Alltaf taka mark á sínum draumum
Bjarni Elíasson, fyrrum sjómaður, útgerðarmaður og beitningarmaður, er fæddur á Mýrum norðan við Drangsnes og er sennilega með minnugri mönnum sem nálgast tíræðisaldurinn. Fréttaritari hitti Bjarna og rakti úr honum garnirnar um æskuna, sjómennskuna og tengsl hans við hið yfirnáttúrulega.
Bjarni er fæddur á Mýrum í Steingrímsfirði, steinsnar norðan við Drangsnes, árið 1933, næst yngstur af 5 systkinum. Foreldrar Bjarna voru þau Elías Bjarnason og Jakobína Halldórsdóttir, ættuð úr Bjarnarfirði, en hófu sína sambúð á Drangsnesi áður en þau fengu jörðina á Mýrum árið 1930 sem þau ræktuðu upp og byggðu þar 40 fermetra hús fyrir 7 manna fjölskylduna.
„Þau voru búin að vera 3 ár á Drangsnesi í Steinhúsinu sem heitir Hamravík í dag. Pabbi byggði húsið með Einari Sigvaldasyni, mági sínum, sem var giftur Helgu systur hans, það var árið 1925. En árið 1930 fengu þau land til að vera með skepnur, það voru bara mýrar og grjót. Þetta kom smátt og smátt að rækta það upp. Þetta voru 4 hektarar. Við vorum bara með 2 kýr og 2, 3 hesta og í kringum 50 kindur á Mýrum. Fyrst voru þær bara um 30, og 60 allra síðast, en lengi vel í kringum 50. Það var aldrei stærra, það var ekkert meiri heyskapur fyrir þær. Það þurfti að heyja af engjum, á 50-100 hesta á hverju sumri, seinni part sumars, uppi á hálsi norðan við Bæjarvötnin. Það þurfti að reiða þetta heim á hestum og þetta var erfitt en oft gaman líka. Svo voru alltaf erfiðir aðdrættir með eldivið. Það þurfti að taka upp móinn og grafa mógrafir og bera þetta upp, og þurrka, kljúfa þetta niður í flögur, grinda þetta, og þurrka og flytja þetta síðan, borið upp í galta eða heysátur. Stundum var sótt á veturna líka ef það var eitthvað eftir og dregið á sleðum með hesta og eins með heyið, það var oft borið upp í galta norður á hálsi og sótt á veturna, nokkrar ferðir með sleða og hesta.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/2-2.jpg?resize=640%2C389)
Fannst skemmtilegra að vinna en læra
Sem barn vildi Bjarni helst vera úti við og þótti ekki sérlega gaman í skóla þrátt fyrir að vera strax á unga aldri afar minnugur, enda duglegur að læra örnefni á svæðinu af föður sínum.
„Það var barnaskóli, en það voru ekkert sérstakir kennarar. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég fór fyrst í skóla, held ég hafi verið 8 ára. Þá kunni ég alveg að lesa og eitthvað að draga til stafs, pabbi kenndi mér að reikna. Skólinn var í gamla Baldri sem var alveg í fjöruborðinu, á milli Háafells og leikskólans sem Bensi Sig byggði. Það var járnslegið með lágu risi, var samkomuhús og var kennt þar, ungmennafélögin og kvenfélagið stóðu fyrir þessu, þar til nýi skólinn var byggður. Ég las voða lítið. Ég mundi mikið ef ég nennti að lesa almennilega, ég var fljótur að læra kvæði og sálma, hafði ekki mikið fyrir því. En ég var latur að læra í bókum nema landafræði, hafði mest áhuga á henni.“
Bjarni byrjaði að sjálfsögðu ungur að sinna bústörfum og sjósókn, sem var höfð til hliðar við búskapinn, ásamt vegavinnu við að bera í holur í veginum þegar hann var 9 ára.
„Ég fékk lítinn ljá þegar ég var í kringum 12 ára, þá gat ég slegið. Ljárinn var miklu styttri en hjá pabba, það var víða á bæjum svoleiðis. Það voru búin til orf handa stráklingunum, láta þá spreyta sig. Maður var vinna fyrir pabba á árabát. Maður fékk stundum fisk í soðið frammi á sundi á kvöldin, aðallega eftir heyskap. Ég lenti í því að standa yfir kindum og það var verst 1949. Þá var svo harður vetur og voraði seint, vorið kom bara jafnt og sumarið, 17. júní. Þá var orðið heylítið, þá þurfti ég að standa yfir kindunum uppi á Hærri-Mýrum og leyfa þeim að fara niður í fjöruna þegar fór að falla út og Tólfmannaboði fór að koma upp sem er fyrir framan lendinguna í Bæ, það var kennileiti sem ég átti að taka eftir. Það var mikil útibeita á öllum jörðum þar sem sauðfé var, það var stólað mikið á útibeitina og fjöruna. Svo var galli sem fylgdi fjörubeit, það var fjöruskjögur í lömbunum, þegar þau fæddust voru þau svo máttlaus og vildu drepast, eitt og eitt, stóðu ekki í lappirnar og það var búin að vera hjá okkur þessi plága í einhver ár. Þá voru fundin upp lyf á Keldum, rannsóknarstöð landbúnaðarins, og það var svona bláleitur vökvi sem var hellt ofan í þær á veturnar og þá hættu að koma svona máttlaus lömb.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/3-2.jpg?resize=640%2C427)
Bjarni hafði gaman af bústörfunum, þótt þau væru stundum erfið, og samverunni við nágranabörnin í Bæ, en þar var náið samstarf og mikill samgangur á milli bæja.
„Það var alltaf spennandi að fara í leitir, og í réttirnar, sjá þetta koma af fjalli og smalamennskan í september. Það var mikið fé í Bæ, maður var alinn upp í rolluhópi eiginlega. Það var svo margt þá og ég var oft að smala með þeim og líka í sambandi við eyjaferðirnar, það var hægt að nota þessa stráklinga til að hlaupa og hjálpa til. Annars var voða þægilegt að eiga við Grímseyjarkindurnar, þær vildu fara fram, þær voru komnar og biðu eftir að þær yrðu fluttar, lágu bara niðri við sjó. Krakkarnir á Bæ voru eins og systkini mín, Ragna og Bjarni og Jói Gunni og Ármann og krakkarnir á Bakkagerði, þó það væri ekki skylt var þetta næst manni. Maður var alinn upp að hálfu á milli bæja á Drangsnesi. Það var mikið verið að vinna saman, að smala og svoleiðis. Manni leiddist ekki neitt. Það var alltaf hringt í mig ef það átti að fara í kríuegg úti í Grímsey eða eitthvað, þegar það var kríuvarp úti í eyju var oft Ragna eða Branddís að hringja og spyrja hvort ég vildi koma með í kríuegg á vorin. Þá voru karlarnir að fara í hreiðrin, voru mest að hugsa um kollurnar, að fara með hey og taka dún og svona. Þá var okkur krökkunum leyft að fara um eyjuna að tína kríuegg, ég var oft að tína 60-80 kríuegg. Það var svo mikið þá. Bjarni nafni minn í Bæ, hann tíndi alltaf mest, hann var oft með yfir 100 egg, hann var svo fljótur að stika yfir þúfurnar og vissi bestu staðina.“
Á vit nýrra ævintýra fyrir sunnan
Bjarni hóf sjómannsferilinn á unglingsaldri og eignaðist sinn fyrsta bát í kringum 15 ára en vann einnig í síld á Drangnesi áður en hann hélt suður í atvinnuleit en um tíma hafði hann einnig hug á að gerast skíðakennari, enda mikill íþróttamaður.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/4-1.jpg?resize=640%2C422)
„Ég byrja nú að fara til sjós með öðrum. Gauja í Bakkagerði, var 2,3 haust hjá honum. Vorum bara að róa framfyrir, suður fyrir eyjuna, út fyrir og inn á fjörð, það var svona það fyrsta fyrir utan það sem ég fór á árabát. Ég eignaðist eigin árabát 14, 15 ára, þá var báturinn hans pabba orðinn ónýtur. Hann fauk og brotnaði og við vorum bátlausir í eitt og hálft eða tvö ár, þangað til ég gat keypt mér árabát af Fúsa, Sófusi Magnússyni, frænda mínum á Drangsnesi. Hann átti ágætis árabát, gamlan. Þá fór maður stundum og fékk sér í matinn. Ég var í skipavinnu og síldarvinnu líka á Drangsnesi, við söltunina. Velta tunnum og pækla í tunnur, ýmislegt annað. Ég var ekki á sjó þegar ég var að vinna í síldinni. Það var saltað dálítið mikið á þessum árum, fyrir 1950, 1946-8, þá var saltað mikið af síld á Drangsnesi, alveg upp í 5000 tunnur mest. Svo fer ég að fara suður á vertíð, það var 1952, þá er ég 18 ára þann vetur. Mig langaði svo mikið í skíðaskólann á Ísafirði, í kringum 1950, og það var 2 mánaða, en ég gat ekki farið. Það þurfti að koma mér fyrir í fæði og húsnæði og pabbi vildi ekki að ég færi neitt. Svo ég fór á vertíð áramótin 1951-52 í staðinn. Þá var ég í Grindavík, að beita við bát, en hann bilaði oft og þá fengum við að vinna í saltfiski. Svo fór ég í stýrimannaskólann í 1. bekk og tók 200 tonna réttindin 1959, það var það eina sem ég lærði þegar ég var búinn í barnaskólanum. Ég var að hugsa um að fara í einhverja iðn en ég þekkti einhverja stráka, þeir voru allir skítblankir.“
Bjarni segir að hann hafi farið til Grindavíkur til að þéna og farið út í beitningar vegna sjóveiki og kaus heldur að vera landmaður á veturnar og sinnti þá einnig ýmis konar skipavinnu. Þó fór hann alltaf heim á Strandirnar á vorin til að hjálpa foreldrum sínum með búið og einnig sótti hann þar sjóinn.
„Ég fór óráðinn, það var svo vont fyrir unga stráka sem höfðu ekki verið áður að fá pláss og svo fer ég til Hafnarfjarðar og enda við slippinn. Þar hitti ég strák sem var aðeins yngri en ég. Hann var að vinna við að mála bát, hann sagði mér að þeir væru frá Grindavík og færu á línu þegar báturinn yrði klár úr slippnum, þetta var í enda janúar og það vantaði beitningarkarla. Ég réði mig þarna og fór svo til Grindavíkur viku seinna. Ég var í húsi sem er til ennþá í Grindavík, heitir Sæból. Þar var mötuneyti og svefnaðstaða fyrir landmenn. Það voru landmenn þarna á þremur bátum í stóru húsi með mötuneyti. Það var ansi mikið fjör, margt um manninn. Ég var alltaf mikið sjóveikur og þess vegna var ég í landi á veturna, valdi heldur að beita á bátana. Það var beitt upp á hlut, sama kaup og var á sjóinn í þá daga. Það voru ekkert sérstök húsakyni sem var beitt í hérna í gamla daga, þá var hvergi heitt vatn og lítið um kalt vatn eins og í Grindavík líka. Það var bara sjór sem við þrifum skúrinn með og bara hola, brunnur ofan í hraunið þar sem skúrinn var, mannhæðardjúpt Þar sökkti maður fötu niður með snærisspotta í og við drógum vatn til þess að þrífa borðin og gólfið eftir beitninguna, síldargrútinn. Það var nú ekki kræsilegt þá. Svo kom ég heim um vorið og fór svo kannski á síld mánuði eftir það. Vorið 1952 fór ég á Brynjari frá Hólmavík á síld og kom þá ekki heim fyrr en í enda ágúst eða byrjun september og þá tók við restin af bústörfunum sem voru eftir heima, smalamennskur, að hlaupa á eftir rollunum.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/4b.jpg?resize=640%2C360)
Veðurspáin í draumum
Þó að í Grindavík hafi verið fjölmennara samfélag og nóg atvinna, var lífið þar ekki alltaf dans á rósum.
„Það var mikið um sjóslys. 19. janúar þessa vertíð, þá ferst þarna bátur i innsiglingunni, 70 tonna bátur sem hét Grindvíkingurinn, það fara 5 menn í hafið og drukkna. Það var voða dauft yfir Grindavík alla vertíðina, það var eitt ball alla vertíðina í lokin. Þetta var 1952. Það var deyfð yfir öllu eftir það en svo fór allt að lifna við, annars voru oft sjóslys. Fljótlega eftir að ég kom suður fórst annar bátur frá Akranesi og annar lenti í hrakningum og það voru 2 Hólmvíkingar á honum, Ingimundur og Sveinn Traustasynir frá Hólmavík. Ég þekkti Ingimund vel, við vorum jafngamlir.“
Aðspurður segir Bjarni að sjóslys hafi líka orðið á Ströndum þegar hann var ungur.
„Já ég man eftir, þá var ég að róa hjá Gauja í Bakkagerði. Þá var bátur frá Heydalsá og bræður sem fórust. Ég man vel eftir því, árið 1950. Þá rérum við ekkert þann dag. Þá gerði vestanrok.“
En hvernig las fólk í veður á þessum tíma þegar tæknin, sem til er í dag, var ekki til staðar?
„Við sáum þetta oft út á loftinu og skýjafarinu, blikur og annað sem var tekið mark á. Margir sem fundu þetta á sér. Svo dreymdi manni fyrir veðri og afla.“
Fréttaritari hváir og Bjarni útskýrir betur.
„Já, já, menn voru í þessu af lífi og sál. Maður á alltaf að taka mark á sínum draumum, það var spákona sem sagði það við mig. Ég var ungur og fór til spákonu á Hverfisgötunni. Hún sagði við mig að ég ætti að taka mark á draumunum mínum, svo ég fór að gera það og það virtist vera til góðs ef maður mundi hvað mann hafði dreymt. Það var oft í sambandi við veðrið. Ég sveif yfir sjóinn, eins og ég færi á flug. Sá niður í sjóinn, hvernig hann var og ýmislegt annað. Þá mundi maður allt þegar maður vaknaði. Þá var kannski blíðulogn og gott veður, vonda veðrið ekki komið. Munaði kannski mörgum klukkutímum. Ég sá hvítfyssandi öldurnar og vaknaði ískaldur og skjálfandi. Ég hef lesið að það eru fleiri sem hafa lesið þetta út, þetta er kallað að fara sálförum og ýmsum nöfnum.“
Fréttaritari veltir upp þeim pælingum að slíkt sé kannski ekki jafnalgengt nú til dags því fólk sé ekki eins tengt náttúrunni og áður fyrr sem Bjarna finnst ekki ólíkleg skýring.
„Já, gæti verið eitthvað svoleiðis. Ég var í miklum tengslum [við umhverfið mitt], ég sá margt í draumi. Skipsskaða líka. Það kom stundum fyrir.“
Kraftblökk mesta tæknibyltingin
Árið 1959 var Bjarni í áhöfn á síldarskipinu Guðmundi Þórðarsyni sem var með þeim fyrstu til að vélvæða síldarveiðarnar og Bjarni telur það mestu tækniframfarirnar sem hann upplifði á sínum ferli.
„Við byrjum með kraftblökk á Guðmundi Þórðarsyni 1959. Það var búið að prófa kraftblökkina áður, en það hafði alltaf mistekist að ná lagi á að nota hana en okkur tókst það vel. Kraftblökk er eins og spil í bát til að draga inn síldarnótina. Annars var þetta dregið allt á höndum í snurpubátana. En þá losnuðum við við snurpubátinn og stærri skipin voru með 2 báta. Það var kallað að snurpa þegar var verið að loka nótinni og hífa vírinn sem var neðst, þegar var búið að loka hringnum, nótinni er kastað og svo er henni lokað í botninn, niðri í dýpinu, þá var hún búin að fara undir torfuna og lokast og híft upp og lokað, þá koma lásarnir allir upp á borðstokkinn, kinnunginn, þá er [síldin] lokuð inni, svo er þrengt smám saman að þangað til hægt er að fara að háfa hana upp í fiskiskipin eða dæla henni, eftir að dælurnar komu.“
Allan 6. áratuginn stundaði Bjarni sjómennskuna, helst síldveiðar bæði norðan- og sunnanlands, frá Siglufirði og Sandgerði, en fór alltaf heim í sveitina á vorin og haustin á meðan foreldrar hans héldu skepnur en þau brugðu búi árið 1955. Árið 1960 flutti Bjarni til Dalvíkur, þá giftur maður, en eiginkonan, Dóróthea Guðlaugsdóttir, var ættuð þaðan. Þar fæddust þeim 3 börn, þau Hafdís Erla, Elías Jakob og Bjarni Theodór.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/5-2.jpg?resize=640%2C461)
Í umsjá andalæknanna
Um það leyti voru síldveiðar á undanhaldi og Bjarni hóf að gera út á þorsk, ýsu og grásleppu á eigin bát þegar hann var ekki á síldarskipunum. Hann hafði látið byggja sér litla trillu árið 1957 sem hét Hafrún en seldi hana síðar fyrir stærri báta (sem héldu sama nafni). Hann varð þó að gera stutt hlé frá störfum sínum árið 1967 vegna slyss sem hann lenti í .
„Ég er á Dalvík og þá er Friðgeir Höskuldsson að koma á síld. Ég var búinn að ráða þá Frigga og Jón frá Sæbóli – og síðar bræður hans Pálma og Steingrím – á bát sem fiskaði vel og þeir höfðu góða hluti. Hann þurfti að fara á Strandirnar eftir síldina, áður en hann fór suður í stýrimannaskólann, þetta er komið fram í enda september. Ég átti þá Moskvitch fólksbíl og ég fer með hann vestur. Svo þegar við erum komnir niður í Húnavatnssýsluna, rétt fram hjá Húnaveri, þá er vegurinn þar allur í beygjum og bara mold og drulla, búið að rigna og nýbúið að hefla. Það eins og ég lendi í krapi í einni beygjunni og bíllinn fer að rása og ég missi hann, náði að rétta hann svo hann lenti ekki á steini, svo þá lendir hann á neðri kantinum skáhallt og veltur. Ég hendist út, niður í grjótið, eina 15 metra frá flakinu og slasast mikið. Friðgeir skorðast undir mælaborðinu en slapp eiginlega alveg, hann marðist svolítið á fætinum, klemmdist ökklinn. En ég höfuðkúpubrotnaði, lungað féll saman og 8 rif og 2 hálsliðir sködduðust líka. Svo kom maður frá Blönduósi og það var hringt á sjúkrabíl. Svo kom sjúkraflugvél til Blönduóss, sami og hafði flutt mig áður þegar ég var á Drangsnesi, Björn Pálsson, hann var að flytja mig í annað skiptið, hálf dauðan, á Landsspítalann. Hann fór með mig þangað, þar var gert við svo að það hætti að blæða og saumað, svo daginn eftir var sagt að það yrði að gera aðgerð á höfðinu á mér. Ég var alveg til í það, var látinn skrifa undir, svo var farið í aðgerðina. Það þurfti að sjúga út blóð, það hafði blætt inn, heilahimnan var rifin og það hafði blætt inn, það er bara hola eins og túkall, maskaðist alveg þegar ég lenti í grjótinu. Svo var það sem ég vissi ekki um, að Árni mágur minn var staddur austur á Kvíslarhóli hjá Guðmundi Halldórssyni hrognakaupmanni sem ég hafði líka selt hrogn, hann bjó á Kvíslarhóli á Tjörnesi. Mágur minn var múrari hjá Guðmundi, var að setja utan á hús sem var nýbúið að byggja og það var hringt í Árna austur og sagt að ég hafi lent í þessu slysi, og það fyrsta sem Guðmundur sagði þegar hann frétti það‚ ,komdu með mér, ég þarf að skreppa fram í sveit, við förum bara í bíltúr‘ og það var brunað af stað. Hann átti amerískan stóran fólksbíl hann Guðmundur, það var farið fram í Reykjardal, fram að Einarsstöðum. Þar var bóndi sem hét Einar Jónsson og þá var hann byrjaður að lækna, svona millistykki fyrir lækna að handan. Þeir sögðu honum allt og hann sagði ‚já, það er indverskur læknir sem var við þegar það var gerð aðgerð á höfðinu á honum, mjög fær læknir‘ sagði hann. Þetta gekk vel og ég var fljótur að ná mér. Þetta var í enda september og ég var kominn út á sjó í byrjun nóvember á færi. Það var búin að vera norðanátt, svo gerði sunnanátt og hláku og ég treysti mér ekki til að róa með línubala eða beita að gera neitt, fór bara með færi og fékk þónokkur tonn alveg fram að jólum í 3 vikur árið 1967. Svo dreymdi mig oft lækna í hvítum sloppum, þeir komu til mín og ég fór að lýsa þeim fyrir Einari. Þá brosti hann alltaf og sagði mér hverjir þetta væru og hvernig þeir hefðu dáið og allt, þetta voru íslenskir læknar. En þessi indverski hann var höfuðlæknir, svona sérfræðingur, skurðlæknir.“
Þegar fréttaritari spyr hvort hægt sé að trúa þessu, segir Bjarni reynsluna meina honum annað.
„Já ég get ekki annað, ég er búinn að reka mig svo oft á svona lagað, þetta er eitthvað meira.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/5b.jpg?resize=640%2C509)
Hjálp að handan eftir magaaðgerð
Þetta var nefnilega ekki í fyrsta sinn sem Bjarni var í umsjá andalæknanna því þeir hjálpuðu honum líka nokkrum árum áður þegar hann var á Drangsnesi.
„Þá var ég á færum úti á Húnaflóa með öðrum manni á trillu. Ég var búinn að vera með magasár og að drepast úr brjóstsviða, þá kom gat á magann, eins og eftir blýantsodd var sagt en nóg til að það færi að gubba út. Geiri fór með mig á vörubílnum út á Mýrar, ég gat ekki labbað, var bara í keng og mamma hringdi í Magndísi og sagði hvernig ég væri. Hún hringdi í lækni og læknirinn sagði mér að koma inn á Hólmavík strax. Það var farið með mig á trillunni, þá var sjúkraflugvélin komin til Hólmavíkur til að ná í mig, Björn Pálsson á sjúkraflugvélinni, og ég beint á Landsspítalann um kvöldið og skorinn upp um nóttina. Svo átti ég að koma í eftirlit og myndatöku nokkrum mánuðum seinna sem ég og gerði og þá var þetta allt í lagi, þurfti ekki skera neitt. Þá var ég búinn að fara í millitíðinni að hitta andalækni í Reykjavík, konu sem hét Guðrún Waage, var niðri á Þórsgötu. Það var voða skrýtið. Ég sagði henni hvernig þetta hefði verið og hún vissi alveg hvaðan ég var og sá Grímseyna og allt umhverfið, lýsti þessu öllu. Hún var talin andalæknir og ég lagaðist vel við þetta.“
Aðspurður hvað nákvæmlega hún hafi gert til að lækna hann svarar Bjarni:
„Hún gerði ekki neitt, hún studdi hendinni á andlitið á mér, mikill hiti frá henni man ég. Þá voru læknar hinu megin frá sem voru í sambandi við hana að handan. Svo er það nú allt í lagi og síðan er ég kominn til Dalvíkur, er aldrei nógu góður í vömbinni, alltaf með sviða. Svo fer ég í myndatöku á Akureyri, var að drepast með verk og ælandi, kominn með óhemjumagasár. Ég ligg þarna í nokkra daga á sjúkrahúsinu á Akureyri á einhverjum matarkúr og mér er sagt að halda þessu áfram þegar ég komi heim, éta bara visst fæði sem ég og gerði. Svo var einhver sem sagði mér, það væri maður þarna með stofu í Hafnarstræti á Akureyri sem væri frá Hamraborgum fyrir ofan Akureyri, ættaður þaðan, hann væri að taka fólk með svona lækningar og ég fór þangað. Hann hét Ólafur Tryggvason. Ég sat bara við borð hjá honum og hann horfði bara á mig og sagði ‚þetta er nú að lagast, þeir eru að skoða þig‘ sagði hann, það voru hinir að handan, læknarnir. Svo fer ég bara heim, hressist alveg jafnt og þétt, fór að stunda sjóinn eins og ég gerði mánuði áður og er bara fínn.“
Það virðist því óhætt að segja að andalæknarnir hafi reynst Bjarna vel í gegnum tíðina, máski höfðu þeir sérstakt dálæti á honum vegna draumsýna hans eða náttúrutengslanna, hver veit?
Fór í heimsókn til sjávarútvegsráðherra
En eftir 10 ára búsetu á Dalvík, flutti Bjarni með fjölskyldu sína til Húsavíkur. Þar lét hann smíða tæplega 14 tonna eikarbát sem einnig hét Hafrún – raunar ein af mörgum Hafrúnum – og hélt á dragnótaveiðar sem hann segir hafa verið með ábatasamari veiðum á hans ferli. Svo vildi Bjarni leigja Friðgeiri Höskuldssyni bátinn til að fara á rækjuveiðar í Húnaflóanum. Hann segir af því skemmtilega sögu sem virkar fremur fjarstæðukennd í dag.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/5c.jpg?resize=640%2C448)
„Friðgeir leigði [bátinn] hjá mér um haustið til þess að fara á rækju í Steingrímsfirðinum. Það var verið að smíða fyrir hann í Vestmannaeyjum, þá gaus 1973 í janúar og þá vantaði hann bát um haustið. Það var svolítið bras að fá hann leigðan, hann hefði helst þurft að kaupa hann, þannig voru reglurnar. Þeir voru búnir að samþykkja í sveitarfélaginu á Hólmavík og Drangsnesi, að hann mætti leigja sér bát þessa vertíð, svo það varð úr að ég leigði honum bátinn en það varð að fá leyfi frá ráðuneytinu. Þeir voru búnir að neita Friðgeiri að fá leyfi á þennan bát nema skrá ST á hann, að hann ætti hann bara. Þá var sjávarútvegsráðherra Lúðvík Jósefsson. Ég var þá á Húsavík, og ég var búinn að fá upp hjá manni á Húsavík hvar hann ætti heima, ég náði ekkert í hann í síma og ekki í ráðuneytinu. Ég fer svo suður með flugi og kem til hans um kvöldmatarleytið þar sem hann bjó þá á Miklubrautinni. Hann tók mér afskaplega vel, ég sagði að ég væri frá Húsavík og hvað ég væri að biðja um. Ég var búinn að tala við hann í klukkutíma eða meira inni í eldhúsi hjá honum og konan hans var þarna líka, hann var að enda við að éta karlinn. Hann sagði ‚komdu bara í fyrramálið, þá verður þetta til, þú færð leyfið á hann.‘ Og ég fer niður í ráðuneyti og þá var þetta allt tilbúið og þeir sem ég var búinn að tala við áður, ráðuneytisstjórinn Þórður Ásgeirsson og fleiri, þeir voru hálf hundslegir á svipinn þegar þeir létu mig hafa þetta. Lúðvík var búinn að segja þeim hvað þeir ættu að gera.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/6-2.jpg?resize=640%2C454)
Þannig varð það úr að Friðgeir fékk bátinn leigðan og þegar Bjarni fékk hann til baka, fylgdi með ýmis búnaður sem gerði það að verkum að Bjarni gat sjálfur hafið rækjuveiðar í Öxarfirði þegar rækja fannst þar. Þá kom sér vel að hafa fullbúinn bát á veiðarnar.
„Ég næ þarna í um 28 tonn af rækju þennan tíma á tæpum mánuði. Þá fór hún að losna úr skelinni eða eitthvað, hún minnkaði svo það var sjálfhætt. En svo fór ég aftur á rækju, það kom verksmiðja strax á Húsavík. Ég var fyrstur til að byrja á rækju í Öxarfirði af Húsavíkurbátunum, svo fóru þeir á eftir einn af öðrum. Ég var svo fljótur að koma þessu af stað af því ég var með allt klárt, fékk þetta allt í einni ferð frá Drangsnesi á vörubíl og gat bara farið strax þegar ég var kominn með leyfið. Þá voru hinir að hugsa málið og græja sig.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/7-2.jpg?resize=640%2C602)
Hefur aldrei leiðst
Bjarni bjó á Húsavík í áratug en þaðan fór hann til Akureyrar, þá fráskilinn, og síðan til Reykjavíkur 2 árum síðar. Tengsl hans við heimahagana rofnuðu aldrei og hann fór oft á Strandirnar og vann þar, fór á grásleppu og línu. Árið 1976 byggði hann nýtt hús á Mýrum, en þá var búið að rífa gamla bæjarhúsið. Síðan hefur hann tvisvar byggt við húsið og stækkað það. Einnig fann hann aftur fyrsta bátinn sinn sem hann lét endurbyggja og nefndi hann Litla Hafrún.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/8-2.jpg?resize=640%2C480)
„Ég lét smíða trillu 1957 í Bátalóni í Hafnarfirði og það var fyrsta Hafrúnin. Ég var að koma af vertíð og tók hana á vörubíl á Borðeyri, þar var hún sett á flot og ég sigldi svo frá Borðeyri til Drangness. Hún er 7 metra langur bátur og 2 á breidd, var mæld 2 og hálft tonn. Hún er til ennþá, ég lét endurbyggja hana fyrir nokkrum árum, hún er norður á Mýrum, stendur við skúrinn og breitt yfir hana, var ekkert á floti í sumar. Synir mínir höfðu ekki tíma til að setja hana á flot. Svo þegar ég fer til Dalvíkur á sínum tíma, þá flyt ég þennan bát með mér þangað og byrja að róa honum þar þegar ég er ekki á stærri bátunum. Þá var ég að róa þar á fullu á sumrin ef ég er ekki á síld. Svo sel ég hana eftir 7 ár og fæ mér stærri bát. Svo rekst ég á hann hérna fyrir sunnan, þá var hann hálf ónýtur og fúinn og vélarlaus. Ég eignaðist hann, fékk hann fyrir lítinn pening, 50 þúsund, og ætlaði að fara með hann norður á Mýrar og láta hann grotna þar en þá vildi Bjarni sonur minn endilega láta gera hann upp, gera hann eins og hann var í gamla daga. Þá var farið út í það og hann er eins og nýr í dag.“
Bjarni vann fram yfir áttrætt en eftir að hann kom til Reykjavíkur rak hann fiskbúð á Hofsvallagötu í nokkur ár, ásamt því að sækja sjóinn á Drangsnesi frá vori fram á vetur. Þá fór hann á grásleppu á vorin og síðan á línu en felldi grásleppunetin á veturna. Einnig starfaði hann lengi við beitningar á Sandgerði. Svo ákvað hann loks að hætta en lauk sjómannsferlinum á því að veiða og verka hákarl, þá um og yfir áttrætt. Hann býr nú í Keflavík þar sem hann er duglegur að hitta fólk, spila vist og rúntar enn norður á Mýrar á sumrin að gamni sínu. Þá fer hann m.a.s. út á Litlu Hafrúnu að veiða í soðið, ásamt sonum sínum þegar þeir eru með. Hann segir að honum hafi aldrei leiðst, enda alltaf nóg að gera.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/9-3.jpg?resize=640%2C435)
Jólagóðverk
Aðspurður hvort hann eigi einhverja skemmtilega jólaminningu til að deila með lesendum að lokum, segir Bjarni aðventusögu, sem gerðist á Dalvík en þessi frásögn birtist einnig í Strandapóstinum árið 2010.
„Þetta skeði 19. desember 1961 á aðventunni þegar ég var á Dalvík. Þá fór ég síðasta róðurinn fyrir jól, það hafði verið mikil ótíð og ég hafði ekki getað róið lengi. Ég var á minnstu Hafrúnu og var bara einn með línu. Fór um morguninn í svartamyrkri og lagði út af svokölluðu Sauðanesi sem er að sunnanverðu í múlanum nær Dalvík. Þegar ég er búinn að leggja, þá fer ég upp undir landið þar sem heitir Ytri-Vík og það var vestan andvari, frost og kalt, stóð ofan af fjallinu golan og það var skjól þarna undir klettunum. Svo er ég að stússa í vélinni. Það hafði verið norðanbrim en það var gengið niður, það var svolítil undiralda ennþá. Þá heyri ég kindajarm. Mér finnst það koma úr fjörunni. Það er að byrja að birta og ég bíð þarna, þá heyri ég þetta jarm og sé svo kind í fjörunni. Það eru forvaðar beggja megin og klettar og smá malarfjara, svona 30-40 metrar á lengd og ekki nema svona 10 metrar upp í kletta á flóði og þegar það er mikill sjór þá skellur sjórinn alveg upp í kletta. Ég fer að sjá þetta betur þegar birti, þá er kind þarna og ég er að spá í aðstæður, hvernig sé hægt að komast þarna. Það er lítið mál að lenda þarna, ekkert stórgrýti bara malarfjara. Ég renni bátnum alveg upp í fjöruna og tek festina, hún er dálítið löng, og brýni bátnum aðeins og hleyp með festina á enda svo þó hann losnaði aðeins, næði ég í spottann, og stekk á lambið. Þetta er lamb frá því um vorið, haustlamb, gimbur. Ég næ henni þarna fljótlega, hún átti ekki von á neinu, hún stökk aðeins til. Ég gat króað hana af og náð henni. Ég fer strax um borð í bátinn með kindina og tek fangalínuna og bakka frá. Það gekk vel og ég komst vel frá landinu, þetta tók stuttan tíma. Kindin var bara framundir í góðu yfirlæti. Svo fer ég að draga línuna og kem í land eftir hádegi, það var ekki komið myrkur. Svo þegar ég kem að bryggjunni á Dalvík hafði ég fengið ágætisafla líka. Þá kemur karl á bryggjuna sem kom stundum og tók á móti mér, Haraldur Sófaníusarson. Hann átti heima í næsta húsi við mig á Dalvík. Hann sagði ‚hva, lamb í aflanum?‘ ‚Já,‘ sagði ég, ‚það var lamb á línunni, lifandi meira að segja!‘ Ég sagðist hafa náð því í múlanum yst í Ytri-Víkinni, það hefur farið niður með snjó. Ég þekkti ekki markið á Dalvíkurkindunum en hann þekkti þetta strax karlinn. Ég rétti honum gimbrina upp á bryggjuna og hann skoðaði hausinn og markið ‚ja, það er Sveinn mágur, þetta er markið hans, hann á þetta lamb‘. Sveinn var sparisjóðsstjóri á Dalvík og ég fer með lambið upp í beitningaskúrinn hjá mér og fer svo til Sveins og segi að hann eigi gimbur niðri í beitningarskúr hjá mér. Hann fer að spyrja mig hvar hún hefði verið og ég sagði frá sjóferðinni og hvernig þetta hefði allt borið til. Að Haraldur hefði sagt mér að hann ætti þetta. Sveinn lét gimbrina auðvitað lifa og svo í nokkur ár á eftir var hann alltaf að segja mér að hún væri alltaf tvílembd og gengi alltaf út í múla og væri fínasta kind. Hún var orðin fjögurra vetra síðast þegar ég frétti af henni. Ég skrifaði þetta allt strax niður í bók sem ég á einhvers staðar. Þetta er sko ekki sagan af Fjalla-Bensa, heldur Sjávar-Bensa!“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/10-2.jpg?resize=640%2C427)
Greinin var unnin fyrir strandir.is árið 2022.
Þær myndir sem ég tók ekki sjálf, voru fengnar víðs vegar að, frá Bjarna, Friðgeiri Höskulds og úr gömlum myndaalbúmum sem ég fann á loftinu í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.