárum Torfa voru vinnuvélar að ryðja sér til rúms í landbúnaði og hann óx úr grasi samhliða þeirri tækjaþróun.
„Þegar ég fæðist eru ennþá notaðir hestar. Þetta breytist ‘55 hérna, þá var hætt með hestana. Ég var aldrei hrifinn af hestum, ég missi af þessum hestum og þeir hafa aldrei heillað mig. Ég hef alltaf verið miklu hrifnari af vélunum. Ég elst upp með vélunum og er farinn að keyra og vera á vélunum um leið og ég get. Þegar ég var lítill ætlaði ég að verða vélamaður, ég ætlaði aldrei að verða bóndi. Þegar ég er eins árs þá kemur fyrsta dráttarvélin, Fergusson dráttarvél, ég var mjög hrifinn af henni. Pabbi sat með mig þegar ég var þriggja ára og leyfði mér að stýra, þá höfðum við ekkert annað farartæki. Menn fóru á milli bæja, menn fóru í heimsókn á dráttarvélinni, í verslun, það voru sárafáir bílar til í sveitinni á þessum árum. Menn fóru allt á dráttarvélinni. Ég man eftir því fyrst þegar ég var að byrja, þá var ég eitthvað annars hugar að glápa út í loftið, þá sagði pabbi ‚ætlar þú að keyra á brúnna drengur?‘ Ég hét því að þetta kæmi aldrei fyrir aftur, þetta skyldi aldrei henda mig aftur að það skyldi vera að ávíta mig með það að ég væri ekki að taka eftir. Svo byrjaði ég níu ára, þá fór ég að keyra sjálfur út um allt og fljótlega var ég farinn að keyra fram að Eyri í verslun og við fórum allt á dráttarvélinni. Í kringum ‘65, þá fær pabbi tætara og þá fljótlega er ég settur í að slá. Svo þurfti náttúrulega að þurrka líka en það var sjálfsagt, það urðu allir að vinna. Menn urðu að vinna og höfðu gott af því að vinna og ég hef alltaf haft óskaplega gaman af því að vinna og vil helst alltaf vera að vinna eitthvað og tek mér aldrei langt frí. Mér fer að leiðast ef ég tek of langt frí og ég tek yfirleitt aldrei meira en 4, 5 daga í frí, þá vil ég komast heim og vera að gera eitthvað. Ég myndi aldrei endast lengi á sólarströnd á Spáni eða Kanaríeyjum. Ég hugsa að ég myndi ekki fara þangað nema einu sinni. Það myndi ekki henta mér. Ég hef trú á því að vinna geri manni gott. Það er gott að vinna mikið. Ég þakka því að ég hef verið hraustur alla ævi af því ég hef unnið mikið. Það er ekkert sjálfgefið að vera hraustur og vera aldrei veikur. Ég þakka það hollu og góðu matarræði, að hafa borðað þessar íslensku góðu landbúnaðarvörur, ásamt sel og kofu og rauðmaga. Þetta er hollt fæði og gerir manni gott og maður verður hraustur af því.“
Selaveiðar
Torfi segir mikinn tíma bændanna hafa farið í það að afla matar og vetrarforða, m.a. rauðmaga og sel, og lýsir veiðiaðferðunum.
„Á þessum tíma var ekkert rafmagn og allt mjög frumstætt, og þar af leiðandi var ekki neinn frystir og matur var á köflum yfir veturinn einhæfur. Að vísu höfðum við frystihólf á Hólmavík en það var ekkert auðvelt að komast þangað. En hérna á nesjunum, á vorin kom rauðmagi og þá var borðaður rauðmagi og grásleppa í hvert mál. Maður beið eftir þessu á vorin að fá nýjan rauðmaga og maður var alltaf jafn sólginn í hann þegar hann kom á vorin en maður var orðinn ansi leiður á honum undir lokin. En þetta gerði manni gott og ég held þetta hafi verið mjög hollt fæði. Svo þegar þetta var búið, þá kom selurinn, þá veiddum við mikið af sel hérna á Broddanesi. Við eigum hlut í Broddanesinu þannig við vorum í selveiðum þarna og þá var borðaður selur. Það voru veiddir á Broddanesi svona 120-140 kópar árvisst þegar ég er alast upp. Þá var borðaður selur alveg fram á sumar, ekkert nema selur. Hann var mjög góður, mér finnst hann góður enn þann dag í dag. Við byrjuðum að veiða rauðmaga 16. mars ef það var þannig veður. En oft var ekkert hægt að byrja fyrr en í apríl. Það var byrjað að leggja fyrir selinn um miðjan júní. Þá var farið á tveim bátum, annar fór inn á fjörð en hinn fór yfir á Flögur sem er utar í firðinum. Það var bara róið og það var hægt að sigla líka ef það var vindur, og þessir karlar kunnu að sigla. Svo voru komnir utanborðsmótorar í restina. Maður var ungur settur í að róa, og róa og róa, inn á fjörð, þannig ég var alvanur því. Lærði áralagið snemma þegar ég var krakki. Við vorum með net, þeir bjuggu þau til sjálfir úr hampi. Menn voru í þessu á vetrinum að riða selanet og fella þau, setja þau inn til að eiga nóg af netum í selinn. Sums staðar var lagt eitt net en oft voru lögð 2 net. Það var stærri steinn sem var settur upp á skerin eða upp á land og þeir kölluðu það landtog, svo var minni steinn settur í djúpendann og þeir kölluðu hann útdíl. Þeir voru ekki með dufl, höfðu ótrú á því að hafa dufl á djúpendanum því selurinn myndi fælast. Þeir lögðu blindlagnir og húkkuðu slæðu í, eða tóku netin uppi í fjöruborð. Það hafði alltaf verið þannig að það var ekki bauja eða neitt, en þegar ég fór að leggja sjálfur seinna, þá hafði ég bauju eða dufl og það skipti engu máli. Þeir lögðu alltaf á sömu staði, þeir voru mjög vanafastir með það, það mátti ekki breyta út af lögnum. Þeir kljáðu netin út í bátinn, og notuðu kljásteina og kljábönd. Þá voru kljásteinar bundnir við netin með kljáböndum og raðað í bátinn með ákveðnu bili og þannig voru netin lögð í sjóinn. Svo létu þeir netin aðeins bíða í sjónum.”
![Torfi og annar maður, Gunnar Sæmundsson, í litlum bát að taka inn net með selskóp.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi12.jpg?resize=640%2C661)
„Svo var vitjað og þá var þetta lifandi. Þeir tóku alltaf með sér skefli. Það var svona hálfs meters sívalt prik sem þeir völdu í fjörunni og höfðu í bátnum og þetta notuðu þeir til þess að rota kópana sem voru lifandi í netunum en sumir voru drukknaðir. En í fyrsta skiptið voru þeir oft lifandi og þá þurfti bara að taka þá og þeir voru rotaðir. Sveitamenn hafa alltaf þurft að aflífa skepnur og okkur fannst þetta ekkert meira en hvað annað, þetta var sjálfsögð athöfn að aflífa dýr. Menn aflífuðu kindur og seli og fugla og hvað sem var. Þetta var það sem menn höfðu alist upp við og allir gerðu. En ef það voru fullorðnir selir í netunum, þá voru þeir skornir úr, þeir sögðu það að hver urta gæfi af sér eins og tvílemba og urtur voru helst ekki drepnar. Þeir skáru netin og slepptu henni, það var frekar ef það voru gamlir brimlar. En þeir tóku helst ekki fullorðna seli en þeir fórnuðu netinu hiklaust fyrir urtu. Þær voru mjög reiðar og létu illa og það var ekkert gaman. Það voru mikil átök og læti við að losa þær út. En þeir voru vanir karlarnir og kunnu á þessu tökin og pössuðu að láta þær ekki bíta sig og það var mikill gusugangur og urr og hvæs og læti í þeim. En þetta hafðist allt saman. Það var lagt á fjörðinn fyrst en síðan þegar það fór aðeins að minnka veiðin inni á firðinum, þá var lagt út við Skotta og Flögur út af eyjunni, og þá var hellings veiði þar líka og það kom fyrir að þetta voru svona 50-70 selir sem lágu í Breiðuvörinni sem þurfti að skipta og þessu var skipt eftir eignarhaldi í jörðinni, menn áttu misstóra parta. Mönnum þótti þetta svo sjálfsagt að það tók enginn mynd af þessu en núna hefði verið gaman að eiga mynd af þessari breiðu í fjörunni. Maður hélt að þetta yrði alltaf svona. Maður áttaði sig ekki því en svo allt í einu var þetta búið.“
![Torfi og annar maður, Gunnar Sæmundsson, í litlum bát að losa sel úr neti.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi2.jpg?resize=571%2C687)
Einnig voru selskinnin verkuð og seld, og segir Torfi það hafa komið sér fjárhagslega vel fyrir veiðimennina sem þá eignuðust peninga sem ekki fóru í gegnum Kaupfélögin. Þá virkuðu þau á svipaðan hátt og bankar sem veittu lán og úttektir gegn innleggjum í formi landbúnaðarafurða.
„Þessir karlar, sem voru í selnum, fengu forréttindi, því þá eignuðust þeir nefnilega peninga sem þeir áttu sjálfir og þurftu ekki að fara í Kaupfélagið og biðja um peninga. Kaupfélagsstjórarnir spurðu alltaf ‚hvað ætlarðu að gera við þessa peninga?‘. Maður varð að segja þeim hvað maður ætlaði að gera við peningana, annars fékkstu ekki peninga. Það var þessi forsjárhyggja hjá Kaupfélögunum, þó menn ættu peninga inni, þá var ekkert sjálfsagt að fá peninga. Þú gast verið að biðja um peninga og það var kannski ekki hægt að fá þá fyrr en löngu seinna. Þeir lágu á peningunum eins lengi og hægt var og vildu helst ekki láta mann hafa peninga.“
![Maður í blárri yfirhöfn, Halldór faðir Torfa, að gera að sel og skera frá spikið.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi16.jpg?resize=620%2C1024)
Kríuegg og kofuveiðar
En aftur að mataröfluninni. Fyrir utan rauðmaga og sel, voru kofur og kríuegg einnig fyrirferðarmiklar fæðutegundir á yngri árum Torfa og vill hann meina að eggjatakan hafi verið kríunni til bóta.
„Það var mikið kríuvarp á Broddanesi. Maður tíndi kríuegg þegar maður var krakkki. Þá var veiðieðlið komið í mann. Ég tíndi 70-80 kríuegg á hverjum einasta degi. Ég held að það hafi verið til bóta fyrir kríuna og er á þeirri skoðun að það eigi að taka undan kríunni til að byrja með, því að þá koma ungarnir seinna úr eggjunum. Sandsílið er ekki komið þegar krían verpir þannig að oft drepast ungarnir út átuleysi og svo eru líka rigningar. Ég sé það núna eftir að það var hætt að taka kríueggin að þá drepst stundum megnið af ungunum. Það eru allir á móti þessu í dag að taka egg og þetta er algjör vitleysa. Það á að taka eggin og seinka varpinu hjá kríunni, bæði út af ætinu og þá er komið betra veður en þessi norðan slagviðri og kuldi sem drepa alla unga í dag. Varpið misfórst aldrei áður á meðan við gerðum þetta. En núna sé ég að varpið misferst mjög oft og það kemst upp lítið af ungum. Þetta var miklu betra á meðan við tókum öll eggin fyrst, það gerði ekkert til og það komst upp hellingur af ungum. Við hættum auðvitað á vissum punkti að taka eggin svo hún hefði tíma til að koma ungunum upp, en hún varp aftur og aftur.“
![Svarthvít mynd af Halldóri Jónssyni sem liggur á jörðinni og teygir handleginn ofan í lundaholu.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi1.jpg?resize=640%2C425)
Síðsumars tók kofnatímabilið við, þar sem lundaungar – kofur – voru á dagskrá veiðimannanna, en þær voru veiddar í Broddanesey, sem er þó ætíð kölluð ‚eyjan‘.
„Fyrsta vikan í ágúst var kofnavikan. Við háfuðum aldrei lunda hérna á þessum árum. Svo kom hérna Vestmannaeyingur, múrari sem hét Kári. Hann kom hérna til nágranna okkur og fór fram að háfa og þá sáum við að þetta var hægt. Þá byrjuðum við að háfa, ég og Jón bróðir. Fórum að smíða okkur háfa og urðum mjög flinkir í því að háfa. Þegar best lét, þá háfaði ég 120 fugla á klukkutíma. En áður var bara farið í kofuna í holunum. Fyrst í stað – það var löngu fyrir mína tíð – þá var eyjan bara óskipt. Menn mynduðu línu, skriðu hlið við hlið og fóru að austanverðu á eyjunni og norður úr út á enda, og skildu helst ekkert eftir, og fóru svo fram að vestanverðu og fóru alveg hringinn í línu, og tóku allt sem þeir náðu í, hreinsuðu eyjuna. Þetta gerðu menn ár eftir ár, síðan var skipt þegar það var komið í land. Síðan var eyjunni allri skipt þegar ég man eftir mér, þá áttum við bara ákveðna parta í eyjunni. Það átti hver sína parta á nokkrum stöðum í eyjunni, þetta voru ekki allt samliggjandi stykki, og þá gengum við bara í okkar parta og tókum það sem við vildum, þegar okkur hentaði. Við fórum fram að morgni, fórum af stað svona klukkan níu að morgni – róandi að sjálfsögðu – og það var talið hæfilegt að hver maður væri búinn að taka 100 kofur á hádegi. Þá fórum við í land og fengum okkur að borða, og fórum með kofurnar sem við vorum búnir að taka og konurnar byrjuðu að reyta. Síðan fórum við fram aftur og vorum fram á kvöldmat, höfðum með okkur nesti, kaffi og meðalmaður tók svona 200 kofur fram á kvöldmat. Það var talið hæfilegt að maður tæki 300 kofur yfir daginn. Menn þvoðu sér aldrei, þeir sögðu það karlarnir að þetta væri hreinn skítur og það þyrfti ekkert að þvo sér. Við þvoðum okkur aldrei og borðuðum bara með fuglaskítinn á höndunum og vorum ekkert að þvo af okkur. Það var einkennilegt að þó við værum bitnir og klóraðir, þá gróf aldrei í þessu og það varð engum meint af því. Menn borðuðu bara, búnir að vera að moldvarpast allan daginn, menn voru í sínum verstu lörfum í þessu, þetta var náttúrulega fuglaskítur og allt, og bundið fyrir ermarnar svo maður fengi ekki moldina inn. Þetta var þannig vinna að menn voru skítugir og ógeðslegir eftir þetta. Við tókum lundann úr holunum og drápum allt sem var í holunum, alla lunda og kofur og allt, og settum kofurnar á bakið við hverja holu til að sjá hvaða holu við vorum búnir að fara í og það var ekkert tekið saman fyrr en við vorum hættir eða búnir í þessu stykki. Maður var áminntur með það að fara vel yfir stykkið og skilja ekki eftir holu, ekki æða um allt stykkið. Taka holu af holu og skilja ekkert eftir. Pabbi fékk mér járn þegar ég var níu ára gamall og fór fyrst í kofu, og sagði að það væru ekkert nema vitleysingar sem týndu járninu, og að ég ætti að passa upp á járnið. Ég passaði það og á járnið ennþá frá upphafi og er búinn að taka núna í 60 ár með sama járninu á hverju ári og hef passað það, fór alveg eftir þessu og afsannaði það að ég væri vitleysingur. Svo notuðu menn spýtu, ef hendin náði ekki nógu langt, og ég er búinn að nota sömu spýtuna í fjöldamörg ár. Þegar við vorum hættir í kofunni, þá var þetta tínt saman í hrúgur og talið, og sett í poka. Þá létum við 70 kofur eða 50 lunda í pokann og þetta þurftum við að bera eftir ósléttri eyjunni. Það var ekkert auðvelt, maður var þreyttur og stundum steig maður ofan í lundaholu og stakkst á hausinn.“
![Torfi liggur á maganum með handlegginn á kafi í lundaholu til að ná kofunni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi15.jpg?resize=640%2C421)
Hugtök eins og ‚sjálfbærni‘ voru ekki til á þessum tíma og aðspurður segir Torfi að þrátt fyrir þessar aðfarir hafi alltaf verið nóg af fugli og jafnvel hafi þeim fjölgað milli ára. Hann veiðir kofur enn, þó meira til gamans nú orðið.
„Þó að við tækjum svona mikið, þá fjölgaði lundanum samt. Ég veit ekki hvernig stóð á því. Núna eru nánast allir hættir að taka kofur, ég tek bara einhver örfá stykki, en lundanum fjölgar ekki neitt samt. Það var nóg af fugli hérna áður, þó bara við tækjum þúsund kofur á hverju ári, hinir [landeigendurnir] tóku helling líka. Við pabbi tókum 700 kofur og 50 lunda einn daginn og ég fór daginn eftir, þá tókum við 1000 kofur saman yfir þessa viku. Konurnar voru hættar að vera hrifnar af þessu því þær þurftu að reyta þetta allt saman. Svo var þetta saltað niður í tunnu, þetta var bara forði upp á árið, að eiga fullar tunnur af saltaðri kofu. En núna fer ég bara mér til gamans og tek nokkrar í soðið svona einu sinni eða tvisvar, því mér þykir þetta góður matur og afkomendur mínir eru mjög hrifnir af þessu líka. En þetta er svona matur sem manni annað hvort þykir góður eða vondur, eins og kæst skata eða hákarl. Það er ekkert fyrir alla að borða þetta.“
![Hjónin Halldór og Guðbjörg sitja í skúr og reyta lunda með hrúgu af óreyttum lundum við fætur sér.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi14.jpg?resize=640%2C424)
Strandveiðar landsbyggðinni til bjargar
Með allt það í huga sem hefur komið fram hér á undan, ætti engum að koma á óvart að Torfa er annt um að fólki sé gert kleift að lifa á landsins gæðum úti á landsbyggðinni. Þar telur hann að strandveiðikerfið eigi að koma til skjalanna.
„Ég verð að koma því að líka, að ég stend með strandveiðimönnum. Mesta lyftistöngin og það fljótlegasta sem hægt væri að gera fyrir landsbyggðina, það væri að gefa strandveiðar frjálsar. Það er mín skoðun. Frá upphafi Íslandsbyggðar, þá hafa þeir átt fiskinn sem sóttu hann. Þetta er óheiðarlegt og óréttlátt kerfi sem einhverjir tóku sér, að einstöku menn eigi allan fiskinn í sjónum. Ég er mjög ósáttur við það að ungt fólk um allt land geti ekki sótt sér björg í bú, eins og menn gerðu mann fram af manni. Þetta væri besta leiðin til að hleypa lífi í landsbyggðina að hafa frjálsar strandveiðar – með einhverjum takmörkunum þó, þannig að einhver stórútgerð geti ekki keypt heilan flota af smábátum og gert út – svo ungt fólk geti stundað þetta allt árið. Svo myndi ég vilja sjá hvalveiðar áfram, mér finnst að það ætti að veita Kristjáni Loftssyni fálkaorðuna fyrir hvað hann hefur staðið vel að þessum hvalveiðum undanfarin ár. Ég dáist að svona duglegum körlum eins og honum. Ég er búinn að vera að drepa dýr alla mína tíð á allan hátt og það er ekki til nein sómasamleg aðferð til að drepa dýr og verður aldrei, ekki einu sinni í sláturhúsunum. Það er þannig með allar veiðar, sama hvaða veiðar það eru. Annars verðum við bara að banna allar veiðar, stangveiðar, línuveiðar og allar veiðar. Dráp eru bara dráp.“
Skotveiði og grenjavinnsla
Auk þess að veiða sér til matar, er Torfi reynslumikil skytta og hefur séð um refaveiðar í Kollafirði síðan 1978. Hann fékk ungur áhuga á skotveiðum og fékk sína fyrstu tilsögn hjá manni sem hét Jón B. Sigurðsson.
![Torfi niðri í fjöru með byssu og klyfjar af dauðum rjúpum.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi3.jpg?resize=640%2C428)
„Hann átti byssu og var að skjóta, og hann kallaði alltaf í mig guttann að koma með sér og lét mig bera fyrir sig skotin svo ég hefði hlutverk. Svo settumst við alltaf og tókum pásu á sömu stöðunum, hver í sínu sæti og pældum í umhverfinu, fórum hér út á reka, þ.e.a.s. niður í fjöru, og þetta voru ógleymanlegar ferðir með honum. Hann var snillingur að skjóta og þarna byrjaði minn byssuáhugi sem varir ennþá. Ég byrjaði að skjóta 15 ára gamall. Við erum orðnir alltof gamlir að byrja 20 ára að skjóta, það er alltof seint til að menn nái nokkurri færni, menn þurfa að byrja miklu fyrr. Menn ná aldrei almennilegri færni þegar þeir byrja að skjóta svona gamlir, best er að strákar byrji ungir að skjóta, þá náttúrulega undir eftirliti. Þessi byssuáhugi minn hefur haldist síðan og ég fór að skjóta rjúpur. Ég var fyrst með lánsbyssur á rjúpu, var með tvíhleypu fyrst en síðan keypti ég mér hálfsjálfvirkan Winchester sem mér líkaði ekki við, mér fannst hún kraftlaus. Síðan var ég að kíkja í búðir í Reykjavík, fór í Útilíf í Glæsibæ og sá þarna byssu sem kostaði 1500 krónur, ameríska einhleypu sem mér leist þokkalega á og ég keypti hana af því hún kostaði lítið þó ég ætlaði mér ekkert að kaupa byssu og hugsaði sem svo að hún kostar svo lítið að ég þarf ekkert að hlífa henni. Ég get þá notað hana sem göngustaf ef ég lendi í hálku. Þessi byssa var mikill happagripur og er ennþá. Hún dregur mjög langt, ég skaut tófu hiklaust á 70 skrefa færi með henni. Ég var alltaf með einhleypur á rjúpu og ég skaut 120 – 250 rjúpur og ég var mjög ósáttur ef mér mistókst í einu skoti. Ég gerði þá kröfu á sjálfan mig að ég hitti í hverju skoti. Ég segi það að ungir menn eiga bara að byrja með einhleypu. Maður sér þessa ungu menn með marghleypur vera að skjóta fimm skotum og hitta helst ekki í neinu skoti. Ef menn hafa bara eitt skot læra þeir að vanda sig, það lærði ég snemma. Eitt skot og hitta. Það var sama á tófunni. Ég notaði einhleypuna mikið á tófuna og þurfti ekki nema eitt skot. Galdurinn við að skjóta tófu er að skjóta á réttu augnabliki. Maður verður að vita hvenær það er, það er bara andartak – brot úr sekúndu.“
Eitt sinn fór Torfi á skytterí með frænda sínum Kristmundi Stefánssyni, sem lét hann þreyta próf til að meta hæfni hans til að taka við formlegu hlutverki sem refaskytta hreppsins – þó hann hafi ekki vitað fyrr en eftir á að um prófraun væri að ræða.
„Það var þannig að [Kristmundur] kom og bað mig að koma með sér á skytterí hérna út á reka. Svo þegar við komum út á grundirnar, þá var máfur langt úti á skeri og hann sagði ‚heyrðu Torfi, vittu hvort þú hittir ekki þennan máf þarna‘ og fékk mér riffilinn sinn Sako 222. Ég hafði aldrei snert svona dýrgrip, mjög flottur. Ég lagðist á magann á kambinn og fann hvað hann fór vel í hendi, þetta var úrvalsvopn og ég sá vel. Kíkirinn var góður og gikkurinn léttur og ég sá fuglinn allan fyrir mér í kíkinum og sá fiðurgusur þegar kúlan hitti hann. [Kristmundur] sagði ekki neitt, það hummaði eitthvað í honum og svo héldum við áfram, fórum út á Stigaklett [??], sátum þar og horfðum á fuglana. Það var kyrrt og fallegt, múkkarnir svifu allt í kring. Þá fær hann mér haglabyssuna sína og segir ‚heyrðu Torfi, reyndu nú að taka einn niður hérna‘ og ég sat með haglabyssuna og allt í einu kemur múkki á steypiflugi, og ég lyfti byssunni upp og lét vaða og hann féll. [Kristmundur] sagði ekki neitt og svo fórum við bara heim. Veiðiferðinni var lokið. Nokkrum dögum seinna kemur hann og spyr hvort ég vilji ekki koma með sér á tófu. Við byrjuðum á að liggja á einu greni þar sem hún hafði gotið í langt fram á dal, þetta var kuldavor og það var ískalt þessa nótt. Tófan var samt farin, hún hafði gotið en það var ekkert í þessu en við lágum við þetta og það var svo mikið frostið að byssan hélaði og ég dundaði við það um nóttina að skafa héluna af byssunni. Við lágum þarna undir þúfu og töluðum um stelpur alla nóttina,“ segir Torfi og hlær hrossahlátri en árið eftir var hann tekinn við hlutverkinu af frænda sínum og hefur sinnt því síðan, þó hann deili því nú með öðrum og yngri mönnum sem geta létt undir með honum.
![Torfi með byssuna og sinn hvorn dauðan refinn, hvítan og svartan, í hvorri hönd.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi13.jpg?resize=621%2C709)
Ég bað hann síðan að útskýra betur þetta hlutverk og mikilvægi þess.
„Við erum ráðnir af hreppnum eða sveitastjórn og fáum borguð laun fyrir það og sjáum þá um öll grenin í hreppnum. Þegar Kristmundur hættir ´78, þá var Sigurður á Felli oddviti og hann ræður mig og síðan er ég búinn að vera í þessu alveg. Það hefur ekki fallið úr eitt einasta ár, en eftir að við Ragnar á Heydalsá byrjuðum að vinna saman einhvern tímann um eða eftir síðustu aldamót, þá hefur mætt minna á mér. Þegar maður hefur ungan og góðan veiðimann með sér, þá get ég slakað meira á og það hentar mér mjög vel. Ég er búinn að vera í þessu síðan 1977 en ég ákvað strax að ef mér gengi illa, þá ætlaði ég að hætta. Ég ætlaði ekki að vera í þessu ef mér gengi ekki vel, og ég hef ekki séð ástæðu til að hætta ennþá og aðrir hafa ekki gert miklar athugasemdir við það sem ég hef verið að gera. Þeir gerðu mjög vel við mig oddvitarnir í Fellshreppi og Broddaneshreppi á meðan það var, ég var mjög vel launaður, en það hefur heldur færst til verri vegar eftir að Strandabyggð tók þetta yfir myndi ég segja. En þeir vissu hvað þetta þýddi, á meðan sveitafélagið var minna. Þeir lögðu mikla áherslu á að þessu væri vel sinnt, og að það væri vel fyrir þetta greitt. Ég var mjög sáttur og ánægður hjá öllum þessum oddvitum. Þá voru þeir allir sammála um það að þetta væru hlutir sem þeir vildu hafa í lagi. En ég skil alveg af hverju ungar, vel menntaðar konur í þessum stóru sveitafélögum vilja heldur leggja peninga í leikskóla eða eitthvað annað en að vera að eyða peningum í að elta þessi fallegu dýr í tilgangsleysi, eins og þeim finnst. Ég skil alveg það sjónarmið. Þetta fólk hefur fjarlægst uppruna sinn og það skilur ekki að bændur eiga allt sitt undir því að það sé vel að þessu staðið. Ég vann einu sinni greni, það var inn á Kjörseyri í Hrútafirði, og þar var dýrbítur. Það var rosalegt að koma á það greni. Þetta var stórt greni og það voru kúlur út um allt, eins og boltar. ‚Hvað er þetta?‘ hugsaði ég þegar ég leit á grenið, svo þegar ég kom nær, þá sá ég hvað þetta var. Þetta voru hauskúpur af lömbum. Það var búið að naga eyrun og snoppuna af þannig þetta voru bara kúlurnar og ég taldi bara um 60 hauskúpur í kringum þetta greni.“
Líf og dauði í starfi bóndans
Samt sem áður segist Torfi ekki hafa neina ánægju af því að skjóta refi eða drepa önnur dýr. Hann hafi gaman að útivistinni sem fylgir starfinu en ekki drápinu sjálfu.
„Mér finnst eiginlega ekkert gaman að skjóta tófur. Ég held að allir haldi að mér finnist þetta rosalega gaman, en mér finnst eiginlega ekkert gaman að drepa. Mér finnst gaman að horfa á þær. Þær eru komnar mjög nálægt manni stundum. Mér finnst það mesta sportið að fá þær sem næst manni, þær geta komið mjög nálægt og hafa ekki hugmynd um það. Þá situr maður í dauðafæri, og þá dregur maður stundum að skjóta þær, því það er svo gaman að sjá þær hlaupandi við tærnar á manni. En mér finnst ekki gaman að skjóta ref og hefur aldrei fundist gaman að drepa þær. Að drepa dýr er ekkert gaman. Þetta er eitthvað sem maður verður að gera.“
Þar erum við komin inn á áhugavert málefni að mér finnst, sem er nálægð bóndans við líf og dauða í störfum sínum og þá skrýtnu tilfinningar sem hljóta að koma upp þegar dýr eru alin frá fæðingu til slátrunar. Torfi segir að slíkt hafi verið erfitt þegar hann var yngri en síðan komist það upp í vana.
„Mér leið rosalega illa þegar ég varð að skjóta fyrstu kindina. Þá var ég bara unglingur og pabbi sagði ‚það er best að þú skjótir hana‘ og fékk mér byssuna og ég skaut hana og mér leið eins og ég hefði drepið mann. Mér hefði held ég ekki liðið verr þótt ég hefði framið morð. En það var bara í þetta eina skipti, næst leið mér ekki svona illa. Kindurnar voru vinir manns og mér fannst þetta mjög slæmt að þurfa að gera þetta en þetta vandist.“
![Torfi liggur í vari við kletta og háfar lunda.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi4.jpg?resize=634%2C1024)
Hröð þróun í dalandi byggð
Við ræddum síðan hinar miklu breytingar hafa orðið á umhverfi og störfum Torfa á hans ævi. Foreldrar hans, þau Halldór og Guðbjörg, höfðu um 300 kindur, 2 kýr ásamt kálfum, 2 hesta og hænur. Auk þess matar sem aflað var á þann hátt sem hefur verið lýst hér að ofan, voru ræktaðar kartöflur og rófur, og kál á sumrin.
Þegar hann var að alast upp voru lífshættir enn frumstæðir á margan hátt, og fólk hafði birtu af lampaljósum og síðar ljósavélum áður en rafmagnið kom en almennt ríkti fátækt í sveitunum fram á 8. áratuginn, þótt tæknibyltingar væru að eiga sér stað í landbúnaði. Á sama tíma var fólki byrjað að fækka en sveitasamfélagið var þó enn líflegt.
„Það er svo margt sem kom á stuttum tíma, það að fá rafmagn var alveg gjörbylting, sjálfvirki síminn, og svo náttúrulega vegurinn – hann kom nú fyrir mína tíð – og ég var eins árs þegar dráttarvélin kemur. Uppúr 1970 fara menn að byggja betri fjárhús og losna við þennan handmokstur og skít. Það var mokað og mokað endalaust alla daga, ég er alinn upp við það að þurfa að moka skít endalaust. Það var alveg kleppur. Menn voru með fleiri hundruð fjár og mokuðu allt á höndum, en svo komu betri vélar og sláttutætarar, og þá þurfti að moka heyinu inn, en svo komu færibandsvagnar. Þetta var svona hægfara þróun en allt í rétta átt og við förum alveg úr fornöldinni. Það var almennt peningaleysi hérna í sveitunum, það voru engir peningar hérna í sveitunum fyrr en landhelgin var færð út og skuttogararnir koma, þá fer ástandið að lagast líka í sveitunum og menn fara að sjá peninga. Það voru allir að rækta og girða og stækka búin, og kaupa vélar og tæki. Það voru allir með frekar lítil bú hérna á þessum tíma. Öll þessi uppbygging fór fram með litlum vélum, menn voru bara með þessar afturdrifsvélar í kringum 40-50 hestöfl, en nú hefði verið miklu skemmtilegra að stækka búin með þessum stóru framdrifsdráttarvélum, það hefði verið svo miklu auðveldara að gera allt. Það var mikil bjartsýni í sveitunum, fullt af fólki – fullt af ungu fólki – og það var líka meira fé. Það voru samkomuhúsin – og systrum mínum og Jóni B. Sigurðssyni datt stundum í hug að halda bara ball. Þá var húsið fengið lánað í Fjarðarhorni, svo var hringt á bæina, í Kollafjörðin, Bitruna og Tungusveitina og sagt ‚það er ball í kvöld!‘ Svo komu allir og það var ekta sveitaball í Fjarðarhorni, Jón spilaði á harmonikku og engin lögregla og rosa gaman. Svo hvarf þetta, fór að vera meira í Sævangi. Mér finnst skelfilegt að unga fólkið skuli missa af þessu, svona skemmtilegum böllum eins og voru í Sævangi og þessum stöðum. Maður gat valið um marga staði. Þú gast ákveðið hvort þú vildir fara í Búðardal, hérna eða í Húnavatnssýsluna, það voru alls staðar böll. Það var norður í Árneshreppi, Bjarnafirði á Klúku, á Sævangi, það gat verið á þremur stöðum um Verslunarmannahelgina. En núna er þetta ekki neitt, ég held að Ögurballið sé eina sveitaballið sem ég veit um núna. Þetta er rosaleg afturför. Einhverra hluta vegna var þetta eyðilagt og er ekki lengur. Þetta var ógleymanlegt. Það var miklu meira félagslíf hérna í sveitunum. Svo fór þetta að dala, fólkið var að fara úr sveitunum. Það var hundleiðinlegur tími. Fólki fer að fækka í sveitunum og allt fer að fara aftur. Það fækkar og fækkar og fækkar og jarðir að fara í eyði. Það er dapurlegur tími, nú er ekkert fólk orðið eftir í sveitunum. Fyrsta merkið um að sveitirnar væru að fara í eyði, fannst mér vera þegar fólk fór að losa sig við kýrnar. Það hættu allir með kýr um svipað leyti, og fólki losaði sig við kýrnar og hænurnar og hundinn og köttinn, og það var ekkert eftir nema rollurnar. Það er orðið slæmt þegar maður þarf að fara kirkjugarðinn til að leita sér félagsskapar því þar eru eiginlega allir sveitungarnir komnir í kirkjugarðinn. Það er ekki nógu gott. En þetta kannski lagast aftur. Ég held að matvælaverð muni hækka aftur, ég held að það sé óhjákvæmileg þróun. Kannski að fólki fari að kunna að meta sveitirnar. Sjálfum finnst mér Reykjavík vera alveg vonlaus staður og vil helst ekkert vera þar.“
Einnig nefnir Torfi sláturtíð fyrri ára í sambandi við mannlífið á svæðinu, en mikil stemming myndaðist á meðan unnið var í sláturhúsinu á Óspakseyri þar sem hann var sláturhússtjóri í 13 ár, 1990-2002 þegar hætt var að sláturhúsið. Þó hann sé ekki hrifinn af dýradrápum, segist hann hafa kunnað að meta þennan tíma þar sem heimamenn og aðkomufólk kom saman og vann krefjandi törn á haustin.
![Torfi í sláturhúsinu á Óspakseyri með lambaskrokka hangandi fyrir framan sig.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi5.jpg?resize=640%2C448)
Best að vinna fyrir sjálfan sig
Foreldrar Torfa bjuggu á Broddadalsá fram á sitt síðasta en hann hafði þá smám saman verið að auka hlut sinn í búinu en þau að minnka við sig þangað til Halldór lést árið 2001. Hann er sá eini systkina sinna sem fór í búskap og segist líka það vel.
„Maður getur ekki sagt að allt hefði verið miklu betra annars staðar, það er ekkert víst að ævi manns hefði verið betri annars staðar. Þetta hefur nú allt saman sloppið, og það eru góðar stundir í búskapnum. Það er nóg að gera í honum, maður ræður sér sjálfur og það hentar mér ágætlega. Maður getur tekið sér frí þegar maður vill og unnið þegar maður vill. Maður er engum háður og er að vinna fyrir sjálfan sig og það er kostur. Maður þarf ekki að eiga allt undir leiðinlegum yfirmönnum.“
Torfi segist hafa sérlega gaman að sauðburði og heyskap – enda mikill véla-og tækjamaður eins og áður hefur komið fram. En af orðum hans má ráða að aukastarfið, refaveiðarnar, sé ekki síður í uppáhaldi hjá honum.
„Mér finnst ágætt að gefa rollunum. Eftir sumarið er ég orðinn dálítið þreyttur. Í byrjun apríl byrja ég að vinna alveg á fullu og þetta stendur fram á haust. Síðan er kominn vetur og þá finnst mér ágætt að vera latur og þá sef ég mikið í skammdeginu. En yfir sumarið þarf ég lítið að sofa. Ég er oftast nær vaknaður klukkan 5 á nóttunni, það kemur sér vel í grenjavinnslunni til dæmis. Hérna áður þá vann ég fulla vinnu og þegar aðrir fóru að sofa. Þá tók ég byssuna og labbaði á fjöll og var í grenjavinnslunni á nóttunni og var kominn heim kannski 6, 8 á morgnanna og svaf þá kannski 2 klukkutíma og vann þá aftur eins og hinir fram á kvöld og fór svo aftur næstu nótt. Þannig hefur þetta verið þessi ár, ég hef helst ekki látið grenjavinnsluna koma niður á öðrum störfum og ég hef tekið dálítið mikið af mínum hvíldartíma. En ég sef mikið á veturna. Þá er ég í afslöppun. Mér finnst veturinn ágætur tími. Ég kann vel við mig í fjárhúsunum innan um rollurnar. En mér hefur fundist gaman á tófunni, það er gaman að vera á fjöllunum og ég hef átt margar góðar og skemmtilegar nætur úti í náttúrunni en sumar kaldar. Ég hef lært það af reynslunni að maður verður dofinn upp að hnjám af kulda en maður dofnar ekkert lengra en þangað. Maður finnur hvernig kuldinn færir sig ofar og ofar en hann stoppar við hnén. Manni hefur jafnvel orðið svo kalt að maður heldur að maður muni jafnvel drepast en það hefur ekki gerst ennþá. Manni verður illilega kalt og næturnar eru langar og síðasti hálftíminn fyrir sólarupprás er yfirleitt rosalega kaldur. Svo kemur sólin upp og þá fer að smá hlýna. Mér hefur aldrei orðið meint af en ég hef stundum hugsað að maður myndi hreinlega krókna. Stundum þegar gengur illa verður manni hugsað til sveitunga sinna sem liggja og sofa í hlýjunni, og ég sit hríðskjálfandi uppi á fjalli. Þá hugsa ég ‚þetta er síðasta árið sem ég verð í þessu, geri þetta aldrei aftur‘ en svo allt í einu gengur allt upp. Þá fyllist maður bjartsýni og ákveður að þetta verði nú ekki síðasta skiptið. Maður skiptir um skoðun og heldur áfram. En þegar styttist í því, og maður er að verða sjötugur, á maður kannski ekkert að vera í þessu lengur. Kannski eru 50 ár alveg nóg.“
![Hópur fólks við háan dranga í fjöru og annar drangi lengra úti í sjó í bakgrunni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi9.jpg?resize=640%2C666)
Byssan lögð á hilluna í framtíðinni
Torfi er kvæntur Unni Þorgrímsdóttur frá Eiðhúsum á Snæfellsnesi en þau kynntust þegar hún kom sem kaupakona í Litla Fjarðarhorn. Þau eiga þrjú börn og 4 barnabörn sem öll búa í nágreninu og taka þátt í störfum foreldra sinna. Torfi segist þó ekki ætlast til þess að neitt þeirra taki við búinu af honum og hann segist heldur hvergi annars staðar vilja vera. Hann segir að þegar hann verði orðinn of hrumur til að vera á vappi með byssur, ætli að hann að nota veiðistöng í staðinn.
„Ég ætla ekkert að selja jörðina, það er alveg ljóst. Ég ætla að vera hér á meðan ég get, fyrir börn og barnabörn. Ég reikna með að það verði útivistafólk eins og ég, og hafi gaman að náttúrunni. Þetta er góður staður til þess. Hér er fjölbreytt dýralíf og fallegur staður og gott að vera. Þó ég sé búinn að vera hérna alla mína ævi, þá finnst mér svo fallegt hérna að ég stoppa stundum á góðum degi bara til að horfa út í loftið og dást að því hvað það er fallegt. Mér finnst ennþá jafnfallegt hérna og þegar ég sá það fyrst. Ég hef sagt að þegar ég fer að verða gleyminn og finn að ég ætti ekki að vera með byssu – það kemur örugglega að því, maður verður að átta sig á því að byssur eru hættuleg verkfæri – þá ætla ég að vera með veiðistöngina. Veiðiáhuginn er enn í mér og mun örugglega ekki hverfa. Ég ætla að ekki að vera með byssuna og vera sjálfum mér og öðrum hættulegur. Þegar menn fara að gleyma skoti í byssum eða missa skot úr byssu, þá eiga þeir að hætta. Það ætla ég að gera. Þá verð ég með veiðistöngina. Það er næsta tímabil. En ég ætla aldrei að fara í golfið. Ég hef engan áhuga á því, ég er lítið hrifinn af íþróttum. Þær hafa aldrei heillað mig, mér finnst þetta vera tímasóun. Ég hef sagt það stundum að það væri nær að þetta fólk gerði eitthvað til gagns heldur en að vera að elta þessar tuðrur í tilgangsleysi.“ [Ég hafði þennan síðasta bút með því ég er fullkomlega sammála!)
Fegurð Kollafjarðar
En á Torfi einhverja uppáhaldsstaði?
„Já eyjan hefur alltaf heillað mig. Ég segi stundum í gamni hvort ég ætti ekki að láta grafa mig þar, ég er svo mikið þar. Ég fer mikið þar yfir sumarið. Er þá að veiða fugl. Mér líkar rosalega vel að vera þar. Ef ég yrði brenndur en þá yrði askan trúlega sett í eyjuna. En það eru nokkrir staðir hér sem eru mínir uppáhaldsstaðir hér í Kollafirði, það er hér undir Ennishöfðanum, úti á Stiga, það eru mínir uppáhaldsstaðir. Mókollsdalurinn er líka alveg sérlega fallegur og fáfarinn staður. Þangað er ég búinn að koma í grenjaleitina í næstum hálfa öld, þangað fer ég yfirleitt þegar gott er veður. Þar er Mókollur grafinn, sem er landnámsmaður í Kollafirði, og allt gullið hans. Það er svo fallegt uppi á Haugbjörgunum, þá sérðu yfir allt.“
![Loftmynd af eyjunni úti fyrir Broddanesi og Broddadalsá.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/DJI_0805.jpg?resize=640%2C360)
Í eyjunni úti af Broddanesi er líka æðarvarp sem Torfi og fjölskylda sinna, ásamt öðrum landeigendum.
„Varpið er búið að vera alla tíð, fyrir 1918 voru 100 kg af hreinsuðum dún, og 200 kópar á Broddanesi, en eftir frostaveturinn 1918 þá hrundi þetta allt saman, bæði selurinn og varpið. Varpið hefur aldrei náð sér upp aftur. Við sinnum æðarvarpinu, og látum í eyjuna eftir eignarhluta, við eigum part í Broddanesinu. Fuglinn er að verpa mest frá 10. maí til 15. en það var seint í vor. Og veður hefur mikil áhrif á varpið, dúnninn er misjafn eftir árum. Við reynum að fara þrisvar sinnum í varpið á hverju vori, með viku millibili. Þetta er inni á firði og hér í hólmunum. Þetta er bara hefðbundið, magnið er breytilegt eftir árum. En þetta er í einu skiptin sem við, sem erum í búskap, erum á almennilegu kaupi, þegar við erum í dúninum. Þetta er vel launað miðað við vinnu.“
![Óskýr mynd af æðarkollum og blikum í Broddanesey.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/torfi10.jpg?resize=619%2C681)
Reimleikar og máttur góðs og ills
Að lokum bað ég Torfa að segja mér draugasögur af svæðinu og ég held að viðtalið hafi lengst um klukkutíma. Hann segist sjálfur ekki hafa séð drauga en oft lent í ýmsum kynlegum uppákomum.
„Ennis-Móri fylgir mér og ættinni. Hann fylgdi afa og það er stundum gengið á undan mér. Það eru til draugar. Ég fékk draug með fjárbíl og hann var í fjárhúsinu hjá mér í 2 og hálft ár. Hann reyndi reyndar að drepa mig, hann elti mig alla leið til Salzburg og reyndi að kyrkja mig þar en gat það ekki. Eftir það var hann hræddari við mig en ég við hann. Snorri Hjálmarsson á Syðstu-Fossum hjálpaði mér að losna við hann. Síðan hef ég fengið á mig vondar sálir. Það er til dæmis það að lenda í því að verða fullur í jarðaför, það er ekki gott – án þess að hafa drukkið – og verða allt önnur persóna heldur en maður er sjálfur. Þá var þetta bara frændi minn sem var löngu dáinn og var að biðja um hjálp til að komast á betri stað. Hann var að minna á sig, ég varð hann í smástund. Það var ekki gott. Það er ekki gott að verða sér til skammar í jarðarför. Það á ekkert að fara í jarðarfarir nema til að sýna aðstandendum samúð sína og gera kross yfir kistuna, það er feykilega mikið atriði fyrir kristið fólk. Það er ótrúlega mikill vörn fyrir þann sem er dáinn og hann þarf svo sannarlega á því að halda að við krossum yfir hann, finnst mér. Þetta er góður siður en þetta er að leggjast af. Maður hefur lent í ýmsu.”
![Loftmynd af Broddadalsá og Ennishöfða.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/DJI_0810.jpg?resize=640%2C360)
„En þessi vonda sál sem ég fékk í fjárhúsið, hann kom þarna inn á áþreifanlegan hátt. Það var þannig að við vorum að láta fé í síðustu slátrun og þetta voru um 40, 50 kindur. Bíllinn var vestur á fjörðum og átti að taka hjá mér um kvöldið ef það væri pláss á honum. Við létum féð inn og síðan um kvöldið hringir bílstjórinn, kominn að taka kindurnar. Þá var komið myrkur og skítaveður. Ég og Unnur hlupum niður eftir út í myrkrið að gera klárt til að reka á bílinn. Þeir voru 2, bílstjórinn og aðstoðarmaður. Kominn galsi í þá, örugglega búnir að vaka mikið. Þeir tala um það að það sé draugur á bílnum, það sé aldrei kind hérna megin á bílnum. Ég var ekkert að hugsa um þetta og svo förum við að láta á bílinn og ég fer að reka féð, rollur og lömb, og það fer ekkert á bílinn. Það er eins og það sé grimmur hundur í dyrunum. Ég ýti og toga, og þetta treðst á móti, og þetta voru kindur sem voru vanar að hlaupa á bíla og vagna. Það endaði með að það fýkur í mig og ég krossbölva og um leið og ég blóta kröftuglega, þá hellist eitthvað yfir mig. Það kemur yfir höfuðið á mér, fer niður líkamann á mér og flæðir niður tilfinning eins og vatn, fer niður hendurnar og fjarar út í puttunum, heldur áfram niður og fjarar út í tánum. Ég hugsa ‚ég er að fara að deyja‘. Þetta er bara eins heilablóðfall, ég hef aldrei fundið þessa tilfinningu áður. Síðan er þetta búið og ég er lifandi. Þetta tekur bara andartak. Nema nú renna allar rollurnar út á bílinn, ekkert mál og gengur fínt. Þá allt í einu heyrist eins og kindur sem hlaupa með allar lappirnar stífar inn í einum garðanum sem er lengst frá okkur. Bílstjórinn lítur á mig og segir ‚komstu ekki með allt?‘ Ég segi ‚jú‘ og ég labba inn í garðann og þar er auðvitað ekki neitt. Þetta er mjög sérstakt hljóð þegar kindur hlaupa svona stífar, þegar þær eru mjög spenntar. Það var akkúrat þannig og við heyrum þetta öll, bílstjórinn, aðstoðarmaðurinn, Unnur og ég. Ég labba alveg á endann á garðann til að fullvissa mig um að það sé ekki neitt. Þegar ég kom inn á enda á garðanum, og lít í fóðurganginn, þá heyri ég ofboðsleg veðurhljóð. Það eru hurðir inn í gryfjuna og þær eru allar lokaðar. ‚Er að gera fárviðri?‘ hugsa ég ‚er þakið að fara af húsunum?‘ Þá átta ég mig á því að þetta er eins og hvirfilvindur og hann er inni í gryfjunni. Síðan lendir þetta á hurðinni sem er næst mér, krossviðshurð með skotloku í miðjunni, og hún bognar út að neðan og opnast en er lokuð í miðjunni, síðan dettur vindurinn niður og hún lokast aftur. Ég labba sömu leið til baka aftur. Við vorum öll sammála um það að þetta hafi verið eitthvað skrýtið. Svo fara þeir og við förum heim og þetta er allt í lagi og ég gleymi þessu.”
![Torfi klappar tveimur hvítum heimalningum í girðingu við fjárhúsið.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/IMG_0505.jpg?resize=640%2C427)
„Svo kemur haustið og veturinn og féð kemur inn og ég fer að gefa. Þá tek ég eftir því þegar ég er inni í gryfju að gefa, þá fer féð ekkert á jötu þarna og er hrætt, einmitt þarna sem þetta hljóð hafði verið. Þannig ég fer og geri krossmark yfir allt og þá er allt í lagi. Þá dettur þetta niður og ég gleymi þessu. Svo byrjar þetta aftur, eftir einn mánuð eða eitthvað svoleiðis. Þá hættir féð að þora á jötu þó ég gefi, þær pressa sér alveg saman og setja lappirnar upp á hverja aðra. Þá geri ég þetta sama og þannig hélt ég þessu í 2 og hálft ár, gerði krossmark og þá var allt í lagi. Nema um vorið förum við Unnur í skemmtilega ferð til Austurríkis og Þýskalands og erum í nokkra daga og enduðum síðustu nóttina í Salzburg og gistum þar á gömlu hóteli. Fórum út að borða, svo förum við að sofa, orðin þreytt. Svo þegar ég er rétt nýsofnaður, þá er ráðist á mig heiftarlega, ég er tekinn þvílíku kverkataki með offorsi þannig ég næ ekki andanum. Ég finn að ég á ekki langt eftir og nota síðustu kraftana og næ að brjótast um og öskra. Ég held ég hafi vakið alla á hótelinu, og næ að losna. Unnur segir ‚hvað ertu að gera?‘ Ég segi ‚það er eitthvað vont hérna, það hefur eitthvað gerst í þessu herbergi, einhver hefur verið drepinn‘. Þetta var skelfilegt en ég sofna aftur. Svo förum við heim og allt í lagi. Síðan kemur manneskja til okkar sem er næm og hún segir að hún hafi fengið eitthvað illt með sér héðan sem hafi þurft að fá Snorra á Syðstu-Fossum til að hjálpa sér með. Hún segir að við ættum að tala við Snorra og ég gerði það. Þá kom þetta allt saman upp. Hann sagði ‚þetta elti þig út og ætlaði að drepa þig.‘ Hann ætlaði að drepa mig þar sem ég var ekki á heimavelli og hefði minni stuðning, það var helst fyrir hann að ráða við mig þegar ég var kominn lengst í burtu en það tókst ekki hjá honum. Hann var hræddur við mig eftir þetta en var samt alltaf í húsunum og ég sá þetta alltaf á fénu. En Snorri losaði mig við hann. Hann kom honum fyrir þannig ég var laus við hann og þar með var það úr sögunni.”
![Torfi stendur á hlaðinu við bæinn sinn Broddadalsá með fjárhúsin og eyjuna sína í bakgrunni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/01/IMG_0494.jpg?resize=640%2C427)
„Svo er ýmislegt annað svipað sem hefur komið upp á í gegnum tíðina og ég hef þurft að láta Snorra hreinsa frá mér. En eftir þetta hef ég hætt að blóta. Menn eiga ekki að blóta, blót dregur að sér illt. Þetta vonda nærist á illu. Ég spurði Snorra líka hvort hægt væri að selja sál sína þessum vonda – sem ég nefni ekki á nafn – og hann sagði já. Tilfellið er að þeim sem hefur gengið mjög vel, sumt af þessu fólki hefur selt sál sína og verður að gjalda þess eftir á. Það er orðið þannig í dag að fólk trúir mest á sjálft sig og peningana sína. En hvort sem menn trúa, eða ekki, þá gat ég varist þessu í 2 og hálft ár með krossinum, þetta virkaði. Þetta illa hræðist krossinn og nærist á illu. Það er mín skoðun að það er aðeins ein innistæða sem þú ferð með þér, það er það sem þú lætur gott af þér leiða. Allt annað, t.d. það sem menn hafa sölsað undir sig af fjármunum eða öðru, á illan hátt eða ekki heiðarlega, það verður til trafala seinna. En fólk er sjálfsagt misnæmt fyrir þessu. Ég er búinn að vera að pæla í því frá því að ég var krakki með drauga og draugagang, og það er margt fólk búið að segja frá þessu, eru þetta allt saman vitleysingar? Er allt þetta fólk að ljúga? Maður veit ekki hvort þetta er satt og efast. En svo lendir maður í þessu sjálfur og fólk hefur ekki ástæðu til að vera að ljúga og segja ósatt. Það er fullt af vönduðu og góðu fólki sem segir þetta og nú er ég með reynslu af þessu líka. Það er margt til sem ekki er hægt að útskýra. Mitt ráð er að fólk á ekki að blóta svona mikið, það laðar að sér það illa. Það er líka ekki gott að horfa á vondar myndir. Það dregur að sér illt að horfa ljótar bíómyndir. Illt dregur að sér illt. Það er mín reynsla. Aðrir mega hafa aðra skoðun. Ég segi að ef það illa getur gert kraftaverk og gert ýmsa hluti, þá finnst mér eiginlega að það þurfti ekki að efast um að það góða getur gert það líka.“
Lokaorð sem ekki þarfnast orðlenginga.