Greinin var unnin fyrir Reykjavík Grapevine en aldrei birt.
Þar sem vegurinn byrjar
Norðurfjörður í Árneshreppi er einn afskekktasti staður landsins en þar rekur Arinbjörn Bernharðsson ferðaþjónustuna Urðartind. Ég hitti Arinbjörn á heimili hans Í Reykjavík þar sem hann býr stóran hluta ársins og starfar sem verkstjóri hjá byggingarfyrirtækinu Eykt. En af hverju á hann þá ferðaþjónustufyrirtæki lengst norður á Ströndum?
„Ég er fæddur og uppalinn í Norðurfirði. Eftir að foreldrar mínir hættu að búa, þá fór allt að fara í niðurníðslu. Mér fannst hálfömurlegt að horfa upp á það þannig og ákvað árið 2010 að byggja 2 smáhýsi. Ég sá strax að það var þörf fyrir annars konar gistingu en í boði var. Ég býð upp á góða gistingu með baði og öllu. Síðan var aðsóknin slík að ég ákvað að breyta hlöðunni og gera þar herbergi með baði og góða aðstöðu niðri fyrir gesti, sem stendur til að bæta betur.“
Verandi iðnaðarmaður fannst Arinbirni lítið mál að koma gistiþjónustunni á laggirnar þar sem hann hefur sjálfur gott verkvit og vissi hvað hann var að gera. En þar að auki reyndi hann einnig að bjóða upp á siglingar á Hornstrandir, sem eru ekki ýkja langt frá Norðurfirði, en segir farir sínar ekki sléttar í því. „Ég tapaði öllu. Það misheppnaðist 100 prósent. Svo Það fór svo illa í fyrra, það bilaði allt sumarið. Þetta var alveg hræðilegt.“
Siglingarnar voru því gefnar upp á bátinn en gistiþjónustan gengur þó vel og Aribjörn segir það hafa verið sérlega farsælt að nýta bókunarvélina booking.com og nú séu um 80% gesta erlendir. En hvað eru allir þessir ferðamenn að sækja á þennan stað?
„Landslag er aldrei asnalegt, það er svo einstakt. Það er alls staðar einstakt en þarna er það ekki klassískt, þetta eru ekki venjuleg vestfirsk fjöll. Þau eru öðruvísi. Ég held reyndar að það sé bara forvitni sem fær fólk til að koma, sjá hvernig þetta umhverfi er. Það eru margir hissa að þetta sé svona þokkalega byggt og fínt umhverfi.“
Arinbjörn segir að þegar fólk hafi á annað borð uppgötvað þetta svæði vilji það gjarnan venja komur sínar þangað.
„Það er óendanlega fallegt í Norðurfirði. Það er mjög algengt að útlendingar komi oftar en einu sinni. Í fyrra hitti ég þýskan strák sem vann í Jökulsárlóni, hann var að fá kærustuna í heimsókn og ætlaði að bjóða henni það besta sem hann vissi á Íslandi, það var að fara með hana í sund á Krossnesi. Keyrir frá Jökulsárlóni, tekur hana upp í Keflavík og keyrir beint norður. Þetta var það besta sem hann vissi.“
Fyrir utan náttúrufegurðina, telur Arinbjörn upp ýmsa staði sem ferðamenn geti heimsótt.
„Það er hægt að fara og skoða gamla síldarverksmiðju – tvær meira að segja, fara í safnið Kört sem er lítið byggðarsafn sem er rekið af Valgeiri og Hrefnu í Árnesi. Það er hægt að fara í sund og labba upp á fjöll, eða með sjónum. Ótal gönguleiðir. Það er hægt að sitja í fjöruborðinu og horfa á sólarlagið, mjög flott að fara yfir að Munaðarnesi og sjá sólina fara í gegnum Drangaskörðin, það er nauðsynlegt að sjá það einu sinni á ári. Það er mjög fallegt úti í Ávík og sjá þeim megin inn í Norðurfjörð, sólarlagið er alveg magnað. Það er gönguleið norður í Ófeigsfjörð, það er hægt að labba norður á Hornstrandir. Það er mjög gaman að labba upp með Húsánni og Hvalánni í Ófeigsfirði. Svo er hægt að slaka á. Það komu til mín kanadísk hjón, þau voru hjá mér fimm daga, þau fóru einu sinni út á hverjum degi til að fara í sund. Orðið fullorðið fólk, það fór út á pall, sat, fór inn og lagði sig kannski, svo fóru þau í sund. Þau sögðust vilja koma aftur. Mjög þægilegt að vera í sundlauginni einn á nóttunni.“
Svo virðist sem Krossneslaugin sé helsta aðdráttarafl staðarins, ekki bara Árneshrepps, heldur á öllum Ströndum. Hvað er svona merkilegt við þessa sundlaug sem staðsett er utan við Norðurfjörð?
„Það er einstök staðsetning niðri í fjörunni. Þú getur verið þarna að horfa á sólarlagið, hlusta á brimið eða þögnina. Best varðveitta leyndarmálið er að vatnið í sundlauginni þúsund ára gamalt, það kemur svo djúpt úr jörðu. Það er talið að það hafi fallið til jarðar fyrir þúsund árum. Það er sjóðheitt og kemur beint frá helvíti! En ég held það hafi engan lækningarmátt,“ segir Arinbjörn og hlær.
Nokkur uppbygging hefur verið á ferðaþjónustu í Árneshreppi og víða er boðið upp á gistiþjónustu, svosem í Djúpavík, Finnbogastaðarskóla, Bergistanga og hjá Ferðafélagi Íslands. Arinbjörn segir þó enga togstreitu á milli þessara aðila og raunar mætti vera meiri samvinna.
„Ég held við gætum kynnt þetta meira sameiginlega, sameiginleg kynning á svæðinu. Bjóða t.d. fjölmiðlafólki að koma í heimsókn. Erlendir blaðamenn sem eru að skrifa um Vestfirðina fara á Suðurfirðina og mest á Ísafjörð. Það er mjög sjaldan sem þeir koma til okkar.“
Árneshreppur hefur löngum verið bændasamfélag en Arinbjörn telur að ferðamennskan geti passað vel inn í það.
„Þetta á að geta hleypt lífi í bændasamfélagið, það er ekkert sem mælir á móti því að bændur sjái ferðamenn og ferðamenni sjái bændur og kindur. Við ættum að gera meira af því að fá ferðamenn á jaðartímum til að vera með bændum í einn dag eða svo, og sjá hvernig lífið gengur fyrir sig. Hafa svona Dalalíf.“
Talið berst þaðan að ónýttum tækifærum í ferðamennsku og Arinbjörn nefnir skipulagðar ferðir, t.d. gönguferðir á fjöll og að Kistunni, sem er sögufrægur staður í Trékyllisvík, þar sem galdrabrennur fóru fram á 17. öld.
„Kistan er bara gleymd, það væri allt í lagi að merkja hana vel og fara með fólk þarna með leiðsögn og búa til smá ímyndarheim í kringum þetta. Svo er gaman að fara í Þórðarhelli í Reykjaneshyrnu, það er einhver útilegumannasaga til um það. Svo eru sögur um landnámið og tröllskessuna Kleppu sem braut skarð í Finnbogastaðafjallið og ætlaði að drepa Finnboga ramma og mé í mýrarnar svo þær myndu aldrei þorna og sveið grasið á grundunum, svo þar myndi aldrei gras spretta.“
Aðspurður um hvort hann eigi sjálfur einhverja uppáhaldsstaði segir Arinbjörn:
„Mér finnst afskaplega gaman að koma á endana, Fell, Munaðarnes og Ófeigsfjörð, vegurinn byrjar á þessum stöðum og fer svo suður. Það eru flottir staðir. Mér finnst alltaf mjög heillandi að sjá Drangaskörðin frá Munaðarnesi. Líka að maður á góðar minningar frá þessum stöðum síðan maður var unglingur og krakki. Það var mjög skemmtilegt og gott fólk sem bjó á þessum stöðum. Ég held að það sé kannski það sem manni finnst.“
En hvernig var að alast upp á svona stað?
„Ég held að það hafi verið gott, annars þekkti ég ekkert annað. Þetta var náttúrulega upplevelse að alast þarna upp og upplifa hafísárin þegar hvergi sást í sjó, kannski í einhverja mánuði og menn gátu átt von á öllu af hafísnum. En samt sem áður löbbuðu börnin ein í skólann þó það gæti verið von á ísbjörnum.“
Á þeim tíma voru íbúar hreppsins mun fleiri og alltaf var nóg að gera og engum leiddist. Arinbjörn gekk í barnaskóla á Finnbogastöðum. Bókstaflega gekk í skólann sem var heimavistarskóli þar sem börnin dvöldu í hálfan mánuð í senn en kennslunni var þá skipt á milli yngri og eldri deildar.
„Það voru örugglega um 120 íbúar í sveitafélaginu þá, eða fleiri jafnvel. Ég held að við höfum verið um 20 í skólanum. Það var talsvert víða búið þá en byrjað að halla undan. Síðan var þetta svolítið einstakt að vera í heimavistarskóla, labba í skólann og vera í hálfan mánuð. Það voru mjög margir á mínum aldri heima í sveitinni og við tókum náttúrulega þátt í öllu því sem í boði var inn um alla sýslu. Hugurinn leitaði ekkert í að fara eitthvað annað yfir sumartímann.“
Er eitthvað annað en náttúran, kyrrðin og friðurinn sem Arinbirni þykir best?
„Já, það er eitt. Það er alveg yndislegt að umgangast Framsóknarmennina. Mannlífið,“ svarar hann sposkur.
Hins vegar þyki honum ekki spennandi tilhugsun að vera þarna yfir vetrartímann. „Ég er ekki að upplifa neina vellíðan að vera þarna í blindhríð og rafmagnsleysi,“ segir hann og hlær. Enda eru samgöngumál með þeim hætti að fáir ferðamenn komist í Árneshrepp á veturna nema e.t.v. stöku ævintýramaður.
Að lokum spyr ég hvort eitthvað athyglisvert sé á döfinni í sumar en Arinbjörn svarar því til að það vanti fleiri viðburði á svæðið til að trekkja fólk að, þó að mýrarboltinn á Melum sé á sínum stað og aldrei að vita upp á hverju rekstraraðilar Kaffi Norðurfjarðar taka upp á.
Hvað sem því líður, er náttúran eftir sem áður það sem flestir ferðamenn eru að sækjast eftir og hún er alltaf söm við sig þó hún sé aldrei eins.
Greinin var unnin fyrir grapevine.is árið 2015 en aldrei birt.
Myndir: Flestar eru í safninu mínu nema sú fyrsta sem Art Bicnick tók fyrir Reykjavík Grapevine.