Æska og störf á Gjögri
Hilmar Friðrik Thorarensen fæddist í Reykjavík 8. júní árið 1940 og var frumburður foreldra sinna, þeirra Regínu Emilsdóttur og Karls Ferdinands Thorarensen. Þau hjónin kynntust í Reykjavík en fluttu til norður á Strandir þegar Hilmar var tveggja ára gamall og seinni heimsstyrjöldin teygði anga sína til Reykjavíkur.
„Sumarið 1941 var talað um að börn og konur ættu að fara úr Reykjavík, það væri hættulegra þar og þá fóru foreldrar mínir með mig norður á Gjögur og hér byrjaði ég að ganga sumarið 1941. Vorið 1942 fluttu þau á Djúpavík þar sem pabbi var að vinna í síldarverksmiðjunni sem járnsmiður. 1944 voru þau búin að byggja hús á Gjögri og fluttu þangað.“

Karl var ættaður frá Gjögri en Hilmar segir hann hafa átt erfiða æsku, alveg frá frumbernsku og fram á fullorðinsár.
„Pabbi var fæddur hér á Gjögri 8. október 1909. Hann var tvíburi og honum var ekki talið lífs auðið, hann var svo lasinn en föðursystir hans Karólína Söebech, borin Thorarensen – eins og Þórbergur Þórðarson segir Í Bréfi til Láru – hún tók pabba að sér. En tvíburinn sem var svo brattur til að byrja með, hét Ellert og hann dó fljótlega. En þegar pabbi er 9 ára þá deyr Karólína fósturmamma hans og föðursystir og eftir það fór hann á flæking. Það finnst manni alltaf mjög sárt að hann var alinn upp á flækingi og mest á Bólstað í Steingrímsfirði þar sem honum leið alveg skelfilega illa. Þar var farið illa með hann, svo ekki sé meira sagt. Hann borðaði ekki með fólkinu, hann svaf við leppa og besti vinur hans var hundurinn og þeir sváfu saman og höfðu hita hver af öðrum. Það var ekkert hitað eins og núna. Svo var hann m.a. látinn bera vatn í kindurnar og húsið og svo var honum hótað að honum yrði stungið niður í brunninn ef hann væri ekki eins og þeim hentaði. Þetta var skelfilegur tími. En þegar Jón R. Hjálmarsson tók við hann viðtal, í bókinni ‚Styrkir stofnar‘ þá breiddi pabbi yfir það og gerði lítið úr þessu. Hann sagði að þetta hefðu verið erfið ár og eitthvað svona. Svo þegar ég var búinn að lesa þetta, þá sagði ég ‚pabbi, þú segir ekki frá þessu eins og þetta var þarna á Bólsstað?‘ ‚Nei,‘ sagði hann, ‚þetta er löngu búið og þetta fólk er löngu farið og það á afkomendur.‘ Hann vildi ekki sverta þau með því og það sýndi ákveðna manngæsku hjá honum en ég hefði sagt sannleikann.“
Regína – sem tók síðar upp ættarnafn eiginmanns síns – var fædd á bænum Stuðlum í Reyðarfirði árið 1917 og hún missti móður sína nokkuð ung.
„Mamma hennar dó þegar hún var 16 ára og þá leystist heimilið upp og pabbi hennar flytur suður með fjölskylduna sína. Mamma kynnist pabba í Reykjavík, í gegnum Svövu systur pabba. Svava og mamma voru vinkonur og þannig kynnast þau.“

Stríðið flúið
Hilmar segir að fyrir utan ógnina sem steðjaði að vegna stríðsins, hafi heilsubrestir föður síns mögulega líka átt þátt í því að hjónin fluttu norður en Karl hafði fengið hjartaáfall eftir að sleppa naumlega úr vinnuslysi í Reykjavík.
„Hann upplifði það í Elliðaárstöðinni í Reykjavík sem framleiddi rafmagn, að það þurfti að fara inn í rörið þar sem vatnið fór í gegn. Þeir voru að fara niður til að gera við eitthvað og þá finnur pabbi að það kemur svo mikill vindur á móti honum. Þeir rétt sluppu upp við mann en pabbi var ekki mjög sterkur fyrir hjartanu og stríðið var ógnvekjandi. Það hefur kannski orðið til þess að þau fóru norður sumarið 1941 þar sem pabbi fékk vinnu í Djúpavík.“
Árið 1943 lést faðir Karls sem erfði þá fimmtung landareignarinnar á móti systkinum sínum fjórum en á Gjögri höfðu verið veiðistöðvar og verbúðir vegna hákarlaveiða og síðar fiskveiða.
Hilmar segist ekki vita nákvæmlega hvernig landið komst í eigu fjölskyldu hans. Eftir bollaleggingar og símtöl segir hann líklegt að Jakob langafi sinn, sem var stórkaupmaður í Kúvíkum, hafi eignast jörðina – ásamt fjölda annarra – með því að taka hana upp í skuld.
„Það voru 5 systkini sem erfðu afa þegar hann dó 1943 en amma dó 1931. Það voru semsé pabbi, Axel, Valdi, Olga – sem var gift Jóni Sveinssyni – og svo Svava sem, eins og ég sagði, var vinkona mömmu. Hún selur partinn sinn fljótlega þannig pabbi og Valdi áttu þá 25% í Gjögrinu en Axel hafði ekki peninga til að borga þennan hlut þannig Jón Sveinsson mágur þeirra keypti hlut Axels og afkomendur hans eiga þ.a.l. 30% í Gjögri.“

Frumkvöðlastarf Karls
Karl byggði fjölskyldu sinni, sem átti eftir að stækka, hús sem nefnt er Kallahús en Karl var ákaflega hagleikinn og handlaginn, enda járnsmíðameistari og trésmiður, og var frumkvöðull á mörgum sviðum. Hilmar segir frá því að hann hafi t.d. verið fyrstur til að leiða vatn inn í hús á Gjögri árið 1946.
„Pabbi gerði brunn niðri í kjallara og var með dælu, og gat dælt vatni upp í eldhúsvask. Það var ekkert klósett til þess að byrja með, það var bara kamar úti en það var ekki lengi. Pabbi handgróf fyrir vatninu, það eru kannski 2-300 metrar þangað uppeftir. Það þótti skrýtið, það var ekki rennandi vatn í neinu húsi í nágreninu. Það var sérstaklega erfitt að grafa í gegnum hólinn, það var sandur og það hrundi allt þannig að hann þurfti að moka tugum tonna af sandi til að komast í gegn. Hann var kallaður moldvarpan og ég moldvörpuunginn. Svo þegar það var komið rennandi vatn og vaskur og klósett, þá var sagt að þetta fólk væri að þvo sér upp úr postulínsskál og skíta í postulínsklósett.“
Að auki var Karl með þeim fyrstu til að nýta rafmagn á svæðinu.
„Hann var fljótur að taka rafmagn, var með vindrafstöðvar, tvær um tíma, og líka lítinn bensínmótor sem var notaður í logni. Rafmagnið var sparað, það var eingöngu til ljósa. En þá var hann líka með rafgeyma eins og notaðir eru í trillunum sem voru með 32 volt. Hann var á undan sinni samtíð hér, það voru ekki rafmagnsljós hérna á þessum tíma. Hann var líka óhemju duglegur, lét verkin tala en talaði minna sjálfur.“

Greinilegt er að Hilmar dáði föður sinn mikið og hann virðist eiga ótal sögur af honum og afrekum hans. Við spjölluðum dálítið um búhætti, en auk þess að vinna í síldarverksmiðjunni í Djúpavík, sótti Karl sjóinn og þau hjónin stunduðu sjálfsþurftarbúskap eins og margir á þeim tíma.
„Pabbi var fljótlega kominn með eina kú og nokkrar kindur og hænsni líka. Hann byggði fjósið úr timbri, sagað úr rekavið, sem var sæmilega gott og þar voru kálfarnir settir á og aldir yfir sumarið og étnir næsta vetur. Það var hlaða og hún var nógu stór fyrir kindurnar líka. Fljótlega grefur hann súrheysgryfju og ég held að það sé mesta dagsverk sem ég hef séð eftir einn mann. Það var ekkert lítið mál að heyja og ekki alltaf þurrkur. Það var erfitt að rækta upp túnin. Þá fór pabbi að girða inn ytri Hóla, sem kallaðir voru. Það voru svona grónar sléttar sandflatir þar sem við spiluðum fótbolta. Það var fenginn kindaskítur á Kjörvogi og hann var borinn 2-300 metra niður í bát og við vorum í sjóstakk til að bera skítinn og það var siglt með hann út í Bug sem var fyrir neðan Hólana, fyrir neðan flugvöllinn. Það var eiginlega það erfiðasta, að koma skítnum upp á grasbakkann, og girða inn. Þarna var ræktað tún. Og svo var heyjað á túninu við Kallahús. Áður fyrr fórum við yfir að Halldórsstöðum, sem er eyðibýli hinumegin við fjörðinn stutt frá Kúvíkum, þar sem var heyjað og líka inni í botni á Reykjarfirði. Þetta var náttúrulega slegið með orfi og ljá og sett saman í fangahnappa og bundið og flutt á bátnum á Gjögur. Einhvern tímann þegar við vorum að heyja í Reykjarfirði, var pabbi orðinn kaffiþyrstur og allt kaffið var búið. Hann bað mig að fara til Finnu [Guðfinna Guðmundsdóttir] í Reykjarfirði sem þar bjó, og selja sér kaffi og lét mig hafa pening og lagði ríka áherslu á að ég borgaði kaffið. Ég fór til Finnu og það var auðsótt mál að fá kaffi og hún hellti á nýlagað kaffi. Svo ætlaði ég að borga en Finna hélt nú ekki. Ég sagði að pabba hefði verið mikið alvöru mál að ég borgaði. Finna sagðist ekki eiga annað eftir en að fara að taka peninga af Kalla fyrir einn kaffibrúsa og með þetta fór ég. En ég fékk heldur betur skömm í hattinn hjá pabba fyrir að hafa ekki borgað eftir að hann hafði sagt mér að borga. Ég sagði hvernig þetta hefði gengið fyrir sig og það breytti engu. En þá datt mér í hug að segja ‚heyrðu pabbi, heldur þú að ef Finna hefði komið og þurft að fá kaffibrúsa hjá þér, heldurðu að þú hefðir farið að taka peninga fyrir?‘ Þá sljákkaði nú í pabba og málið var látið niður falla.“

Áföll í æsku
Eins og áður sagði, er Hilmar elstur fjögurra systkina, en auk hans eignuðust Karl og Regína Guðbjörgu Karólínu (1947-2022), Guðrúnu Emelíu (f. 1948) og Emil (f. 1954). Hilmar rifjar upp að tvö systkina sinna hafi lent í hremmingum snemma á lífsleiðinni. Í fyrsta lagi varð alvarlegt slys á heimilinu þegar Guðbjörg var ungabarn.
„Það gerist skelfilegt slys á Gjögri í júní 1947, þá brennast þær Gugga systir mín og mamma. Það atvikaðist þannig að mamma ætlaði að fara að baða Guggu og var væntanlega með hana strípaða, og var að sjóða vatn í katli á eldavélinni. Þegar suðan kom upp nær mamma í ketilinn en heldur sennilega á Guggu og þá leið yfir hana. Hún missir meðvitund og dettur, og þær brennast alveg skelfilega mikið. Það komu læknar úr Djúpavík en þeir réðu ekkert við þetta verkefni, og svo fór að grafa í öllu. Svo kom afi, pabbi mömmu einhverjum vikum eftir brunann, og þær voru drifnar suður með flugvél og eftir það fór að ganga betur. Þetta var tæpt, Gugga var innan við tveggja mánaða. Það var sagt að ef hún hefði verið strákur þá hefði hún dáið, held það sé af því kynfærin á strákum eru utanáliggjandi. Mamma og Gugga komu heim rétt fyrir jólin eftir 6 mánuði á Landspítalanum. En þær komust báðar yfir þetta en biðu þess aldrei bætur held ég, hvorki andlega né líkamlega. Reyndar leiddi mamma þetta mikið hjá sér.“
Að auki var yngsti bróðirinn Emil fyrirburi og Hilmar sem þá var á fermingaraldri segist muna þann tíma vel.
„Það gekk mikið á þegar Emil var að koma í heiminn því hann fæddist fyrir tímann og fæðingin gekk illa. Það voru bæði ljósmóðir og læknir við og það var fenginn Catalinu-flugbátur frá hernum sem gat lent á sjó. Þá voru suðvestan belgingur en það átti að reyna að lenda út af Akurvík – á ströndinni þar sem potturinn er – og flytja mömmu þangað, væntanlega á sleða því ekki voru bílar þá. En flugmaðurinn treysti sér ekki til að lenda en þetta slapp allt saman og bæði lifðu en þetta stóð mjög tæpt.“
Allt fór þó vel að lokum og systkinin ólust upp á Gjögri. Samkvæmt Hagstofunni bjuggu rúmlega 500 manns í Árneshreppi árið 1940 og Hilmar segir allt að 100 manns hafi samtals verið á Gjögri og Kjörvogi í æsku sinni og alltaf var nóg við að vera. Börn gengu í skóla á Finnbogastöðum (bókstaflega!) en eins og víðar í sveitaskólum, var kennslu skipt yfir veturinn á milli yngri og eldri barna.
„Það var skipting þannig að fyrir jól, það var byrjað í september, þá var yngri deildin. Hún var kannski 5, 6 vikur fyrir jól. Þannig maður var hálfan vetur í skóla, þessa fjóra vetur sem maður var í skóla. Eftir hálfan mánuð þá fór maður heim og skipti um rúmföt og nærföt, ég man ekki hvort við vorum í sömu nærfötunum í hálfan mánuð. Það var ekkert þvegið af manni í skólanum, það er alveg á hreinu. Þetta var bara svona. Það voru engir tannburstar, ég held þeir hafi ekki þekkst hér í hreppnum.“

Mathættir og jólahald
Mögulega hefur matarræðið í þá daga verið ívið hollara, í það minnsta voru matvælin í oftast framleidd í heimabyggð.
„Það þótti gott ef það var hægt að hafa kjöt tvisvar í viku, það gat þá verið fuglakjöt, selkjöt eða kálfa-eða lambakjöt, og stundum hrossakjöt. Þá var kjötið oftast saltað eða reykt en svo var farið inn í Djúpavík að ná í fryst lambakjöt en það var ekki oft hérna. Pabbi var með um 25 kindur seinni árin og það var tekið slátur og hann hafði skipti við bændurna á Melum, þannig þeir fengu rauðmaga og fisk í soðið hjá pabba og hann fékk 10 slátur á hausti frá hvorum þeirra, þannig það komu 20 slátur þaðan. Eitt slátur var semsagt haus, lappir, vömb, blóð, mör, ristill, þind, hálsæðar, nýru, lifur og hjarta af einu lambi. Það var enginn frystir en það voru leigð út frystihólf í Djúpavík og þar var geymt kjöt og matur, og m.a. var farið að frysta slátur þá og svo var farið inn í Djúpavík sem var kannski ekki nema einu sinni í mánuði og þá fékk maður nýtt slátur, þ.e.a.s. sláturkeppi, sem að þótti heldur gott, nýtt steikt slátur og sykur og jafningur. Það var líka 100 lítra eikartunna sem sláturkeppir voru súrsaðir í og svo hálf önnur tunna líka að mig minnir. En mamma var líka mjög dugleg að gera mikið úr saltfiski, alls konar búðinga og bollur og frikadellur, og svo var náttúrulega nóg af eggjum, þannig það var alltaf nóg að borða. Það eina sem mér fannst ekki gott að borða var skyrhræringur, það var skyr og hafragrautur blandað saman. það er það eina sem ég man eftir að geta ekki borðað. En þetta vandist, ég fór svo á sjó og var á vetrarvertíð og kokkurinn þar var með skyrhræring á morgnana. Þar byrjaði ég að éta þetta og þetta var allt í lagi.“
Ég bað Hilmar að segja mér frá jólahaldi á Gjögri en þá kom smíðasnilli Karls enn og aftur við sögu.
„Það var sko haldið upp á jólin hérna. Pabbi var góður smiður og hann smíðaði jólatré og það voru greinar á því fyrir kerti og síðan var bundið á lyng og þá var þetta grænt jólatré. Það var ca. 1,8 m á hæð og það var vel skreytt. Pabbi var mikið fyrir jólaskraut, það var verið að gera músastiga og hengja upp í loft. Eitthvað skraut var á jólatrénu á þessum tímum, það voru fléttaðar körfur og settir molar í. Síðan fengum við alltaf jólagjafir, ég fékk alltaf bók frá pabba og mömmu, Ævintýrabækurnar lengi vel, það var það algengasta. Þannig við fengum alltaf jólagjafir og það var gengið í kringum jólatréð. Pabbi var mjög nákvæmur á því að það varð heilagt klukkan sex á Aðfangadegi, og líka Hvítasunnu. Hann var trúmaður.“
Alvara lífsins
Eitthvað var um leiki en alvara lífsins tók snemma við.
„Við vorum mikið í útilegumannaleik, þá var einn útilegumaður og hann faldi sig einhvers staðar og svo var hlaupið í kringum húsin – þá voru hlaða og fjós og svona – og hinir þurftu að finna hann og ef útilegumaðurinn klukkaði einhvern þá var hann líka orðinn útilegumaður. Við vorum líka í yfir og slagbolta, og svo vorum við svolítið á skautum og skíðum líka. Maður var mikið niðri á klettum að veiða síli, með títuprjón og beitti einhverjum kuðungum og bobbum, veiðimennskan var til staðar. En það var mikil vinna. Maður fór mjög fljótlega að vinna, ég held ég hafi ekki verið meira en 4 ára þegar ég fór fyrst með pabba á sjóinn, það var náttúrulega bara til gamans fyrir mig.“
Fyrir utan sjósóknina, segist Hilmar hafa sinnt hinum dæmigerðu bústörfum sem barn, að sinna skepnum og heyja, og auk þess rifjar hann upp að krakkar á Gjögri hafi verið fengnir til að tína steina af flugbrautinni á flugvellinum.

Eftir skólagönguna á Finnbogastöðum, fór Hilmar á Reykjaskóla árið 1955 en segir að mikið ósætti hafi orðið á milli foreldra sinna vegna þess.
„Mamma lagði áherslu á menntun. En eina skiptið sem kom til handalögmála á milli pabba og mömmu var hvort ég færi 15 ára gamall inn á Reykjarskóla sem mamma lagði mikla áherslu á. En þá er ég náttúrlega farinn að vera burðugur til ýmissar vinnu og þeir byrjuðu alltaf rauðmagaveiðarnar pabbi og Axel bara 2. janúar ef það var veður og lögðu þá sitt hvor 3 netin. Svo var komið á fulla ferð með rauðmagann í febrúar og svo grásleppan sem var mikil búbót. Svo var mikill tími sem fór í að heyja, maður var snemma farinn að nota orfið, og svo var mórinn sem húsin voru hituð með. Hann var tekinn upp hérna kílómeter fyrir ofan og mestmegnis borinn á bakinu heim framundir 1954-5. Þá var hætt að taka móinn en aðaleldiviðurinn var rekaviður og hann var þá borinn utan af strönd eða fluttur á bát. Það var fylltur 50 kílóa strigapoki og bundið fyrir og svo var sett band til þess að halda pokanum á bakinu yfir axlirnar. Þannig það var alltaf nóg að gera.“

Regína á Mogganum
Regína hafði sjálf ekki hlotið aðra menntun en í barnaskóla og stutta vist í kvennaskóla og var húsfreyja lengst af. Hún var samt, eins og þekkt er, mikill skörungur sem lét sig samfélag sitt varða og var dugleg að láta í sér heyra. Hilmar lýsir tildrögum þess að hún varð fréttaritari og fór að skrifa fyrir Morgunblaðið.
„Hún gat skrifað, hún var orðhvöt og órög. Hún var að skammast út í þingmennina eða stjórnmálaframbjóðendur. Það voru alltaf fundir hér og þar í sýslunni og þar mættu allir frambjóðendur allra flokka og hún hjólaði alltaf í Hermann [Jónasson], enda var hann stóri karlinn. Eftir að bryggjan kom á Gjögri, árið 1956, komu frambjóðendur á mótorbát á leið sinni í samkomuhúsið í Árnesi þar sem framboðsfundir voru haldnir fyrir íbúa í Árneshreppi. Þeim var öllum boðið í kaffi og voru þá líflegar umræður, upphitun fyrir framboðsfundi, sem var mikil skemmtun, allavega fyrir mömmu. Hún var meira að tala við fólk en pabbi var að vinna og var ekki mjög mannblendinn. Slorkarlarnir voru hérna á Gjögri, Veiðileysu, þ.e. sunnan við Reykjaneshyrnuna, með báta og útgerð og nokkrar kindur. Svo skulduðu þeir í Kaupfélaginu og þá var skrúfað fyrir úttektir og lokað fyrir reikninginn þeirra. Þá þurfti að fá vörur að sunnan. Þó var Jón Sveinsson með smá verslun hérna á Gjögri. En mamma þóttist vita að það væri aldrei lokað á bændurna fyrir norðan, og var það af því þeir skulduðu ekki? Nei, það var ekki það, þetta var réttlætt með því að segja að innleggið þeirra kæmi á haustin, kom bara einu sinni á ári, en slorkarlarnir voru með fiskinn sem aðalframfærslu. Það var rígur á milli norðanmanna, þ.e. bændanna, og innanmanna þ.e. sjómanna, norðan og sunnan megin Reykjaneshyrnunnar. En Bjarni Elíasson segir mér að þetta hafi verið svipað á Drangsnesi, að slorkarlarnir voru skör neðar en bændurnir. Mamma fór þarna að skrifa í Moggann. Hún var Sjálfstæðismanneskja, og þeir tóku henni mjög fagnandi hjá Morgunblaðinu, það var hvalreki fyrir þá. Hermann Jónasson var hérna alveg dóminerandi þingmaður og Framsókn með 60 eða 70% atkvæða í sýslunni kjörtímabil eftir kjörtímabil. Og Mogginn tók þetta upp hjá henni og setti í leiðara og svo varð hún fréttaritari, fyrsta konan sem gegndi því starfi, og sendi inn fréttir sem voru ekkert hliðhollar Framsóknarmönnum. Til dæmis var ein frétt að mýsnar hefðu komist í Tímann hjá Sigmundi á Melum en hann var annar sá sem við skiptum við á slátri og fiskmeti og þetta tók Mogginn upp ‚Mýsnar éta Tímann á Ströndum‘. Tíminn var semsé dagblað Framsóknarmanna.“

Hilmar rifjar upp tvær skemmtilegar sögur af orðheppni móður sinnar.
„Þegar foreldrar mínir bjuggu á Eskifirði á árunum 1962-1981, var einhverju sinni haldinn fjölmennur íbúafundur í Félagsheimilinu Valhöll, þar sem Valtýr Guðmundsson, sýslumaður var fundarstjóri. Mamma stóð upp og hafði skoðun fundarefninu en í lokin vék hún að drykkjuskap sýslumannsins sem hér væri nú fundarstjóri. Valtýr hélt áfram fundarstjórn eins og ekkert væri. Einhverjum dögum síðar átti mamma erindi á afgreiðslu sýsluskrifstofunnar. Valtýr kom þá fram og sagði: ,Nú, er Gilitrutt bara komin!‘ Mamma snéri sér að honum og svaraði: ,Sýslumaður, þú þarft ekkert að óttast, Gilitrutt er alltaf góð við aumingja!‘ Svo var það að Hermann Jónasson, fyrrverandi forsætisráðherra, kom á Gjögur þar sem mamma var í heyskap og bauð Hermanni inn svo sem siður var ef gesti bar að garði. Heimilishundurinn sýndi Hermanni áhuga. Hermann spurði þá hvað hann héti. ‚Hann heitir Samogþú,‘ svaraði mamma. Benedikt Benjamínsson, póstur fór síðar með Hermann á hestum frá Djúpavík til Hólmavíkur. Hermann spurði þá Benedikt hvort Regína og Karl á Gjögri kölluðu hundinn sinn Hermann. Bendikt svaraði því neitandi en hundur þeirra héti Samogþú.“
Skóli á veturna, vinna á sumrin
Fór svo að Regína fékk sínu fram varðandi menntun Hilmars og hann fór í skólann á Reykjum í Hrútafirði og sótti síðan um vist í Samvinnuskólanum á Bifröst eins og hann hét þá. Hann náði þó ekki nægilega góðri einkunn í inntökuprófinu í fyrstu atrennu og varð því að bíða í ár og freistaðist til að komast á sjó á meðan.
„Ég hafði löngun til að komast erlendis. Því fór ég á skrifstofu skipadeildar SÍS til að sækja um að komast sem háseti á eitthvert skipa Sambandsins. Var vísað inná inn á skrifstofu Kjartans P. Kjartanssonar sem sá ráðningar á skipin og bar upp erindi mitt. Kjartan leit á mig vorkunnaraugum og sagði að hann hefði hér biðlista sem næði tvisvar sinnum yfir skrifstofuna, sem var ekki lítil. Ég sneri vörn í sókn og spurði hvort þeir væru tilbúnir koma þegar á þyrfti að halda? Þetta virkaði, Kjartan spurði hvort ég væri það. Ég kvað svo vera. Nú þurfti ég að finna vinnu sem ég gæti farið úr fyrirvaralaust. Reyndi nokkrum sinnum án árangurs. Fór svo inn á Kirkjusand þar sem Tryggvi Ófeigsson, útgerðarmaður var þá að byggja stórhýsi og var þá þegar þar með mikinn rekstur. Sambandið keypti síðar húsið og var þar með aðalstöðvar sínar og síðar Íslandsbanki hf. Nú liggur fyrir að rífa húsið vegna myglu. Þegar ég kom þarna voru 20-30 manns að gera að og spyrða fisk í skreið. Spurði um verkstjórann og bað um vinnu. Hann sagði að hann hefði nægan mannskap en sagði svo ,þú getur svo sem talað við yfirmanninn‘ sem var þarna skammt frá og ekki í verkamannafötum. Ég gekk í veg fyrir hann. Þetta var Ólafur Ófeigsson, bróðir Tryggva, fyrrverandi togaraskipstjóri og útgerðarmaður, vissi það ekki þá. Ólafur var myndarmaður og snaggaralegur. Þegar ég bar upp erindi mitt með á fá vinnu var hann fljótur að svara að hér væri nóg af fólki og ég fann að hann hafði ekkert meira við mig að tala. Ég náði þó að spyrja hvort þetta fólk væri vant að vinna í fiski? Hann leit snöggt á mig og spurði hvort ég teldi mig betri? Ég sagðist vera tilbúinn að láta reyna á það. Komdu þá í fyrramálið kl. 8 og svo var hann farinn. Mætti svo morguninn eftir og vann þarna næstu 2-3 mánuði og án þess að Ólafur nefndi nokkru sinni við mig um frammistöðu mína í vinnunni. Fann þó að hann var mér einkar vinsamlegur sem kom m.a. fram í því að einhverjar ferðir fór ég með honum suður í Hafnarfjörð þar sem fyrirtækið Júpiter og Mars ehf. var með aðstöðu fyrir veiðarfæri o.fl. Þá var ég einhverju sinni sendur heim til hans, við Neshaga, til aðstoðar við múrara sem þar var að vinna. Það sem mér þótti þó vænst var að ártugum seinna var Ólafur á sjúkrahúsi þar sem frænka mín hjúkraði honum og þegar hann komst að því að hún væri af Ströndunum spurði hann hvort hún þekkti mig. Þetta þótti mér vænt um. Það var svo mánudaginn 16. nóvember 1959 síðdegis, sem ég var í eina skiptið kallaður í síma þennan tíma sem ég vann inn á Kirkjusandi. Kjartan P. Kjartansson hringdi og sagði að ég gæti fengið pláss á Helgafelli ef ég gæti tekið Araborgina kl. 8 í fyrramálið upp á Akranes. Þetta gekk síðan eftir, var þarna þar til ég fór í Samvinnuskólann næsta haust.“

Á meðan hann var í námi, hélt Hilmar áfram að fara norður á Gjögur í fríum til að létta undir með fjölskyldu sinni.
„Eftir að ég varð 15 ára, þá kom ég á hverju vori til foreldra minna, fékk frí til að fara í grásleppuveiðarnar og sauðburðinn. Þá var ég þreyttastur sem ég man um ævina á þessum tíma. Þetta var bara mitt framlag til fjölskyldunnar að koma á vorin, og taka þátt í þessu með foreldrum mínum. Og síðan var ég að vinna á Austurlandi við byggingarvinnu og línulagnir á sumrin til að borga skólann. Og m.a. var þannig 1958 og þá drapst belja þá pabba og mömmu. Fólkið sem var á Reykjanesi, sem er næsti bær við Gjögur, það var að hætta búskap og var með unga kú sem þau keyptu, en ég borgaði 4000 kr. fyrir hana og það var mitt framlag til fjölskyldunnar, eins og margt annað. Maður kom úr skólanum og var hérna í mánuð, sex vikur, fór svo annað að vinna, og ég tók aldrei krónu fyrir fargjaldið og tók ekkert af því sem kom inn á. Ég held að þetta hafi ekki verið óalgengt á þessum tíma, að krakkarnir ynnu og það var þeirra framlag til heimilisins. Og eins og ég segi, það er lokað fyrir reikninginn hjá pabba og mömmu, ca. 1952, þá er náttúrulega staðan ekki góð, og ég skynjaði það. Einhvern tímann hafði ég átt einhverjar krónur inni hjá Kaupfélaginu, lagði inn gærur og garnir af lömbum sem mér var eignuð og svo var maður að fiska dálítið sjálfur þegar pabbi var ekki heima, á árabát, og var að leggja inn í kaupfélagið og fá nokkrar krónur. Einhvern tímann þegar það var lokað á reikninginn hjá pabba, þá kom Guðfinnur Þórólfsson til mín í barnaskólann með boð frá pabba, hvort það væri ekki lagi að hann tæki út 2 fiskihnífa, flatningshnífa, út á reikninginn minn. Jú, jú, svo gerði hann það. Kaupfélagsstjórinn tók það gilt, enda staðan er orðin erfið, þegar engir peningar voru.“

Thorarensen fjölskyldan flytur frá Gjögri
Þegar Hilmar lauk náminu í Samvinnuskólanum árið 1962 var fólki farið að fækka í Árneshreppi, enda síldarvinnsla að leggjast af. Foreldrar hans fluttu þá austur á Eskifjörð þar sem atvinnumöguleikar voru meiri en Hilmar fylgdi þeim þangað. Þar starfaði hann m.a. við bókhald í fyrirtæki móðurbróður síns þangað til honum bauðst starf í útibúi Landsbankans.
„Ég fór til sjós í 1 ár og var 1963 á Gunnari frá Reyðarfirði, það var 250 tonna bátur, og það var útilega yfir veturinn og síldarveiðar. Svo var siglt um haustið til Þýskalands en þá bauðst mér starf í Landsbankanum og útibússtjórinn sem þar var, Kristinn Júlíusson, einn af þessum topp heiðursmönnum sem maður á samleið með, hann bauð mér vinnu í bankanum.“
Hilmar kynntist eiginkonu sinni, Ingigerði Þorsteinsdóttur leikskólakennara í Reykjavík þar sem hann bjó og starfaði í Landsbankanum 1970-1972 en þá fluttu hjónin austur á Eskifjörð og bjuggu þar í áratug og ólu þar 2 börn, Sissu [Sigurrós] og Karl. Þá var enn á ný flutt suður 1982 þar sem Hilmar tók við stöðu deildarstjóra hjá Landsbankanum Austurbæjarútibúi. Árið 1986 bauðst Hilmari betri staða hjá Alþýðubankanum en um svipað leyti fæddist þriðja barnið, Ingi Hilmar.
29. nóvember 1991 missti Hilmar starfið sitt hjá bankanum eftir að hann var sameinaður þremur öðrum bönkum undir nafninu Íslandsbanki með tilheyrandi mannabreytingum.
„Við heimkomuna var mér ekki trúað af fjölskyldu minni. Tvö eldri börnin voru í menntaskóla og Ingi Hilmar fimm ára. Hann spurði: ,Hvernig gat pabbi misst vinnuna?‘
Hann segir erfiða tíma hafa farið í hönd næstu þrjú árin þar sem hann reyndi að halda fjölskyldu sinni á floti með ýmis konar störfum, m.a. sölumennsku, framtölum, beitningu og iðnaðarstörfum.

Sjósókn á sögufrægum bát
Foreldrar hans áttu þó allan tímann eign sína á Gjögri og þangað fór Hilmar á sumrin til að sækja sjóinn og það hefur hann gert nánast alla tíð.
„Það er, eftir á að hyggja, ánægjulegt að hafa verið á sumrin, 1992, 1993 og 1994 á Gjögri með öldruðum foreldrum mínum, pabbi var þarna sín síðustu sumur en mamma hafði ekki heilsu til að koma sumarið 1994. Þessi atvinnuleysisár reyndu á hjónabandið en það hélt. Þá hefur þetta dýpkað skilning minn á stöðu margra sem standa höllum fæti í lífinu. Þessi sumur stundaði ég handfæraveiðar á Hönnu frá Gjögri.“

Hilmar eignaðist síðar trilluna Hönnu sem Karl átti en báturinn sá á nokkuð merkilega sögu. Hann er vel yfir aldargamall en hefur farið í þó nokkra yfirhalningu í gegnum tíðina.
„Hann er 124 ára að minnsta kosti, því hann var til 1899. Ég er bara þriðji eigandinn að þessum bát en Guðmundur Jónsson og var kenndur við Helgastaði í Reykjavík átti hann fyrst. Síðan skeði það 1958, þá bilar vél í bát Eiríks á Víganesi, og hann bað bróður sinn Einar sem var á vertíð að kaupa fyrir sig góða og ódýra vél. Og Einar fór á stúfana, að kaupa notaða vél, og fann þá Kelvin vél í bát sem var úti í Örfirrisey. Hún var nýleg vélin, og hann kaupir hana, en svo þegar hann ætlaði að fara að taka vélina úr og ganga frá henni til flutnings með Skjaldbreið, þá athugaði hvort hann gæti ekki fengið bátinn líka. Þá var hann bara að grotna niður þarna úti í Örfirrsey. Það var auðsótt, og þannig flutti Einar bátinn með vélinni á Gjögur. Svo þegar báturinn kom hingað og var hífður í sjóinn, þá var skipstjórinn á Skjaldbreið efins um að báturinn myndi fljóta að landi þó hann væri bara 100 metra frá. Pabbi hjálpaði Eiríki á Víganesi sem var að fá vélina. Það þurfti að taka hana úr bátnum og setja í nýja bátinn, og svo ætlaði Eiríkur að borga honum fyrir og þá sagði pabbi ‚ef ég fæ þennan bát er ég ánægður með það‘. Það var auðsótt mál, þar með eignaðist pabbi bátinn, og gerði hann svo upp að talsverðu leyti. Síðan lét ég gera hann upp árið 2011. Þá eru bara efstu borðin númer 2 og 3 sem eru frá upphafi, og efstu 60 sentimetrarnir á afturstefninu, og efstu 20, 30 sentimetrar af 7 böndum. Að öðru leyti er allt nýtt.“

Síðustu strandveiðarnar frá Gjögri
Hilmar var á strandveiðum síðastliðið sumar frá Norðurfirði og segir það hafa gengið ágætlega þrátt fyrir nokkra ótíð og síðan var vertíðin auðvitað afskaplega stutt. Þá séu þetta vertíðarlok sín með útgerð frá Gjögri.
„Ég hef selt meðeigendum mínum minn hluta í Gjögri vegna langvarandi leiðinda. Það var ekki sársaukalaust að yfirgefa eignir mínar á Gjögri og hálfu verra að sambandið við mína nánustu séu nú rústir einar. Hugmyndir mínar um að halda áfram að hlúa að æskustöðvum mínum heyra nú sögunni til. Sjálfsagt er þó hér eins og sagt er: Báðum að kenna þá tveir deila. Það er mér þó huggun að hafa séð um gerð sjóvarna, annarsvegar fyrir neðan Kallahús árið 2009 og hinsvegar árið 2021, sjóvörn neðan við túnið okkar út að Bæjarvogi. Sótti árið 2008 um 87,5% styrk til verksins hjá Siglingastofnun og fylgdi umsókninni a.m.k. árlega eftir þannig að þurftum einungis að greiða 12,5% af kostnaði plús að leggja til húsnæði og fæði þeirra sem unnu verkið. Einnig að hafa lagt mikla vinnu og fjármuni í Karlshöfn með gerð varnargarða, steypa braut og gera smá bryggju. Þessar framkvæmdir voru nauðsynlegar með vaxandi ágangi sjávar sem ég tel að stafi annarsvegar af hækkandi stöðu sjávar og hinsvegar af minni ís fyrir Norðurlandi. Þannig verður svæðið sem aldan gengur yfir meira, sem og dýpið þannig að öldurnar verða stærri og ganga því lengra á land. Áður en þessar sjóvarnir komu höfðu orðið mikil tjón í kjallara Kallahúss og sjávarhúsinu, þó fyrst árið 1992.“

Fall er fararheill
Hanna er nú komin til Reykjavíkur þar sem Hilmar hefur aðstöðu hjá Snarfara, hafnarsvæði Félags sportbátaeigenda, og er ekki alveg hættur á sjónum. Þó miðað við eftirfarandi frásögn er það kannski eitthvað sem ætti að fara að hugsa vandlega um.
„Þann 16. október fór ég á sjó, til að fá mér í soðið og kanna ný mið. Þarna voru þá liðin ca. 70 ár frá því Hönnu var síðast róið til fiskjar frá Reykjavík. Farið var að halla degi þegar ég kom í land. Festi Hönnu og náði í ís út á Granda, ísaði fiskinn og ætlað að gera að honum daginn eftir. Næsta sem ég vissi var að ég var í sjónum, milli báts og bryggju. Það fyrsta sem ég hugsaði um var að ná í símann í brjóstvasa á samfestingi sem ég var í svo ég gæti hringt í 112. Þegar ég hafði náð símanum þá setti ég hann á bryggjuna, fannst að ég ætti að reyna að koma mér upp í bátinn eða upp á bryggjuna. Enginn stigi var í básnum og ég sá ekki stigann sem var í næsta bás. Glímdi í 16 mínútur við að komast upp áður en það tókst. Enginn maður sá til mín en þarna er eftirlitsmyndavél og fékk ég á kubb upptöku sem sýnir basl mitt við að bjarga mér. Daginn eftir fór ég í kyrrðarstund kl. 12. í Dómkirkjunni, sem ég geri stundum. Vildi þakka almættinu fyrir hversu blessunarlega ég bjargaðist. Eftir hressingu í safnaðarheimilinu fékk ég hugboð með að fara út á Heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi og láta tékka á mér. Var hugsi um hvernig þetta gat skeð, að ég dytti í sjóinn og myndi ekki eftir því. Þar var ég skoðaður vandlega af Ásthildi Erlingsdóttur, lækni og m.a. tekið hjartalínurit. Það kom ekki nógu vel út og var mér sagt að fara upp á bráðamóttökuna í Fossvogi. Þar komu margir að því að skoða mig og greina, taka blóðsýni og fleira. Síðast kom Arnar Rafnsson, hjartalæknir og kvað uppúr með það að ég færi á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut. Þangað kom ég, um kl. 23. og var þar næstu fjórar nætur. Niðurstaðan varð sú að Arnar Rafnsson kom á stofuna til mín 18. október, með 6 eða 7 manns með sér, og sagði að ég ætti að fá gangráð. Staðan væri sú á hjartslættinum að ég gæti, fyrirvaralaust misst meðvitund, eins og þegar ég féll í sjóinn. Þannig gæti ég t.d. í akstri verið lífshættulegur öðrum og mér sjálfum. Kl. 7.05 þann 20. október var ég kominn upp á skurðstofu þar sem Hjörtur Oddsson, skurðlæknir sá um að setja í mig gangráð. Skurðaðgerðin tók 38 mínútur. Hjörtur er held ég sá eini sem farið hefur viðurkenningarorðum hvernig ég bjargaði mér af eigin rammleik úr sjónum. Hef einungis fengið bágt fyrir, sérstaklega frá mínum nánustu, mikið dómgreindarleysi með að hringja ekki í 112 og kalla á hjálp. Sagt er að fall sé fararheill. Nú kemur í ljós hvort það verði raunin með útgerð mína á Hönnu héðan frá Reykjavík.“

Myndir úr safni frá Hilmari, eða teknar af mér nema annað sé tekið fram.