Samfélag sem gekk upp
Á Hafnarhólmi á Selströnd, innan við Drangsnes, er lítið hús fyrir ofan veginn og eins og flestir heimamenn vita, bjó þar stór fjölskylda; þau Ingimundur Loftsson og kona hans Ragna Kristín Árnadóttir ásamt 10 börnum. Hanna Ingimundardóttir er eitt þessara barna og ég fékk hana til að hitta mig á ættaróðalinu á Hafnarhólmi og segja mér frá æsku sinni.
Þegar ég hitti Hönnu var hún nýlega komin úr göngu um hlíðar Mont Blanc og ég byrjaði á spyrja út í það ævintýri sem hún segir að Hafdís systir sín hafi dregið sig í.
„Við gengum upp í 2600 metra hæð. 6 daga ganga með bakpoka en yfirleitt sofið á hótelum eða í skálum. Ég held að við höfum lengst labbað 21 kílómetra á einum degi og mest upp í móti. Þetta var rosalega gaman en þetta var mjög krefjandi. Haddý systir bjargaði mér með því að létta pokann minn, á þriðja degi í 2190 metrum var ég alveg gjörsamlega búin á því.“
Hanna segist ekki hafa verið mikil göngukona fyrr en í Covid.
„Ég hef alltaf hreyft mig en þegar Covidið kom, þá byrjaði ég að einhverju marki að ganga, bara fyrir sjálfa mig, bara Þorbjörn og Helgafell. Aldrei farið á Esjuna fyrr en núna á æfingu fyrir þessa göngu, 9 sinnum á Esjuna. Þar af 2 ferðir sama dag 8,3 kíló á bakinu, því við þurftum að labba því sem nam 2 Esjum á dag úti.“
Slegist um ljósmóðurina
Hanna er fimmta barn bóndahjónanna Ingimundar Loftssonar og Rögnu Kristínar Árnadóttur, Stínu, en þau áttu alls 10 börn, Guðrúnu, Hermann, Árna, Guðbrand, Svan, Loft, Hönnu, Hafdísi, Erling og Gunnar, og að auki átti Ingimundur soninn Sigurð fyrir. Hanna er fædd 8. nóvember 1955 á Drangsnesi en alin upp á Hafnarhólmi til 13 ára aldurs þegar fjölskyldan flutti á Drangsnes. Hanna segir skondna sögu af fæðingu sinni.
„Mamma fór í Bræðraborg til Ingu [Einarsdóttur] og Gauja [Guðjóns Benediktssonar] til þess að eiga mig. Ég veit ekki af hverju það var en ljósmóðirin Ingibjörg [Kristmundsdóttir] bjó í íbúðinni á móti. Pabbi þinn [Guðmundur R. Guðmundsson] er fæddur 10 mínútum á eftir mér. Ég er fædd 5 mínútum fyrir 12, og hann 5 mínútum eftir 12 heima hjá Skúla og Diddu [Kristbjörgu Guðmundsdóttur]. Skúli kom hlaupandi yfir til Ingu og spurði hana hvort mamma gæti ekki beðið og þá kallaði mamma til hans ‚Skúli minn, ég skal bara vera búin fyrir 12, þá geturðu fengið ljósmóðurina.‘ og það passaði.“
Kakó og kex í Vestanrokinu
Hanna segir föður sinn hafa keypt húsið á Hafnarhólmi af Jóni Konráðssyni sem byggði það, en þá bjuggu 3 fjölskyldur í húsinu, þ.m.t. í kjallara hússins, svo það var nokkuð þröngt á þingi.
„Þetta eru 48 fermetrar hérna. Við sváfum 4 í litla herberginu hérna inni í horninu. Gunna systir átti þetta herbergi en svo þegar hún fór að heiman, þá fengum við það. Við Haddý sváfum alltaf saman í rúmi, ef það var heitt þá svaf önnur hvor okkar til fóta en ef það var kalt sváfum við báðar réttu megin. Loftur svaf á bak við hurðina og Svansi í endann. Við þekktum ekkert annað en þetta væri ekki boðlegt í dag. Alltaf þegar gerði vestanrok – það getur verið allsvakalegt vestanrok hérna – og húsið var mikð verra þá, þá var okkur safnað öllum saman og við sváfum öll í herberginu sem er eldhúsið í dag, á meðan rokið gekk yfir og þá fengum við alltaf kakó á kvöldin – ef það var að kvöldi til – og ef það var til kex, fengum við kex. En það var ekki oft sem var til kex á Hafnarhólmi, það var yfirleitt bara heimabakað brauð. Mamma bakaði einu sinni í viku. Á þriðjudögum var bakstur, á miðvikudögum var þvottur. Það var heill dagur sem fór í þvott ef það var þannig veður en það gat dregist eftir því hvort það var veður. Svona gekk þetta fyrir sig. Á laugardögum var alltaf skúrað út.“
En hvernig var að vera með svona stóra fjölskyldu í svona litlu rými, t.d. ef upp kom ósætti á milli systkina?
„Það var bara skellt hurðum eða hlaupið út í hlöðu, það var ekkert hægt annað. Eða niður í kjallara, strákarnir fóru yfirleitt niður í kjallara og voru að fikta í miðstöðinni, Loftur bróðir var alltaf svartur upp fyrir haus því hann var alltaf að fikta í miðstöðinni. En það var allt í lagi, við gerðum aldrei neitt alvarlegt af okkur.”
Viðburðarrík æska
Hanna segir að sér hafi liðið best utandyra, sérstaklega í fjárhúsunum og auðvitað byrjaði hún ung að sinna bústörfum eins og siður var í sveitum.
„Ég vildi helst aldrei vera hérna inni, ég vildi helst vera í fjárhúsunum. Það var alltaf hægt að treysta á það þegar það var sauðburður að ég var vöknuð klukkan 4, 5 að gá hvort það væri komið lamb. Við þurftum að gera ýmsa hluti, við þurftum t.d. að bera vatn í fjárhúsin í fötum. Það voru alltaf 2 um hverja fötu og stundum voru rollurnar búnar að drekka úr dallinum þegar við komum aftur til baka með næstu fötu. Það þurfti stundum margar ferðir, því það var ekki verið að leiða vatn í fjárhúsin eins og núna, það er bara skrúfað frá krana. Það þurfti líka að gefa, og ef það voru lömb þurfti að koma þeim á réttan stað í stíur, bara svona sveitastörf. Á sumrin þurfti að rifja. Það var búin til hrífa sem passaði fyrir mann. Ég man eftir mér svona 5 ára að rifja stóru sléttuna úti í dal. Við löbbuðum í röð, pabbi fyrstur, svo krakkarnir og mamma síðust til þess að enginn myndi hægja á sér. Pabbi fékk ekki traktor fyrr en 1960 og þá var hann alltaf að vinna fyrir einhverja aðra en sjálfan sig. Hann mætti alltaf sjálfur afgangi. Hann var alltaf beðinn um að koma að slá fyrir þennan eða hinn. Það voru fáir með traktora. Eftir að við fluttum á Drangsnes og pabbi var að vinna í frystihúsinu, fórum við eftir skóla að gefa kindunum inni á Hafnarhólmi, þ.e.a.s. ef pabbi komst ekki sjálfur.“
Hanna segir æsku sína hafa verið góða við leik og störf, og rifjar upp bæði góðar minningar og nokkur óhöpp.
„Hérna upp frá vorum við alltaf með bú, við stelpurnar og strákarnir líka. Inni á Dýjabarði – sem heitir svo því hefur aldrei verið ræst fram, það er er bara blautt – þar vorum við á hverju einasta sumri að búa til vegi. Strákarnir smíðuðu bíla og það var heilt vegakerfi þarna. Það var sóttur sandur og borið ofan í veginn, og það var stundum keyrt langar leiðir til að sækja sand. Þetta sést nú ekki í dag. Þetta voru litlir vörubílar sem strákarnir smíðuðu, og þeir gátu beygt og allt. Þetta var ekkert drasl. Það var ýmislegt sem gerðist. Ég týndist einu sinni, ég man það. Það var leitað að mér heillengi, þá lá ég úti í hlöðu steinsofandi. Ég hef verið 6 eða 7 ára. Svo átti ég einu sinni að vera að passa bróður minn, hann Erling Ingimundarson, á meðan mamma var að þvo þvott. Ég og Árni Sigursveins áttum að passa en drengurinn þurfti að álpast í lækinn og drukknaði næstum því. Það þurfti að blása í hann. Strákurinn var ekki nema tveggja ára og það var svo kalt vatnið að hann hefur sennilega fengið krampa. En það gerðist ýmislegt skemmtilegt líka. Það voru ýmsir karakterar sem komu inn í þetta hús. Bræður hans pabba voru léttir á þessu. Þau voru 13 systkinin, en það voru aðallega Gestur Kristinn og Loftur Hilmar (sem var kallaður Dalli) sem voru viðloðandi þegar ég var krakki. Gestur átti t.d. bát sem hét Haförn, maður fór marga svaðilförina á honum. Einu sinni var hann næstum sokkinn með fullt af rollum úr Eyjunni og við vorum um borð, ég og Hulda Nóa. Hann lak og við þurftum að ausa. Og tvisvar sinnum strandaði hann þegar ég var með honum og eitt skiptið fór hann með mig og Gunnu systur inn á Hólmavík til að láta draga úr mér tönn, það var ekkert farið til tannlæknis. Þá enduðum við hérna uppi í Guggunesi í blindaþoku, það lá við að við gætum labbað heim, ég og Gunna systir. Svo ég er búin að stranda tvisvar og sökkva næstum því einu sinni.“
Fjölskyldan hafði ekki mikið á milli handanna en það hafi þó ekki haft neikvæð áhrif á systkinin nema síður sé og líklega spilaði það inn í að foreldrar þeirra gátu búið þeim gott heimili þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
„Þegar við vorum hér, þá var einhvern veginn svoleiðis að það var ekkert verið að æsa sig yfir hlutunum. Maður kom bara inn þegar maður vildi, fékk sér að borða – það var alltaf nóg að borða hérna, þó það væri aldrei til peningur. Ég man aldrei eftir því að hafa séð pening hérna inni á þessu heimili. Það þurfti alltaf að fara á Hólmavík og taka út í reikning hjá Kaupfélaginu, af því Kaupfélagið borgaði aldrei út. Bændur fengu aldrei neitt á reikninginn sinn nema á vissum tíma. Og alltaf svona viku fyrir jól, þá lokuðu þeir reikningum. Þá kom Addi [Arngrímur] í Odda og bjargaði málunum. Hann var með útibú frá kaupfélaginu og hann kom hérna með jólaeplin og appelsínur og það sem þurfti fyrir jólin. Annars hefði ekki verið neitt. Þetta var svona á hverju einasta ári að reikningnum var lokað í kringum 16. desember en Addi leyfði pabba að taka út í reikning, hann var mannlegur og góður maður. Samt áttu bændur inni í Kaupfélaginu. Eins og pabbi átti að eiga fyrir áburðinum. Peningarnir fóru í að fóðra okkur og halda Kaupfélaginu gangandi, segi ég. Ég veit ekki hvað þeir gerðu við þessa peninga, ekki fengum við þá. En við höfum öll spjarað okkur mjög vel. Ekkert okkar lenti í veseni. Við höfðum náttúrulega ekki efni á að fara í skóla. Við þurftum að fara inn að Reykjum í Hrútafirði og það var illmögulegt fyrir fólk sem átti ekki neitt að senda kannski 4 krakka í einu inn á Reykjaskóla, það kostaði pening. Það var ekki gefins, heimavist og allt. Svo þau okkar sem lærðum eitthvað, lærðum bara eftir að við fórum að heiman. Guðrún er fótsnyrtir og vann líka við umönnun og fleira. Guðbrandur er múrari, Svanur Hólm er bóndi og allt-muligt maður. Hermann átti sinn eigin bát Sæbjörn ST. Árni var pípari og vann hjá Húsasmiðjunni þangað til hann dó. Loftur lést aðeins 23 ára en var búinn að byggja sitt eigið hús og eignast konu og 2 börn. Ég er með sveinspróf í húsasmíði og Hafdís Hrönn er með stúdentspróf. Erling Brim á veiðafæra-og bólstrunarverkstæði. Gunnar Ingi átti leiktækajsmiðju og Sigurður Jón átti sinn eigin bát. Við spjöruðum okkur alveg, þó það væri ekkert uppeldi á okkur. Við ólum okkur upp sjálf.“
Losaralegir kennsluhættir
Hafnarhólmssystkinin hlutu þó grunnskólamenntun á Drangsnesi en Hanna ber þeirri menntun ekki góða söguna og mesta áskorunin var að komast í skólann, sérstaklega á veturna.
„Það var ekkert verið að læra, við bara létum þetta danka stundum. Ég var náttúrulega orðin læs þegar ég var 5 ára. Gestur heitinn, bróðir pabba sem átti heima í Vík, kenndi okkur að lesa. Við löbbuðum á hverjum einasta degi í skólann meðfram Bælinu, þetta voru 7 km, og við þurftum að labba heim aftur, það voru 14 km á dag. Þegar var orðið ófært og ekki hægt að fara Kokkálsvíkina, þá fórum við beint yfir þar sem vegurinn liggur núna nema ofar. Einu sinni gerði vitlaust veður og við urðum næstum því úti 4 systkinin. Ætli það hafi ekki verið ´65-67. Það vorum ég, Brandur, Loftur og Svansi. Brandur og Svansi voru eldri og fóru alltaf á undan og eftir, og þegar Svansi var orðinn þreyttur þá fór Brandur á undan og Svansi aftur fyrir. Þetta var alvara, við vorum heppin að komast heim. Ég gleymi þessu aldrei, ég hef aldrei getað labbað úti í kófi síðan.“
Hanna segir bræður sína hafa glímt við lesblindu og að kennararnir hafi ekki sýnt því skilning, né heldur því að sum börnin hafi þurft að vinna fyrir sér.
„Svansi og Loftur voru náttúrulega báðir lesblindir, það fer ekki á milli mála því ef maður las eitthvað fyrir þá, þá mundu þeir það en ekki ef þeir lásu sjálfir og kennararnir voru ekki alltaf góðir. Þeir voru stundum mjög slæmir við þá, brutu blýantana þeirra og öskruðu á þá. Það gengu bréfin stundum hérna á milli, þá voru kennararnir að klaga þá en þetta var ekkert þeim að kenna heldur kennurunum sjálfum. Ég og einn skólabróðir minn, við féllum á lokaprófi og þá tók Gústi kennari [Gústaf Óskarsson] okkur í aukatíma tvisvar í viku. Þetta var þegar við vorum í því sem kallast sennilega 8. bekkur í dag. Það var kallað unglingapróf þá. Hvorugt okkar náði stærðfræði, það var aldrei mín sterka hlið en aftur á móti fékk ég 10 í stafsetningu og málfræði. Svo kunni ég grænu Íslandssögubókina utan af, því kennarinn varð einu sinni svo brjálaður þegar við lásum ekki. Hann var einn af þessum geðveiku sem voru hérna. Í alvöru, það voru ekkert nema einhver úrhrök sem komu að kenna hérna á undan Gústa. Það voru allavega 2 kennarar sem voru á Drangsnesi sem voru ekki allt í lagi. Annar notaði segulband, hann var ekki inni í kennslustofunni og ef það heyrðist í einhverjum heyrði hann það á segulbandinu. Hann kveikti bara á segulbandi og fór. Hinn tók strákana í gegn, þá Loft og Svansa og örugglega fleiri en þá sem maður man ekki eftir. Svansi hætti strax í skóla og hann gat það, hann kláraði ekki einu sinni unglingaprófið sem er ekkert skrýtið, þetta var hræðilegt.“
Einnig áttu samnemendur þeirra það til að stríða þeim en Hanna erfir það ekki við þau í dag.
„Það var oft erfitt fyrir okkur að vera í skóla á Drangsnesi, það væri kallað einelti í dag. Við þurftum að vera í prjónabuxum af því við þurftum að labba á milli til dæmis, það var gert grín að því að við þurftum að vera í prjónanærfötum af því við vorum að labba yfir vetur og við vorum að labba þessa kílómetra en hinir ekki. En þetta var bara svona, við vorum ekkert að pæla í þessu.“
Enda var mikill vinskapur meðal krakkana, ekki síst eftir að Hafnarhólmsfjölskyldan flutti út á Drangsnes árið 1968. Ingimundur stundaði þó áfram búskap á Hafnarhólmi allt til æviloka og fór þá á milli staða, en ástæðu flutninganna segir Hanna hafa verið ástand hússins.
„Þetta var mjög lélegt þegar við áttum heima hérna. Það voru brotnar tröppur og engir gluggar á neðri hæðinni. Það var ýmislegt að, þetta var eiginlega ekki íbúðarhæft þegar við fórum. Mamma var ólétt og læknirinn eiginlega bannaði að hún yrði hérna. Pabbi ætlaði alltaf að flytja aftur, hann ætlaði bara að vera á veturna á Drangsnesi en þá kom einhver rafmagnsmaður og klippti á rafmagnið, þá var ekkert verið að flytja hingað þegar það var ekki rafmagn. Það gat frosið í kaffikönnunni. Þegar það var vetur gat verið ófært út á Drangsnes í viku, 10 daga, en það stytti alltaf upp.”
Félagsmiðstöðin Glaumbær
Því varð úr að fjölskyldan settist að á Hamri, sem nú er á Grundargötu, en var jafnan kallaður Glaumbær því þangað sóttu jafnan börnin á staðnum. Hanna hefur ekki aðra skýringu á því en að það var leyft. Hún vill meina að ekki hafi farið mikið fyrir uppeldi hjá foreldrum sínum og að börnin hafi í raun gert það sem þeim sýndist.
„Þetta var spes. Þetta var samfélag sem gekk upp af því að krakkarnir voru samstíga. Það var ekkert verið að atast í okkur. Við gerðum bara það sem okkur datt í hug. Það var bara félagsmiðstöð heima. Mamma og pabbi leyfðu það, það var hvergi leyft áður. Við áttum öll okkar vini. Krakkarnir á Drangsnesi voru rosalega samheldnir og það skipti engu máli hvort þú varst 17 ára eða 12 ára, það voru allir með. Þetta er ekki eins og núna, það voru engar tölvur þá sko. Það fengu allir kvöldkaffi sem vildu og sumir settust bara inn á rúm hjá pabba að tala við hann, þó hann væri háttaður, fyrstan ég nefni Jóa Skúla.“
Hanna segir ásóknina hafa verið slíka að veikindi og slys stoppuðu engan og sum börnin vildu helst fá að vera á Hamri á jólunum.
„Ég get sagt þér eina góða sögu af Bjarna Ingimars. Hann hafði farið í aðgerð og þurfti að vera með hækju. Hann var hjá afa sínum í Bræðraborginni, þegar hann týndist. Elli gamli [Elías Bjarnason] afi hans kemur alveg brjálaður og fer með hann til baka. Þá hafði strákurinn stolist út og skriðið yfir Forvaðann – því Forvaðinn var allt öðruvísi þá – og það var brjálað veður. Þá var Bjarni kominn út að Hamri. Ég gleymi þessu aldrei. Þetta var svona, krakkarnir sóttu rosalega í að vera út á Hamri, eða Glaumbæ eins og hann var kallaður. Það eru margir sem halda að maður sé ekki að segja satt en þetta er dagssatt! Það er verið að tala um það núna, við ættum að fara að halda svona Glaumbæjarmót.“
Þegar börnin voru ekki að syngja og spila í Glaumbæ, var t.d. farið út í gönguferðir eða fótbolta.
„Það voru aldrei vandræði með að hafa eitthvað að gera. Við vorum bara hingað og þangað. Þetta var svona samfélag sem ég veit ekki einu sinni hvernig ég á að lýsa. Krakkarnir voru svo samheldnir. Ef einhver sagði ‚fótbolti núna?‘ þá var bara smalað saman í lið á skólavellinum eða þar sem sundlaugin er núna. Það voru alltaf allir inni á vellinum í einu, enginn skilinn útundan. Hermann bróðir fékk aldeilis að finna fyrir því hjá mér, hann var með ör á löppunum eftir mig alla sína tíð. Ég var mjög grófur fótboltamaður, hann var líka að sparka í mig en ég gaf honum aldrei tommu eftir. Ég sparkaði bara í hann ef ég þurfti. Það var ekkert verið að pæla í leikreglum þá. Það var bara verið að sparka bolta og ef einhver náði af þér boltanum þá náðir þú honum aftur.“
Síðan á upphafstíma sjónvarpsins var aðeins eitt sjónvarp á Drangsnesi og þá fór krakkaskarinn þangað.
„Það var hjá Simmu [Sigurmundu Guðmundsdóttur] og Magga [Magnúsi Guðmundssyni] á Borg. Og alltaf á þriðjudögum, eða miðvikudögum, þá bönkuðu allir krakkarnir upp á til að fá að horfa á sjónvarpið. Maggi og Simma voru sinkt og heilagt að fara til dyra og gólfið hjá þeim var þakið af krökkum, og stundum fullorðnu fólki líka. Það voru allir að horfa á Einhenta manninn. Það var morðingi sko.“
Óvart í jafnréttisbaráttu
Þrátt fyrir meintan skort á uppeldi og ójafna menntun, segir Hanna að vel hafi ræst úr systkinahópnum en að sjálfsögðu byrjaði vinnuaginn snemma. Eins og áður hefur komið fram, vann Hanna við bústörf í æsku og svo í frystihúsinu á Drangsnesi þegar komið var fram á unglingsárin, bæði í rækju og fiski en launin fóru í matarinnkaup fyrir fjölskylduna eða plötukaup. Hún tekur fram að vinnan í frystihúsinu hafi alls ekki átt við sig og segir sögu af því þegar henni tókst að láta reka sig úr starfi 14 ára gömul.
„Ég hataði að vinna í frystihúsinu, ég vildi frekar rifja túnin hérna heldur en það. Ég samdi m.a.s. við pabba um það að ég myndi frekar rifja en fara í frystihúsið og ég fékk að hætta þar á vissu tímabili. Ég og Hulda Nóadóttir erum þær einu sem hafa verið reknar úr frystihúsinu, skal ég segja þér. Það hefur aldrei neinn annar verið rekinn úr frystihúsinu. Það var svoleiðis að við vorum að vinna í fiski og okkur langaði bara ekkert að vinna í fiski en við þurftum að nota hárnet en karlarnir þurftu ekki að nota hárnet og við neituðum að nota þau. Þá vorum við reknar og við fórum bara heim og tjölduðum og höfðum það næs í 2 daga, þá vorum við beðnar að koma aftur. Þá þurftu karlarnir að fara að nota hárnet, m.a.s. verkstjórinn. Þetta var óvart jafnréttisbarátta en við höfðum ekkert vit á því. Við vildum bara ekki vera með hárnet því það var svo hræðilega ljótt.“
Starfsferill fyrir sunnan á byggingarsviði
Börnin á Drangsnesi héldu hópinn langt fram á það sem nú myndi flokkast sem unglingsár, og þegar þau voru komin fram yfir fermingu sóttu þau skemmtanir og hátíðir saman en þegar fólk fullorðnaðist flutti það í burtu eða stofnaði til fjölskyldu. 17 ára eignaðist Hanna fyrra barn sitt, Jón Halldór, með manni sínum Jóni Björnssyni en þau eignuðust einnig dótturina Sigríði Hörpu nokkrum árum síðar. Sama ár og frumburðurinn fæddist, flutti Hanna á Suðurnesin. Þar byrjaði hún í fiskvinnu en fór síðar yfir í trésmiðjuna Ramma hf. og tók síðar sveinspróf í húsasmíði. Aðspurð um hvernig það hafi komið til, segist Hanna alltaf hafa haft áhuga á smíðum.
„Mig langaði alltaf í þetta. Þegar ég var krakki í skólanum á Drangsnesi, þá vildi ég fara í smíði en fékk það ekki, ég átti að vera að sauma og prjóna. Ég fór suður og fór að vinna í trésmiðju, og ég tók reynslupróf. Þegar þú varst búin að vinna í visst langan tíma gastu farið fram á að taka reynslupróf. Ég þekkti skólameistarann í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hann kemur einu sinni niður í vinnu og segir mér að taka sveinsprófið núna því það átti að fara að hætta að leyfa fólki að taka sveinspróf eftir starfsreynslu, ég var semsé búin að vinna í 10 ár. Svo ég gerði það. En ég er ekki með þannig sveinspróf að ég geti tekið að mér að smíða heilt hús, það verður einhver að skrifa upp á fyrir mig, enda hef ég aldrei smíðað hús, ég hef bara smíðað glugga og hurðir.“
Hanna segir að á þeim tíma hafi ekki verið margar konur í faginu og hún var með þeim fyrstu sem tók sveinsprófið í húsasmíði en hún vill ekki gera mikið úr því. Hún segir að hún hafi aldrei hugsað meðvitað um feminisma en þó hafi alltaf blundað í henni dálítil rauðsokka.
„Ég hef alltaf verið hlynnt því að stelpur fengju sömu tækifæri og strákar. Enda finnst mér að stelpur eigi að fá tækifæri í smíðastofunni eins og strákar, sjálfsagt hefði það ýtt undir að ég hefði tekið mitt sveinspróf í smíði fyrr. Án vitundar held ég að þetta með smíðastofuna hafi haft áhrif. Áður en ég tók sveinspróf, lenti ég í alvarlegu slysi – sagaði af mér fjóra fingur – og bölvaður lögfræðingurinn lét það út úr sér að ég ætti nú bara að fá mér aðra vinnu og ég spurði nú þennann bjána hvort hann myndi hætta að keyra ef hann lenti í slysi. Hugsa að þarna hafi hann kannski hitt á rauðsokkuna í mér, og ég viljað sýna fram á að konur ættu alveg heima í húsasmíði eins og karlar og gætu alveg verið góðir smiðir.”
Og það gerði Hanna svo sannarlega og starfaði við smíðar hjá Ramma hf. í 17 ár en fyrirtækið varð eining innan BYKO sem hét BYKO Gluggar og hurðir, þar sem Hanna hefur starfað í 33 ár og starfar enn, en nú í vörumóttöku og segist vera að minnka við sig vinnu því hún þurfi að nota lífið í annað.
Ekki lifir maður dauður
Ekki er skrýtið að Hanna vilji nota tíma sinn viturlega en hún hefur þegar misst 5 bræður. 2 þeirra fórust á sjó með stuttu millibili á 8. áratugnum, þeir Loftur og Sigurður hálfbróðir hennar, en Gunnar Ingi, Árni og Hermann létust vegna veikinda. Þar að auki lést eiginmaður hennar árið 2015 eftir erfið veikindi og Stína móðir hennar í byrjun þessa árs, þá 91 ára. Þrátt fyrir það slær Hanna á létta strengi.
„Það er alveg hátíð ef maður nær sjötugu. Gunna systir og Brandur og Svansi, þau eru búin að ná þessu. Kannski næ ég þessu líka, ég ætla að vona að ég sé ekki að fara að hrökkva upp af.“
Það virðist ólíklegt, enda er Hanna þróttmikil kona sem vaknar enn klukkan hálf 5 á morgnanna til að fara frá Keflavík til Kópavogs í vinnu og þess á milli syngur hún með sönghópnum Uppsiglingu, hendist á fjöll eða heim á Strandirnar. Þrátt fyrir að hafa flutt snemma í burtu segir Hanna að heimahagarnir hafi alltaf togað í sig, sérstaklega í seinni tíð. Hún kemur oftast heim á sumrin og í sauðburð en Svanur bróðir hennar tók við fjárbúinu snemma á 9. áratugnum af Ingimundi föður þeirra eftir hans dag.
Aðspurð um hvað sé á döfinni hjá sér, segir Hanna að hún undirbúi nú starfslok og getur þá notið útiveru og samveru með fjölskyldu og afkomendum en þökk sé börnum hennar tveimur, á Hanna einnig 4 barnabörn og 2 langömmubörn.
„Ég stefni á að hætta að vinna á komandi vori og ætla að lifa lífinu lifandi því ekki lifir maður því dauður, eða hvað? Lífið er í dag en kannski ekki á morgun.”
Myndir úr safni frá Hönnu (nema myndin af Hafnarhólmi sem ég tók).