Stórir Draumar í Þágu Samfélagsins
Hjónin Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson, fjár- og æðarbændur í Húsavík við Steingrímsfjörð, eru umsvifamikil á mörgum sviðum. Ásamt því að reka bæði fjárbú og eigin kjötvinnslu á bænum, hafa þau m.a. sinnt og sinna enn ýmsum samfélagsmálum með það að markmiði að styrkja og þjappa saman fólkinu á Ströndum. Fréttaritari leit í heimsókn til þeirra í skemmtilegt spjall sem fór um víðan völl.
Matthías er 5. ættliður ábúenda í Húsavík en Hafdís, sem er fædd og uppalin í Reykjavík, flutti þangað fyrir um 40 árum. Áður en þau tóku við búinu af foreldrum hans, fóru þau bæði í bændaskólann á Hvanneyri árið 1983. Aðspurð hvort fólk sem elst upp við bústörf þurfi að fara í bændaskóla, slær Matthías á létta strengi.
Matthías: „Já, aðallega til að sjá hvað hinir eru vitlausir.“
Hafdís: „Ég hugsaði með mér að ég vildi ekki fara út í að vera bóndi án þess að vita hvað ég ætlaði að gera, og það var þess vegna sem ég ætlaði að drífa mig í bændaskólann, og dreg hann með mér.“
Bæði eru þau sammála um að það besta og gagnlegasta við bændaskólann hafi verið að kynnast og tengjast fólki, bæði samnemendum og kennurum, til að leita ráða hjá og bera undir hugmyndir. Þau útskrifuðust úr skólanum 1985, þremur dögum áður en frumburður þeirra fæddist. Eftir útskriftina fóru þau í auknum mæli að taka við Húsavíkurbúinu en Hafdís fór síðan aftur í nám við bændaskólann árið 2002 og bætti við sig BS gráðu í landnýtingarfræði og MS gráðu í náttúrufræði.
Hafdís: „Síðan byrjaði ég að vinna 2007 hjá Náttúrustofunni og hætti þar í fyrra bara til að snúa mér meira að kjötvinnslunni. Ég var sérfræðingur á gróðursviði og gerði gróðurathuganir víða, aðallega hér á Vestfjörðum, og skrifaði skýrslur. Ég gerði gróðurkort hingað og þangað um landið, var að vinna mikið með Náttúrufræðistofnun og fór í útivinnu með þeim hingað og þangað um landið sem var afskaplega skemmtilegt og fróðlegt að gera, að kynnast landinu annars staðar heldur en bara hérna á Vestfjörðunum. Gróðurathuganir á öllum vegagerðasvæðum sem hafa verið hér á Vestfjörðum, voru unnar hjá Náttúrustofu þannig maður var búinn að kynnast Vestfjörðum svolítið vel.“
Nýsköpun í kjötvinnslu
Kjötvinnslan var stofnuð árið 2008 og þar eru framleiddar ýmis konar afurðir.
Hafdís: „Kjötvinnslan gengur alveg ágætlega, þetta er gríðarlega mikil vinna og auðvitað gætum við eflaust reiknað þetta út í tapi ef við myndum telja alla tímana sem við notum í þetta. En það skiptir verulegu máli að gera meiri verðmæti úr því sem við erum að framleiða, heldur en að senda það bara í sláturhúsið, og það er mjög gott og gaman að geta boðið upp á vöru úr heimabyggð. Þetta gerir það líka að verkum, hjá mér allavega, að þetta veitir mér svolítið meiri lífsfyllingu vegna þess að maður getur verið að skapa og búa til og prófa nýja hluti. Við höfum verið þó nokkuð mikið í alls konar tilraunastarfsemi síðan við byrjuðum og prófað ansi margt. Við erum með þessar kindur og reynum að sinna þeim yfir veturinn, og auðvitað þykir okkur vænt um kindurnar okkar, það er nú bara þannig. En á haustin fara lömbin í sláturhús á Blönduósi og síðan sækjum við svo kjötið og tökum heim um þriðjung af framleiðslu búsins. Svo setjum við það í frystigám og vinnum þetta eftir hendinni. Við erum svolítið á hangikjötsmarkaðnum, þ.e.a.s. við búum til hangikjöt hérna og erum aðeins með þannig sölu, við höfum líka reykt svið sem hafa verið rosalega vinsæl, þau hafa verið á sviðaveislunni sem hefur verið haldin á Sævangi, þar byrjuðum við á því að reykja svið fyrir sviðaveisluna og svo frétti fólk af því að við værum að reykja svið og við höfum verið að selja þónokkuð mikið af reyktum sviðum hingað og þangað um landið. En aðalframleiðslan hjá okkur fer til veitingahúsa þannig að mest allt lambakjöt sem er á Café Riis kemur frá okkur, og á Galdrasýningunni – allavega núna -, á Laugarhóli og síðan í Heydal í Mjóafirði, þannig við erum ekki mikið að selja beint til neytenda. Við erum meira að selja til fyrirtækja og við höfum fengið að heyra það að það skipti fyrirtæki miklu máli að geta sagt ‚þetta lambakjöt sem við erum með er af svæðinu.‘ Við reynum að vanda okkur í okkar framleiðslu og eins og ég segi, þá reyni ég líka að leika mér eitthvað og búa til eitthvað nýtt.“
En hvað felst í tilraunastarfseminni og nýjungum og hvað eru þau að bardúsa í þessari kjötvinnslu? Hafdís nefnir dæmi.
Hafdís: „Fyrir síðustu og þarsíðustu jól þá vorum við með eitthvað sem hét ‚Jólaveisla að Vestan‘. Þá vorum við í samstarfi við Ástu Þóris að útbúa pakka þar sem við settum í pakkann bara það sem framleiðendur af Vestfjörðum vildu hafa með og við reyndum að búa til einn svona pakka.“
Matthías: „Og bjóða fyrirtækjum á Vestfjörðum jólapakka fyrir starfsfólk sitt.“
Hafdís: „Þetta lukkaðist afskaplega vel fyrsta árið það voru um 240 pakkar sem fóru og svo aftur í fyrra. Þegar þú færð pöntun einum og hálfum mánuði áður en þú átt að afhenda, og þú þarft að gera 240 einingar í stað 100 sem var búið að gera ráð fyrir , þá fer allt á yfirsnúning. Í þessum pakka vorum við með í fyrra tvíreykt hangikjöt og lostalengjur og lifrarpaté með villisveppum. Ég þróaði lifrarpatéið síðasta haust og gerði alls konar tilraunir, t.d. með villisveppum sem ég tíndi hér heima, og lét smakka með og án sveppa, hvort sveppabragðið myndi gera eitthvað verra. Við vorum með grafið ærkjöt og seldum þónokkuð mikið af því fyrir jólin í fyrra, vorum með það á markaði í Hveravík og gáfum að smakka og fólki líkaði vel. Fyrir fjórum árum var ég að búa til jerky, var búin að hanna það síðan en svo datt þróunin á því upp fyrir í bili vegna þess að ég fótbrotnaði og margt annað sem gerði það að verkum að það var sett á ís í bili. Svo bjó ég það til núna í vor og höfum verið að selja það t.d. á Sævangi sem matarminjagrip vegna þess að það hefur langan líftíma. Mest af öðru sem við erum að selja er eitthvað sem þarf að vera í frysti. Eins og ég segi erum við alltaf að reyna að finna upp eitthvað nýtt og höfum verið lengi með það á dagskránni að búa til ýmislegt.“
Margvíslegar tilraunir
Matthías: „Já, við megum alveg vera ánægð með okkur. Fyrir nokkrum árum var efnt til Íslandsmeistaramóts í rúllupylsugerð. Við unnum 3 ár í röð, en svo var hætt að halda keppnina.“
H: Það átti ekkert að leggja það niður, það átti að færa það í einhvern annan landshluta.
Matthías: „Það átti að færa það í einhvern annan landshluta en Vesturland þegar við höfðum unnið þrisvar. En þetta var samkeppni, það var ekki að við værum með einu rúllupylsurnar.“
Hafdís: „En við erum enn að framleiða eina af þessum rúllupylsum sem unnum með og hún er afskaplega vinsæl alltaf, léttreykt rúllupylsa.“
Matthías: „Já við gerðum alls konar tilraunir. Við gerðum rúllupylsu sem var vafin upp og svo notuðum við beltisþara til að vefja með, það voru s.s. græn lög.“
Hafdís: „Já, hún var öðruvísi.“
Matthías: „Hún var verulega öðruvísi.“
Hafdís: „Svo vorum við með steikta rúllupylsu með jurtum sem ég tíndi hérna í kring.“
Matthías: „Bjórrúllupylsa. Hún var virkilega vond. Soðinn bjór er ekki góður.“
Hafdís: „Hún var bjórlögð. Það var svo súrt, það var svo hræðilega vont!“
Matthías: „Hræðilega vont.“
Hafdís: „Matti hafði nefnilega unnið PubQuiz og átti fullt af bjór en við drekkum ekki bjór þannig eitthvað urðum við að gera við bjórinn. Prófuðum þetta.“
Umhverfisvænt sauðfé
Þrátt fyrir nokkrar mislukkaðar tilraunir sem hægt er að hlæja að hefur vinnslan gengið vel og er alltaf í þróun.
Hafdís: „Við fengum styrk úr Sterkum Ströndum þegar kjötvinnslan var orðin 12 ára gömul og það var komin þörf á að endurnýja tækin og þess háttar og bæta við tækjum, þá létti það þá vinnu sem við höfðum áður gert í höndum, áður en við gátum keypt tæki til að gera þá vinnu. Síðan fengum við núna styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða líka sem veitti okkur tækifæri til að fara í meiri nýsköpun og hugsa upp á nýtt hvernig við gætum gert framleiðsluna hjá okkur umhverfisvænni. Það er ýmislegt sem maður getur reynt að gera og höfum verið að pæla í sambandi við það, t.d. förgun því við úrbeinum mest allt sem við seljum. Af því við erum að selja til veitingahúsa þá látum við þau ekki hafa beinin með og um næstu áramót má ekki lengur urða lífrænan úrgang sem þetta er alveg tvímælalaust. Þá höfum við verið að hugsa ferla, hvað getum við gert. Við höfum verið að velta fyrir okkur hvernig við getum farið með beinin og fituna, fitan er verðmæti í sjálfu sér en ekki fyrir okkur, við getum illa nýtt hana, þannig það er margt sem við erum pæla fram og til baka. Við sjáum ekkert eftir að hafa farið út í kjötvinnsluna þó þetta sé þónokkuð mikil vinna og í raun var þetta orðið það mikil vinna, og við ekki lengur ung, að ég varð að hætta hjá Náttúrustofunni til þess að geta farið að sinna kjötvinnslunni á fullu.“
Matthías: „Talandi um að gera ferlið umhverfisvænna, þá held ég mjög oft – og Hafdís er búin að heyra þetta mjög oft – sömu predikunina yfir fólki. Sauðkindin er náttúrulega ákaflega umhverfisvæn skepna. Fólk heldur því yfirleitt fram með sauðkindina – það hefur komið fram í mörgum blaðagreinum og mörgum skrifum – að hún sé ákaflega óumhverfisvæn vegna þess að hún sé að eyða landinu. Það verði bara eyðimörk, og að hún ropi og reki svo mikið við, og að hún sé vond fyrir loftslagið. Við því langar mig til að segja, að sauðkindin hefur þann stóra kost að hún getur tekið gróður, sem annars myndi breytast í sinu sem losar kolefni út í andrúmsloftið þegar hún sölnar, og breytt honum í mannamat. Jórturdýr geta það. Það sem ekki er hægt að nýta beint til manneldis getur sauðkindin breytt í mannamat og ull sem er umhverfisvænt efni í fatnað, skilur ekki eftir eitthvað örsmátt í sjónum eins og plast og flísefni og annað slíkt. Þetta sem kindin borðar, það eru blóm og grös í úthaga og hóflega beitt land – og fyrir þessu eru fullt af rannsóknum – stuðlar að líffræðilegri fjölbreytni í landinu, bæði hvað varðar að viðhalda fjölbreytni plönturíkisins, og kannski ekki síður að viðhalda opnu landi. Helstu mófuglastofnar landsins, lóan, spóinn og lóuþrællinn til dæmis, þurfa opið land til þess að þrífast vel. Ef það kemur lúpína eða skógur þá hverfa þessir fuglar og við berum ábyrgð á þeirra stofnum gagnvart umheiminum því þetta er hluti af líffræðilegri fjölbreytni. Það sem kindin borðar eru grös og blómjurtir, já og svo hey inni á húsi. Í þessu heyi og grösum er efnaverksmiðja, grænu kornin í plöntunni binda koltvísýring úr andrúmsloftinu með hjálp sólarljóssins. Kindin innbyrðir þetta, svo halda menn því fram að hún láti frá sér gastegundir sem innihalda kolefni, en hún getur ekki látið meira kolefni frá sér heldur en hún hefur innbyrt því annars væri búið að finna upp eilífðarvélina. Hún er ekki til. Þannig sá áróður sem hefur verið rekin fyrir því að hún sé óumhverfisvæn segi ég hiklaust að rannsóknir sýna ótvírætt að er ósatt. Það eru að haugast inn rannsóknir erlendis frá, nágrannalöndunum, ein t.d. frá Oxfordháskóla, hóflega beitt land – þannig að ekki er gengið á lífmassa landsins og það skilur þetta kannski enginn nema sá sem er innvígður – það viðhelst sjálft. Það grær árið eftir. Hóflega beitt land bindur niður í jarðveginn þrisvar til fjórum sinnum meira af kolefni heldur en land sem er friðað. Þetta eru bara rannsóknir, nýjar vísindarannsóknir sem eru þvert ofan í þann áróður sem hefur verið rekinn gegn íslensku sauðkindinni og beit.“
Frí eru óþörf
Hafdís segir að þau hjónin standi að mestu tvö í búskapnum og kjötvinnslunni og að lítið sé um frí.
Hafdís: „Börnin okkar koma og hjálpa okkur á sauðburði og að smala en annars erum við bara tvö. Ég var fyrst í 100% vinnu hjá Náttúrustofu og var svo komin niður í 60% en það var að slíta í sundur fyrir mig daginn að vera í vinnu þannig við sáum ekki frama á að geta annað því sem við vildum nema að ég myndi hætta í hinni vinnunni. Og svo segi ég alltaf að ég sé hætt að vinna en ég skipti bara um vinnu, þ.e.a.s. áður vorum við öll kvöld og allar helgar í kjötvinnslunni og þennan dag sem ég var ekki í vinnu inn á Hólmavík en núna getum við dreift þessu aðeins léttar þannig við eigum jafnvel einhver helgarfrí nokkurn veginn næstum því kannski stundum…“
Matthías: „Það finnst mér mjög ósennilegt.“
Hafdís: „Já, það er algjör óþarfi og laugardagskvöldin niðri í kjötvinnslu eru alveg dásamlegur tími!“
Aðspurð segjast þau hafa skiptar skoðanir á ‚fríum‘ og eina leiðin til að fá almennilegt frí sé að fara hreinlega af landi brott en jafnvel þá séu þau á útkikkinu eftir búskap hjá öðrum til samanburðar.
Hafdís: „Það er það sem hefur setið mest á hakanum öll þessi 40 ár sem ég hef verið hér, það er að komast í frí, það hefur ekki verið mikið um það.“
Matthías: „Eina fríið sem við höfum tekið, þá gat maður ekki gert neitt því við vorum ekki á landinu.“
Hafdís: „Þá fórum við í 9 daga til Rómar og það var lengsta fríið sem við höfum tekið.“
Endalaus verkefni
En hvað er skemmtilegast við bústörfin og hverjar eru mestu áskoranirnar?
Hafdís: „Sá tími sem er bæði erfiðastur og skemmtilegastur er sauðburður. Á sama tíma er æðarvarpið á fullu. Það þarf að huga að því og fylgjast með hvort að vargur sæki í varpið, bæði á fjórum fótum og vængjum. Það er því meðfram vakt í fjárhúsunum alltaf farið í bíltúr og kíkt hvort að allt sé í friði og spekt í varpinu. Við erum með minkahunda til að verja varpið hjá okkur fyrir mink en tófan er líka skæð í varpinu og oft erfitt að ná þeim. Í kjötvinnslunni getur verið rosalega notalegt að vera að vinna þar niðri. Þetta er niðri í kjallara hjá okkur og maður getur farið þar inn í þreifandi byl og maður veit ekkert hvað er að gerast úti eða í veröldinni yfirleitt því maður er varla í símasambandi þar og getur einbeitt sér að því sem maður er að gera hverju sinni og í algjörum friði. Svo kemur maður út og það er ennþá þreifandi bylur eða það er glaða sólskin og maður vissi bara ekki af því af því það er alltaf jafnt hitastigi niðri í kjallaranum. En mestu áskoranirnar voru í upphafi með kjötvinnsluna að lesa sig í gegnum þær reglugerðir sem við þurftum að uppfylla og reyna að uppfylla þær til að byrja með og síðan hafa reglugerðir verið að breytast og það er verið að fylgjast með því og hafa allt í eins góðu standi og maður vill hafa það og reyna að ná í skottið á sjálfum sér með það, hvort sem það er í fjárhúsunum eða í kjötvinnslunni.“
Matthías: „Mesta áskorunin er kannski að sætta sig við að geta ekki gert allt sem mann langar til að gera og kemur upp í hugann um hvað væri hægt að gera.“
Nefnir hann þá sem dæmi að ljúka verkefni sem ungur landfræðingur, Hilmar Egill Sveinbjörnsson, byrjaði á fyrir rúmum 20 árum og snerist um að skrá niður búsetulandslag.
Matthías: „Hann og fór hér um alla þessa sveit sem er kölluð Tungusveit, og skráði niður búsetulandslag. Öll ummerki sambúðar manns og lands sem þekkt eru og var hægt að finna, bæði sýnileg og ósýnileg. Hann fór á staðinn og tók lengd og breidd, hvar staðirnir væru, út frá mynd, það sem ég á við er t.d. það sem var sýnilegt, þar voru mógrafir, þar voru gamlar tóftir eða einhver mannvirki, naust við sjóinn, verbúðir. Svo þetta ósýnilega, sem þú sérð ekki núna, hvar –– hvar var heyjað á engjum áður en vélarnar komu til? Hvar voru bestu grásleppulagnirnar? Hvar voru miðin á firðinum? Það er ósýnilegt, þú sérð þetta ekki en örnefnin eru þarna og þetta er bara til í handriti. Þetta eru ekki stór verkefni en það væri mjög gaman að ljúka verkefninu, gera þetta sýnilegt, t.d. á rafrænu formi þannig fólk geti skoðað. Þetta er ekki bara örnefnaskráning, heldur búsetumerkjaskráning, öll sýnileg og ósýnileg merki sambúðar manns og lands sem eru hér og sum eru örugglega frá því að land byggðist. Það þyrfti að vinna þetta betur en þetta er bara eitt af ótal verkefnum sem hefur verið farið af stað með og bíða þarna, væru hluti af því að búa til einhverja ímynd fyrir okkur sjálf.“
Á kafi í félagsmálum
Eins og Matthías bendir sjálfur réttilega á, er ómögulegt að ræða ekki hin fjölmörgu og miklu störf sem þau hjónin hafa með einum eða öðrum hætti unnið í þágu samfélags síns.
Matthías: „Svo fer auðvitað ekki hjá því að nefna að við bæði höfum, bæði sjálfviljug og stundum tilneydd, tekið virkan þátt í félagsmálum. Þegar við erum að byrja að búa saman, þá er ég verulega virkur í starfsemi Héraðssambandsins og Ungmennafélaganna og sat t.d. í stjórn Ungmennafélags Íslands í 8 eða 10 ár, og það komu sumur sem maður var með börn á íþróttamótum, bæði hér og hingað og þangað um landið, nánast um hverja einustu helgi allt sumarið og það var mjög gaman og gefandi. Ég er afskaplega glaður og þakklátur því fólki sem núna t.d. leggur á sig ómælda sjálfboðavinnu við að vinna sams konar verkefni. Þá er ég t.d. að tala um fólkið sem stendur að Skíðafélagi Strandamanna og hefur verið að vinna þar frábært starf með börnum og unglingum. Svo var Hafdís fyrsta konan sem sat í stjórn Búnaðarsambands Strandamanna af því það þurfti einhvern með bókhaldsþekkingu og Hafdís var, og er, með hana. Hún getur sagt þér af hverju.“
Hafdís: „Ég útskrifaðist sem stúdent úr Versló þannig að það er eiginlega sú menntun sem hefur reynst mér hvað best í gegnum tíðina, að hafa fengið þessa bókhaldsþekkingu með Verslunarskólanáminu. Að kunna á lyklaborð var líka rosalega gott en að geta sinnt öllu bókhaldi sjálfur, það skiptir miklu máli því þá hefur maður miklu betri yfirsýn yfir allt sem maður er að gera, bæði hérna í búrekstrinum og annars staðar.“
Matthías: „Búskapur, að vera bóndi, er gríðarlega fjölbreytt starf. Þú þarft ekki bara að kunna skil á kindum, kúm, fuglum og fiskum, heldur líka gróðri. Þú þarft að vera smiður og vélvirki en ég er hjartanlega sammála Hafdísi, að bókhaldsþekking er langskilvirkasta og gagnlegasta menntunin fyrir bændur.“
Matthías telur síðan upp fleiri dæmi um samfélagsleg verkefni sem þau hafa komið að.
Verkefni sem auka gleðistundir
Matthías: „Það var semsé hér í stofunni sem við komum nokkur saman og stofnuðum Strandagaldur. Ég fullyrði að sú starfsemi sem þar fór af stað undir stjórn Sigurðar Atlasonar heitins, hafi breytt ímynd Hólmavíkur. Á innan við tveimur árum vissi fólk hvar Hólmavík var, af því það var þar sem Galdrasýningin var og hefur verið öll þessi ár gríðarlega sterkt aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Hitt sem mig langar til að nefna er Sauðfjársetur á Ströndum, það er 20 ára á þessu ári. Þar tók maður líka þátt með góðum hóp í að stofnsetja það og vera á hliðarlínunni en samt einn af þeim sem hafa verið í þessu starfi. Sauðfjársetur á Ströndum er ekki bara um sauðfjárbúskap heldur er það menningarstofnun samfélagsins. Við sem stóðum að uppbyggingu þessar tveggja félaga getum verið stolt og glöð yfir því hvernig hefur tekist til, að minnsta kosti er ég það. Ég fullyrði það að bara með því að taka þátt í þessum tveimur skemmtilegu verkefnum höfum við unnið þessu samfélagi verulegt gagn. Markmiðin eru mörg, ekki bara að skapa atvinnu og bæta við viðburðum í ferðaþjónustu. Þau eru að skapa og fjölga ánægjustundum fólks sem býr í þessu samfélagi. Auðvitað er ég alveg afskaplega háfleygur, en það er hin dýpri merking sem maður segir aldrei. En það hefur alltaf verið tilgangur minn frá upphafi að taka þátt í þessum verkefnum sem myndu skilja eftir fleiri gleðistundir í samfélaginu, ekki síst gleðistundum okkar sjálfra sem stöndum að þessum fyrirbrigðum og öðrum.
Langt frá heimsins vígaslóð
Matthías hefur ekki síður trú á landinu en fólkinu og nefnir dæmi um samskipti við útlendinga máli sínu til stuðnings.
Matthías: „Mig langar að segja hvað við búum í góðu umhverfi. Það fýkur sjaldan neitt hérna nema eins og ég segi til þrifa, það er ekki jarðskjálftahætta, það er ekki eldgosahætta, það er ekki mikil hætta á snjóflóðum þó það geti komið fyrir. Við búum í tiltölulega öruggu umhverfi, eins og segir í kvæðinu, við erum ‚langt frá heimsins vígaslóð‘. Ég veit til þess að það hefur komið hér fólk frá Evrópu, sem hefur spurt hvort það væri hægt að flytja hingað og hvort það væri hægt að kaupa hús eða lausar lóðir, fólk sem á nóga peninga, vinnur á netinu eða er listamenn. Af hverju? Þau eru skelfingu lostin, það er stríð í Evrópu. Við höldum að við séum einhver einangruð og afskekkt byggð, það er bara tómt bull. Það er um það bil jafnlangt til Hólmavík og frá Bolungarvík, Patreksfirði og Sauðárkróki. Við erum miðpunktur á Norðvestanverðu landinu hérna við Steingrímsfjörðinn. Á Steingrímsfirði er nánast alltaf hægt að fara á sjó, þetta er besti hvalaskoðunarstaður á landinu. Þeir sem eru í hvalaskoðun segja það annars staðar, eins og á Húsavík þar sem menn eru fyrir opnum flóanum og alltaf haugasjór ef það er bræla. Það eru engar plágur, þú getur farið út og lagst í grasið og legið þar, það kemur engin padda og skríður inn í eyrað á þér eða snákur sem bítur þig. Þetta eru forréttindi sem Evrópubúar þekkja ekki. Við getum borðað öll ber sem við finnum, það eru engin þeirra eitruð.“
Hafdís (gróðursérfræðingur): „Þú myndir kannski ekki borða skollaber.“
Matthías: „Nei, ég myndi hrækja þeim út af því þau eru óæt og ekki góð á bragðið.“
Hafdís: „Það eru líka smá eitrunaráhrif…“
Mismunun í dreifbýli
Fyrst minnst var á stríð í Evrópu, og til þess að leiða umræðuna frá eiginleikum skollaberja, forvitnaðist fréttaritari um hvort stríðið hefði einhver áhrif á þau beint en Hafdís svarar því til að það sé helst alls kyns kostnaður sem fer hækkandi, bæði háð og óháð áhrifum stríðsátakanna.
Hafdís: „Áburðurinn hækkaði um helming sem við keyptum í vor. Maður sér það að olíukostnaðurinn á dráttarvélina fer lóðbeint upp og aðrir slíkir þættir. Ég veit ekki með rafmagnið hvort það er að hækka, mér finnst það fara í þá átt en ég hef ekki skoðað það. Það kostar okkur með kjötvinnsluna hér úti í sveit, þá borgum við mun dýrara rafmagn heldur en ef við værum með kjötvinnsluna inn á Hólmavík vegna þess á Hólmavík er þéttbýli en við erum í dreifbýli þannig við borgum dreifbýlisgjald fyrir flutninginn á rafmagninu til okkar þó það fari hérna um túnin hjá okkur, það skiptir engu máli. Þannig að keyra þennan 36 rúmmetra frystiklefa sem við erum með, miðað við að vera með hann inn á Hólmavík, þá munar það u.þ.b. helming sem er helvíti fúlt. En það er það sem við búum við og höfum reynt að láta vita að okkur finnist þetta fúlt og af hverju við séum að borga einhvern aukaskatt af því við búum í dreifbýli. Það eru nógir aðrir skattar sem við erum að borga, eða dýrari kostnað, eins og að fá póstsendingar miðað við að sækja þær inn á Hólmavík eða fá þetta hingað til okkar, það munar 1200 kalli á hverja sendingu.“
Nauðsynlegt að treysta hvert öðru
Hvað sem því líður, eru þau hjónin greinilega mjög samfélagslega þenkjandi og telja það nauðsynlegt að hafa trú á sveitungum sínum. Því eru þau ekki aðeins umsvifamikil í menningartengdri starfsemi, heldur einnig á ýmsum stöðum í atvinnulífinu. Matthías er í stjórn Kaupfélags Steingrímsfjarðar og þau eru einnig þriðju stærstu hluthafarnir í Fiskvinnslunni Drangi á Drangsnesi.
Hafdís: „Kaupfélagið er ennþá til, það fór ekkert á hausinn.“
Matthías: „Kaupfélagið á 30 prósent í fasteignunum sem pakkhúsið og búðin eru í á Hólmavík, það má segja að Kaupfélagið hafi farið í rekstrarþrot. Með mikilli fyrirhöfn tókst að koma í veg fyrir að það færi í gjaldþrot. Það tókst að koma flestum eignum í rekstur, það stoppaðist ekkert. Það var sett í hendurnar á heimamönnum. Nema Samkaup rekur búðina á Hólmavík. En þetta voru ekki ánægjuleg verkefni, voru mjög erfið, og þar á undan, af því Kaupfélagið átti helminginn í rækjuvinnslunni á Hólmavík, þar var sama staðan. Þetta var nærri 4 ára ferli, það var komið í veg fyrir það að stærsti vinnustaðurinn á Hólmavík stoppaðist og meira en 20 manns vinnuna og það þýddi það að hún er rekin áfram í höndum annarra aðila sem hafa burði til þess að reka þetta.“
Hafdís: „Þetta var allt samhangandi, af því Kaupfélagið átti það mikið í Hólmadrangi, svo þegar Hólmadrangur rúllaði þá minnkuðu svo mikið eignirnar hjá Kaupfélaginu en það er allt annar handleggur.“
Matthías: „Þetta er bara eitt af því sem ég hef þurft að fást við ásamt frábæru fólki sem lagði seig allt fram, og hefur tekið gríðarlega orku og tíma. Markmiðin voru ljós frá upphafi, það var að koma í veg fyrir eins og mögulegt væri að fólk missti vinnuna, það tókst í meginatriðum og hluti af því var að við Hafdís buðum í hlut Kaupfélagsins í Drangi. Af því ef við heimafólk höfum ekki trú á því sem aðrir heimamenn eru að gera og reyna að halda uppi atvinnu, hver á þá að hafa það? Ég starfaði í Héraðslögreglunni í 23 ár, ég fór um alla sýsluna, þekkti mjög marga. Þar áður, eins og ég nefndi, var ég á kafi í þessu íþróttastarfi með öllum Ungmennafélögunum, þekkti fullt af fólki. Svo starfaði ég í 4 ár sem framkvæmdastjóri Héraðsnefndar Strandasýslu sem starfaði fyrir öll sveitafélögin. Fyrir mér eru sveitafélagamörkin ekki til. Það hefur verið dragbítur á framfarir í sýslunni að menn ríghalda í þessi sveitafélagamörk þrátt fyrir hvað byggðaþróunin hefur verið neikvæð og hvað við höfum tapað mörgu fólki burt, við þurfum sárlega á því að halda að vera sameinuð. Ég held að það verði okkar mesti styrkur að við treystum hvert öðru. Það voru skilaboðin sem við hjónin vildum senda, auðvitað snerist það um að með því gátum við styrkt það að Kaupfélagið gæti greitt skuldir sínar, en það voru líka skilaboð um að við höfum fulla trú á því sem fólk er að reyna að gera alveg sama þótt það búi í öðru sveitafélagi við fjörðinn okkar. Auðvitað er endalaust hægt að deila um hvernig eigi að gera hlutina og það mun ekkert hætta. Svona er þetta bara.“
Hvað og hver tekur við?
Ekki er því að undra að Matthías eigi nú sæti í sveitastjórn Strandabyggðar en þótt viljinn sé mikill og margir draumar óuppfylltir, er einfaldlega ómögulegt að koma öllu í verk, eins og t.d. að gera átak í húsnæðismálum, sérstaklega þegar aldurinn færist yfir. Matthías viðurkennir að hafa látið gamminn geysa í viðtalinu í von um að ákveðin spurning myndi gleymast.
Matthías: „Við erum náttúrulega engin börn, ég er 65… og þess vegna tala ég svona mikið til að forðast spurninguna sem liggur í loftinu ‚tekur einhver við af ykkur‘?“
Hafdís og Matthías eiga þrjú fullorðin börn, þau Pétur, Grétar og Þorbjörgu en telja ólíklegt að eitthvert þeirra taki við búinu. En hvað verður þá um það?
Hafdís: „Ég skal bara svara því að við eigum síður von á því að börnin okkar taki við en það er alveg möguleiki og alveg órætt um framtíðina. Við sjáum fram á að halda sjó næstu fimm ár í búskapnum. Við sjáum líka fyrir okkur að hugsanlega seljum við jörðina, það er ekki á dagskrá í dag. Þetta er erfiða ákvörðunin sem við reynum að fresta að hugsa um.Við ætlum að reyna að halda sjó í einhvern tíma í viðbót, svo fremur sem heilsa leyfir.“
Greinilegt er að hinum dugmiklu Húsavíkurbændum liggur ekki á að setjast í helgan stein, enda hvergi betra að vera en í sveitinni.
Hafdís: „Það er til máltæki sem er einhvern veginn svona: ‚Þú er gamall/gömul þegar þú átt fleiri minningar en drauma.‘ Við eigum fullt af draumum sem við vinnum að og þá geta þeir rætst. Svo eru það forréttindi að búa á svona fallegum stað. Það að fara í æðarvarpið að kvöldi í júní og geta fylgst með fuglum og lífinu allt í kring er bara dásamlegt og endurnærandi.“
Greinin var unnin fyrir strandir.is árið 2022.
Myndir bæði teknar af mér og fengnar úr safni frá Hafdísi.