Einn vinsælasti skemmtikraftur Stranda
Ragnar Torfason er fæddur og uppalinn í Árneshreppi og er margt til lista lagt. Auk þess að vera húsasmíðameistari, hefur hann látið til sín taka körfubolta, bæði sem landsliðsmaður og þjálfari, og er auðvitað fjölhæfur skemmtikraftur af guðs náð. Hann er að margra mati ómissandi nærvera á skemmtunum á Ströndum og eftir Bryggjuhátíðina í sumar fannst mér hann viðeigandi viðmælandi.
Ragnar fæddist á Finnbogastöðum í Árneshreppi 18. apríl 1963, fjórða barn foreldra sinna af sex. Foreldrar hans voru Aðalbjörg Albertsdóttir frá Bæ í Trékyllisvík og Torfi Guðbrandsson frá Heydalsá í Steingrímsfirði. Ragnar segir foreldra sína hafa kynnst þegar Torfi var ráðinn sem skólastjóri í Finnbogastaðaskóla.
„Hann kom norður að kenna 1955, ákvað að ráða sig eitt ár í skólanum á Finnbogastöðum. Hann var með allt önnur plön og mamma var ráðskona í skólanum og hún var á leiðinni á Ísafjörð til að vera þar. Svo kom pabbi, þá hætti mamma við að fara á Ísafjörð. Henni leist svo svakalega vel á hann og hann varð strax skotinn í henni, þannig hann varð í 30 ár, og þau saman. Hann var kennari og skólastjóri, eiginlega eini kennarinn, nema hann kenndi ekki handavinnu stúlkna. Pálína Þórólfsdóttir, Palla á Finnbogastöðum, sá um það, svo var Badda [Bjarnheiður Fossdal] að kenna leikfimi og stundum var presturinn að kenna Kristnifræði. Það var mjög skemmtilegt. Þarna fæddumst við öll systkinin og ólumst upp.“
Heimilinu deilt með samnemendum
Foreldrar Ragnar héldu nokkrar skepnur eins og venjan var, 2 kýr og nokkrar kindur, og því fylgdu hefðbundin verk eins og heyskapur og kúasmölun. En æska Ragnars og systkina hans hefur eflaust verið dálítið öðruvísi en hjá jafningjum þeirra í sveitinni því þau deildu heimili sínu og foreldrum með samnemendum sínum alla vetur.
„Þegar ég var í skólanum þá voru um 30 krakkar flesta veturna. Þessu var skipt í tvær deildir, yngri deild og eldri deild þannig það voru kannski 12-15 í hvorri deild. Síðan var maður í skólanum yfirleitt í 2 vikur og þá voru hin börnin, sem voru ekki í skólanum, með heimanám. Pabbi útbjó verkefni fyrir þau sem þau áttu að leysa. Síðan fór yngri deildin heim og eldri deildin kom í staðinn, þetta voru 2 vikur og 2 vikur. Þetta gekk alveg ágætlega. Þetta var náttúrulega þannig að maður átti ekki mömmu bara einn, eða við systkinin, því hún var mamma allra krakkanna. Hún var með heimavistina lengst af og var að elda matinn fyrir krakkana og fyrir skólann. Hún stóð alltaf ein í þessu og t.d. á föstudögum voru alltaf kjötbollur. Þá var náð í saltkjöt í tunnuna og skorið af beinunum og hakkað til að gera bollurnar, það var haft dálítið fyrir matargerðinni. Þetta voru hrikalega góðar bollur, maður hefur ekki fengið þetta síðan. Svo voru krakkarnir að aðstoða við uppvaskið, það var skipst á þannig það gat gengið svona. Hún náttúrulega bakaði fyrir allan skólann og allt þetta. Krakkarnir leituðu alltaf til hennar. Hún var ekkert að lauma vínberi að okkur, hún gaf þá öllum krökkunum, passaði að gera ekki upp á milli. Við fengum ekkert umfram hina krakkana, allavega upplifði ég það ekki þannig. Hún passaði það mjög vel. Þetta voru litlir krakkar oft, og alls konar sem gekk á í skólanum þannig hún þurfti að vera í móðurhlutverki fyrir alla, hugga og hughreysta. Svo var hún svona aukakennari, pabbi sendi oft krakkana til hennar að læra að lesa og það gekk stundum jafnvel betur þegar hún var með þá, það var öðruvísi tækni hjá henni. Þetta gekk allt saman mjög vel, námið og skólinn, það var góður agi, kennslan gekk vel. Þetta var 24 tíma vinna hjá þeim að vera með krakkana, á vaktinni alltaf. Það var ótrúlegt hvað þau þoldu mikinn hávaða. Það voru rosaleg læti oft, við vorum alltaf í ægilegum eltingaleikjum, skjótandi með boga og örvum, og vorum með einhverjar leikfangabyssur, endalaust að skjóta, búa til virki, hlaupandi fram og til baka, mamma að reyna að undirbúa morgundaginn og pabbi að fara yfir próf. Þetta var mjög góður tími.“
Ragnar segir móður sína hafa lagt áherslu á að börnin hennar myndu upplifa eitthvað annað en lífið í skólanum svo þau fóru gjarnan heim með vinum sínum, sem voru flest börn bænda.
„Mamma vildi forframa okkur, hún vildi ekki að við værum alltaf heima. Hún vildi koma okkur eitthvað annað. Hinir krakkarnir fengu að fara í skólann og upplifa það en við vorum alltaf heima, þannig hún var að gera í því að reyna að koma okkur út og sjá eitthvað annað en bara það sem var heima. Þetta var bændasamfélag, það voru allir bændur. Ég fór heim með krökkunum úr Steinstúni og Munaðarnesi og Kaupfélaginu, líka að Gjögri, þetta voru mínir jafnaldrar. Þetta var alveg sitt hvort lífið á bæjunum, merkilega ólíkt. Á Munaðarnesi var einn afskekktasti bærinn, svolítið erfitt var að komast þangað á veturna. Það var brött hlíð og hættuleg og mikil hætta á snjóflóðum, það komu stundum svakaleg snjóflóð þarna. En þeir voru oft framarlega með alls konar, eins og tónlist. Þeir voru að fá alls konar plötur með þungarokkshljómsveitum, þeir komu með þetta og voru að segja okkur frá Uriah Heep, AC/DC og einhverjum svona hljómsveitum. Við vorum bara í gömlu dönsunum. Á Steinstúni, þá var Gísli, afi strákana, með harmonikku. Mér fannst geggjað að hlusta á það, þótt pabbi spilaði reyndar líka á harmonikku, en Gísli var með takkaharmonikku og spilaði önnur lög. Það var skemmtilegt, hann var duglegur að spila fyrir okkur. Á Munaðarnesi heyrði ég í fyrsta skipti leikið á gítar Þar spilaði Veiga mamma strákanna og söng fyrir okkur, það var mjög heillandi. Ég asnaðist ekki til að biðja hana að kenna mér á gítar. Það var líka algjört ævintýri að vera í Kaupfélaginu og eyða þar smá tíma yfir helgi. En á Munaðarnesi var allt öðruvísi eins og þú værir kominn í allt annan heim, það var veiðimannasamfélag. Þeir voru minni bændur, miklu meira að hugsa um veiðiskap. Þar fór maður út með strákunum með byssu að skjóta eitthvað. Ég man að við vorum bara að skjóta svartbaka þegar ég var. Ég man ekki hvort ég hitti en þeir voru hrikalega miklar skyttur, Sævar og Birgir Guðmundssynir skólabræður mínir. Það var skemmtilegt, þetta var svo mismunandi.“
Einnig var Ragnar ungur sendur í sveit og fór að Kjörvogi að eigin beiðni.
„Ég hafði suðað um það því Stína á Kjörvogi var að aðstoða mömmu í eldhúsinu. Hún var 16 eða 18 ára þegar ég var 4 eða 5 ára, rosa lítill og vildi endilega fara með Stínu heim. En pabbi Stínu var dálítið hrekkjóttur. Hann kallaði mig alltaf Ragga, mér líkaði það ekki og ég fór alltaf að vola. En lét mig hafa þetta í einhverja daga. Svo kom ég niður einhvern morguninn, þá voru þau hjónin niðri, Munda og Guðjón. Þau voru að spyrja mig ‚hvernig svafstu?‘ ‚Vel,‘ segi ég, ‚Það er gott að sofa hjá Stínu, hún er svo volg,‘ sagði ég því é g var látinn sofa upp í hjá Stínu. Ég hef stundum hlegið að þessu með Kjörvogsfólkinu. En hann hélt áfram karlinn að kalla mig Ragga og ég fór að vola og Munda konan hans fór að skamma hann ‚Hann vill ekkert láta kalla sig Ragga, hættu þessu!‘ ‚Já, Ragnar minn, ég skal hætta að kalla þig Ragga, jæja Raggi minn ég skal hætta þessu.‘ Hann gat ekki hætt því þannig ég vildi bara fara heim.“
Ragnar virðist þó hafa sæst við gælunafnið því það hefur fest síðan.
Íþróttadella á háu stigi
Ragnar hefur alla tíð verið mikill íþróttamaður og byrjaði sú ástríða snemma, enda nokkur metnaður í íþróttamenningunni í Árneshreppi.
„Ég fékk snemma áhuga á því að keppa í íþróttum. Fólkið í sveitinni var mjög duglegt með okkur í íþróttum. Mundi á Finnbogastöðum var rosa duglegur að kenna okkur og vera með okkur úti á íþróttavelli. Það voru Héraðsmót og þau voru virkilega stór viðburður, það voru fleiri hundruð manns sem komu þarna og flestir að keppa. Það var rosa mikil og skemmtileg íþróttamenning. Það var skipt í aldursflokka og við æfðum grimmt fyrir þetta. Svo var líka sundmót, þá fór maður líka sundlaugina þrisvar í viku fyrir hvert mót. Maður fékk mikinn íþróttaáhuga út úr þessu. Það var svo mikill vilji í manni. Þegar ég eignaðist hjól 13 ára, þá hjólaði maður norður í sundlaug á hverju kvöldi úr skólanum – það eru 10 km. Maður hjólaði í sund, þegar maður var búinn í heyskapnum kannski um 9 leytið. Við krakkarnir vorum alltaf að hjálpa á Melum í heyskapnum og svo hjóluðum við á sundæfingu eftir það. Svo fór maður í Reykjaskóla. Þar var maður í öllum íþróttum en skemmtilegast var að vera í körfubolta og náði maður fljótt ágætum tökum á honum, ég held ég hafi aldrei verið eins hittinn eins og þetta fyrsta ár mitt í körfu Þá komst maður í skólaliðið, sem var nokkuð gott því það voru einu og tveimur árum eldri krakkar í skólanum. Mann langaði svo bara að komast í landsliðið, helst að verða bestur í heimi, það voru rosa væntingar. Það gekk nokkuð eftir þegar maður kom í bæinn og fór í alvöru lið. Ég gekk í ÍR og lék með þeim í nokkur ár, náði einnig nokkrum landsleikjum, þannig draumurinn rættist að einhverju leyti.“
Fjör á Reykjaskóla
Ragnar var fullur tilhlökkunar að komast að Reykjum haustið 1977 til að geta hellt sér út í íþróttirnar en mátti bíða um sinn vegna verkfalls.
„Eftir barnaskólann fóru flestir í Reykjaskóla, veturinn eftir að við vorum fermd. Það var ágætlega krefjandi fyrir fermingarbörn en ég var búinn að bíða svaka spenntur eftir að komast inn að Reykjum. Þegar eldri bræður mínir þrír komu heim í fríum voru þeir alltaf með svo miklar sögur af skólanum á Reykjum og hvernig væri að vera þar. Og ég var svo spenntur því þarna var körfubolti, og þeir voru liðtækir í því og alls konar spennandi sögur af því og þeir voru sjálfir flottir leikmenn að spila. Það var mikil stemming í kringum þetta. Maður gat ekki beðið eftir að komast inn að Reykjaskóla. Það voru ægileg vonbrigði, að haustið sem ég átti að fara var kennaraverkfall. Ég var agalega sár og svekktur en það var nóg að gera í sveitinni og í staðinn fyrir að fara að leika mér í körfubolta á Reykjum þá fór ég norður að Melum að hjálpa bróður mínum að byggja súrheystóftir ásamt nokkrum smiðum sem voru þarna að hjálpa til. Það var hræðilegt veður, krapi og slabb, og mér var alltaf ískalt á puttunum.“
Verkfallið leystist þó eftir nokkrar vikur og Ragnar komst þá loks á Reykjarskóla og gat farið á fullt í körfuboltann en segir það hafa verið nokkur viðbrigði að koma þangað úr sveitinni og ekki alltaf auðvelt að komast heim í fríum.
„Það var svolítið meira en að segja það fyrir barn að fara þarna. Maður var ekkert uppáklæddur í nýjustu tísku, ég var t.d. kallaður Stígvélaði kötturinn. Pabbi sagði nefnilega: ‚Á veturna þá notar maður stígvél! en strigaskó á sumrin.‘ En allir krakkarnir voru í strigaskóm og svo voru aðalbuxurnar mínar terlínbuxur. Þær voru svo viðkvæmar, það kom alltaf saumspretta á þær, ég var alltaf að stækka. Það kom sér vel að bekkjasystur mínar voru mjög duglegar að hjálpa mér að sauma saumspretturnar þannig það hjálpaði mikið til. En það var rosalega gaman þarna. Svo fékk ég nú skó. Bræður mínir fyrir sunnan, Óskar og Snorri, redduðu mér íþróttaskóm þannig ég gat farið að njóta mín í íþróttunum og körfuboltanum. Það var ofboðslega skemmtilegt, maður var alltaf í salnum, í hverjum einustu frímínútum fór maður í körfubolta. Svo voru alls konar leikir á milli bekkja og mót sem voru sett upp, þetta var algjör paradís. Það gekk ekki alveg eins vel í náminu samt. Maður var ekki alveg eins spenntur fyrir því en þetta var heildina mjög skemmtilegt.”
„En það var stundum erfitt að komast heim í frí, það var ekki alltaf fært. Einhvern tímann kom jólafrí í kringum 16. desember og það átti að koma flugvél og fara með okkur, lenda á Hvammstanga og flytja okkur yfir á Gjögur en það kom aldrei flugveður. Það var náttúrulega ófært á bíl allan veturinn. Það var komin hátt í vika sem við komumst ekki heim. Það var hrikalegt, maður varð bara að æfa sig nógu mikið í körfubolta. Við vorum þarna 4 krakkar að norðan, ég, Gísli á Steinstúni, Hildur Andrésdóttir á Melum og Fríða Eyjólfs á Krossnesi. Svo fór pabbi að athuga málið og hann gat reddað varðskipi. Hann reddaði því að við yrðum keyrð á bíl á Skagaströnd og varðskipið kom þangað um miðjan dag á Þorláksmessu og það var haugasjór. Við fengum frábærar mótökur hjá skólastjórahjónunum á Skagaströnd sem voru vinir pabba og mömmu. Þau áttu þrjár sjóveikitöflur fyrir okkur fjögur. Við skiptum við þeim þannig á milli okkar að Fríða fékk enga. Síðan fórum við um borð og ég ætlaði að standa frammi í stafni til að verða ekki sjóveikur en þegar við vorum rétt komin út fyrir bryggjuna þá var skipið farið að stampa svo rosalega að ég hoppaði upp og niður, hélt mér í grindverkið. Ég ætlaði að standa þarna alla leið en þá komu þeir og náðu í mig og það var meiri háttar mál að koma mér til baka. Svo varð ég illa sjóveikur eins og hin tvö sem tóku sjóveikistöflurnar en Fríða skemmti sér konunglega og aðstoðaði okkur eftir föngum. Þetta var hrikaleg ferð en við komumst yfir á Gjögur á miðnætti á Þorláksmessu. Það var svona það versta sem ég lenti í. En við komumst heim fyrir jól og þetta voru hrikalega skemmtileg jól. Við vorum að fljúgast á allan daginn, spila þú og ég og Mannakorn á plötuspilarann og spila handbolta í skólastofunni.“
Í hljómsveit með undrabarni
Á Reykjum hófst einnig ferill Ragnars sem tónlistarmaður en hann hafði lært dálítið af pabba sínum áður því Torfi spilaði oft á böllum í sveitinni.
„Pabbi var náttúrulega að spila á harmonikku, spilaði á öllum böllum þarna í nokkur ár eða áratugi. Þegar hann kom fyrst norður var hann alltaf að spila á böllunum og ferðast um sveitina. Hann sagði að bestu böllin væru í Djúpavík, þar fengi hann mestan pening. Svo var hann organisti í kirkjunni og hann kenndi mér svolítið að spila á orgel. Svo kom píanó þarna líka, í skólann. Ég var dálítið mikið að glamra á þetta. En það var enginn gítar. Ég vissi ekki hver galdurinn var við það. Það var enginn gítar í skólanum, þegar ég komst í gítar vissi ég ekkert hvað ég átti að gera. Svo fór ég inn að Reykjum og ég kunni að spila svolítið af gömlu dönsunum. Þá voru þarna einhverjir strákar frá Skagaströnd sem höfðu verið í hljómsveit þar, og þeim vantaði hljómborðsleikara til að gera skólahljómsveit. Þarna var aðalmaðurinn enginn annar en Guðmundur Jónsson úr Sálinni hans Jóns míns og 2 strákar sem voru með honum, Fannar Viggósson á bassa og Kristján Blöndal á trommur. Fannar er búinn að vera spila mikið síðan, veit ég. Það var haldin prufa, hverjir gætu spilað á hjómborð og það mættu einhverjir. Ég spilaði eitthvað lag sem pabbi hafði kennt mér. Gummi var með þungan svip en sagði ‚þú kemur bara,‘ það var enginn skárri en ég. Þetta var á seinna árinu sem ég var á Reykjum. Það var ekkert verið að taka léttustu lögin en Gummi var algjör yfirburðamaður. Við vorum með alls konar erfið lög eins og ‚Dancing in the moonlight‘, ‚Get back‘ með Bítlunum og ‚Svarti-Pétur ruddist inn í bankann‘ með Stuðmönnum. 1,2,3,4 með Motorway og geggjaða útsetningu Gumma á Mr Sain Gummi samdi sitt fyrsta lag líka þarna, það var geggjað flott og við tókum það upp á kassettu en kassettan týndist og enginn veit hvernig lagið er. Ég gerði smá sóló á píanóið í laginu en get ekki munað það. Það var algjör synd. En þetta var hörkuhljómsveit sem við kölluðum Prelodíu. Gummi var mjög kröfuharður. Hann var algjört undrabarn á gítar þessi drengur því hann lærði ekkert á gítarinn, hann greip bara gítarinn og kunni á hann þegar hann fékk gítar. Og þó hann hefði aldrei spilað hljómborð, þá var hann miklu betri en ég á hljómborð. Hann kom bara og sýndi mér hvernig ég átti að gera og líka bassann og trommurnar. Hann var ótrúlegur. En þarna spilaði maður heilmikið. Við æfðum tvisvar í viku og spiluðum nokkrum sinnum utan Reykjaskóla. Síðan er ég kom suður æxlaðist það þannig að ég eignaðist gítarinn sem Gummi var með á Reykjum, lítinn sætan gítar, rafmagnsgítar. Þá hafði hann selt hann öðrum strák frá Skagaströnd sem hét Injgaldur Pétursson og var líka með okkur á Reykjum og í Fjölbraut í Breiðholti. Hann var að fara að selja gítarinn og ég keypti hann þegar ég kom í bæinn í framhaldsskóla og Gummi kenndi mér nokkur grip. Ég var að glamra á þetta og lærði þarna að spila á gítar.“
Ragnar fékk svo gítar að gjöf frá foreldrum sínum en yfirleitt máttu systkinin deila á milli sín slíkum gjöfum og ríkti mikil sátt um það fyrirkomulag.
„Þetta var dálítið skemmtilegt hjá okkur systkinunum í uppeldinu, því mamma og pabbi voru ekki að gera upp á milli barna – en þau gáfu oft einhverju barninu gjöf og það urðu öll systkinin rosaglöð því þótt einhver einn fengi gjöfina, þá máttu allir leika með hana. Þau gátu ekki gefið öllum hjól, það var ekki til í dæminu að þau gætu keypt 6 reiðhjól en þau keyptu eitt stykki og gáfu einhverjum, þá léku hinir með það, svo komu þau með gjöf sem allir léku sér saman með. Þegar þau komu heim úr ferð frá Kanada, þá komu þau heim með kassagítar og gáfu mér, ég held að hin systkinin hafi ekki fengið neitt en þau samglöddust mjög mikið með gítarinn og ég fór að læra á þetta. Þá var hægt að halda góð partí. Hann var ótrúlega mikið notaður þessi gítar, það voru endalaus söngpartí, þau gengu út á að það var sungið allt kvöldið. Það var setið hring og tekið lag og um leið og lagið var búið kallaði einhver ‚spilaðu þetta lag!‘ svo var það spilað og þá kallaði næsti ‚spilaðu þetta lag!‘ þetta var rosaleg stemming. Ég held að þetta sé alveg hætt núna, ég veit ekki hvort þetta sé til.“
Vel heppnaður körfuboltaferill
Þegar hér er komið við sögu var Ragnar kominn til Reykjavíkur þar sem hann sótti menntaskóla og sinnti körfuboltanum af fullum krafti með Íþróttafélagi Reykjavíkur, enda snerust æskudraumar hans um að verða atvinnumaður í körfubolta.
Eins og áður sagði, gekk Ragnar til liðs við ÍR og spilaði einnig með landsliðinu.
„Liðinu gekk ekki alltaf vel en var oftast í efstu deild, ég spilaði tvo úrslitaleiki í bikarkeppni og fyrra skiptið gegn Val þá var Pétur Guðmundsson með okkur en við töpuðum í hörku leik. Seinna lékum við gegn Njarðvík en töpuðum eftir framlengingu, þetta var samt mjög gaman. Ég náði að leika 13 landsleiki en varð að draga mig úr landsliðinu þar sem maður var kominn með stækkandi fjölskyldu, konu og tvo litla stráka. Mikill tími sem fór í þetta og mikið vinnutap. 1986 gekk mér best persónulega og var valin þriðji besti leikmaðurinn í úrvalsdeildinni á eftir Val Ingimundar sem er reyndar mikill Strandamaður og Pálmari Sigurðssyni. Hins vegar er persónulega stigametið mitt frá því á Reykjaskóla er við strákarnir af Ströndum skoruðum á Húnvetningana í skólanum og skv. bréfi sem ég sendi á pabba þá skoraði ég 64 stig sem er reyndar frekar ótrúlegt en ég held ég hafi ekki gert mér grein fyrir að það væri eitthvað sérstaklega mikið skor.“
Uppgangur í fjárhúsasmíði
Ragnar fór þó alltaf heim í sveitina á sumrin til að vinna við smíðar sem urðu á endanum hans aðalævistarf.
„Við vorum alltaf að vinna í sveitinni. Það var verið að byggja mikið af útihúsum þarna á þessum tíma, verið að byggja fjárhús og flatgryfjur, það er svona heygeymsla þar sem maður keyrir inn á dráttarvél, sturtar úr vaginum og keyrir svo í gegn. Það er mjög mikið svoleiðis í Strandasýslu og við byggðum helling af þeim. Þetta er t.d. í Bæ á Drangsnesi. Það voru geggjuð uppgrip í þessu, við ferðuðumst um sýsluna í mörg, mörg ár, ég, Guðbrandur bróðir, Arinbjörn frændi Bernharðsson í Norðurfirði – hann var svolítið eldri en ég og var yfirleitt höfuðið á þessu – og svo Eysteinn Einarsson á Broddanesi. Það var byrjað að byggja um ’74 þegar ég var 11 ára, þá kom um 20 manna flokkur að smíða í sveitinni heima. Það voru kannski byggðar nokkrar flatgryfjur yfir sumarið í sveitinni. Það voru keypt steypumót til að reisa þetta þannig það tók tæpa viku að steypa kjallarann undir fjárhúsin. Við ólumst dálítið upp í þessu og fengum að hjálpa til fljótlega, 13-14 ára. Þegar ég var 16 ára, var hringt í mig um haustið þegar ég er að fara suður í framhaldsskóla. Það var Haddi [Haraldur Guðmundsson] á Stakkanesi, hann vildi fá mig til að hjálpa til við að byggja fjárhúskjallara. Þá var ég búinn að vera að byggja fjárhúskjallara á Kjörvogi og einhverjum fleiri stöðum líka í sveitinni. Það varð út að við fórum inn að Stakkanesi. Óskar kom [úr Reykjavík] og við fórum og áttum að byggja fjárhúskjallara á Stakkanesi og ég var bara 16 ára og var aðalkarlinn í genginu. Þeir hvöttu mig mikið, Magnús á Stað og fleiri, þeir höfðu fulla trú á mér. Og svo Óskar, hann var betri en enginn og kunni að mæla á vinkil til þess að gera húsið hornrétt. Þetta er sko pýþagóras – 3 metrar í þessa átt, 4 metrar í hina áttina og svo 5 metrar á milli, þá var kominn vinkill. Þannig byggirðu hús. Með þetta í farteskinu náðum við að byggja þennan fjárhúskjallara, hann var bara steyptur á 4 dögum, þetta gekk ótrúlega vel. Haddi var hæstánægður með okkur, held ég. Svo vorum við næstu sumur í þessu, síðasta sumarið var 1985. Þá vorum við á Þórustöðum í Bitrunni, vorum að byggja fjárhúsið þar. Þá vorum við – ég, Eysteinn og Guðbrandur – í því. Þá gerðist það að það gleymdist að setja 2 steypustyrktarjárn sem áttu að vera í veggnum, í gaflinum á efri hæðinni. 2 dögum eftir að við erum búnir að steypa og rífa utan af, sjáum við að það er töluverð sprunga í gaflinum á húsinu. Svo komum við daginn eftir og þá var hún búin að breikka, og eftir viku var hún orðin svona 5 mm og við vorum alveg miður okkar yfir þessu helvíti. Hún stækkaði alltaf sprungan, meira og meira og eftir mánuð var hún orðin sentimeter. Maður var með mikla magakveisu yfir þessu, að húsið myndi kannski hrynja. En við kláruðum að negla þakið á fjárhúsið en sprungan stækkaði og stækkaði og ári seinna var hún um 2 cm en bóndinn, Gunnar á Þórustöðum, hann tók þessu létt, hann hló bara og hafði engar áhyggjur af þessu. Ég veit að húsið stendur enn en það væri gaman að fara og sjá hvað sprungan er stór núna.“
Steypt alla nóttina
Ragnar segir fleiri sögur frá fjárhúsabyggingartímanum í sveitinni, m.a. þegar óvart var byggð of stór flatgryfja – bóndanum til ánægju – og þegar íþróttadellan varð vinnuseminni yfirsterkari.
„Við steyptum fjárhúsin á Kaldrananesi með steypuliði úr sveitinni, það var kjallarinn og stór fjárhús fyrir Inga og Öldu á Nesi. Það var rosaleg stemming í fótboltanum í Strandasýslu á þessum árum, það voru lið úr öllum ungmennafélögunum, nema Leifur Heppni ungmennafélagið heima í Árneshreppi var ekki með. En við vorum að keppa fyrir Neistann á Drangsnesi, svo var Kolli í Kollafirði, Geislinn á Hólmavík og Grettir úr Bjarnarfirðinum. Og við vorum að fara að spila leik á Sævangi kl hálf-níu um kvöldið, við vorum allir í liðinu: ég, Guðbrandur og Eysteinn frá Broddanesi. Síðan fer að nálgast kvöldmatur og við sjáum að það er töluvert eftir, þannig við segjum við karlana ‚Við verðum að fara og spila leikinn og þið steypið bara, þetta verður kannski búið þegar við komum aftur.‘ Við fórum og spiluðum leikinn við Hólmvíkingana. Þeir voru jafnan með besta liðið og höfðu líka mjög gaman að því að sparka í lappirnar á okkur, þeir voru hrikalega erfiðir en ógeðslega góðir líka. Ég man ekki hvernig leikurinn fór, þeir hafa örugglega unnið okkur. En við komum aftur um kvöldið, um 11 leytið, allir marðir og bláir og gátum varla hreyft okkur. Vonuðum að hinir væru búnir að steypa. En nei, þeir virtust ekki vera búnir, svo við klæddum okkur í gallana og fórum að kíkja á og þá var alveg hellingur eftir þannig við fórum að steypa með þeim og ég held við höfum verið búnir 10 um morguninn. Þetta var mjög erfiður sólarhringur. Þetta var það harðasta sem við lentum í.“
Svo skemmtilega vildi til að gamla fjárhúsagengið sameinaðist nýlega fyrir tilviljun.
„Við erum með svona uppsteypufyrirtæki GR verk, ég og Guðbrandur bróðir og sonur ‚okkar‘ Árni – við eigum sko börnin saman, það er eitt einkenni fjölskyldunnar – við tókum að okkur að steypa upp meirihlutann af Landsspítalanum, eða 3 byggingar af 5. Þá æxlaðist þetta þannig að við vorum að steypa þessar 3 byggingar í þessu stóra verkefni, við vorum undirverktakar hjá aðalverktakanum Eykt og hver heldurðu að hafi verið verkstjóri Eyktar? Jú, Arinbjörn Bernharðsson frændi okkar og félagi í fjárhúsasmíðinni. En hver heldurðu að hafi verið byggingarstjóri? Það var Eysteinn Einarsson frá Broddanesi sem var líka í fjárhúsagenginu. Við náðum bara aldrei að taka mynd af okkur saman. Þarna vorum við fjórir fjárhúsamiðir, sem áttum að vera í aðalhlutverkum í þessum spítala, var það ekki vel af sér vikið? Skemmtileg staðreynd.“
Ragnar byrjaði strax að vinna við smíðar eftir menntaskóla og vann í áratug hjá Tryggva Valdimarsyni húsasmíðameistara og síðan hjá ýmsum fyrirtækjum en einnig starfaði hann sjálfstætt um tíma. Þeir bræður hann og Guðbrandur sameinuðu krafta sína við húsasmíðar rétt fyrir hrun og stofnuðu uppsteypufyrirtæki sitt en eftir hrun störfuðu þeir í Noregi í 4 ár, áður en þeir komu aftur heim.
Feiminn en félagslyndur
Á yngri árum hugleiddi Ragnar að verða íþróttakennari og var reyndar duglegur að þjálfa börn í körfubolta hjá íþróttafélaginu Fylki og svo Fjölni árunum 1994-2004 og átti þátt í að setja á laggirnar körfuboltamót sem nú heitir Sambíómótið. En ástæða þess að hann varð á endanum frekar smiður gæti komið lesendum, sem ekki þekkja hann vel, jafnmikið á óvart og mér.
„Ég ætlaði alltaf að verða íþróttakennari, ég hafði svo mikinn áhuga á íþróttum. En svo féll ég á því að ég var svo rosalega feiminn og átti erfitt með að tala fyrir framan fólk þannig ég sá ekki fyrir mér að ég gæti talað fyrir framan hóp af krökkum, og þjálfað einhvern hóp, ég átti svo erfitt með að koma upp orði. En þá ákvað ég að fara og læra smíði og ég hef ekkert séð eftir því, búið að vera fínasta líf. Ég byggði mitt eigið hús og tel Þess vegna að það sé mjög gott fyrir ungt fólk að fara í smíði, svo það geti smíðað sitt eigið hús. Ég er búinn að gera það þrisvar núna og það hefur komið vel út. En þó ég hafi verið svona feiminn, þá náðu bræður mínir samt að gera úr mér þennan gaur sem er að spila á Bryggjuhátíðum og allskonar skemmtunum. Þeir voru alltaf að atast í mér ‚farðu og spilaðu!‘ og þeir höfðu óbilandi trú á mér.“
En hvernig kom það til að Ragnar varð svona stór þáttur í Bryggjuhátíðinni?
„Óskar fór að troða mér inn á Bryggjuhátíðina. Ég var ekki með frá upphafi, kannski svona í þriðja skiptið, þá vorum við þarna út við enda, að norðanverðu [við fótboltavöllinn]. Ég man ekki hvað við vorum að gera. Þetta var ‚Ríðum og rekum yfir sandinn‘ og ‚Drangsnesbragurinn‘ er alltaf málið. Maður stúderaði hann alveg, varð að kunna hann. ‚Litli björn og stóri björn‘ varð eiginlega til þarna á Drangsnesi, það var langmesta stemmingin fyrir því.“
Litli björn og stóri björn hápunkturinn
Aðspurður segir Ragnar að vinkona systur hans hafi upphaflega kennt honum lagið ‚Litli björn og stóri björn‘ sem er yfirleitt álitið hápunktur varðeldsins á Bryggjuhátíðinni.
„Það var vinkona Fríðu systur sem kenndi okkur það, Dagbjört Leifsdóttir. Ég veit ekki hvaðan það kemur. Þau voru með þetta í íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni, þau voru að syngja þetta þar. Ég held að það sé enginn að gera þetta eins og við gerum, þau gerðu þetta bara acapella. En við prófuðum þetta í ÍR-partíi fyrst og það heppnaðist svona ógeðslega vel. Mér datt í hug að prófa þetta á Bryggjuhátíðinni, það var strax mjög góð stemming fyrir þessu.“
–Útúrdúr. Ég lagðist að gamni mínu í smá rannsóknarvinnu til að reyna að finna uppruna lagsins en varð lítið ágengt. Til er önnur íslensk útgáfa í flutningi Papanna sem heitir ‚Halabalúbúlei‘ og kom út á plötunni Riggarobb árið 2002. Einnig fann ég útgáfu frá 1995 með pólsku þjóðlagasveitinni Ryczące Dwudziestki og lagið virðist helst flutt af pólskum listamönnum, svo mögulega er upprunann þar að finna. En áfram með sögu Ragnars af þátttöku hans í Bryggjuhátíðinni.–
„Við fórum að gera ýmislegt skemmtilegt. Svo fórum við að gera meiri tækni við brennuna, af því það var mismunandi hvernig vindurinn blés, þá var hætt að hlaða brennuna, bara farið niður í frystihús og náð í stórt bretti og brennunni hlaðið á það og hún keyrð með lyftaranum þangað sem var best að hafa hana gagnvart vindi þannig þetta varð bara varðeldur í staðinn fyrir að vera brenna. Varðeldur er lítill, brenna er stór og erfitt að slökkva eða færa hana til. Það var margt skemmtilegt sem gerðist. Í eitt skiptið varð fólk dálítið brjálað út í mig. Þá datt okkur í hug að gera atriði – það var fuglahræðukeppni og það vantaði peysu á eina fuglahræðuna. Við settum fuglahræðuna á brennuna og sögðum ‚það vantar peysu á fuglahræðuna! Við ætlum bara að finna einhverja ógeðslega ljóta peysu sem einhver er í hérna í brekkunni og taka hana og brenna henni!‘ Þá vorum við búnir að klæða einn góðkunningja okkar, Ingólf Karlsson, sem er með mér í Strandakórnum, í einhverja gamla peysu sem ég átti sem við gátum fórnað og sett á brennuna og Ingólfur átti að berjast á móti. Svo segi ég ‚hver er með ljótustu peysuna?‘ og Halldór Logi og einhverjir fleiri ganga á milli og skoða peysur. ‚Heyrðu þessi er djöfull ljót,‘ segir Halldór Logi við Ingólf, ‚Komdu hérna með mér.“ Hann er leiddur þarna í áttina að brennunni. ‚Heyrðu við ætlum að taka peysuna þína og brenna hana!‘ Og Ingólfur: ‚Nei, þið farið ekki að brenna peysuna mína! Eruð þið ruglaðir? Þetta er peysa sem mamma gaf mér!‘ Og hann streittist á móti, kannski heldur mikið, það þurfti að rífa af honum peysuna og taka svolítið vel á honum. Og fólkið fattaði ekki að þetta væri djók. Svo var peysan sett á fuglahræðuna og kveikt í. Þetta var mjög brútal. Þetta var eitt best heppnaðasta brennuatriðið.“
Bryggjuhátíð úr dvala
Ragnar segist alls ekki skipuleggja sig langt fram í tímann.
„Nei, þetta varð bara til samdægurs held ég. Ég er samt alltaf að hugsa um þetta. Ef ég er beðinn um þetta, þá er ég kannski að hugsa um það í marga mánuði áður. En það kemur ekki neitt og ég er ekki með neitt svo er komið undir morgun og mér dettur ekkert í hug. En svo hefur það alltaf blessast. Nú er ég minna stressaður, er kominn með smá katalogíu, þarf ekki að vera stressaður yfir þessu. En ég var mjög stressaður fyrir þessum Bryggjuhátíðum, þetta var svolítið mikið prógram. Ég var með kvöldvökuna og varðeldinn, ég var smá hræddur um að verða óþolandi, ef það er sami gaurinn með kvöldvökuna og varðeldinn. Ég veit ekki, ég fékk allavega ekki á mig. Fólk virtist hafa ótrúlega gaman að þessu. Maður notar kannski kvöldvökuna til að æfa eitthvað sem á að vera á varðeldinum.En svo einhvern veginn kemur það á síðustu stundu. Oftast. Eitthvað. Svo notar maður einhverja klassíkera aftur og aftur. Og ég þarf alltaf á Bryggjuhátíð að taka aðallögin, ‚Drangsnesbraginn‘ náttúrulega og ‚Sæll ég heiti Jón,‘ ‚Litli björn og stóri björn‘. En svo þarf maður að gera eitthvað á milli, eitthvað nýtt líka. Það getur verið erfitt að finna það. Maður er svolítill adrenalín fíkill. Mætti stundum með eitthvað sem var mjög hæpið að láta fólk gera. Maður er aldrei búinn að prófa það og ef það klúðrast þá er farið mikilvægt móment úr þessu og þá getur verið erfitt að ná því upp aftur. í rauninni hefur alltaf gengið vel, maður hefur stundum komið með eitthvað, eins og að spila á fiðluna eins og Alexander Rybak, við gerðum það einhvern tímann, ‚Is it true?‘ – taka einhver lög sem voru ögrandi, ekki bara ‚jibbíjæjei-lög‘ og ef það eru einhver svona heit lög, þá er gaman að reyna að taka þau eða gera eitthvað með þau. Svo er svo erfitt að sleppa, það er svo hrikalega mikil stemming í samkomuhúsinu, ótrúlega gaman, fólk er bara komið ‚hvað á ég að gera núna?‘ Maður er búinn að læra það, það eru allir til í það, næstum alveg sama hvað maður biður fólk að gera, það er til í þetta.“
Bryggjuhátíðin var einmitt endurvakin í sumar eftir nokkurra ára hlé og var Ragnar spenntur fyrir verkefninu, enda er sá armur fjölskyldu hans sem býr á Drangsnesi, mjög virkur í skipulagningu og undirbúningi hátíðarinnar.
„Bryggjuhátíðin heppnaðist svakalega vel, svo gaman að sjá hvað vel var að öllu staðið og mér fannst litla frænka mín Sigurbjörg Halldórsdóttir standa sig ótrúlega vel en hún var mikill prímusmótor i að endurvekja bryggjuhátíðina og að undirbúa hana. Hún gekk þar í hlutverk móður sinnar Aðalbjargar, dóttur Óskars bróður, sem við misstum eftir erfið veikindi fyrir um einu og halfu ári og skildi eftir sig mikla sorg og sőknuð í litla þorpinu og hjá öllum sem þekktu hana. Gaman var að sjá samstöðuna hjá fólkinu á Drangsnesi með allt sem þurfti að sinna t.d. að elda ótal nýstárlega sjávarrétti og bjóða fleiri hundruð manns að smakka. Það var gaman að mæta aftur á kvöldskemmtunina og taka Drangsnesbraginn og voru mjög skemmtileg atriði flutt af heimafólki og fleirum. Það voru ótrúlega margir mættir á varðeldinn þrátt fyrir talsverðan vind og kulda. Fólkið var heldur betur til í að tralla með mér og var ég rosa ánægður með stemminguna og undirtektirnar við sönginn. Sá ég strax að það var mjög skemmtilegt fólk mætt á hátíðina og þá leið mér ótrúlega vel. Það var hinsvegar mjög kalt að spila og hætti ég að finna fyrir puttunum eftir ca. hálftíma, missti t.d. stundum gítarnöglina og fingurnir rötuðu ekki alltaf á réttan stað, en við kláruðum samt prógrammið og fyrir mig var stemmingin eins og hún gerist best.“
Samheldin fjölskylda
Eins og fram hefur komið á Ragnar á því láni að fagna að eiga stóran og samheldinn systkinahóp en auk þess að eiga fimm systkini, er hann giftur Ernu Gunnarsdóttur frá Hólmavík og eiga þau 3 uppkomin börn, þau Pálmar, Árna og Bergdísi. Ég spurði hvernig hans nánasta fólk myndi lýsa honum.
„Það er góð spurning. Ég veit það ekki. Allavega kemur okkur öllum rosalega vel saman, það er aðalmálið. Mikil samheldni í systkinahópnum og fjölskyldunni okkar. Að ná að halda slíku þegar foreldrarnir eru farnir, með erfðir, passa upp á að það verði ekki eitthvað vesen, það er mjög mikilvægt. Láta ekki svoleiðis spilla fjöskyldusambandinu. Ég held að þau myndu lýsa mér eins og ég myndi lýsa þeim, meiri háttar gott fólk og gaman að vera í kringum. En þau eru miklu duglegri en ég, systkini mín. Ég held það. Ég er meiri svona rispumaður. En maður er kannski ekki alltaf þessi hressa týpa. En það er alltaf gaman að hitta fólkið, maður verður alltaf glaður þegar maður hittir þau.“
Vinsælir jólasveinar
Ragnar segir að sem unglingi hafi honum stundum þótt dálítið vandræðalegt að fylgjast með föður sínum í hlutverki veislustjóra í samkomum en síðar hafi hann áttað sig á að einhver yrði að vera í því hlutverki og fór að taka það hlutverk að sér sjálfur þrátt fyrir feimnina. Það hefur þó aldrei heillað hann að verða atvinnuskemmtikraftur, enda ekki mjög fjölskylduvænt starf. Hins vegar á Ragnar sér hliðarsjálf sem dregið er fram um hver jól, því þá bregður hann sér í gervi jólasveins ásamt Guðbrandi bróður sínum og þeir eru vinsælir á margvíslegum samkomum.
„Við vorum örugglega með 70 gigg um síðustu jól, það er mikið að gera. Pálmar sonur minn er aðalskipuleggjandinn, tekur við pöntununum. Þetta eru jólaböll, sum eru risastór en sum eru bara lítil. Oft eru þetta fjölskylduboð, kannski 50-70 manns, mikið um svoleiðis. Svo erum við að fara inn í fyrirtæki sem eru að halda jólaböll, og svo í heimsóknir í heimahús.“
Guðbrandur leikur Kjötkrók en Ragnar Skyrgám og hann segir að framkoma fullorðna fólksins í boðinu skipti sköpum.
„Ég er alltaf með fötuna, nánast alltaf skyr í henni, og ég gef að smakka skyr yfirleitt og klíni því eitthvað. Krakkarnir verða mjög hneyksluð á þessu. Svo erum við alltaf með einhver atriði og semjum kannski einhver lög, eða allavega texta við lög. En ég get sagt þér að stundum misheppnast þetta gjörsamlega hjá okkur, það er kannski aðallega í fjölskylduboðunum. Það sem getur gerst er að við komum inn og fullorðna fólkið segir ‚æ sjúkket, jólasveinarnir eru komnir! Við förum og fáum okkur pizzu, krakkar talið þið við jólasveinana!‘ Þá gerist ekki neitt. Foreldrarnir VERÐA að vera með í leiknum. Við komum stundum út af svona jólapartíi hálf miður okkar, ‚djöfull erum við ömurlegir í þessu, það hló enginn og krakkarnir hlupu bara út um allt, það nennti enginn að hlusta á okkur.‘ Við erum mjög metnaðarfullir jólasveinar. Þetta verður að heppnast alveg fullkomlega, annars erum við leiðir. Svo förum við svona niðurbrotnir á næsta stað, kannski hálftíma síðar, og komum þaðan út bara ‚djöfull erum við góðir í þessu, þetta var frábært! Við erum frábærir jólasveinar! Við verðum að fara strax á næsta gigg, þetta var svo meiriháttar gaman, fólkið hló og hló og krakkarnir skemmtu sér svo vel‘.“
Metnaðarfullir jólasveinar í sveitinni
Aðspurður segir Ragnar að innblásturinn að jólasveinunum sé uppruninn í æskunni fyrir norðan þar sem margir sýndu metnað í jólasveinaleik.
„Ég ólst upp ímikilli jólasveinamenningu heima, það voru svo geggjaðir jólasveinar í sveitinni þegar við vorum krakkar. Eyjólfur á Krossnesi, bróðir afa, og Gunnsteinn í Kaupfélaginu, þeir voru mestu jólasveinarnir. Svo voru fleiri karlar til í leikinn, Eiríkur á Víganesi lék jólasvein sem ég man eftir, sem ég þekkti, svo þekkti maður þá stundum ekki. En þeir voru að leggja hart að sér, þeir sömdu vísur og fluttu og voru með prógram. Þeir voru að skríða inn um gluggana og voru með svolítil læti. Svo maður var alltaf með þetta í huga.“
Virðingarstaða jólasveina
Hann leiddist síðan út í þetta sjálfur snemma á 9. áratugnum.
„Þegar börnin mín fóru í leikskóla vantaði jólasveina, þá gaf maður sig fram og Erna konan mín saumaði bara jólasveinabúning á mig. Fyrsta jólaballið var í leikskólanum sem Pálmar var á, þegar hann var kannski 5 ára. Það var það sama uppá teningnum hjá mér með undirbúninginn. ‚heyrðu, hvað ætla ég að gera? Það er bara klukkutími þar til ég á að koma fram. Jú, gömlu föturnar sem ég fékk í Grindavík hjá ömmu Rúnu, tek hana með mér. Svo þarf ég að hafa einhverja þvöru!‘ Og ég var að smíða, gríp einhverja spýtu og tálga hana til, geri þvöru úr henni og ég er ennþá með hana, sömu þvöruna. Þetta var spýta sem var búið að saga svolítið upp í þannig það var svolítið asnalegur endinn á henni. Ég er búinn að vera með þessa fötu og þvöruna síðan og hef jafnan skyr í fötunni. Þetta vakti lukku þarna í leikskólanum og Pálmar þekkti mig ekki svo ég hugsaði ‚ég get gert þetta, þetta er gaman!‘. Svo kom ég einhvern tímann seinna heim, í stigaganginn, þar sem við vorum í Hraunbænum, og hann var eitthvað um 6 ára. Ég hringi dyrabjöllunni. ‚Halló?‘ segir Pálmar þegar hann kemur til dyra. Ég var búinn að undirbúa þetta með Ernu. Og ég segi með eins breyttri röddu og ég gat ‚Ég er gamall jólasveinn, geturðu nokkuð hleypt mér inn? Mér er svo kalt á höndunum.‘ Þá heyrist í dyrasímanum ‚Æ, pabbi, komdu inn.‘ Ég var bara ‚oohhh! Hvernig þekkti hann mig?‘ Svo opna ég dyrnar og hann kemur fram til að heilsa pabba sínum, þá bara öskrar hann ‚Mamma, það er kominn jólasveinn!‘ Ég fór að tala við hann í hálftíma og hann þekkti mig ekki.“
Leitt er að leikraddir Ragnars heyrast ekki í gegnum hið ritaða orð en lesendur geta eflaust ímyndað sér háu, skræku röddina sem hann notar til að leika barnungan soninn og djúpa, hljómmikla rödd jólasveinsins. Orðspor jólasveinsins spurðist svo út frá leikskólanum og þannig byrjaði boltinn að rúlla en Ragnar segist ekki hafa haft hátt um þetta aukastarf áður fyrr.
„Á þessum tíma, þegar maður var yngri, þá var maður ekki að tala mikið um þetta að maður væri jólasveinn. Þetta var ekki virðingarstaða, fannst manni. Maður svona hálfpartinn skammaðist sín fyrir að vera að leika jólasvein, fá frí í vinnunni til þess að leika jólasvein. En nú er öldin önnur, nú er þetta þvílík virðingarstaða. Ef maður segir að maður sé jólasveinn, þá eru allir ‚já frábært! Það er meiriháttar‘ og bara dást mikið að þessu starfi. Stærsti staðurinn okkar í böllunum er í Gullhömrum, það eru allt upp í 500 manna gigg og hljómsveit og allar græjur, geggjuð hljóðkerfi, það er rosa gaman að vera þar. Það heppnast yfirleitt ótrúlega vel, erum með eitthvað prógram sem við erum búnir að æfa og ákveða hvað við ætlum að gera.“
Árið 2015 kom út platan ,,Nýju Jólasveinalögin,, með frumsaminni tónlist og textum að mestu eftir Ragnar sem hann segist afar stoltur af en annars sé hann ekki svo iðinn við tónsmíðarnar.
„Ég er helvíti ánægður með diskinn. Við tökum t.d. ‚Hoppulagið‘ okkar sem við bjuggum til. Við notum það alltaf á öllum jólaböllum síðan. Svo notum við annað slagið einhver lög af disknum. Það voru tekin upp lög sem við höfum búið til á undanförnum árum. En ég er ekki mjög duglegur við [að semja tónlist]. Það eru bara komin nokkur lög, þau eru þarna flest á disknum. Ég samdi einu sinni Fylkislag þegar litli frændi minn var í Fylki. Ég er mjög ánægður með það samt.
Eftirsóttur skemmtikraftur
Annað sem Ragnar hefur tekið sér fyrir hendur á skemmtanasviðinu er að koma fram við ýmis tilefni, svo sem brúðkaup og afmæli – oft mætti kalla þetta veislustjórn. Einnig stundum á viðburðum í tengslum við körfuboltafélög. Að auki tekur hann þátt í hátíðinni Nábrókin. Bróðurdætur Ragnars Árný, Ellen og Þorgerður Björnsdættur – hafa veg og vanda af þeirri hátíð sem fram fer í Árneshreppi og var hún eitt af tilhlökkunarefnum sumarsins hjá Ragnari.
„Það er geggjuð stemming í sveitinni heima á Nábrókarhátíðinni sem Melasystur halda á Verslunarmannahelginni. Þar eru tónleikar og ég fæ að spila með þeim á bassa eða gítar. Þær halda tónleika í fjárhúsunum alltaf á föstudagskvöldinu, ég lifi dálítið fyrir það að vera með þeim þar. Það er mjög skemmtilegt. Svo er búið að koma upp heilmiklum varðeld á sunnudagskvöldinu í Norðurfirði. Það er farið að mæta ótrúlega mikið af fólki þarna. Fyrst vorum við bara 20, 30 en nú er komið meira. Ég veit ekki hvað voru margir síðast, kannski 2-300. Það virðist vera alltaf að fjölga. Aðaltrikkið þar er að við skellum alltaf sviðinu upp á bretti ofan í fjöruborðinu þar sem flóðið hafði náð daginn áður, í sandinum. Við reynum að hafa það þannig að þegar varðeldinum lýkur um 11, þá er sjórinn farinn að flæða undir brettið þannig það verður svolítið sjónarspil. Ekki verið að leggja mikið í einhverjar eldsprengjur en að náttúran sé er showið. Þetta heppnaðist mjög vel eitt árið, í hittifyrra, þá var brjálað veður þegar við vorum nýbyrjuð að syngja. Þá fór fljótlega að flæða vel undir brettið, allt lenti í voða hátalararnir, snúrur og strigaskór! Því miður urðum við að aflýsa fjörusömgnum þetta árið vegna þess að ég kvefaðist illa og röddin hvarf. Nábrókin heppnaðist í heildina frábærlega og var svakalega gaman á Melasystra tónleikunum á föstudagskvöldinu og góð mæting þrátt fyrir mikla rigningu og skriðuföll í sveitinni um morguninn. Það kom þetta fína veður og mikið fjör varð í mýrabolta og á ballinu um kvöldið.“
Heimahagarnir kalla
Ragnar hefur alltaf haldið góðum tengslum við sveitina sína og er nú að leggja lokahönd á byggingu sumarhúss í Norðurfirði.
„Ég er að byggja mér sumarhús í sveitinni, á draumastaðnum mínum, á Steinstúni í Norðurfirði. Okkurtókst að klára það að mestu í sumar, núna vantar aðeins innihurðir og innréttingar og húsið var tekið í notkun um verslunarmannahelgina slóum við upp smá veislu og opnuðum við húsið á laugardeginum og um 60 manns sveitungar, vinir og ættingjar kíktu í heimsókn og úr varð skemmtilegt partý fyrir ball. Við stefnum á að vera þarna dálítið og þetta er búið að vera mjög skemmtilegt verkefni.“
Aðspurður um hvað hann geri sér til afslöppunar og skemmtunar, segist hann duglegur við að æfa sig í hljóðfæraleik í ‚karlahellinum‘ sínum. En heimahagarnir eiga stóran stað í hjartanu og Ragnari finnst fátt betra en að fara í siglingu á Ströndum.
„Ég er með smá græjur í bílskúrnum, það er mjög gaman að koma hérna fram og spila einhver lög. Þá spila ég lög í græjunum og spila með, og æfi mig þannig. Ég geri það töluvert mikið. Ég elska að fara út á bát, ég á svona ágætan Zodiac gúmmíbát, með harðplastbotni. Maður getur siglt á þessu að Hornbjargi, ég hef einu sinni farið þangað með tjald. Það er geggjað að vera á bátnum, ég elska að sigla þarna fyrir norðan, eins og frá Ófeigsfirði og norður úr, norður að Dröngum, jafnvel Reykjarfjörð og fara þar í land og labba smá og skoða. Það er geggjað líf. Báturinn gefur svo skemmtilega möguleika. Þegar maður er kominn með léleg hné, getur maður bara siglt á bátnum inn í einhverja vík og labbað þar aðeins til að liðka sig upp, í staðinn fyrir að labba í 10 klukkutíma til að komast á sama stað og þá er maður svo þreyttur að maður getur ekki skoðað neitt. Þetta er svo mögnuð náttúra þarna að ég elska að gera þetta, mest af öllu.“
Myndir fengnar að láni úr safni frá Ragnari og skyldmennum hans nema annað sé tekið fram.