Galdrar og ferðaþjónusta
Þetta er þýdd grein. Upphaflegu greinina má finna hér.
Viðarklædd og veðruð bygging með torfþaki. Utanfrá séð virðist aðal ferðamannastaður Hólmavíkur ekki mikið fyrir augað, en þó kannski í takt við það sem maður á von á því að finna á Ströndum, eitt af afskekktari svæðunum á Vestfjörðum sem eru þó afskekktir fyrir. Og ytra útlitið e rviðeigandi þar sem byggingin hýsir hina frægu Galdrasýningu á Ströndum, sem um 6.000 manns heimsækja á ári, nokkuð gott fyrir lítinn bæ eins og Hólmavík þar sem búa innan við 400 manns.
Sagan og þjóðsögur sýna að Strandir hefur haft mikla tengingu við galdra og fjölkyngi í gegnum tíðina og heimildir herma að galdramenn hafi verið brenndir á báli í Trékyllisvík á 17.öld. Þetta orðspor var kveikjan að sýningunni sem gefur gestum færi á að fræðast um íslenska þjóðtrú, galdra og hvernig þeir voru framdir.
Framkvæmdastjóri sýningarinnar Sigurður Atlason kýs frekar að láta titla sig sem galdramann. Það er viðeigandi því kímið augnaráð og úfið hár undir undarlegri ullarhúfu gera það að verkum að engum kæmi á óvart ef hann allt í einu færi að kyrja galdraþulur og veifa viðarbútum með galdrarúnum.
Aðspurður hvort útlitið sé með ráðum gert til að passa starfinu segir hann svo ekki vera. “Ég er bara orðinn svolítið skrýtinn með árunum,” segir hann. “Ég var miklu meiri herramaður áður en nú er mér alveg sama hvernig ég lít út. En það hjálpar í þessu starfi, að vera skrýtinn.”
Sigurður er ekki fæddur Strandamaður en hefur búið á Hólmavíkí yfir fjóra áratugi. “Ég kom fyrst um sumar þegar bróðir minn var að vinna hérna. Ég ætlaði að fara aftur um haustið en átti ekki peninga fyrir rútunni. Og ég er enn að safna fyrir rútunni,” segir hann og hlær.
Vinsælt frá upphafi
Hugmyndin að sýningunni kom fyrst fram í skýrslu eftir mannfræðinginn Jón Jónsson þar sem hann rannsakaði möguleika ferðaþjónustu á Ströndum og hugmyndir heimamanna. Sýning um galdramál á svæðinu þótti vænlegur kostur og var strax hafist handa við að setja hana upp. Galdrasýningin áStröndum opnaði árið 2000 og vinsældir hennar hafa aukist með árunum.
Sigurður hefur unnið við sýninguna frá opnun og segir að lítið hafi breyst á þeim 15 árum sem liðin eru síðan. “Þetta varð bara klassík daginn eftir að það opnaði,” segir hann. “Það væri hálfgert guðlast að fara að breyta einhverju hérna.”
Samkvæmt Sigurði er meiri hluti gesta sýningarinnar erlendir ferðamenn, eða um 80% og væri hún eflaust ekki starfandi án þeirra. Þetta sérstæða safn er oft sett á lista yfir skringilegustu áfangastaði heims og þv íer fólk æst í að koma þangað. Sigurður tók eftir auknum áhuga þegar einn sýningargripurinn, nábrækurnar, var nefndur í hinum vinsæla breska grínspurningaþætti QI.
Vegna vinsælda sýningarinnar hefur Sigurður sjálfur orðið nokkurs konar táknmynd ferðaþjónustunnar í galdramannagervi sínu. “Ég lék þetta hlutverk um tíma en mér fannst það óþægilegt svo ég hætti því mjög meðvitað,”segir hann. “Að búa til þennan karakter, þennan galdramann, og setja hann inn á safnið nýttist til að draga að fólk. En svo fannst mér fókusinn vera of mikið á mér og mér líkaði það ekki. Þetta verkefni er svo miklu meira en einn maður.”
Sigurður er mjög metnaðarfullur í starfi sínu og hvað sem líður galdramönnum og sérvisku, er hann mjög jarðbundinn þegar kemur aðmarkmiðum sýningarinnar. “Minn mesti metnaður í þessu verkefni hefur alltaf verið að ná þeim takmörkum sem við lögðum upp með í byrjun, að sinna nauðsynlegri rannsóknarvinnu, að styrkja ferðaþjónustuna og styðja viðatvinnulífið á staðnum. Það hefur allt gengið eftir svo við getum verið stolt.”
Hægvaxandi stofnun
Þó að kjarni sýningarinnar hafi ekki breyst, hafa verið nokkrar viðbætur í gegnum árin. Árið 2005 opnaði hliðarsýningin Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði sem sýnir lífsskilyrði fólksins sem trúði á galdramenn og fjölkyngi. Síðan opnaði veitingastaðurinn Kaffi Galdur í byggingu sýningarinnar árið 2009 en þar er lögð áhersla á hráefni frá svæðinu.
Sigurður segir að alltaf sé verið að kanna frekari möguleika til að víkka starfsemi sýningarinnar. Ein hugmynd er að gera aðra sýningu í Trékyllisvík í sambandi við galdrabrennurnar. “Það væri frábært ef við gætum það,” segir Sigurður, “en það væri erfitt að fjármagna slíkt verkefni. Ef ég horfi á það rökrétt, er það bara fjarlægur draumur.”
Sigurði finnst þó breytingar bestar í smáum skrefum. “Það er líka nóg að gera hér, það á eftir að klára húsið og gera það meira aðlaðandi.Minn draumur er að halda áfram, hægt en stöðugt. Það þarf ekki að gera mikið áhverju ári, betra að fara rólega og án blóðpeninga frá bönkunum.”
Greinin birtist upphaflega á ensku á grapevine.is.
Myndirnar með greininni voru teknar af Art Bicnick og eru í eigu Reykjavík Grapevine en ég fékk eina lánaða.
Athugasemd: Þó ég hafi tekið viðtalið sem var grunnurinn að greininni fannst mér ritstjórar Grapevine fara frekar frjálslega með textann minn en leyfi þessu að standa þar sem þetta var eina skiptið sem ég átti gott spjall við Sigga Atla hinn merkilega mann sem lést fyrir nokkrum árum.