Hildur Aradóttir og Ísabella Benediktsdóttir
Raddir unga fólksins
Eins og ég hef gaman að því að spjalla við eldra fólk um viðburðaríka ævi og heyra lýsingar á lífinu á Ströndum í gamla daga, er hollt að breyta stundum til. Því settist ég niður með tveimur ungum og öflugum aðkomukonum sem búsettar eru á Drangsnesi, þeim Hildi Aradóttur og Ísabellu Benediktsdóttur Petersen, til að fá þeirra sýn á þorpslífið.
Hildur og Ísabella eru báðar fæddar árið 1998, Hildur í Reykjavík en Ísabella – Bella – í Kaupmannahöfn. Þær þekktust lítillega áður en svo ótrúlega vildi til að ástin leiddi þær báðar á sama stað á svipuðum tíma. Sambýlismaður Hildar er Baldur Steinn Haraldsson og sambýlismaður Bellu er Friðsteinn Helgi Guðmundsson.
Bella: „Það er skemmtileg saga að segja að við Hildur þekktumst meira að segja áður en við kynntumst mönnunum okkar, sem er fyndið. Við hittumst í partíi vorið 2015, sama ár og við kynnumst Steina og Baldri.“
Hildur: „Já einmitt, hjá sameiginlegri vinkonu og vorum að fylgja hvorri annarri á samfélagsmiðlum.“
Bella: „Svo fer ég með Steina á Menningarnótt, og með vini hans sem ætlar að hitta á stelpu sem hann hafði hitt á Fiskideginum og kynna hana fyrir okkur.“
Hildur: „Og það var ég! Ég var bara ‚nei Bella! Þú hér?‘“
Bella: „Já, og við vorum saman í fyrsta bekk í grunnskóla þó við vissum ekki af hvor annarri, þannig þetta er mjög lítill heimur.“
Hildur: „Þetta var ‚meant to be!‘“
Auðveld ákvörðun
Þær segja að hvorug þeirra hafi vitað af tilvist Drangsness þegar þær kynntust mönnum sínum.
„Ég spurði Baldur hvort það væri nálægt Drangey en það var ekki,“ segir Hildur og hlær.
Aðspurðar segja þær báðar ekki hafi þurft mikið til að sannfæra þær um að flytja á Drangsnes.
Bella: „Við vorum búin að búa í bænum í 2 ár og Steini fer hingað á grásleppu 2017 og mig langaði að koma hingað af því við gátum fengið ódýra leigu og gátum þá farið að búa sjálf. Það var svolítið það sem dró mig hingað. Þannig það þurfti ekkert að sannfæra mig mikið.“
Hildur: Við bjuggum líka saman í bænum en á sumrin komum við hingað, þá var ég að vinna á Malarkaffi og Baldur á sjónum. Ég útskrifast úr menntaskóla vorið 2018 og Baldri er boðið fullt starf hér á Drangsnesi. Við flytjum saman á Drangsnes eftir sumarið en ég var búin að sækja um starf í leikskólanum á Drangsnesi, Krakkaborg. Það mætti því segja að aukin atvinnutækifæri fengu mig til að flytja úr höfuðborginni.“
![Hildur Aradóttir í beitningarskúr að klára að beita einn bala.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/hildur-myndir-2.jpg?resize=640%2C901)
Báðar höfðu þær tilfinningu fyrir lífinu sem beið þeirra eftir styttri dvöl á Drangsnesi áður en til flutninga kom.
Bella: „Við vorum búnar að vera að koma hérna á sumrin og í helgarferðir. Þannig við gerðum okkur allavega einhverjar hugmyndir um hvernig væri að búa hérna og báðar vorum, held ég, frekar jákvæðar fyrir því. Okkur þótti gaman að koma hingað áður en við fluttum.“
Hildur: „Já, það var mjög gaman að koma hingað á Drangsnes. Yndislegt fólk, öðruvísi menning en í Reykjavík og mikil kyrrð. Eins og Bella segir þá gerðum við okkur einhverja hugarlund hvernig er að búa hérna en við Baldur komum hingað á sumrin. Það mætti því segja að ég tók flutningunum hægt og rólega, þetta var ekki eitt stórt stökk þar sem við vissum ekki hvað við vorum að fara út í.“
Nýr veruleiki
Þrátt fyrir það var ýmislegt sem var nýlunda fyrir þeim, enda hvorug með reynslu af því að búa á landsbyggðinni.
„Áður en ég flutti á Drangsnes þekkti ég ekki muninn á þorsk og ýsu, ég var svo mikið borgarbarn,“ segir Hildur, og Bella rifjar upp skondna sögu til að útskýra sinn skilning á sjávarþorpum:
„Ég var að vinna með eldri konu og hún var að spyrja mig um Steina og hvaðan hann væri. Ég sagði að hann væri frá Drangsnesi og að mamma hans og pabbi ættu útgerð. Hún spurði hvernig veiðar þau væru að stunda og ég hafði ekki hugmynd. Ég hélt að þetta væru réttar upplýsingar – ég vissi hvernig báturinn leit út – en ég sagði ,þau eiga frystitogara!‘ Og hún sagði ‚já, það er ekkert skrýtið að þau eigi íbúð í bænum.‘ Mér fannst þetta svo skrýtið komment hjá henni, þetta er ekkert risaskip, hvað meinar hún með því? Ég hafði ekki hugmynd um hvað frystitogari væri. Ég hugsaði bara ‚það er frystihús þarna‘. Þetta lýsir því hversu lítið ég vissi um smábæi og sjávarútveg.“
Þær stöllur hlæja dátt að sjálfum sér og Hildur bætir við: „Maður hefur lært heilan helling. Maður var ‚booksmart‘, en nú er maður ‚street smart‘.“
![Grár köttur í grænu grasi, nokkur hús í bakgrunni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/bella-myndir-1.jpeg?resize=640%2C600)
Klassísk smábæjarmenning
Ég bað þær síðan að segja mér hvernig þær upplifðu menninguna á staðnum með kostum og göllum.
Hildur: „Hér á Drangsnesi er allir-þekkja-alla menning sem mér þykir virkilega skemmtilegt. Þú spjallar alltaf þegar þú hittir einhvern og ert ekki á hraðferð. Það mætti einnig segja að maður græðir á lífinu að búa hérna en þú ert ekki fastur í umferð að fara frá einum stað á annan. Þú þarft ekki að fara úr Skeifunni í Bónus í Árbæ og getur labbað allt.“
Bella: „Þetta er svona klassísk smábæjarmenning. Eins og Hildur nefnir, þá þekkja allir alla. Ætli það sé ekki fyrir mér hvað allir eru í öllu og allir þurfa að vera í öllu. Ef þú vilt að það sé einhver þjónusta til staðar eða viðburðir eða eitthvað að gerast, þá verður þú að láta það gerast. Það er enginn að fara að gera það fyrir þig. Það er mjög ólíkt því að búa í stærri bæjum.“
Um ókostina hafa þær þetta að segja:
Bella: „Kannski akkúrat þetta sama líka. Ef þú vilt að eitthvað gerist, verðurðu að koma því í gang sjálf. Þú þarft að nenna því, þetta er mjög óhentugur staður fyrir fólk sem vill sjálft ekki leggja vinnu í að hlutirnir gerist en vilja samt alltaf að það sé eitthvað í gangi. Þannig þetta er kostur og ókostur. Og svo rokið.“
Hildur: „Aðspurð þá hef ég ekki pælt þannig séð í ókostunum fyrir utan fjarlægðina frá fjölskyldunni. Foreldrar mínir og systkini eru öll staðsett í Reykjavík. Við erum þó dugleg að fara til Reykjavíkur og þau heimsækja okkur á Drangsnes. Einnig er það vegalengdin í hinar ýmsu þjónustur. Þú hleypur til dæmis ekkert til læknis hér, en svo er það kostur því að í bænum kemstu ekkert að til læknis.“
![3 manneskjur standa við snjósleða á fjalli og hundur fyrir framan.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/hildur-myndir-5.jpg?resize=640%2C453)
Innvígslan í þorrablótsnefnd og sveitastjórn
Ég bað þær að rifja upp þá stund sem þeim fannst þær vera teknar inn í samfélagið.
Bella: „Ég held að ég hafi fyrst almennilega farið að upplifa mig sem Drangsnesing þegar að ég var kosin í þorrablótsnefnd, þá fannst mér að ég væri formlega orðin hluti af samfélaginu. Það er stórt og mikið verkefni að vera í nefnd, en líka alveg ótrúlega gaman. Mér finnst þorrablótið segja svo mikið um menninguna sem að hér ríkir, en Drangsnesingar eru mjög metnaðarfullir þegar að kemur að þessum viðburði og leggja mikla vinnu í skipuleggja eftirminnilegt kvöld fyrir gesti. Það sést líka á mætingunni en Drangsnesingar eru skemmtanaglaðir og þorrablótin alltaf gríðarlega vel sótt. Iðulega er uppselt á þau og yfirleitt komast færri að en vilja.“
Hildur: „Mér hefur alltaf fundist ég vera partur af samfélaginu hér á Drangsnesi. Ef ég þyrfti að nefna einhverja ákveðna minningu væri það líklegast sveitarstjórnarkosningar 2022. Þá var ég kosin í sveitarstjórn Kaldrananeshrepps og varð virkilega meir og stolt af þeim afrekum. Í hreppnum eru óbundnar kosningar og er enginn framboðslisti í kjöri, heldur allir íbúar í sveitarfélaginu.“
![Fólk krækir saman örmum og syngur á þorrablóti.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/12593498_10205871187440201_4493102575205031121_o.jpg?resize=640%2C427)
Ekki bara náttúrubörn úti á landi
Sumum gæti kannski fundist að klárar, ungar konur samræmist ekki alveg staðalímyndinni um ‚landsbyggðarlýðinn‘. En þarf að vera ákveðin manngerð til að geta búið á svona litlum stað?
Bella sem hefur búið á mun stærri stöðum segir svo ekki vera, heldur snúist það fremur um sameiginleg gildi.
Bella: „Eins og ég sagði, ég er fædd í Köben, alin upp að hluta til í Reykjavík, og að hluta til í Sviss, bæði í Bern og Zürich. Ég er oft að grínast með það að Reykjavík var minnsti bærinn sem ég hef búið í, þar til ég flutti hingað. Þetta er bara eins og svart og hvítt. Staðalímyndin finnst mér oft sú að fólk sem að flytur úr borginni út á land þurfi að vera náttúruunnendur eða listaspírur til þess að kunna að meta lífið út á landi, en það er alls ekki mín upplifun. Og ég ekkert náttúrubarn, ekki neitt. Mér finnst náttúran falleg en ég er ekki mikið í útivist. Drangsnes er að mínu mati frekar hefðbundið sjávarþorp og fólkið í takt við það.“
Hildur: „Ég hef alltaf dáðst að náttúrunni en þegar ég bjó í Reykjavík gaf ég mér ekki tíma til þess að njóta hennar. Náttúran hér bíður upp á svo marga möguleika og mikið hægt að gera. Til dæmis er hægt að fara í heitu pottana í fjörunni og fara í margskonar göngutúra eins og að labba upp Bæjarfell eða að Malarhorni. Andrúmsloftið hér er svo hreint en þegar ég kem í bæinn tek ég eftir því að það er svo mikið svifryk. Maður er orðinn svo góðu vanur hérna á Drangsnesi.“
Bella: „Ég held að það sé pláss fyrir alls konar fólk. Eins og við vorum að grínast með áðan, þá geturðu verið útivistartýpa og fílað þig hérna en svo er ég alls ekki þar og fíla mig samt hérna. En ég held að þú verðir bara að gera þér grein fyrir því að hlutirnir virka öðru vísi hérna. Ég held þú verðir að vera manneskja sem finnur verðmætið í því að búa í litlu samfélagi, annars held ég að þetta sé alveg vonlaust. En hvort sem þú ert einhver listræn týpa eða ekki, það skiptir ekki máli. Hobbý skipta minna máli en að hafa svipuð gildi og fólkið hérna, held ég að sé mikill kostur ef maður ætlar að búa hérna úti á landi.“
Hildur: „Algjörlega, og hafa opinn hugsunarhátt. Til dæmis, ef ég elskaði golf eða mótorkross, þá gæti ég stofnað félag tileinkað mótorkross. Fólk sem býr út á landi er meira tilbúið til þess að prófa margskonar námskeið. Maður skellir sér ef einhver kemur með eitthvað, þótt maður myndi aldrei gera það í bænum.“
![Full skál af aðalbláberjum í berjamó.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/bella-myndir-6.jpeg?resize=640%2C494)
Samheldni og núvitund
Hvað finnst þeim þær helst hafa lært af fólkinu á Drangsnesi?
Bella: „Það má svo sannarlega læra ýmislegt af Drangsnesingum og eru þeir til fyrirmyndar á mörgum sviðum. Það sem að mér finnst svo einkennandi við Drangsnes er samheldnin sem að hér ríkir og væntumþykjan í garð þorpsins. Hérna lætur fólk sig málin varða, ef að þarf að gera eitthvað ræðst fólk í verkið og eru Drangsnesingar yfirhöfuð frekar lausnamiðað fólk. Það eru eiginleikar eins og þessir sem að gera Drangsnes að því frábæra samfélagi sem að það er.“
Hildur: „ Eftir að ég flutti á Drangsnes hefur mitt lífsins ,,mottó“ verið – Þetta reddast! og á það vel við íbúa hreppsins. Hér á Drangsnesi er ávallt hægt að treysta á að fá aðstoð hvaðan sem þú leitar. Að auki finnst mér ég hafa lært að lifa í núinu og njóta lífsins. Maður þarf ekki alltaf að vera á hraðferð og eyða tíma í óþarfa stress. Að njóta stundarinnar er svo gífurlega mikilvægt, fara í göngutúra, heitu pottanna við fjöruna eða í heimsókn til góðra vina.“
Margvísleg verkefni fyrir hreppinn
Bella og Hildur eru virkir þátttakendur í samfélaginu á Drangsnesi og láta sig málin varða en þær voru báðar kosnar í hreppsnefnd Kaldrananeshrepps í sveitastjórnarkosningunum 2022.
Bella: „Ég held að við báðar séum dálítið metnaðarfullar og erum einmitt þar, að vilja leggja vinnuna í að láta hlutina gerast og höfum gaman af því líka. Ég lít alltaf á það þannig, ég tek þátt í samfélaginu og hef áhuga á því.“
Hildur: „Fólk tekur eftir drífandi manneskjum. Ætli það sé ekki þess vegna sem maður hafi verið kosinn, fólk sér tækifærin og möguleikana. Það kom mér skemmtilega á óvart að vera kostin í sveitarstjórn og mikill heiður. Sérstaklega þegar þú ert aðkomumaður, flytur hingað og fólk vill kjósa þig. Það er mikill heiður og virkilega gaman þegar tvær ungar konur fara í sveitastjórn, 24 ára gamlar. Maður er stoltur af því.“
Þær segja að verkum í sveitastjórninni sé yfirleitt skipt eftir hentisemi, en Hildur sé þó í hlutverki ritara. En eru einhver mál sem þær hafa meiri áhuga á en öðrum?
Hildur: „Nei, þau eru öll jafn mikilvæg. Þetta eru oft byggingarmál, félagsmál, fasteignir og almenn mál sveitafélaga. Oft berast beiðnir frá íbúum og styrktarumsóknir.“
Bella: „Ég hef verið að vinna svolítið með skóla-og fræðslumál. Svo fékk ég líka það verkefni að taka þátt í að skipuleggja ungmennaþing á Vestfjarðarvísu, það þótti mér hvað skemmtilegast.“
Er eitthvað í þessum hreppsnefndarstörfum sem þeim finnst meira krefjandi en annað?
Hildur: „Mér finnst þetta allt mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Það væru þá byggingarmálin, líklega af því ég þekki minnst til í því en það eru engin leiðinleg mál. Maður er að læra og er með yndislegu fólki í stjórn.“
Bella: „Ég held það sé bara að við búum í mjög litlum bæ og það þarf að gæta þess að vera hlutlaus, að horfa ekki bara á málin frá sínu eigin sjónarhorni heldur líka annarra.“
Hildur: „Einmitt, koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.“
Bella: „Já, ég ætla ekki að segja að það sé erfitt en það er eitthvað sem maður þarf að hugsa um og vanda. Maður finnur fyrir ábyrgð að gera það.“
Auk þess að vera í sveitastjórninni, sinna þær einnig öðrum störfum. Hildur er þjónustu-og launafulltrúi á skrifstofu Kaldrananeshrepps og líkar starfið vel.
„Maður lærir helling á því að starfa á skrifstofu hreppsins, yndislegt fólk sem býr hérna á Drangsnesi sem gerir starfið svo skemmtilegt. Verkefnin eru fjölbreytt og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt,“ segir hin ofur jákvæða Hildur.
![Hundurinn Stormur Border Collie liggur í grasinu með Grímsey á Steingrímsfirði í bakgrunni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/hildur-myndir-1.jpg?resize=640%2C476)
Gagnsemi viðskiptafræði
Hún lenti í alvarlegu vélsleðaslysi árið 2020 og er enn að glíma við afleiðingar þess og fannst því hálft starf á hreppsskrifstofunni henta sér vel en hún hefur einnig í hyggju að taka við bókhaldsmálum hreppsins, enda er hún lærður viðskiptafræðingur.
Bella leggur einnig stund á viðskiptafræði í fjarnámi um þessar mundir, til viðbótar við að vera í hreppsnefnd og forstöðukona sundlaugarinnar á Drangsnesi.
Ávallt samtaka, segja þær báðar að viðskiptafræðin geti opnað ýmsar dyr og hafi gagnast í störfum fyrir hreppinn, þó það hafi ekki verið takmarkið hjá þeim.
Bella: „Ég valdi [viðskiptafræðina] svosem ekki út af þessu, ég var búin að ákveða að hefja nám í viðskiptafræði áður en við vorum kosnar í sveitastjórn en það hefur samt verið gagnlegt á margan hátt. Ætli það sé ekki aðallega að maður lærir alls konar um bókhald og ársreikninga og lærir að lesa það, það hefur gagnast mikið í hreppsnefndarstörfum.“
Hildur: „90% af vergri landsframleiðslu eru kaup á sölu og þjónustu, þess vegna fara margir í viðskiptafræðina. Valmöguleikarnir eru svo margir og er mjög góður grunnur ef þú ætlar í bókhaldsnám seinna, endurskoðandann eða sölu almennt. Viðskiptafræðin hjálpar þér út á markaðinn og þú ert ekki alveg að byrja á botninum.“
Bella: „Já viðskiptafræði er mjög almennt fag. En ég hefði ekki endilega farið í viðskiptafræði ef það hefði boðist annað val. Ég fór suður árið 2021 til að fara í stærðfræði í HÍ og líkaði námið vel, og hefði gjarnan viljað halda því áfram en svo vildi ég gjarnan koma hingað aftur og það er ekki í boði í fjarnámi þannig ég þurfti þá að skipta. En já ég hef alltaf haft áhuga á viðskiptatengdum greinum og var með fjármál sem kjörsvið í stærðfræðinni en það var ekki planið að fara í viðskiptafræðina sjálfa. En möguleikar í fjarnámi eru bara takmarkaðir. Það er staðreyndin og þetta er það nám sem mér fannst henta mér hvað best af því sem var í boði en ég hefði mögulega valið eitthvað annað ef það hefði verið fjölbreyttara úrval í fjarnámi. Draumurinn hefði verið að fara í endurskoðun. Ég hef verið ósátt við að það sé ekki í boði í fjarnámi. En ég er samt mjög ánægð að hafa farið í þetta og lít á þetta sem góðan grunn fyrir frekari sérhæfingu. Það eru alls konar möguleikar þar í boði. Nú búum við hérna á Vestfjörðum og það er ekkert augljóst að það séu mörg störf fyrir viðskiptafræðinga hér en ég hef trú á því að það verði mikil aukning á fjarvinnu og vonandi hérna líka á Vestfjörðum og meiri markaður fyrir viðskiptafræðinga til að sinna vinnu hér.“
![Baldur Steinn Haraldsson og Hildur Aradóttir spariklædd á sólríkum degi. Hildur heldur á útskriftarskírteini frá Háskólanum á Akureyri.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/hildur-myndir-6.jpg?resize=640%2C591)
Samheldinn hópur
Einhverjar rannsóknir eru til þess efnis að ungar og vel menntaðar konur kjósi fremur að búa í borgum en smábæjum eða dreifbýli en það á ekki við Bellu og Hildi. Raunar er merkilegur fjöldi fólks á þeirra aldursbili búsettur á Drangsnesi, svo ekki skortir þær félagsskap jafnaldra.
Bella: „Við Steini mættum hérna fyrst en við þekktumst öll áður en við fluttum hingað. Þá voru þeir nokkuð margir strákar sem eru á svipuðum aldri sem þekktust allir, og við höfðum öll kynnst innbyrðis. Við vissum ekki alveg í hvað stefndi þegar við fluttum um sumarið, en strax um haustið koma tveir strákar og það kom einhvers konar bylgju af stað. [Hildur og Baldur komu] sumri seinna, og svo komu fleiri og fleiri. Þannig ég fann aldrei fyrir einangrun eða einmanaleika. Maður er kannski bara meira með sama fólkinu en það er líka allt í lagi. Mér finnst félagslífið hérna nokkuð sterkt, og við komum aftur á þennan punkt: maður þarf svolítið að skipuleggja hlutina sjálfur og koma þeim af stað en ef maður gerir það, þá er alveg grundvöllur fyrir að eiga gott félagslíf.“
Hildur: „Við erum nefnilega mörg á okkar aldri, við erum 14 manns.“
Bella: „Já, meðalaldurinn myndi hækka ef við færum öll.“
Þær segja að vinahópurinn sé duglegur að hittast og skipuleggja samverustundir, t.d. á sumrin og á hátíðisdögum, og auðvitað eru pottarnir alltaf vinsæll samkomustaður sem jafngildir ‚hverfispöbb‘ að sögn Bellu.
![Sykurpúðar á varðeldi.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/bella-myndir-4.jpeg?resize=640%2C641)
Tilviljun eða forlög?
Mér finnst svo merkilegt að tvær metnaðarfullar og drífandi konur á sama aldri skuli lenda fyrir tilviljun (eða ekki tilviljun?) á sama stað, á sama hátt, á sama tíma að ég fékk þær til að tala aðeins meira um það.
Bella: „Ég held að það hafi munað miklu að við höfum svona mörg sest að hérna á svipuðum tíma. Ég er ekki viss um að við hefðum haldið áfram að búa hérna eftir fyrsta veturinn ef að svo hefði ekki verið. Ég og Hildur höfum verið samferða í mörgu, höfum t.d. þó nokkuð oft unnið á sama vinnustað, sinnt ýmsum verkefnum saman og erum almennt með svipað áhugasvið. Það hefur verið mikill kostur að hafa einhvern með sér í þessu öllu saman!“
Hildur: „Það er mikilvægt í smábæjum að félagslíf sé til staðar. Að fólk komi sér saman og geri eitthvað skemmtilegt því ekki getum við farið í bíó eða í ísrúnt eins og tíðkast fyrir sunnan. Ég er virkilega þakklát fyrir þá yndislegu vini sem við eigum hér að en það halda margir að lítið sé að gerast á Drangsnesi sem er alls ekki svo.““
Margvísleg tækifæri
En hvað skyldi draga allt þetta unga fólk norður á Drangsnes? Ég velti því upp hvort það væri nokkuð annað en viðráðanlegra húsnæðisverð sem þær segja að geti verið hluti ástæðunnar en ekki endilega öll skýringin.
Bella: „Ja, ég bara tala fyrir mig, ég er sátt hér. Ég geri ekki ráð fyrir að fólk sé að flytja hingað nema af því það vilji búa hérna. Erum við ekki öll með mismunandi viðhorf um hvað við þurfum? Sumir eru hérna bara til að fá ódýrt húsnæði og það er allt í lagi. Og alls konar annað. Getur til dæmis verið atvinna, leit að streituminni lífstíl eða að þér finnst kostur að tilheyra litlu samfélagi og öllu því sem að fylgir því.“
Hildur: „Baldri bauðst starf á sjó svo við komum út af atvinnutækifæri. Alls konar ástæður.“
![Bátur leggst að bryggju á Drangsnesi. Baldur Steinn stendur á dekkinu og hundurinn Stormur bíður á bryggjunni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/hildur-myndir-7.jpg?resize=640%2C737)
Alltaf nóg að gera
Eins og ætti að vera orðið ljóst, eiga Bella og Hildur það sameiginlegt að vera afskaplega framtakssamar og ofan á allt annað sinna þær margvíslegum félags-og nefndarstörfum.
Bella: „Ég er virk í félagsstörfum og er formaður kvenfélagsins og er búin að vera í að verða ár og búin að vera í kvenfélaginu síðan 2019. Svo eru alls konar íþróttafélög, og björgunarsveitin sem er kannski ekki félagsstarf.“
Hildur: „Ég hef verið mjög dugleg að taka þátt í nefndarstörfum á vegum sveitafélagsins. Við erum báðar í Neistanum og ég er í stjórn Héraðssambands Strandamanna. Einnig er ég framkvæmdastjóri og í stjórn Laugarhóls ehf. Maður vill taka virkan þátt í félagsstörfum sveitarfélagsins eins og að selja flugelda fyrir björgunarsveitina og vera með í dósatalningu.“
Þannig þeim leiðist ekkert á Drangsnesi?
Hildur: „Nei, alls ekki.“
Bella: „Það er nóg að gera. Ég held það sé frekar öfugt.“
Hildur: „Það eru fleiri tækifæri finnst mér, til þess að taka þátt.“
Auðvelt að sinna áhugamálum
Aðspurðar segja þær að áhugamál sín líði ekkert sérstaklega fyrir staðsetninguna eða smæð samfélagsins en Bella mikill ástríðukokkur- og bakari en Hildur er dugleg í líkamsræktinni.
Bella: „Mitt áhugamál hefur alltaf verið að elda og baka og það er vel gerlegt hérna, breytir ekki hvort ég sé í eldhúsinu hérna eða annars staðar. Ætli það sé ekki mitt aðaláhugamál.“
Hildur: „Já það er ótrúlega gaman að elda og eins og ég sagði áðan, þá ertu ekki fastur í umferð, þú ert ekki alltaf að drífa þig og hefur mikinn tíma til þess að elda og þá frá grunni. Annars þykir mér gaman að fara í ræktina, út í göngutúra og að sinna handavinnu.“
Bella: „Ég hef alltaf verið mjög mikil félagsvera og mér finnst það eiginlega betra hérna af því eins og við vorum að ræða áðan, maður hefur miklu greiðari aðgang að taka þátt í alls konar félagsstörfum, eins og með Bryggjuhátíðina, við bara buðum okkur fram. Það er kannski ekki alveg eins og hlutirnir fara fram í stærri bæjarfélögum. Þetta finnst mér dæmi um einhvers konar áhugamál sem maður þarf að aðlaga að aðstæðum hérna en gengur betur upp á Drangsnesi.“
Hildur: „Einmitt, aukin tækifæri. Ef maður ætlaði að halda einhverja hátíð í Reykjavík, er ég ekki viss um að það myndi ganga upp.“
Bella: „Ég er ekki viss um að það yrði svipað ferli og hérna.“
Hildur: „Hér á Drangsnesi eru allir af vilja gerðir, maður getur alltaf stólað á að fá aðstoð. Það eru allir tilbúnir að hjálpa þér og náungakærleikurinn er mikill. Mér finnst það, það góða við að búa hér.“
![Kökuhlaðborð kvenfélagsins á 17. júní.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/bella-myndir-3.jpeg?resize=640%2C564)
Bryggjuhátíðin snýr aftur
Talandi um Bryggjuhátíðina, hún verður einmitt vakin úr nokkurra ára dvala nú í sumar en Bella og Hildur eru skipuleggjendur ásamt Sigurbjörgu Halldóru Halldórsdóttur.
Bella: „Við erum allar mjög spenntar og finnum að það er spenna fyrir þessu. Fólki er farið að langa svolítið í Bryggjuhátíð aftur.“
Hildur: „Við erum bjartsýnar á að þetta verður frábær hátíð. Maður er stoltur af þessu verkefni og þakklátur fyrir að sitja í stjórn með Bellu og Sigurbjörgu. Að plana þessa hátíð er virkilega gaman.“
Bella: „Við erum kannski ekki að gefa allt upp núna en við getum sagt að við algjörlega trúum að það eigi að halda fast í hefðir og [hátíðin] verður að stóru leyti með hefðbundnu sniði en að sjálfsögðu verða einhverjar breytingar og kannski okkar tvist á þetta.“
![Séð frá hjallanum fyrir ofan Burstafell yfir að frystihúsinu og bryggjunni þar sem fólk fjölmennir á sjávarréttasmakk á Bryggjuhátíð.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/20280519_10210091043613968_4030150637412293334_o.jpg?resize=640%2C404)
Uppbygging óskastaða
Greinilegt er að þær stöllur finna sér alltaf eitthvað til að hafa fyrir stafni. Þær sjá ekki fyrir sér að fara neitt í burtu á næstunni og eru bjartsýnar á framtíðina á Drangsnesi, þó þær séu líka raunsæjar.
Bella: „Við Steini erum allavega ekkert á förum, við erum mjög ánægð hérna. Ég get ekki sagt til um hvernig þetta verður eftir 10, 20, 30 ár en eins og staðan er í dag, þá viljum við gjarnan vera áfram. Ég held það væri alltaf mjög erfitt að taka þá ákvörðun að fara og það væri ákvörðun sem ég myndi ekki vilja taka nema það væri virkilega ekkert annað í stöðunni. Ég vonast til að sjá Drangsnes blómstra. Ég væri til í að sjá, eins og við vorum að ræða, uppbyggingu eiga sér stað. Að það væri meira húsnæði og það væri hægt að stækka Drangsnes aðeins og líka að það væri hægt að hafa áfram alla þjónustu sem er í dag. Ég vonast til þess að það verði ennþá hægt að hafa grunnskóla, að það verði fleiri barnafjölskyldur og ég vona að fólk vilji halda áfram útgerð. Það er mín tilfinning að fólk sé ennþá tilbúið til að halda Drangsnesi gangandi.“
Hildur „Já algjörlega, ég er sammála. Hreppurinn var að fá umsögn frá Innviðaráðuneytinu en það er verið að þrýsta á þessi litlu sveitafélög sem ekki hafa náð 1000 manna markmiðinu að sameinast við annað eða önnur sveitarfélög. Það eru 116 íbúar í hreppnum svo við uppfyllum ekki markmið ráðuneytisins. Í lok nóvember síðast liðinn var haldinn íbúafundur í Kaldrananeshreppi en þar kom í ljós að ekki er vilji til þess að hefja formlegar sameiningarviðræður svo við krossum fingur, hversu lengi við náum að vera sérstæð sem Kaldrananeshreppur. En okkur Baldri langar til þess að stækka við okkur, það er mjög lítið af húsnæði til sölu á Drangsnesi sem ég skil vel. Fólk vill ekkert selja þar sem yndislegt er að vera. Við eigum saman lítið hús á Vitavegi sem við byggðum sjálf og erum mjög stolt af því.“
![Loftmynd af efri byggðum Drangsness á kuldalegum haustdegi.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/387111171_10225016371257831_2548832779773897309_n.jpg?resize=640%2C360)
Sameining ekki spennandi
Fyrst sameining sveitafélaga var nefnd, bað ég um álit á því máli.
Bella: „Fólk er auðvitað með skiptar skoðanir á sameiningarmálum, en eins og Hildur kom inn á var hér haldin íbúafundur og almennt er fólk frekar á því að vilja áfram halda í sjálfstæði Kaldrananeshrepps, ég þar á meðal. Þrátt fyrir fámenni hefur sveitarfélagið hingað til getað sinnt þörfum hreppsbúa ágætlega og hef ég trú á því að þannig geti það haldið áfram. Við sem búum hérna viljum auðvitað fá að hafa áhrif á hvað gerist í þessu samfélagi og held ég að það séu margir sem að hafi áhyggjur af því að raddir íbúa fái ekki lengur að heyrast ef verður sameinað.“
Hildur: „Ég er á sama máli og vil að sveitarfélagið Kaldrananeshreppur haldi sinni sérstöðu. Við eigum í hættu á að verða minnihluti ef við myndum sameinast öðru stærra sveitarfélagi og í kjölfarið hljóta minni atkvæðisrétt í ákvarðanatöku. Líkt og Bella nefnir þá hefur hreppurinn getað sinnt þörfum íbúa og tel ég að það muni ekki breytast þótt við færum í sameiningar.“
Húsnæði og malbik
Ég lagði síðan fyrir þær eftirfarandi spurningu: Ef peningar væru ekki fyrirstaða, hverju mynduð þið vilja breyta hérna?
Bella: „Það mætti náttúrulega byggja og það þarf að byggja. Það er viðvarandi húsnæðisskortur hérna eins og svosem í flestum litlum bæjum úti á landi. Það er svona það fyrsta sem mér dettur í hug. Þá gæti bærinn stækkað, en mér finnst samt að þessir kostir sem Drangsnes hefur, að draumurinn væri heldur ekki að þetta yrði eitthvað risabæjarfélag. En það er alltaf pláss fyrir…“
Hildur: „Nokkra.“
Bella: „Já, nokkra.“
Hildur: „Ég er alveg sammála, maður vill ekki að það séu alltof margir, þá er Drangsnes búið að missa sérstöðuna sem lítið sjávarþorp en jú, það þarf að byggja. Maður vill fá fleiri, því fleiri því betra. Annars eru það litlir hlutir, til dæmis væri ég til í að sjá annan leikvöll hérna ofar á Drangsnesi. Malbika…“
Bella: „Við erum svo raunsæjar. Já, við værum til í að sjá að það væri malbikað.“
Hildur: „Einnig væri ég til í að sjá fleiri hátíðir eins og Bryggjuhátíðin sem verður núna í sumar, það er klárlega eitthvað sem mætti auka. Viðburðir sem fær alla til að koma saman, til dæmis fjölskyldufólk sem er ekki héðan.“
Bella: „Ef peningar væru ekki fyrirstaða, væri ég til í að sjá að það væri fjárfest í einhverju sem myndi skapa aðeins meiri fjölbreytni í atvinnulífinu. Það hefur verið rætt í bænum að við gætum verið með flott baðlón hérna eins og eru annars staðar á landinu, það myndi skapa fullt af störfum og myndi auka ferðamannastrauminn hingað á Strandir, ekki það, það er hellingur af ferðamönnum sem vill koma hingað. En eitthvað sambærilegt kannski.“
Hildur: „Vestfirðir eru orðnir mjög vinsælir núna, fólk fór alltaf hringinn en nú er verið að tala um Vestfirði. Það er alltaf að aukast ferðamaðurinn hérna. Mér finnst það frábært, það skapar meiri tekjur í sveitafélagið. Ég er alveg sammála Bellu, meiri atvinnutækifæri.“
![Loftmynd af Drangsnesi og Malarhorni.](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2024/05/DJI_0193.jpg?resize=640%2C360)
Að lokum
Að síðustu bað ég um einhver lokaorð frá Hildi og Bellu:
Hildur: „Þegar ég hugsa um Drangsnes hugsa ég til þess hve allt er friðsælt og lífið ljúft. Það eru forréttindi að fá að búa í litlu sjávarþorpi í þessum sístækkandi heimi, þar sem maður fær að njóta sín í kyrrð í sveitarsælunni. Drangsnes er yndislegur staður með yndislegu fólki þar sem náungakærleikurinn er mikill. Ég er virkilega þakklát fyrir tímann minn og lífinu sem ég hef skapað hér á Drangsnesi.“
Bella: „Drangsnes og Kaldrananeshreppur eru í mínum huga alveg einstakt samfélag sem að á sér engan líkann, en hér hef ég algjörlega fundið mig og fengið að blómstra. Ég vil bara þakka Drangsnesingum og öðrum hreppsbúum fyrir að taka mér svona vel, mér þykir vænt um það. Annars vil ég bara minna á Bryggjuhátíð í sumar og vonumst við til þess að sjá sem allra flesta!“
Myndir frá Hildi og Ísabellu, ásamt nokkrum í fyllingarefni frá mér.