Aðdráttarafl Djúpavíkur
Þýðing á grein. Upphaflegu greinina má finna hér.
Það er liðið á vorið og fjöllin á Vestfjörðunum eru enn hulin snjó eftir erfiðan vetur. Bylgjandi malarvegurinn um Strandir er erfiður á þessum árstíma, með bröttum brekkum, hættu á skriðum og ægilegum klettum sem ganga út í sjó. Þegar komið er fyrir beygju í fjallshlíðinni blasa við nokkrar byggingar – það sem áður var þorpið Djúpavík.
Þegar komið er inn í víkina ferðu framhjá glæsilegum fossi sem fellur niður af bröttum klettum og kemur síðan að risavaxinni byggingu í niðurníð þar sem ryðgað skipsflak liggur í flæðarmálinu fyrir framan hana. Byggingin er gamla síldarvinnslan sem var lokað á sjötta áratugnum þegar síldarstofninn féll.
Á níunda áratugnum keyptu Ásbjörn Þorgilsson og eiginkona hans Eva Sigurbjönsdóttir þessa niðurníddu byggingu, en þau eru nú einu íbúar Djúpavíkur sem hafast þar við árið um kring. Þau reka þar hótel og ferðaþjónustu sem er ein sú vinsælasta á Ströndum ásamt Galdrasýningunni á Hólmavík og Krossneslaug í Norðurfirði.
Að koma til Djúpavíkur
Þegar komið er inn í hótelið, sem eitt sinn hýsti starfsmenn síldarvinnslunnar, lendir maður í hlýlegum sal sem er bæði forsalur og matsalur. Alls konar smádót fyllir veggi og hillur en þó á mjög smekklegan hátt. Eva, sem gefur frá sér strauma hlýju og rósemdar, er á fullu í eldhúsinu því það styttist í matartíma en gefur sér samt tíma í viðtal.
„Ég kom hingað fyrst 1984 þegar maðurinn minn keypti verksmiðjuna,“ segir Eva. „Ég man það fyrsta sem ég hugaði þegar ég ók framhjá henni og horfði upp að hún væri risastór!“
Verksmiðjan var reyndar stærsta steypubygging landsins á fjórða áratugnum. Eva segir að hjónin hafi upphaflega ætlað að koma up fiskeldi og nota verksmiðjuhúsið til þess en vegna örðugleika við að fjármagna verkefnið hafi þau í staðinn stofnað hótelið. „Við sáum að það var þörf á einhverri þjónustu hérna,“ segir hún. „Það voru ekki einu sinni klósett eða neitt og við þurftum hvort sem er að koma okkur fyrir sjálfum svo við slógum tvær flugur í einu höggi.“
Djúpt aðdráttarafl
Hvorki Eva né Ásbjörn höfðu nein tengsl við Strandir eða Djúpavík áður en þau fluttu þangað en féllu fljótt fyrir staðnum. „Ég ætlaði aldrei að vera í þessu hlutverki, að standa yfir pottum og pönnum,“ segir Eva. „Ég var ekkert ánægð með að flytja hingað fyrst. Ég er menntaður leikskólakennari og hefði viljað nýta þá menntun. En svo varð ég bara svo heilluð af Djúpavík, og öll fjölskyldan líka. Við elskum þennan stað – líklega meira en allt annað.“ Eva þagnar og virðist ekki geta komið í orð hvað það er við Djúpavík sem hefur svona sterkt aðdráttarafl.
En hótelið er þar og hefur dregið til sín vaxandi hóp gesta þau þrjátíu ár sem það hefur verið opið. Umferð var hæg í byrjun en hefur verið að aukast hratt, sérstaklega á síðustu fimm árum. „Auðvitað náði sprengjan í vetrartúrismanum ekki til okkar,“ segir hún, „vegna ástandsins á vegunum. En það er á uppleið og þegar vegirnir eru opnir, þá kemur fólk. Það kemur út af friðsældinni og náttúrunni og norðurljósunum og öllu þessu venjulega.“
Svo virðist sem að þegar fólk hefur einu sinni farið til Djúpavíkur verði það að fara þangað aftur og aftur. „Við erum með nokkra fastagesti,“ segir Eva. „Það er fólk sem kemur hingað að á hverju ári, jafnvel oft á ári.“ Hún rifjar upp sögu af heldri Þjóðverja sem dvaldi fyrst á hótelinu árið sem það opnaði. „Hann kom alltaf oftar aftur þar til hann var farinn að koma á hverju ári og var hjá okkur í þrjár vikur. Það var eins og að fá bara afa gamla í heimsókn, allir urðu spenntir þegar hann kom og ég held honum hafi líkað vel að vera hjá okkur. Hann tók myndir og setti á dagatal sem hann sendi okkur um jólin og við sendum honum gjafir til baka. Ási og ég fórum og heimsóttum hann til Þýskalands einu sinni og ætluðum að gera það aftur en hann dó áður en af því varð. Hann var sko fastagestur í lagi, hann var orðinn eins og einn af fjölskyldunni.“
Menning og umhverfisstefna
Það eru ekki einungs ferðamenn sem laðast að Djúpavík – staðurinn dregur einnig til sín fjölmarga listamenn sem fá þar innblástur. Djúpavík á sér ríka sögu og starfsmenn hótelsins veita daglega leiðsögn um sýningu þess efnis sem er staðsett í verksmiðjunni.
Á hverju sumri halda listamenn sýningar í verksmiðjunni og tónlistarmenn koma fram á hótelinu. Eva segir tónlistarmanninn Svavar Knút koma þar fram reglulega og starfsmaður hótelsins Claus Sterneck hefur sýnt ljósmyndir sínar í verksmiðjunni í nokkur ár. Árið 2006 hélt Sigur Rós minnisstæða tónleika þar en þeir voru liður í tónleikaferðalagi þeirra ‚Heima.‘ Á síðasta ári var haldin sýning á verkum nokkurra hönnuða sem allir notuðu rekavið í verkin enda nóg af rekaviði á Ströndum og hann hefur gengt þýðingarmiklu hlutverki þar í gegnum árin.
Með því að standa fyrir slíkum sýningum og viðburðum, styðja Eva og Ásbjörn við menninglíf svæðisins. Þau eru einnig stolt af því að vera eina vistavæna ferðaþjónustan á Ströndum með sterka og skýra umhverfisstefnu. „Við kaupum alltaf vörurnar okkar í vistvænum umbúðum og fyllum á. Ég flokka líka allan úrgang og við erum ekki með sturtur í öllum herbergjum. Það er ekki vistvænt að allir séu að fikta með vatn og sápu samtímis.“
Framtíðaráætlanir
Eva og Ásbjörn hafa staðið í hótelrekstrinum í þrjátíu ár og Eva segir að þau séu rétt byrjuð að huga að framtíðinni og hvað þau geri þegar þau fari að eldast. „Ég vona nú að einhver taki við rekstrinum,“ segir hún. „Kannski börnin okkar. Þau hafa öll hjálpað til í gegnum tíðina – og sérstaklega á síðustu árum. Þá gætum við gamla fólkið sest í helgan steinn og slappað af. Eða kanski,“ bætir hún glottandi við,“yrðum við bara áfram hérna og kvörtuðum yfir öllu sem okkur þætti þau vera að gera vitlaust.“
En Eva getur ekki hætt alveg strax, hún hefur skyldur gagnvart sveitafélaginu sínu þar sem hún er oddviti Ársneshrepps og þarf að sinna alls konar skylduverkum í því starfi. Hún á þrjú ár eftir í embættinu en framtíðin eftir það er óráðin. En ferðamennska á Ströndum er enn í uppvexti og miðað við vaxandi vinsældir afskekktari staða þar virðist líklegt að hótelreksturinn haldi áfram á þeim stoðum sem Ásbjörn og Eva byggðu.
Greinin birtist upphaflega á ensku á grapevine.is árið 2016.
Myndir: RÓG (nema fyrsta myndin var tekin af Art Bicnick fyrir Reykjavík Grapevine).