Af skeiðklukkum og smíði
Fyrsti viðmælandi Seiglugarðsins er Ólafur Ingimundarson, eða Lói á Hóli. Lói er borinn og barnfæddur Bjarnfirðingur sem hefur lengst af búið á æskustöðvum sínum á Svanshóli. Hann er fjórði ættliður ábúenda þar, þó fimmti ættliðurinn – börn Lóa – séu nú tekin við keflinu, og hann hefur séð miklar breytingar á samfélaginu í Bjarnarfirði undanfarna áratugi.
Foreldrar Lóa voru Ingimundur Ingimundarson frá Svanshóli og Ingibjörg Sigvaldadóttir frá Sandnesi. Ingimundur starfaði við íþrótta-og sundkennslu, m.a. í gömlu torflauginni við Bjarnarfjarðará, áður en þau hjónin tóku við fjárbúi foreldra Ingimundar en Lói fæddist árið 1951 og segist hafa góðar upplýsingar um eigin fæðingu úr dagbókum föður síns.
„Ég er fæddur 3. desember, 1951 í suðurherberginu á efri hæðinni á Svanshóli í sigurkufli. Það þýðir að ég fæðist í fylgjunni. Það þykir afskaplega mikið gæfumerki þó ég hafi ekkert sérstaklega orðið var við það. Í dagbók föður míns stendur að ég hafi fæðst í sigurkufli og ég spurðist fyrir um það þegar ég var orðinn nógu gamall til að heyra þetta. Ég las ekki dagbækur föður míns fyrr en hann var fallinn frá en hann leyndi því ekki, að ég hafi fæðst í sigurkufli. Þess vegna man ég þetta.“
Fæddur með skeiðklukku og málband
Lói er yngstur fimm bræðra en frumburður foreldra hans var stúlka sem fæddist með hryggrauf eða klofinn hrygg og lést tæpum mánuði eftir fæðingu. Eldri bræður Lóa eru Sigvaldi, Ingimundur, Pétur og Svanur. Hann segir að mikill keppnisandi hafi ríkt meðal bræðranna í æsku.
„Ég segi oft að ég hafi fæðst með skeiðklukku og málband á mér af því að bræður mínir voru svo miklir áhugamenn um íþróttir, það var allt mælt, það var allt keppni, sama hvað það var. Þeir voru alveg extrem áhugamenn um skráningar á öllum mögulegum hlutum þannig ég ólst upp við það.“
En hvernig var umhorfs í Bjarnarfirðinum á uppvaxtarárum Lóa?
„Skurðgrafan kom þegar ég var smábarn. Ég held að það hafi komið skurðgrafa hér í fjörðinn ’54 og þá breyttist allt! Þegar ég var lítill krakki og kúasmali að sækja kýrnar þá man maður eftir flugnamergðinni. Það voru engin flugnanet til, þannig maður varð bara að berja frá sér og lömb sem gengu hér á láglendinu gátu komið hálf eyrnalaus af fjalli af því það var svo mikið af mýi. Allar þessar mýrar út um allt voru bara góssenland fyrir mýflugur. Þetta var svakalega mikið mý, mikið líf í fuglum og fiski í ánni. En engir skurðir, þú getur ímyndað þér hvað þetta hefur verið öðruvísi. Ég man ekki eftir skurðlausu landi, ég var það ungur þegar það var byrjað að grafa.“
Nauðsynlegt að senda börn í sveit
Á þessum árum á fimmta áratugnum voru fjölmargir bæir á svæðinu og því auðvitað mun fleiri íbúar en nú og Lói segir hafa verið mikið líf í samfélaginu.
„Það var búið á öllum bæjum, það var að vísu fallinn niður allur búskapur í Goðdal, það var ’48 sem slysið varð þar en það var búið í Sunndal og Skarði, Svanshóli, Odda og Klúku og öllum bæjunum norðureftir Bölum, tvíbýlt eða jafnvel þríbýlt á Kaldrananesi. Framnes var að vísu ekki komið. Á Bakka var búið en það var hætt að búa á Hvammi þegar ég var krakki. En það var alls staðar búskapur með kýr og kindur og það var mikið af fólki. Á sumrin þegar ég var krakki var alltaf farið í sund og íþróttir á eyrinni þarna neðan við veginn, rétt innan við Klúku, á Traðareyri, þar var fótboltavöllur og svo var farið í sund á eftir. Völlurinn var sléttur og fínn til að byrja með en síðan varð hann að þúfum og varð ónothæfur fyrir rest, enda féll áin yfir þegar var mikið flóð. En það var alltaf verið að leika og fullorðnu mennirnir komu stundum líka, pabbi og Arngrímur, Ingimar á Nesi og þessir karlar. Þeir voru bara að leika sér með krökkunum á sunnudögum. En yfirleitt var það bara krakkahópurinn, það var hægt að búa til 2 lið til að spila fótbolta bara hérna úr firðinum. Þannig það var allt annar bragur, miklu fleira fólk og hér voru alltaf nokkrir krakkar í sveit. Þeir voru hér allir bræðurnir, synir Jóa járns og Soffíu. Þeir voru hérna mann frá manni í sveit þegar ég var krakki, stundum 2, jafnvel 3 í einu. Þeir byrjuðu að koma í kringum ’61. Það voru ættingjar og vinafólk sem sendi börnin sín í sveit. Það þótti nefnilega mjög nauðsynlegt að senda krakkana úr bæjunum vegna þess að þar var ekkert við að vera í fyrsta lagi og svo þurfti fullorðna fólkið að losna við börnin, það var enginn vinnuskóli eða neitt. Þá voru krakkarnir að mynda hópa og gengi. Það var gengi á Hólmavík sem við sveitavargarnir kölluðum Gluggar og grjót, það var sumarið sem þeir brutu flestar rúðurnar í nýbyggðu sláturhúsinu. En svo um 16 ára aldur fóru þeir að vinna eins og fullorðnir.“
Leikur og störf í sveitinni
Börn byrjuðu auðvitað ung að taka þátt í bústörfum og í Bjarnarfirði var engin undantekning þar á.
„Þau voru bara að sinna þessum störfum sem börn máttu gera, þá voru sveitastörfin miklu meiri handavinna. Heyskapur var t.d. meira og minna yfir sumarið, byrjaði kannski í júlí og var fram í september og það var allt meira og minna unnið á höndum til að byrja með. Síðan þegar allar vélarnar komu þá varð bara hættulegt að vera með börn, þá leggst þetta af að senda börn í sveit því það voru engin störf lengur og var allt orðið hættulegt. Bara eins og í dag, þetta eru verktakar sem koma og heyja fyrir marga bændur. En þetta voru smá störf, þeir yngstu voru kúasmalar og við vorum nú ekki gamlir þegar við fórum að keyra litlu traktorana. Þetta voru svo lítil og létt tæki, það var auðvelt að ráða við þetta miðað við sem er í dag. Þetta var afskaplega einfalt. Það voru notaðar hrífur og kvíslar til að moka heyinu. Ég er það gamall að ég fór með heybandslest, ekki sem reiðmaður, en ég fékk að fara með heybandslest á hesti. Þá var verið að heyja úthey, það var saxað með hrífum og bundið upp með ákveðnum reipum og reitt heim á hestum, 2 baggar á hvorum hesti. Svo var leyst niður heima á túni og þurrkað. Þetta er eitthvað sem maður heldur að sé 19. aldar fyrirbæri en það var stundað alveg framyfir 1960 og þá lagðist það af því það var orðin það mikil ræktun, það þurfti ekki á útheyinu að halda. Þetta er mjög framandlegt fyrir fólk í dag en svona var þetta. Hér niður við á er hlaðin tóft sem heitir Arngrímstóft. Hún heitir það vegna þess að Arngrímur bóndi í Reykjarvík fyrir norðan, hann fékk að heyja uppi á hálsi og hann reiddi alltaf heyið og setti það upp á Arngrímstóft til að geyma það fram á vetur því það var svo mikil vinna að fara alla leið út að Reykjarvík með heyið þegar var verið að heyja. Þannig hann bar heyið þar upp og sótti það hægt og sígandi yfir veturinn. Þannig að sveitastörfin voru svolítið öðruvísi þá. Menn voru að heyja hirst og her, hér voru menn að heyja alveg inn undir Goðdal. Það voru ekki miklar slægjur á Svanshólslandi, það háttar þannig til, en Kaldrananesland á margar mjög góðar slægjur. Þessi orð eru ekki notuð lengur því þessi aðferð er ekki notuð lengur. Þetta er gamli tíminn sem er horfinn.“
Lói heldur áfram og lýsir því hvernig bústörfin voru ekki bara vinna heldur líka afþreying þegar pabbi hans var ungur.
„Í gömlum dagbókum pabba, þegar hann var mjög ungur – hann byrjaði að skrifa dagbók 16 ára gamall – þá var verið að keppa á vegum einhvers félags í slætti og að raka, s.s. karlarnir að slá og konurnar að raka. Það var keppt í þessu eins og öllu öðru. Þá var farið eitthvert þar sem var óslegið og menn voru að slá og það voru mæld gæði sláttarins og magnið og tíminn, og svo eins með konurnar að raka. Það eru ekki margir sem kunna að nota orf í dag en ég notaði þetta sem barn en hef ekki notað það síðan ég fór að heiman.“
Heymaurar og mjólkurpóstur
Aðspurður hvort hann hafi átt einhvern uppáhaldstíma yfir árið, segir Lói að heilt yfir hafi honum liðið betur á sumrin því þá var hann laus við rykmaurana sem voru í heyinu og hann hafði ofnæmi fyrir en hvað sem því leið var alltaf nóg til að hafa fyrir stafni hvort sem það var innan dyra eða utan.
„Mér leið alltaf betur á sumrin. Ég var ægilega horaður, mikill væskill í æsku, sérstaklega á vetrum. En í minningunni var maður hálfnakinn á sumrin, maður þurfti ekki að klæða sig svo mikið en það breyttist upp úr 1960. Þá fór að kólna, þá komu þessi kalár og kuldi og leiðindaveður á sumrin. Það var erfitt í búskap. Þá var maður ekki jafn nakinn og sem barn. Ég er ekkert að grínast með það þegar ég segi að ég var alltaf með skeiðklukku og málband á mér eins og allir voru hér. Alltaf þegar það komu einhver hlé á kvöldin, þá var alltaf verið að keppa í einhverju. Ég man að einhvern tímann þegar ég var kannski 15 ára og Svanur bróðir ennþá heima um sumarið, þá var svo mikill rigning að við gátum ekkert verið úti, að þá var keppt í að hlaupa ákveðna leið innanhúss með skeiðklukku. Pabbi og mamma voru ekki heima en Þórunn gamla var hérna. Hún var dóttir afabróður míns og hét fullu nafni Svanfríður Þórunn Halldórsdóttir en var kölluð Dóda. Hún bjó á Svanshóli alla sína tíð frá því hún fæddist 1896 og var okkur bærðrum afskaplega góð. En þarna hrópaði hún á okkur: ‚Guð almáttugur, ég held að húsið sé að hrynja!‘. Það voru mikil læti.“
Af skólagöngu sinni hefur Lói ekki mikið að segja en hann var í gamla Klúkuskólanum sem barn og þurfti auðvitað ekki að vera á heimavist, enda stuttur spölur að fara í skólann.
„Ég er hérna í Klúkuskóla, það var bara gamli hlutinn sem er næst sundlauginni. Þar bjó Ingimar Elíasson sem var kennari og matráðskonan og svo krakkarnir, eldri og yngri deild í 3 vikur í senn. Ég var náttúrulega ekki á heimavistinni, það voru bara 2 herbergi, strákarnir í öðru herberginu og í hinu voru ráðskonan og stelpurnar, og svo var lítið herbergi þar sem kennarinn var. Þetta var allur skólinn. Ég gekk alltaf í skólann með tösku á bakinu og 2 mjólkurbrúsa í sitthvorri hendi því mjólkin var fengin héðan, það var tiltölulega stórt fjós og 4-5 mjólkandi kýr þannig það var nóg af mjólk fyrir skólann. Það var seld mjólk í skólann, í vegavinnuflokka, símaflokka og bara þá sem þurftu á mjólk að halda á svæðinu. Þannig ég var mjólkurpóstur þegar ég gekk í skólann. Þetta var ekki langt að labba en stundum var töluverður þæfingur á vetrum, maður fór beina leið ef það var hjarn og ekki mjög mikill snjór en oft varð maður að fara lengri leiðina um veginn til að komast.“
Fann Höllu sína á Hornafirði
Lói fór síðan í Reykjarskóla eins og margir gerðu og var þar 3 vetur, fór síðan á vetrarvertíð frá Keflavík næstu 2 árin þar á eftir en var annars að vinna við búið á Svanshóli þar til farið var að byggja nýja skólabyggingu á Klúkuskóla sem nú er Laugarhóll. Þannig kom það til að Lói varð smiður.
„Ég fór að vinna við skólabygginguna úti á Klúku sem handlangari, og þar var meistari Sveinn Sighvatsson, og hann hefur séð að hann gat notað mig þannig hann fékk mig með sér austur til að vinna, og fljótlega eftir það gerði maður sér grein fyrir að það var eins gott að nota tímann og taka smiðinn á meðan maður var að vinna í þessu. ’76 var ég orðinn sveinn. Mér hefur alltaf verið sagt að þegar ég byrjaði á að smíða eitthvað þá dreif ég í því og gerði það, misvel, en kláraði það ef ég gat og var ekkert lengi að föndra við þetta sem barn. En það voru áhrifin af því að vinna við þessa byggingu sem gerðu það að verkum að ég fór út í smíðar.“
Þannig atvikaðist það að Lói fluttist austur til Hornafjarðar árið 1972 og hitti þar konu sína, Hallfríði Finnborgu Sigurðardóttur.
„Ég fór á Hornafjörð 1971 seinni part sumars og var fram að áramótum og vann við fyrstu bygginguna sem varð að frystihúsinu í Höfn á Hornafirði, í Krosseynni, sem núna er Skinney-Þinganes og það var byrjað að byggja vélasalinn undir Sveini Sighvats. Síðan fór ég í bæinn og var að vinna þar yfir veturinn og fram á vor. Þá kom ég hingað norður til að vinna við að klára skólabygginguna utanhúss undir verkstjórn frænda míns Óla á Sandi, sem sá um allar hleðslur í kringum þetta. Svo fór ég austur á Hornafjörð og ég flaug 28. ágúst og það er skemmtilegt að í þessu sama flugi var Halla konan mín. Hún var að koma frá Englandi, hafði verið þar í enskuskóla og var að koma heim, við sátum bæði í sömu flugvél en vissum ekki af hvort öðru fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Svo eignuðumst við Viktoríu 1973, tæpu ári eftir að við fórum austur. Það var ekkert verið að tvínóna við hlutina þá!“
Noregsflóttinn
Lói og Halla giftu sig í desember 1975 og fjölskyldan bjó á Höfn í Hornafirði í 7 ár þar sem Lói starfaði við smíðar en Halla, sem Lói segir gegna nafninu Finnborg í heimahögum sínun fyrir austan, vann ýmis störf eftir árstíðum, s.s. á hóteli, fiskvinnslu og leikskóla. Árið 1978 ákváðu þau að söðla um og flytja til Noregs. Lói segir ástæðurnar aðallega hafa verið álag utan vinnutíma.
„Þegar við fórum ’79, þá var orðið Klondike ástand á Hornafirði. Það voru búnar að vera þessar hefðbundnu vertíðar og humarvertíð yfir sumarið og loðna og síðan síld líka. Ef það komu bræludagar þá veit ég ekki hversu margir tugir báta voru þarna í höfninni því reknetaveiðarnar voru þá þarna út af Hornafirði. Það var mjög mikið líf í bænum þegar allir þessir bátar voru þar. Það gat verið ágæt nema þegar það var mikil bræla, gat verið óhægt um flug líka og ég man einhverja helgina var ekkert flug í 2 daga og það var engin áfengissala þarna. Þarna voru tugir áhafna brennivínslausar í bænum og það var farið hús í hús að spyrja hvort það væri eitthvað til. Ég lét alltaf það sem ég átti og sagði ‚Þið skilið þessu bara síðar!‘ Þetta var mjög sérkennilegt. Við fórum því við vorum búin að fá nóg af þessu.“
Því var haldið til Moss, 60 km sunnan við Osló, þar sem Halla átti frænku. Fjölskyldan bjó fyrst í húsi inni í skógi en Lói vann í byggingariðnaðinum og Halla við heimilishjálp og var þetta góð og lærdómsrík reynsla fyrir þau bæði. Lói segir þó að Viktoría hafi verið svolítið einmana til að byrja með en hafi spjarað sig vel þegar hún byrjaði í skóla og eignaðist fleiri vini.
Þau höfðu síðan hug á að færa sig um sess í Noregi og fara norðar, að sögn Lóa vegna þess að fólkið var skemmtilegra.
„Við erum í Noregi þessi 3 ár og erum farin að hugsa okkur til hreyfings innan Noregs, vorum að skoða aðeins norðar, ég kynntist svo mörgum norður-norskum smiðum sem komu suður eftir vegna þess að það var ekki nóg að gera hjá þeim og það var miklu skemmtilegra fólk fannst manni. Við vorum að hugsa um að kíkja þangað, vorum búin að ferðast þarna og fundum að okkur líkaði mórallinn betur. Maður heyrði fólk t.d. rífa kjaft sem það gerði eiginlega aldrei suður frá. Það var alltaf svo kurteist en manni fannst það vera gervikurteisi því það var nógu rætið til að tala illa um fólk eftir að það var farið en ekki beint við það. Manni fannst það leiðinlegt. En þá fékk ég bréf frá pabba þar sem hann sagði að nú yrði hann að bregða búi og ef einhver af okkur ætlaði að taka við, þá væri núna tækifærið.“
Aftur heim
Árið 1982 héldu Lói og fjölskylda aftur til Íslands þar sem þau tóku við búinu á Svanshóli til reynslu.
„Við ákváðum að fara heim og vera út árið og vita hvernig okkur líkaði þetta. Fyrri part vetrar ’76 var gamli maðurinn að klifra eitthvað upp á jötubandið og setja timbur upp á skammbita og datt og braut á sér nokkur rifbein. Þá höfðu kennararnir bræður mínir engan séns á að hjálpa til né heldur hinir bræðurnir en ég var orðinn sveinn og farinn að vinna ‚freelance‘ og gat komið verkefnunum mínum yfir á aðra og verið hér fyrir norðan í nokkra mánuði yfir sumarið í heyskap og að hjálpa til og Halla kom líka. Ég held að þetta sé eina ástæðan fyrir því að okkur datt í hug að koma aftur hingað, okkur fannst gaman í búskapnum. Þetta er skemmtileg vinna. Okkur leið vel með þetta. Svo þegar þetta kom til ákváðum við að slá til og keyptum jörðina ’83.“
Lói rifjar upp að á þessum tíma hafi enn verið haldið í ýmsar hefðir varðandi búskap, eins og að Oddafénu var beitt í Kaldbaksvík þangað sem þurfti að sækja það á veturna.
„Það var ennþá þetta gamla sem mér fannst skemmtilegt, allt svokallaða Kaldbaksféð í Odda var skilið eftir í Kaldbaksvíkinni því Oddverjar höfðu þá nytjaréttinn á jörðinni. Kaldbaksvík ehf. átti bæina, Kleifar og Kaldbaksvík, en Arngrímur hafði nytjaréttinn af jörðinni, heyjaði þar og mátti nota rekann og greiddi fyrir það ákveðið árgjald. Fénu var beitt þar á haustin, það var farin ferð alltaf í desember að sækja féð fyrir fengitímann. Oft var ekkert fært á bílum, ég man það var farið á jarðýtum til að gera slóð til að komast norður. Einu sinni var það ekki einu sinni hægt svo Ásbjörn Magnússon á Sundhana var fenginn til að flytja mannskapinn inn undir Veiðileysukleif, þar vorum við settir í land og svo var gengið heim. Það var bara ágætisveður en kolamyrkur náttúrulega um nóttina til að hafa alla birtuna. Það var þannig þegar Oddverjar voru á ferð – og er vonandi þannig ennþá – að það skorti aldrei mat. Við vorum með bakpoka fulla af mat til að byrja með, þurftum að éta okkur heim til að létta byrðarnar. En þegar við förum að leggja af stað, fer að breytast veður, það fer að gera einhverja vestanátt og slyddu og leiðindahríð. En við vorum alltaf í skjóli við fjöllin nema þegar við fórum fyrir dalina. Þegar við vorum komnir að Asparvík var björgunarsveitin farin að leita að okkur, það voru náttúrulega engir farsímar eða neinn möguleiki á að láta vita af sér og það var allt kolófært þannig þeir komu á vélsleða að gá hvort við værum lifandi eða dauðir. En við vorum ekkert illa hraktir og ekki svangir. Nógur matur.“
Niðurskurður setti strik í reikninginn
Stuttu eftir að Lói og Halla tóku við búi fór þó að halla undan hjá bændum landsins vegna niðurskurðar á framleiðslurétti.
„Fljótlega eftir að við keyptum kom þessi fyrsti verulegi niðurskurður í réttinn til framleiðslu. Framleiðslurétturinn sem hafði verið 444 ærgildi, hann var skorinn niður. Það var ákveðin tala sem var talin sem ærgildi, sem þýddi 8,2 kg af kjöti, það var reiknað þannig út. Það var skorið niður um einhver 20%. Það mátti framleiða minna. Það var komið kjötfjall í landinu. Áður hafði verið smjörfjall, það var framleitt of mikið af smjöri. Öll umfram framleiðslan af mjólk var bundin í smjöri, og það var miklu meira smjör en nokkurn tímann þurfti í landinu og það var tekið á því. Svo myndaðist svona kjötfjall og það þurfti að taka á því, þá var bara minnkaður rétturinn jafnmikið yfir alla bændur.“
Lói segir þetta hafa verið afar stórtæka breytingu sem hafði mikil áhrif á afkomu þeirra og annarra bænda og fyrir rest voru hjónin bæði farin að vinna önnur störf með búskapnum, Halla á hótel Laugarhóli og Lói við sjósókn af ýmsu tagi. Á þessum árum fæddust þeim þó yngri börnin 2, þau Finnur og Saga. En á þessum tíma var fólki líka byrjað að fækka í firðinum og þegar ljóst var að í stefndi að Finnur og Saga yrðu 2/3 af nemendum Klúkuskóla, var aftur tekin ákvörðun um flutning og árið 1992 fór fjölskyldan til Hólmavíkur og bjó þar í áratug en átti áfram ættaróðalið á Svanshóli.
Nóg að gera á Ströndum
Lói stofnaði fyrirtæki með æskuvini sínum Ásmundi Vermundssyni frá Sunndal og þeir höfðu í nógu að snúast.
„Síðasta vorið sem ég var á grásleppu ’94 var boðið út verkefnið að steypa á bryggjunni á Hólmavík og Ásmundur félagi minn var þá orðinn sjálfstætt starfandi. Hann langaði til að bjóða í þetta en treysti sér ekki til þess að gera það einn, varð að hafa einhvern með sér og plataði mig í þetta. Við buðum í þetta og fengum þetta verkefni og unnum það. Síðan stofnuðum við fyrirtæki sem hét Ásmundur & Ólafur og fórum út í þann bransa. Steyptum í framhaldinu utan um bryggjuna á Drangsnesi tvisvar, við vorum að byggja hirst og her. Ég segi oft að ég hef tekið þátt í verkefnum alveg frá því að vera 7 metrum undir sjávarborði og hátt upp á jökla og fjöll. Eitt skemmtilegt verkefni var þegar við endurgerðum Kaldbaksvíkurhúsið, það var reyndar alveg hrikalega illa byggt hús, hundskakkt. Það er samsíðungur, það eru engin horn í því rétt. Við gátum náttúrulega ekkert breytt því. Ég man við mældum þakið fyrst, þá var hornskekkjan 46 cm á öðrum vængnum. Svo árið eftir að við vorum búnir þá kemur snjóflóð ’95 og brýtur norðurhliðina og það þurfti aftur að gera það upp að hluta til. Það var svona eilífðarverkefni.“
Þá flutti Ásmundur frá Hólmavík en Lói varð eftir og vann m.a. við byggingu Galdrasafnsins en gekk síðan inn í fyrirtækið Grundarás með Ómari Pálssyni smiði.
„Gulli sem hafði verið á móti Ómari var að flytja í bæinn, þannig Ómar var einn og ég einn, þannig við vorum óbeint þvingaðir til að sameinast. Ég keypti hinn út og við buðum í sjúkrahúsið og fengum það og vorum að vinna þar í nokkur ár. Byrjuðum á því að steypa viðbygginguna og svo klára að innan og í beinu framhaldi tókum við byggingu fyrir Hólmadrang. Ég var orðinn byggingarstjóri og þetta var orðin dálítið mikil keyrsla. Eftir það langaði mig aðeins að hvíla mig á þessu, og þá kom upp verkefni, leikmyndasmíði úti í Svíþjóð. Það voru sömu gæjarnir og höfðu verið að vinna við galdrasafnið. Ég skellti mér til Svíþjóðar og fór tvisvar eða þrisvar þangað að smíða leikmynd fyrir sjónvarpsseríu og síðan skemmtigarð. Smám saman yfirgaf ég Grundarás, við seldum það, og ég fór í þessa leikmyndasmíði og var síðan að byggja hús eins og Steinholt og á Bakka og ýmislegt fyrir einhverja úr sveitinni og víðar. Við Ómar byrjuðum ekki aftur saman fyrr en parhúsin voru byggð á Drangsnesi. Svo endaði ég minn starfsferil á Hrófbergi, að byggja litla húsið þar í árslok 2021.“
Kvikmyndatökuæði á Íslandi
Inntur eftir því í hvaða kvikmyndum hann hafi unnið við leikmyndagerð, telur Lói upp allar helstu stórmyndirnar sem teknar hafa verið hér á landi á síðustu árum, s.s. Flags of our fathers, Beowulf, Oblivion, Interstellar og Secret Life of Walter Mitty. En skemmtilegasta leikmyndin að mati Lóa birtist þó aldrei á hvíta tjaldinu.
„Skemmtilegasta leikmyndin sem ég var að vinna við var austur á Hornafirði 2009 og hún er ennþá uppistandandi að mestu leyti en hefur aldrei verið notuð. Það er Víkingabærinn. Það var bara hætt við. Landeigandinn Ómar, sem ég þekki mjög vel, hann fór strax að sjá í þessu peninga og fór að selja inn á leikmyndina. En hann hefur ekkert gert við hana, lætur hana bara grotna niður. Hún er orðin léleg núna finnst mér, nema Víkingaskálinn. Víkingaskálann byggðum við, ég, Ásmundur, Finnur og Grettir Ásmundsson – sem er byggingarfulltrúi hérna núna – nánast fjórir.“
Skógrækt á Svanshóli
Í millitíðinni fluttu Lói og Halla frá Hólmavík og aftur á Svanshól árið 2006. Á þeim árum var Lói enn um hvippinn og hvappinn við ýmis konar byggingarvinnu en tók sér einnig tíma til að hefja endurbætur á húsinu á Svanshóli og byggja gróðurhús. Þau eru orðin mikið aðdráttarafl fyrir Bjarnafjörðinn vegna framandi ávaxta en mesta framleiðslan úr þeim eru þó tré sem seld eru til Skógræktar Íslands. Lói segir konu sína eiga mestan heiður af því starfi, enda hafi hann sjálfur verið mikið í burtu.
„Ég byggði þetta og ég tek að einhverju leyti þátt í þessu en Halla sér algjörlega um trjáplöntuframleiðsluna. Við hjálpum henni endrum og sinnum en hún sér um þetta. Þetta er hennar vinna og hún hefur allar tekjur af þessu. Hún passaði alltaf upp á þetta í fríunum á Sjúkó. Síðan er meira samstarf um stærra gróðurhúsið þar sem kirsuberin eru en það er ansi mikil viðvera. Mjög skemmtilegt, það kemur mikið af fólki og það er strax byrjað að koma fólk að spyrja hvort það verði einhver kirsuber í ár. Það verða það. En þetta er mikil vinna, meiri vinna en bara fyrir eina manneskju. Halla er alveg að gefast upp á allri þessari vinnu, það þarf að vera við þetta örugglega 10, 12 tíma á dag. En núna eru síðustu plönturnar að fara, núna er það bara ösp og reyniviður, meiri hlutinn af öllum reynivið í dag er ræktaður hérna á Svanshóli, sem eru seldar í Skógræktinni.“
Aðspurður um hver sé lykillinn að góðu hjónabandi þegar annar aðilinn er svona mikið í burtu, segist Lói ekki eiga neitt gott svar við því.
„Hef ekki hugmynd um það en ég held það snúist um góðan maka. Ef fólk getur haldið vinskapnum þrátt fyrir alla hnökrana sem koma upp á, þá gengur þetta.“
Til viðbótar má bæta við að mikið skóglendi hefur verið ræktað upp í landi Svanshól undir umsjón Höllu.
„Svo plöntuðum við líka í ca. 15 ár trjám á jörðinni og ég hef ekki tölu á fjöldanum en svæðið sem er plantað á eru tæpið 200 hektarar en margar stórar eyður á milli enda ekki plantað í mýrar, en beru holtin taka vel á móti lerkinu. Eins og svo margt af sumarvinnu, fór þetta að mikli leiti fram að mér fjarverandi en við fengum marga plantara til að geta komið þessu í verk.“
Stanslausar smíðar
Aðspurður hvort hann sé ekki sjálfur útkeyrður eftir allt streðið í öll þessi ár, telur Lói sig almennt vera við góða heilsu en er þó nýlega kominn úr liðskiptaaðgerð.
„Ég er búinn að eyðileggja á mér lappirnar, það er vandamálið. Ég er búinn að fara í liðskiptaaðgerð á hægra hné og er að jafna mig. En ég skilaði inn VSK númerinu þegar ég hætti á Hrófbergi. Það táknar að ég get ekki tekið að mér verkefni, sem ég gerði meðvitað. Ég treysti mér ekki til að halda áfram að níðast á löppunum á mér. En ég er að vinna í brugghúsinu, uppsetningunni á móttökuaðstöðunni og bara hitt og þetta þegar ég treysti mér til. Þetta er allt að koma en ég ætla ekkert að fara aftur í þennan bransa. Þetta er komið gott. Maður er alltaf eitthvað að smíða, ég hef nóg að gera hér ennþá en það fer vonandi að klárast. Ég smíða allan andskotann. Ég er að smíða húsgögn og bara það sem mér dettur í hug. Það hefur verið nóg að gera í því. Við höfum ekki ferðast neitt rosalega mikið, ekki mikið til heitari landa. Kannski nokkrar ferðir en eftir nokkra daga er ég alveg búinn að fá nóg, mér finnst það ekkert skemmtilegt. Það er fínt að hafa heitt en það nægir mér ekki. Ég verð að hafa eitthvað fyrir stafni. Ég bý svo vel að það eru alltaf einhverjir sem fá mig til að gera eitthvað.“
Þó Lói sé nú hættur störfum formlega, er hann samt alltaf að smíða, enda er það hans aðaláhugamál og honum finnst dásamlegt að vera á smíðaverkstæðinu sínu í hvaða veðri sem er.
„En á meðan ég get eitthvað gert hérna þá vil ég helst ekkert vera annars staðar. Þetta er annað með mig en Höllu, það sem hún er að vinna eftir að hún hætti á Sjúkó, eru bara sumarstörf og þá verður veturinn hunderfiður. En fyrir mig er veturinn fínn, í brjáluðum byl er yndislegt að vera hérna inni að smíða einhvern djöfulinn. Ég á helling af efni sem á eftir að vinna úr. Hef engar áhyggjur af framhaldinu hvað mig sjálfan varðar.“
Gamaldags ljósmyndun áhugamál
Fyrir utan smíðarnar segist Lói hafa áhuga á ljósmyndun en þá aðallega með filmuvélar og honum hugnast ekki stafrænar myndavélar.
„Ljósmyndaáhuginn kom eftir veruna á Reykjaskóla, var örlítið að rembast við framköllun á svarthvítu. Síðar þegar maður var kominn með íbúð var baðherbergið tekið undir framköllun en það verður svolítið erfitt til lengdar þar sem aðrir þurftu stundum að hafa afnot. Þegar til Noregs var komið, gat ég notað stóran fataskáp sem framköllunarherbergi en allt vatn þurfti að bera. Ég hef núna framköllunarherbergi en það er rafmagnslaust og vatnslaust eftir síðustu framkvæmdir en ég vonast til að geta kippt því í lag og byrjað að leika mér þar. Ég missti svolítið áhugann á ljósmyndun þegar digital vélarnar komu, það varð allt svo auðvelt. Ég þrífst líklegt best í veseninu.“
Uppbygging í ferðamennsku
Það er líka alltaf nóg að gera hjá Lóa, bæði á Svanshóli og víðar um svæðið. Margir ferðamenn fara um Bjarnarfjörðinn og hýsing þeirra hefur tekið við fjárbúskap sem aðalatvinnugreinin og Svanshóll er þar ekki undantekning.
„Við erum með gistingu líka hérna í húsinu. Við erum með íbúð með tveimur herbergjum og eldhúsaðstöðu, og svo 2 önnur rými sem er gistiaðstaða, lítil eldunaraðstaða og bað. Þetta er búið að taka 2 ár, þessi 2 en nú er ég að klára þriðja og síðasta herbergið. Þetta hefur verið hobbý meðfram öllu öðru. Árið 2010 tók ég hálft sumarið til að byggja hér. Þá byggði ég við húsið og yfir fjósið og allt heila klabbið, byggði nýtt þak yfir allt, hækkaði það upp og breytti því. Það voru bara ég, Finnur og Hlynur tengdasonur sem unnum við það, fengum bara hjálp þegar mikið lá við. Byrjuðum að steypa innanhúss í febrúar það ár. Við notum heita vatnið til að láta renna í steypuefnishauginn í nokkra daga og plöstuðum yfir, svo þegar við tókum plastið af og var farið að moka í steypubílinn í september, þá var búið að vera frost en það rauk úr steypunni út af hitanum. Að hita efnið er miklu meira virði en að nota heitt vatn í steypuna. Það var vandræði að vinna með steypuna því hún þornaði í höndunum á manni en afskaplega lærdómsríkt. Ef tekur aldrei neinar áhættur og reynir ekki eitthvað sem þú veist ekki hvernig á að klára, þá lærirðu aldrei neitt.“
Þrátt fyrir að búskapur sé að leggjast af, fólki fækki og meðalaldur hækki, er nokkur uppbygging í Bjarnarfirði, sérstaklega í ferðamennskunni og eflaust eru ókannaðir möguleikar á því sviði. Lói segir leitt að samgangur á milli fólks hafi minnkað með búskapnum en gott sé á milli íbúa í Bjarnarfirði.
„Bjarnfirðingar eru flestir orðnir nokkuð gamlir og umgangast hvern annan af gömlum vana, þekkjast nokkuð vel og eru lítið fyrir árekstra. Það er í sjálfu sér missir af rollubúskapnum því það stúss skapaði svo mikinn samgang og samstarf. Helsti ókostur þess að vera ekki í vinnu einhvers staðar að heiman er að maður er ekki að hitta hina og þessa. Við hér á Svanshóli getum ekki kvartað yfir sumartímann, sérstaklega á meðan kirsuberin eru í gangi því hér koma tugir manna dag hvern og margir þar með sem maður þekkir.“
Frelsi til að gera vitleysu
Halla og Lói búa við þann munað að tvö af þremur börnum þeirra, þau Viktoría og Finnur, starfa í heimabyggð og búa ásamt fjölskyldum sínum á Svanshóli en yngsta dóttirin Saga býr og starfar í Reykjavík. Raunar hafa nokkuð nýlega orðið eigendaskipti á Svanshóli.
„Við erum búin að stíga til hliðar og selja þessa jörð þannig að Finnur og Viktoría geti gert eitthvað, og þeirra fjölskyldur. Við erum búin að yngja upp svo við erum með mjög góða samvisku. Við erum hérna, annars væri enginn hér því þau eru öll í vinnu annars staðar en okkur líður vel með þetta.“
Aðspurður um hvort þau hjónin græði ekki mikið á að vera alltaf umkringd börnum og barnabörnum, segir Lói að allir græði á þessu fyrirkomulagi.
„Ég held að þetta sé allra hagur og þetta er náttúrulega algjör snilld. Meðan heilsan er í lagi og engin er að gera einhverja algjöra vitleysu gengur þetta. En fólk verður að hafa frelsi til að gera smá vitleysu.“
Myndir frá Lóa, Viktoríu Rán og Hollvinafélagi Gvendarlaugar hins góða. Nokkrar tók ég sjálf.