Farsæll starfsferill Gumma Björgvins
Guðmundur Björgvin Magnússon hefur gengt ýmsum ábyrgðarstörfum á sinni starfsævi, þ.á.m. sem útibússtjóri Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Drangsnesi og sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna á Hólmavík. Hann lét af störfum sem sparisjóðsstjóri 31. júlí 2018, en var svo í hlutastarfi þangað til snemma á þessu ári. Fréttaritari heyrði í honum hljóðið til að líta yfir farinn veg.
Guðmundur fæddist árið 1952 heima hjá móðurforeldrum sínum á Hólmavík, þeim Guðrúnu Björnsdóttur og Guðmundi Björgvini Bjarnasyni sem bjuggu þá á Hólmavík, en hann ólst upp á Drangsnesi hjá foreldrum sínum Magnúsi Guðmundssyni og Sigurmundu Guðmundsdóttur, ásamt tveimur systrum, Valgerði Guðmundu (f. 1950) og Sigríði Birnu (f. 1958). Á Drangsnesi átti Guðmundur ljúfa og góða æsku en eins og flestallir af hans kynslóð byrjaði hann snemma að vinna.
11 ára í grásleppu
„Ég held ég hafi verið kannski 11 ára, þá fór ég að vinna um vortíma í grásleppu hjá atvinnurekandanum Jóni Pétri Jónssyni sem var þá að verka grásleppuhrogn. Þar var verkstjóri Sófus Magnússon. Við vorum þarna nokkrir strákar sem fórum að vinna hjá honum og okkur líkaði þetta mjög vel, það var skemmtilegt að koma að þessu. Næstu sumur á eftir fór ég eins og flestir unglingar að vinna í fiski í frystihúsinu og var ég þar á sumrin til 16 ára aldurs. Það var ágætt líka og ég kunni vel við að vera innan um þetta fólk sem maður þekkti svo vel.“
Guðmundur gekk í barnaskóla á Drangsnesi og fór síðan að Reykjaskóla þar sem hann var 2 vetur. Eftir það sýslaði hann ýmislegt þangað til hann hóf störf hjá Kaupfélaginu, m.a. smíðastörf í Reykjavík og þegar hann var 18 ára hóf hann sumarstörf í vegavinnu en Magnús faðir hans var þá yfirmaður hjá Vegagerðinni og móðir hans Sigurmunda og Sigríður systir hans voru ráðskonur hjá vinnuflokknum.
„Starfssvæðið var Strandasýsla frá Hrútafirði og í Árneshrepp þar sem vegurinn endar, settar voru niður vinnubúðir eða vegavinnuskúrar þar sem unnið var á hverjum tíma. Verkefnin í vegavinnunni voru alls konar, við vegstikur, ræsi, við efniskeyrslu í vegi, við sprengingar og eitthvað var ég svo á tækjum, ámokstursvél og veghefli. Þetta var mjög skemmtilegur hópur og góðir vinnufélagar, það var mikið líf og fjör í vegavinnunni enda margir þarna miklir og skemmtilegir snillingar. Á þessum ferðalögum um svæðið kynntist maður auðvitað fullt af fólki og efst á lista í þeim hópi er eiginkonan Guðrún Guðjónsdóttir frá Heiðarbæ sem ég hitti fyrir 50 árum.“
Uppgangur á Drangsnesi
Árið 1974, þá 22 ára gamall, hóf Guðmundur störf hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar undir handleiðslu afa síns, Guðmundar Þ. Sigurgeirssonar, sem hafði verið útibússtjóri Kaupfélagsins frá 1950 og þar áður rekið eigin verslun á Drangsnesi.
„Ég tók við starfinu hans afa míns sem þá var orðinn 80 ára gamall, en verslunin var til húsa í Hamravík sem við Drangsnesingarnir þekkjum vel og er innsta húsið í þorpinu. Þetta er reyndar bara íbúðarhús þar sem amma og afi bjuggu og störfuðu en amma sinnti þar afgreiðslustörfum, húsið er afskaplega lítið og var verslað í einu litlu herbergi, svo voru útihús fyrir lagerinn og grófvöru, mér var það ljóst að þetta myndi nú ekki ganga lengi í þessu húsnæði. Drangsnes var á þessum tíma að hefja ákveðið vaxtarskeið eftir dálitla hnignun. Rækjan var komin og skapaði atvinnu og ýmis tækifæri. Ungt fólk var að setjast að, var að byrja að byggja sér hús á staðnum, þannig það var að koma inn ný kynslóð. Þetta kallaði allt á að vöruframboð og aðstæður til verslunar myndu þurfa að breytast. Það var margt sem við köllum lífsnauðsynjar sem var erfitt með, eins og t.d. mjólk, á þessum tíma. Kúabúskapur var að leggjast af og það var svolítill eltingaleikur hjá fólki að fá mjólk, eini möguleikinn var að fá hana úr nálægum sveitum þar sem ennþá voru kýr. Við fórum því fljótlega að selja mjólk en það var þó afskaplega léleg aðstaða til þess, enginn kælir var í versluninni en við fengum ölkæli og gátum geymt slatta þar, við fengum að frysta mjólk í frystihúsinu og seldum hana einnig þannig í nokkur ár. Það gat verið erfitt með aðföng fyrir verslunina, sérstaklega á veturna. Þá var ekki reglulegur snjómokstur á vegum og oft voru vörurnar fluttar á bátum en verslunin naut þess þá hversu liðlegir útgerðarmenn á bátunum voru við okkur, annars hefði þetta gengið afar illa en með bættri þjónustu og betri vegum lagaðist þessi þáttur.“
Eftiminnileg jólaferð
Guðmundur segist hafa átt gott samstarf við kollega sína á Hólmavík, þ.á.m. yfirmann sinn, þáverandi Kaupfélagsstjóra Jón Alfreðsson, en einnig notið góðs af því að hafa afa sinn sér til halds og trausts í upphafi.
„Það hjálpaði mér mikið að ég var alltaf í góðum samskiptum við innkaupastjóra Kaupfélagsins hérna á Hólmavík. Ég gat leitað ráða þar og fengið ýmsa fræðslu, og svo átti ég afskaplega gott samstarf við kaupfélagsstjórann Jón E. Alfreðsson sem var góður og farsæll yfirmaður. Ég nýtti öll tækifæri sem ég hafði til að skoða mig um í öðrum verslunum og þá helst á höfuðborgarsvæðinu, hlustaði á viðskiptavinina heima. Þetta reyndi ég svo að vigta saman við þá staðreynd að verslunin þurfti að skila rekstrarlegum árangri. Fyrsta ferðin mína í jólainnkaup var lærdómsrík og eftirminnileg, en þessa ferð fórum við afi saman til Reykjavíkur. Hann fór með mig á marga staði þar sem hann hafði átt viðskipti, m.a. í heildsölur sem voru að selja jólavörur og fleira. Þarna kynntist ég mörgu fólki sem ég átti svo eftir að hafa mikil samskipti við. Stærsti heildsalinn okkar var Sambandi íslenskra samvinnufélaga og við fórum auðvitað þangað og þá í þær deildir sem við höfðum mest viðskipti við. Þetta var ferð sem við fórum á tveim dögum og hvar sem við komum var afa tekið opnum örmum því hann átti eitthvað svo gott með að eignast vini í sínu starfi. Ég naut þess líka alla tíð að hafa farið þessa ferð og kynnst þessum aðilum í gegnum afa.“
Innreið tækninnar
Guðmundur sá um daglegan rekstur, innkaup og afgreiðslu, en einnig launaútreikninga frystihússins á Drangsnesi sem þá var í eigu Kaupfélagsins. Þarna nýttist námið á Reykjum vel og einnig nokkur námskeið í verslunarrekstri sem Kaupfélagið hélt í samstarfi við Samvinnuskólann á Bifröst.
„Fyrsta árið var bókhald útibúsins handfært og þá kom sér vel að hafa lært bókfærslu á Reykjum, en síðan var það flutt í tölvu Kaupfélagsins og gat ég þá nýtt tímann í annað. Önnur tæknibreyting sem ég var afskaplega ánægður með var þegar sjálvirki síminn kom, en áður fóru öll símtöl í gegnum símstöðvar sem var mjög tafsamt, það var því verulegur tímasparnaður með tilkomu sjálvirka símans.“
Að mati Guðmundar var mesta og besta breytingin þegar Kaupfélagið flutti úr Hamravík í nýtt húsnæði uppi á Borgargötu.
„Ég held það hafi verið 1981 sem að kaupfélagið var búið að byggja nýtt húsnæði og það var afskaplega mikill munur, mikil breyting. Í Hamravík voru allar vörur afgreiddar yfir borð, en í nýja húsnæðinu var sjálfsafgreiðslufyrirkomulag með bættri framsetningu á vörum og svo jókst vöruframboðið mikið. Þarna vorum við komin með kæla fyrir matvöru og frysta fyrir það sem þurfti að vera frosið og svo auðvitað miklu meira pláss til að sýna vöruna, fólk gat labbað um búðina, og skoðað vörurnar sjálft, það var býsna mikill munur.“
Oddviti á umbrotatímum
Samhliða störfum sínum fyrir Kaupfélagið sinnti Guðmundur Björgvin ýmsum öðrum verkefnum og var á mismunandi tímabilum stjórnarmaður á ýmsum stöðum, hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Héraðsnefnd Strandasýslu og Húsfélagsinu Baldri, sem stóð að byggingu samkomuhússins Baldurs á Drangsnesi, svo eitthvað sé nefnt.
Einnig lét hann til sín taka í sveitastjórnarmálum, bæði á 8. áratugnum og síðan aftur í kringum aldamótin þegar nokkur ólga ríkti í atvinnulífinu á Drangsnesi.
„Ég byrjaði árið 1974 í sveitarstjórn og var í 3 kjörtímabil fyrst. Svo dró ég mig út úr þessu, og byrjaði síðan aftur árið 1990 og var til ársloka 2003. Þá var ég oddviti sveitafélagsins sem gerði meiri kröfur til mín en áður. Eitt af því sem kom inn á borð hjá sveitafélaginu, og þá oddvitanum, voru breytingar í atvinnulífinu. Hólmadrangur, sem þá var með rækjuvinnslu og svo fiskvinnslu, var á förum frá okkur og það var ekkert sem séð var að gæti komið í staðinn hjá okkur annað en að við gerðum þetta bara sjálf. Þá var eðlilegt að sveitastjórnin hefði forystu í málinu og beitti sér fyrir stofnun fyrirtækis sem héldi áfram fiskvinnslu á staðnum. Þá var Fiskvinnslan Drangur stofnuð, það var í senn verkefni sem manni leið kannski ekki alltof vel með í byrjun – að við skyldum vera komin í þessa stöðu – en svo aftur skemmtilegt hvað það spilaðist vel úr þessu. Vilji sveitastjórnarinnar var að þessi rekstur héldist áfram og var það í takt við vilja samfélagsins . Þó óvissa væri um tíma þá var þetta verkefni sem gekk vel og gengur enn sem betur fer. Í beinu framhaldi kom sveitarstjórnin að stofnun Útgerðarfélagsins Skúla ehf. það var verkefni sem gekk vel og gengur enn. Sveitarstjórnin kom einnig að stofnun Laugarhóls ehf. á þessu tímabili það var einnig verkefni sem gekk vel og gengur enn sem betur fer. Sveitarfélagið var stór eigandi í öllum þessum fyrirtækjum og hafa þau gegnt mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu. “
Tvennt annað markvert má nefna úr oddvitatíð Guðmundar. Annars vegar var byrjað að halda hina rómuðu Bryggjuhátíð árið 1996 en Guðmundur segir sinn þátt í því ekki svo stóran. Hugmyndin hafi komið frá Jóni Jónssyni þjóðfræðingi og Jenný Jensdóttir hafi verið framkvæmdastjóri hátíðarinnar lengst af. Hins vegar fékk Drangsnes hitaveitu.
Blessun í brunakulda
Eins og frægt er orðið, fannst heitt vatn á Drangsnesi við leit á köldu vatni árið 1996 en Guðmundur segir að sveitastjórnin hafi þá þegar verið byrjuð að leiða hugann að hitaveitu í plássinu.
„Ég hef alla tíð skynjað að djúpt í hugum okkar Drangsnesinga hvíldi þrá eftir því að það kæmi heitt vatn og hitaveita á staðinn og líklega má rekja það til nálægðar við jarðhitann í Hveravík. Árið 1993 fórum við nokkur úr sveitarstjórninni í tvær heimsóknir til að skoða hitaveitur, til Reykhóla og í Lundareykjadal það var mikil hrifning að skoða þetta og mikil löngun í að fá svona krana á jörðina með heitu vatni. Í desember 1995, þegar kaldavatnsleiðslan sem liggur úr Bæjarvötnum fraus, fengum við jarðbor eftir áramótin til að bora 100 metra holu rétt vestan við frystihúsið og ef ekki fyndist þar kalt vatn þá yrði borinn notaður til þess að bora holu niður í bergið undir bryggjunni og dæla þaðan sjó sem yrði þá geislaður til öryggis. Eftir borun niður á 100 metra dýpi var ljóst að þar fengist ekki vatn þannig að nú var borinn færður niður á bryggju og borað þar. Strákarnir á bornum töluðu um að þeim fyndist að það væri hiti í holunni, það var nú ekkert sérstaklega að hreyfa við manni á þessari stundu því við vorum að leita að köldu vatni. Holan var mæld og jú þarna reyndist vera jarðhiti.“
Búðinni lokað snemma
Í framhaldinu voru boraðar nokkrar holur til að leita að vatni en það var Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem sá um verkið. Síðast var ein dýpri boruð neðan við Bræðraborg og Guðmundur rifjar upp skemmtilegar minningar.
„Ég kom af fundi frá Hólmavík seint að kvöldi 9. júní og stoppa auðvitað við borinn, en þar var enginn og ég sé að rennur vatn upp úr holunni og jú það var volgt, ég fékk mér vatn í lófann og vætti á mér hausinn. Hárið var þarna farið að þynnast og auðvitað vonaði ég að í þessu vatni væru töfrar sem gætu snúið við þessari þróun, en það reyndist nú ekki vera. Ég var auðvitað himinlifandi, sótti flösku inn í bíl og lét renna í hana og fór með hana heim til þess að leyfa konunni að finna að þarna var komið volgt vatn úr holunni sem þeir voru að bora. Svo var það daginn eftir, þegar búið var að bora niður á 128 metra dýpi, að kom upp sjálfrennandi vatn 57,5 gráðu heitt og mældist í fyrstu um 13 ltr/sek. Ég var einn í búðinni, dóttir mín Drífa sem þá bjó í Bræðraborg hringdi í mig óðamála og sagði: ‚pabbi það er komið heitt vatn og það er allt í gufu hérna.‘ Ég skellti á í hvelli, rauk út í dyr og sá þetta, svo gerði ég það sem ég ætti aldrei að gera, ég skellti búðinni í lás – það var samt stutt í hádegismat – rauk út í bíl og keyrði niðureftir til þess að sjá með eigin augum og finna með eigin höndum þetta undur. Gleðin var mikil, ég hringdi strax í sveitarstjórnarfólk sem ekki var nálægt og tilkynnti um tíðindin.“
Upphaf pottamenningar og aukin lífsgæði
Guðmundur segir frá því hvernig tíðindunum var fagnað tilhlýðilega.
„Óskar Torfason og Jenný Jensdóttir voru með mér þarna og við ákváðum í sameiningu að ástæða væri til að halda upp á þetta, Óskar náði í dráttarvél með kerru og ég fékk lánaða Bakkardí flösku, en einhvers staðar hafði ég heyrt að hitaveituvatn og Bakkardí færi vel saman. Nú skáluðu allir viðstaddir – börnum undir lögaldri var að sjálfsögðu ekki boðið upp á Bakkardí – en tveir ungir drengir Magnús og Hafþór sungu og spiluðu á kerrunni.“
Síðan voru sótt fiskikör og búnir til heitir pottar í snarhasti en stuttu seinna færði Guðmundur Halldórsson börnum bæjarins tvö fiskeldiskör að gjöf en auðvitað hafði heita vatnið mun meiri þýðingu fyrir Drangsnesinga.
„Körin voru sótt um kvöldið og líklega næsta eða þar næsta dag voru komnir tveir heitir pottar sem settir voru í var við klettinn neðan við skólann. Þar með hófst hin víðfræga pottamenning á Drangsnesi og mögulega voru ekki margir slíkir á Íslandi um þetta leyti. Nú fóru í hönd ýmsar pælingar um framkvæmdir sem tengdust nýtingu heita vatnsins, en þessi hola sem vatnið kom uppúr fyrst var tilraunahola og því ekki hægt að byggja á henni til að þjóna hitaveitu. Hins vegar var ákveðið að virkja tilraunaholuna strax og settur var upp dælubúnaður í lítinn gám og skólinn og frystihúsið voru tengd um haustið og þannig varð hitaveitan strax tekjulind. Ég verð að nefna að lykilmaður í öllu þessu ferli var Óskar Torfason, ekki síst vegna verkþekkingar, áhuga og dugnaðar við verklegar framkvæmdir. Síðan árið 1998 var boruð vinnsluhola sem lofaði góðu og í framhaldinu ákveðið að leggja hitaveitu um allt þorpið árið 1999 og gekk það eftir og fyrsta íbúðarhúsið tengdist 24. ágúst 1999. Við héldum því alltaf fram að þessu heita vatni og hitaveitunni fylgdu aukin lífsgæði ásamt efnahagslegum ávinningi og bættum atvinnumöguleikum vegna lægri tilkostnaðar.“
Úr búð í banka
Eftir nærri 30 ár hjá Kaupfélaginu ákvað Guðmundur að söðla um og sótti um starf sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Strandamanna en þá hafði hann verið stjórnarmaður þar um skeið.
„Ég var búinn að vera í stjórn Sparisjóðsins í um eitt og hálft ár, svo nokkuð óvænt hætti sá sem var Sparisjóðsstjóri. Ég var hvattur til að sækja um þetta starf, mér fannst það frekar fjarstæðukennt í byrjun, en þetta lét mig samt ekki alveg í friði og niðurstaðan var sú að ég sótti um. Ég hóf störf hjá Sparisjóðnum 1. janúar 2004. Ég bjó áfram á Drangsnesi í eitt og hálft ár, en flutti til Hólmavíkur í ágúst 2006. Þótt mér þætti gaman að keyra og ferðast þá fannst mér þessi keyrsla í vinnuna vera hálfómöguleg, mér fannst það ekki ganga ef maður þurfti að skjótast í einhver verkefni utan hefðbundins vinnutíma. Ég læt svo af störfum sem sparisjóðsstjóri 31. júlí 2018 og á þá eftir hálft ár í að verða 67 ára. Ég var beðinn um að vera eitthvað áfram hjá Sparisjóðnum og vinna við skýrslugerð og bókhald og gerði það, en ákvað svo að hætta allveg fyrripartinn á þessu ári.“
Guðmundur Björgvin var farsæll í starfi sparisjóðsstjóra þrátt fyrir að hafa ekki hlotið menntun á sviði fjármála eða viðskipta áður, ekki frekar en forverar hans, en Samband Sparisjóða bauð upp á nám í samstarfi við Háskólann í Reykjavík sem var afar gagnlegt. Aðspurður að því hvað geri fólk að góðum bankastjórnendum, segir Guðmundur varla hægt að nefna eitthvert eitt atriði.
„Það er örugglega mjög margt hægt að læra í skóla en svo er líka eitthvað sem lærist af reynslunni. Manngerð og hugsunarháttur skiptir vafalaust máli ásamt því að lesa rétt í utanaðkomandi aðstæður. En maður á í sjálfu sér ekkert til að miðla í því sambandi, þetta gekk svona bærilega. Að vísu lenti maður í fjármálahruninu og það var ekkert til að láta manni líða vel á meðan það var óljósast hvernig þau mál þróuðust, en þetta gekk og Sparisjóðurinn fór í gegnum þetta og lifir enn.“
Gengið í gegnum hrunið
En hvernig leið honum sjálfum á þessum erfiðu tímum? Var mikið um andvökunætur og nagaðar neglur?
„Manni leið ekki sérlega vel, það var fyrst og fremst óvissan um hvað væri framundan og hvar við værum að skaðast o.s.fr. En nei, það voru eiginlega ekki andvökunætur. Maður sat dálítið við og varð þreyttur og sofnaði bara. Ég hafði tileinkað mér að fara út að ganga mér til heilsubótar áður en ég byrjaði í þessu starfi, hélt því auðvitað áfram en með markvissari hætti og reyndi að fara daglega í þessa hreyfingu kl. 6 á morgnanna og gekk í um klukkutíma. Eftirá að hyggja held ég að þessar einverustundir úti að ganga í bítið á hverjum morgni hafi gert mér gott og hjálpað mér við að sætta mig við það sem ég gat ekki breytt. Þótt hugsunin hafi alltaf verið að svona gönguferðir hjálpuðu upp á líkama kyrrsetumannsins þá er ég á því að líkamleg áreynsla geri andlegu hliðinni ekki síður gott. Mér finnst ég hiklaust geta mælt með því að allir sem eiga þess kost finni sér leið til daglegrar áreynslu og hreyfingar.“
Óumflýjanlegar breytingar
Guðmundur segist enn fara út að ganga sér til heilsubótar eftir starfslokin, þó ekki jafn snemma eða reglulega. Margir sáu á eftir Guðmundi þegar hann hætti störfum og hann varð var við það en hafði ákveðið löngu áður að hann myndi ekki ílengjast í starfinu.
„Jú, það voru margir sem nefndu það. Ég er þakklátur fyrir það en það er auðvitað alltaf þannig með breytingar, við viljum oft ekki breyta neinu og ekki síður þegar kemur að svona viðkvæmum málum eins og fjármálum. Ég hugleiddi það eftir að ég var búinn að vera nokkur ár að það væri ekki heppilegt að verða mjög gamall í þessu starfi þótt mér hafi ekki verið sett nein takmörk hvað þetta varðar. Niðurstaða mín var því sú að verða ekki lengur en til 67 ára aldurs og hætti því um hálfu ári áður en ég var 67 ára.“
Meiri tími til afslöppunar og fjölskyldulífs
Ekki síður segir Guðmundur það hafa hjálpað og styrkt sig í starfi að eiga góða fjölskyldu en hann er kvæntur Guðrúnu Guðjónsdóttur frá 1978 og þau eiga saman 3 börn, þau Ragnheiði Birnu, Drífu og Magnús. Þar sem Guðmundur hefur jafnan gegnt krefjandi og tímafrekum störfum segir hann vinnuna oft hafa þurft að ganga fyrir fjölskyldulífinu. Nú hafi hann hinsvegar nægan tíma til að njóta lífsins, ferðast og eyða tíma með fjölskyldunni sem fer sístækkandi. Fyrir vinnusaman mann eins og Guðmund urðu þó dálítil viðbrigði að hætta að vinna en hann gengur sáttur frá sínum störfum.
„Þetta voru örugglega miklu minni viðbrigði fyrir mig af því að mér var boðið að halda áfram í hlutastarfi og má segja að þessi 3 ár hafi verið ágætis aðlögun fyrir mig. Ég hafði ekkert hugsað um hvað tæki við, var bara með það í huga að ég ætlaði ekki að vera of lengi í þessu starfi og svo yrði það bara að ráðast hvernig mér reiddi af þegar að þeim tíma kæmi. Ég horfi sáttur um öxl, mér hefur verið treyst fyrir margvíslegum verkefnum og hef ég gert mitt besta til að standa undir væntingum. Í öllum verkefnum sem ég hef tekist á við hef ég haft mér við hlið frábært samstarfsfólk sem er hluti af minni gæfu og einhverntíma var sagt – Þú gerir ekki rassgat einn.“
Greinin var unnin fyrir strandir.is arið 2022.
Myndirnar eru fengnar úr safni Guðmundar Björgvins (nema þessi fyrsta sem ég tók sjálf).