Yfir höf og lönd og handan heims
Ég heimsótti Bjarnveigu Höskuldsdóttur á heimili hennar í Mosfellsbæ þar sem hún hefur búið yfir 40 ár, en Bjarnveig er fædd og uppalin á Drangsnesi. Hún fæddist árið 1946 á Litla Burstafelli – eldra húsi en því sem var byggt síðar og gegnir sama nafni. Foreldrar hennar voru Höskuldur Bjarnason frá Klúku og Anna Halldórsdóttir frá Bæ og var hún þriðja barn þeirra af sjö. Bjarnveig sagði mér ýmislegt af æsku sinni og lífshlaupi.
„Ég er þriðja í röðinni og er fædd með alveg kolsvart hár, sá litur fór af í hverjum þvotti, er mér sagt. Við erum 3 systurnar elstar – Gunnhildur, Jóhanna Björk og ég – og pabbi var eitthvað farinn að efast um að hann myndi eignast einn strák þannig hann ákvað að ég ætti að heita föðurnafninu sínu og það var ákveðið að ég ætti að heita Bjarní. Það var meiningin þegar þau röltu af stað út í kapellu að ég fengi það nafn, en mömmu fannst það heldur snautlegt þannig þegar út í kapelluna kom, þá ákvað hún að það þyrfti að bæta einhverju við. Hún hugsaði til ljósmóður í Árneshreppnum sem hét Bjarnveig. Þetta var góð ljósmóðir og hafði átt farsæla ævi, þannig hún bætti ‚-veig‘ við þarna á staðnum. Pabba var víst eitthvað brugðið þegar hún stundi upp nafninu. En hann sætti sig alveg við þetta þegar hann vissi hvaða nafn þetta var. Svo leið nú ekki árið þangað til strákurinn kom og það var ákveðið að hann ætti að heita Halldór eins og afi. En svo þegar hann fæðist, þá dreymir mömmu að það standi maður við körfuna hjá piltinum og hún þekkir hann og sér að þetta er læknir sem hafði verið á Hólmavík sem hét Friðgeir og var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum. Svo frétti hún seinna að hann hefði farist með Goðafossi á leiðinni til Íslands og hún var viss um að hann hefði verið að biðja um nafn. Dr. Friðgeir hefði sagt að pilturinn myndi aldrei hljóta sömu örlög, að hvíla í votri gröf. Þannig varð það að hann hét ekki Halldór heldur var skírður Friðgeir og hann hefur alltaf verið mjög farsæll síðan og notið blessunar Friðgeirs örugglega.“
„Við fæddumst fjögur á Litla Burstafelli og man ég fyrst eftir mér þar sem ég stóð við stigann upp á loft og bak við hann var poki með méli eða tveir og fannst mér góð lyktin. Húsið var svo rifið og Sigurður Bjarnason föðurbróðir minn byggði það með pabba og Burstafell byggt á sama stað 1947 og allur sandur selfuttur úr Sandvík. Svo eignuðust mamma og pabbi tvær systur í viðbót, þær Önnu Guðrúnu og Auði, og annan bróður sem fékk nafnið Halldór.“
Ólíkt uppeldi foreldranna
Höskuldur Bjarnason starfaði m.a. við sjómennsku, vegagerð, byggingarvinnu og í frystihúsinu. Hann var fæddur á Klúku í Bjarnafirði en varð að fara þaðan snemma þegar faðir hans lést.
„Pabbi ólst þarna upp til 9 ára aldurs þegar afi dó. Þannig voru skilmálarnir í þá daga að konur fengu ekki ábúðaleyfi til að vera á jörðinni þegar eiginmennirnir voru farnir. Kvenréttindi voru ekki meiri en þetta í þá daga. Jafnvel þó að elstu drengirnir hefðu getað séð um það og hjálpað henni, þá var það ekki leyfilegt, heldur varð hún að slíta sundur heimilinu og setja þá hingað og þangað. Þannig pabbi fór í vist til hjónaá Tungugröf hinu megin við fjörðinn. Þar þurfti hann náttúrulega að vinna mikið og það var svolítið erfitt fyrir hann, lítill drengur að fara þarna á annað heimili. En hann var harður af sér og húsmóðirin var góð við hann. Þegar hann fór frá henni gaf hún honum 2 krónur, stóran og þungan silfurpening og taldi hann, að aldrei yrði hann auralaus svo lengi sem hann ætti peninginn. Nokkru fyrir andlát sitt gaf pabbi mér þennan pening og sagði akkúrat þessi sömu orð; ‚Ég hef þá trú að þú verðir aldrei auralaus svo lengi þú átt þennan silfurpening.‘ Mig setti hljóða. Vildi ekki taka við þessu en hann var þrjóskur. Hann fór fljótt nótt eina, kannski fann hann að hans tími var að renna út. En full hress og klár í höfðinu fram á síðustu stundu. Hjartað gaf sig, það er gott að fara svoleiðis. Svo kom hann ekki fyrr en hann var 17 ára á Gautshamar þar sem elsta systir hans, Helga Soffía, bjó með manni sínum Einari Sigvaldssyni og amma bjó þar líka með þeim.“
Anna Halldórsdóttir húsfreyja var fædd á Bæ á Selströnd og hitti fyrst tilvonandi eiginmann sinn ung að árum en það vissu hvorugt þeirra þá.
„Mamma var fædd og uppalin í Bæ, og átti góða barnæsku. Hún átti fimm bræður, kjörsystur og eina systur sem veiktist af barnaveiki og dó ung. Pabbi kynntist mömmu þegar hún var ung stelpa innan við fermingu. Þá var hann vinnumaður hjá afa. Mamma þótti dugleg og falleg stúlka með ljósar, miklar fléttur langt niður á bak. Það voru mikil þrengsli eins og gerðist í húsum þá daga, og hún fékk stundum að sofa til fóta hjá honum. Hann gerði vísu um hana:
Halldórsdóttir Anna er,
yndisblíða snótin,
fremd og prýði fylgi þér,
fögur Strandarósin.
Svo mörgum árum seinna náðu þau saman í alvöru en það var ekkert meira með þetta þá en strax hefur hann rennt hýru auga til hennar. Þetta var svolítið skondið. Mörgum árum seinna eða árið 1941 keyptu þau litla Burstafell og 1942 giftu þau sig. Mamma fór í húsmæðraskóla á Staðarfelli. Um 1950 voru íbúar á Drangsnesi á þriðja hundrað og mannlífið gott, núna eru þorpsbúar undir 100. Mín minning í uppvextinum er, að ég bara man ekki hvenær mamma svaf. Þegar ég sofnaði var hún að sauma kjóla eða kápur eða annað fyrir fermingar, jól eða annað. Prjóna, skera hár, baka, þvo þvotta, hengja út, strauja.“
Leikur og störf í æsku
Bjarnveig gekk í barnaskóla á Drangsnesi og líkaði námsárin vel. Hún fékk góðar einkunnir í skrift, teikningu og stærðfræði en segist hafa verið meira fyrir handavinnu, smíði og útileiki.
„Ég hafði alltaf sömu kennarana. Það komu þarna ung hjón, Elsa Þorsteinsdóttir og Sveinn Víkingur, og þau voru allan tímann sem ég var og hættu þegar ég fór, þannig ég var mjög heppin með það að það þurfti ekki að breyta mikið til. Yndislegt fólk. Ég var ekki mikið fyrir innivinnu, hafði gaman af því að leika mér með strákunum. Systur mínar réðu ríkjum inni í húsinu, ég var úti með strákunum, Friðgeiri og frændum mínum. Við vorum mikið í vegavinnu, notuðum brekkurnar til að gera alls konar, grófum þær út og gerðum alls konar vegi og kofa, og gerðum svo bíla og báta í skólanum og heima. Svo smíðuðu þeir kayak hjá Sveini Víking og við fórum á honum fram eftir öllum firði. Mamma var ekki mjög hress með það, hún stóð á tröppunum og bað Guð að hjálpa sér þegar við Friðgeir vorum að fara til skiptis fram fyrir duflin, það var ekki mjög vinsælt. Það var mjög mikið frelsi og við fengum að vera mjög frjáls og það var mjög skemmtilegt uppeldi. Það var mikið farið í leiki á kvöldin og seinnipartinn á daginn. Gamli Baldur var mikið notaður fyrir samverustundir. Við fórum í Yfir og Stoð og Fallin spýta, og það var alltaf verið þar í kringum hann, við söfnuðumst þar saman. Ég man þegar síldin var, að við krakkarnir vorum að leika okkur stundum á kvöldin, þá vorum við að stelast til að fara í síldartunnurnar sem voru niðri á bryggju og við vorum að borða hana þó hún væri ekkert góð. Þá voru allir skúrarnir niðri á bryggju og mjög þröngt á milli, rétt hjá frystihúsinu. Þarna vorum við svo oft í feluleik á kvöldin því það var svo mikið af dimmum skotum. En það var mjög strangt með það að maður kæmi inn á réttum tíma á kvöldin, þannig það var agi. Síðdegis þurfti maður að læra heima og sinna skepnum. Eitt sem mér er minnistætt er að mér gekk brösuglega að læra lestur, var löt. Það varð því úr að ég átti að fara út í Bræðraborg og lesa fyrir hann Gísla frá Gjögri. Ég varð nú hálf hrædd við þennan öldung með hvítt alskegg, sem hafði drepið ísbjörn. Hann sat á rúmi sínu og setti öngla á þráð. Svo benti hann á orðin með önglinum, sögumaður var hann og fróður. Fékk ég svo frásögn eftir lestur að launum.“
Bjarnveig segir að ætlast hafi verið til þess að börn ynnu ýmis verk sem tengdust skepnuhaldi eins og algengt var í þá daga.
„Já, því fólkið var náttúrulega að vinna þegar við komum heim úr skólanum. Það var ekkert vatn í útihúsunum og þá þurfti maður gjarnan að fara og bera vatn í fjárhúsin. Pabbi smíðaði ferka<Zntaða grind sem maður fór inn í og hafði vatnsföturnar sitt hvoru megin við svo maður skvetti ekki á sig. . Eldri systkinin byrjuðu og svo tókum við keflinu koll af kolli, að bera þetta í kindurnar og kýrnar. Fólkið á staðnum skiptist líka á að fara með kýrnar í hagabeit og sækja. Við áttum gjarnan eina kú og kálf, og 8-10 hænsni og kannski um 20 kindur og hrút. En þetta fór mest í snjóflóðinu 1968.“
„Jóa var meira í inniverkunum og Gunnhildur fór snemma að heiman en ég var meiri strákastelpa, það voru meira útiverkin sem ég var að gera. Mér fannst sauðburðurinn alltaf mjög skemmtilegur, ég fékk alltaf að vera í honum þegar ég var krakki hjá mömmu og pabba. Mér fannst ég voðalega mikil manneskja þegar ég fékk leyfi til að sprauta lömbin, það þurfti að sprauta þau við mænuveiki, bólusetja þau, og taka á móti þeim. Mér þótti þetta voða heillandi. Mig langaði að verða bóndi. Ég átti mitt eigið mark – sneitt og bitið aftan bæði eyru. Pabbi átti sneitt aftan bæði eyru. Pabbi var gjarnan við beitningu eða við sjóinn þannig þetta voru mín verk, útiverkin, á þessum tíma.“
Sumur í sveit
Einnig var algengt í barnmörgum fjölskyldum að börn væru send í sveit og var Bjarnveig stundum í sveit á sumrin.
„Ég var á Heydalsá í Naustvík hjá Gísla og Kittu á Gálmaströndinni hinumegin við fjörðinn. Gísli kom á skektu og sótti mig, réri bara yfir, og þar átti ég að vera bara að passa túnið og kindurnar og vera úti og rifja og ýmislegt að dúlla mér í útiverkum, og sækja mjólk upp á næsta bæ. Stundum var ég svolítið stríðin og þegar ég átti að gera inniverkin gerði ég eitthvað af mér því ég var ekkert hrifin af því. Ég sagði að ég væri ekki ráðin í það. Ég bjó mér til bú í hól þarna, fór niður í fjöru tíndi skeljar og alls konar dót og lék mér að, og lék mér með ímynduðum vinum í klettunum. Stundum hugsaði ég hvað ætli forleifafræðingar segðu eftir 100 ár þegar þeir finna þessar skeljar uppi í landi. Það voru berklar á næsta bæ svo þangað mátti ég ekki fara. En ég stalst stundum til að setjast aftan á heykerruna hjá bræðrunum á Heydalsá, upp að hliði og hljóp svo til baka og fékk ákúrur fyrir. Við vorum svo mörg systkinin á sama aldri, þetta létti á heimilinu, og Friðgeir fór gjarnan á bátana og fékk að róa með einhverjum.“
Einnig eyddi Bjarnveig löngum stundum hjá afa sínum og ömmu í Bæ en hún átti sérlega gott samband við Halldór afa sinn.
„Ég var þar öllum stundum þegar ég gat, hvort sem það var vetur eða sumar. Ég elskaði að vera í Bæ hjá afa og ömmu, sérstaklega á veturna lét það ekki stoppa mig að labba þangað þó í snjó væri. Þegar afi var búinn að vera í fjárhúsunum, angandi af súrheyslykt, þá fór hann oft að gera við eða fella net inni á ganginum. Sat ég oft í tröppunni og horfði á hann. Hann var að búa til vísur og við vorum að fíflast og ég skrifaði upp í stílabók. Stundum var hann að henda fyrri part eða seinni part og ég átti að gera annað á móti. Við höfðum voðalega gaman að þessu og okkur kom voðalega vel saman og vorum náin. Stundum vorum við að setja upp öngla á þræðina. Það var ýmislegt sem var gert á veturna til að undirbúa næstu grásleppuvertíð. Ég sótti mikið í að fara til þeirra. Það var gaman, þó það væri ekki rafmagn þar, bara luktir og ljósalampar, þá var notalegt. Það var svo rólegt, ég þráði að komast í einveruna og tala við fullorðið fólk, hef alltaf haft ofboðslega gaman að því að tala við fullorðið fólk, náði vel til þeirra og það gaf sér tíma til þess. Á sumrin var maður mikið í þessum almennu sveitastörfum og fékk að vera með í öllu sem var verið að gera á þeim tíma, slá, rifja raka saman í lanir og galta. Ég upplifði að vera síðasti árgangurinn sem var að reiða heim. Þá var heyjað á engjum og hálfþurrkað, heyið bundið í bagga eða sátur, og reitt heim á hestum. Það var oft svolítið erfitt því ég átti erfitt þetta ár, var svolítið heilsulítil þetta sumar, var oft höfuðveik. Ég var oft illa upplögð þetta sumar og dreymdi illa fékk martröð alltaf eins mér fannst ég sitja í stiganum hjá afa og uppá skörinni var ill og úfi,n frosin kona sem var að reyna að teygja sig eftir mér og toga mig upp og ég var sem lömuð. Var oft að fá yfirliðaköst og hestarnir skynjuðu þetta. Það var einn hesturinn hans afa sem var svolítið villtur og það var enginn sem þorði að sitja hann nema föðurbróðir minn, Jói Gunni, því annars fór hann bara í hringi og. kastaði fólki af. En þarna kom Droni hestur aftur og aftur og stillti sér upp að þúfu og horfði á mig eins og hann væri að bjóða mér á bak. Ég var þreytt og hafði engan hest til reiðar, en ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að setjast á bak á hann. Hann virtist vera voðalega vonsvikinn að ég skyldi ekki þora þessu. En þannig eru hestarnir og dýrin, þau skynja það sem er að gerast í kringum þau. Þetta var lærdómsríkt.“
„Ég var ekki gömul þegar ég byrjaði að keyra dráttarvélina rauða Farmal Ferguson inn á Nýju Sléttu af því það þurfti að nota alla. Ég hreinlega stóð því ég náði ekkert upp á sætið þegar ég átti að vera að stýra og þá var slóðinn aftan í henni, það er sett aftan í dráttarvélina til þess að mylja skítinn á túnunum. Þá keyrir maður fram og til baka til að mylja og jafna af því að skíturinn var áburður. Það var ýmislegt sem maður var notaður í. Svo þegar taðið var orðið þurrt, þá var það rakað saman í hrúgur og við fengum svo strigapoka, sem voru settir á milli fótanna, og rakað í þá og settir þá upp á dráttarvélina. Þetta tað var notað til að brenna í kolaofninum í eldhúsinu og ýmislegt fleira. Þannig maður lærði ýmislegt. Verkvitið var meira í þá daga, held ég, heldur en gengur og gerist. Sláturstíðin verður alltaf minnistæð, Hvernig allt var planlagt. Sjálf leitin, smalamennskan, allt rekið fram í Bjarnarfjörð og réttað á Skarði. Síðan slátrun og sláturgerð, hvernig allt var nýtt, eftir heimaslátrun. Já það væri að æra óstöðugan að segja frá öllu því.“
Fjör í frystihúsinu
Bjarnveig segist hafa beðið óþreyjufull eftir því að ná aldri til að fá vinnu í frystihúsinu. Henni fannst það skemmtilegur vinnustaður og rifjar upp góðar minningar af því.
„Ég beið eftir því að verða 12 ára til að geta farið í frystihúsið og þá fékk ég 12 krónur og 64 aura á tímann. Þetta þóttu mér rosalega miklir peningar. Þegar ég byrjaði, mátti ég ekki fara í vélarnar, ekki fyrsta sumarið. En ég fékk að flaka og það var svolítið gaman. Einar heitinn Sigvaldason og Sigurey Júlíusdóttir kenndu mér að flaka. Það var mjög gaman og þau voru mikið að fara með vísur. Sigurey var hagyrt mjög og þessar vísur gerði hún, sú fyrri vegna þess að ég var oft fengin til að mjólka kýr er fólk fór í frí og seinni er ég fór til Akureyrar:
Þú skalt verða háttsett hefðarfrú
hljóta lof og dýrð um aldar raðir.
Eignast landsins mesta mjólkurbú
og mann sem verður 18 barna faðir.
/
Mín er daman mæt og þíð
mild við allar dróttir.
Héðan hverfur björt og blíð
Bjarnveig Höskuldsdóttir.
Það var mjög rólegt, það var ekki þessi hávaði inni í frystihúsinu eins og þetta varð seinna, það var bara eitt band þar sem maður henti flakinu upp á og svo vélin sem þvoði. Þau voru alveg snillingar í að kenna þetta og voru mjög nákvæm í því að maður þurfti að fara alveg sérstaklega eftir beinunum þannig það væri ekkert eftir. Þetta fannst mér gaman og eins að stála hnífinn og ég ber þess ennþá merki eftir það þegar ég var að stála. Það var ekki alvarlegt en það blæddi. Svo var maður að tína úr orma og skera úr beinagarðinn, úrbeina og pakka. Svo var ég úti í tækjunum, þegar búið var að pakka inn fisknum og setja í plötur. Síðan voru þær settar í frysti, og settar í pappakassa. Þá var Steingrímur Trölli, togarinn, að koma og þetta voru ansi miklar tarnir stundum. Það var fjör í fólkinu, kátína og gaman. Það voru þrjár Fríður, allar gamansamsamar, þær Litla Fríða, Stóra Fríða og Hjálmfríður og glettumst við með það. Það var fundið það spaugilega við flest. Svo fóru allir heim í hádeginu í mat og komu svo aftur klukkan eitt. Við töluðum saman og ég komst að því að þessi stóri og mikli maður, hann Einar, hann var svo hræddur við mýs. Mér fannst það svo skondið að svona lítil kvikindi gætu hrætt svona stóran mann. Einhvern tímann var ég heima í hádegismat og leit upp að haughúsinu fyrir ofan Burstafell og sá að það voru músahjón með unga fyrir ofan. Þarna kom strákurinn upp í mér. Ég laumaðist með ost upp í hauginn, náði mér í einn músarunga og labba hreykin með hann fyrir aftan bak út götu. Svo bíður Einar eftir mér og nokkrir aðrir voru þarna á tröppunum hjá Bræðraborginni. Við fylgdumst oft að, hann beið alltaf eftir mér þegar ég kom labbandi eftir hádegismatinn. Hann var í klofstígvélum stórum og við ætlum að fara að leggja af stað. Þá segi ég ‚ég er hérna með gjöf handa þér‘. Hann er voðalega ánægður og spyr hvað ég sé með. Þá sýni ég honum litla kvikindið í lófanum og hann varð eldrauður eins og jólasveinn, og hleypur niður í fjöru og út í sjó – þá var ekki varnargarður eins og er í dag – og ég á eftir honum og hann brettir upp stígvélin og ég lét hann standa þar því ég vissi að ég fengi fyrir ferðina ef hann kæmi í land. Svo er klukkan alveg að verða eitt og ég að verða of sein í frystihúsið, þannig ég hendi músinni og stekk af stað. Hann kemur svo á eftir með hendurnar á bakinu eins og hann gerði gjarnan og segir ekki eitt einasta orð og fer bara að flaka eins og ekkert sé. Síðan einhvern tímann seinna er ég í miðju kafi að ormhreinsa, þá er allt í einu togað í hálsmálið á mér og ormaskálin tekin og skellt fullu glasi af ormum niður á bakið á mér. ‚Þetta skaltu hafa!‘ sagði hann. Og ég varð að fara heim og skipta um föt. Ég vogaði mér aldrei að stríða honum meira, þetta var lærdómsríkt. Það var oft gaman, ég var stríðin en dugleg, held ég.“
Lífið á Burstafelli
Ég bað Bjarnveigu síðan að segja mér af heimilislífinu, samverustundum og hefðum fjölskyldunnar.
„Já, fyrst hugsa ég til haustanna þegar fór að skyggja. Það var náttúrulega ekkert sjónvarp, þannig pabbi hafði alltaf húslestur. Hann las alltaf fyrir okkur sögu. Hann var mikill leikari og hann var sérstaklega duglegur að leika Skuggasvein. Lék með lestrarfélaginu. Ég hugsa að hann hefði orðið góður leikari. Við komum saman á kvöldin við stórt eldhúsborð, þar var allt gert. Við lærðum, mamma fór að sauma og pabbi las. Við höfðum kolaeldavél sem einnig brenndi mó en síðar kom olíufýring. Svo var pabbi kannski að rífa niður þorskhaus. Allur matur var nýttur og hann náði öllum fisknum af beinunum, líka hausnum. Þetta fengum við í snarl. Hann gerði þetta allt alveg sérstaklega. Svo reif hann niður harðfiskinn og við fórum með roðið og settum það á kolaeldavélina til að hita það og gera stökkt og settum svo smjör á það og borðuðum. Þetta var herramannsmatur. Þetta var ævintýri þegar við vorum að setja roðið á eldavélina og hita þetta þannig að það brynni örugglega ekki, svo vorum við með hníf að skafa þetta. Það var best af lúðu eða steinbíti. Það var mikið borðaður fiskur einhvers konar, oftast 5 sinnum i viku. Við vorum send á bryggjuna og fengum nýtt í soðið. Svo var siginn fiskur, selspik og stundum hrefnukjöt.“
„Á Þorláksmessu, vorum við Friðgeir send upp í Torfdal og sækja krækiberjalyng. Það var stundum frost og þá þurftum við að fara daginn áður. Við vorum með jólatré sem var búið til úr tré, útskorið og sagað. Það var vafið með berjalynginu, og svo voru lifandi kerti á því, heimatilbúnar körfur og skraut, og þá voru alltaf settir músastigar upp í loftið. Eldri stelpurnar skreyttu jólatréð. Við fengum ekki að koma nálægt því. Þannig þær fóru inn í stofu og lokuðu sig af með tréð og skrautið. Við prakkararnir lágum í gólfinu fyrir utan með spegil og stungum honum undir dyrnar til að tékka á því hvað þær voru að gera. Klukkan sex var hringt inn jólin í útvarpinu og hlustað á Guðþjónustu. Borðað, þvegið upp og svo teknar upp jólagjafir. Ég fékk oft kerti með glansmynd frá Helgu föðursystur minni. Annan í jólum var svo gengið í kring um jólatré út í skóla. Þá komu allir, eða flestir sem gátu, úr sveitinni uppábúnir. Tveir jólasveinar komu og færðu nammipoka eða epli og dönsuðu með. Svo var ball um kvöldið í Baldri, líka á Gamlárskvöld langt fram á nótt. Svo man ég að við vorum niðri í kjallaranum, í herberginu þar niðri, það var ekki búið að innrétta það, þar vorum við með móstafla og svo annan haug með kolum, því vélin var jú kynnt með þessu. Við Friðgeir sóttumst svo mikið í að fara niður í kjallarann og borða, ég borðaði mómylsnuna og hann kolin.“
Yfir þessu hváði ég en Bjarnveig segir að þeim hafi ekki orðið meint af þessu ólystuga snarli og telur að þarna hafi líkaminn verið að sækjast í einhver næringarefni sem hann vantaði, hver svo sem þau hafa verið.
„En þegar ég var að tala um þetta við bónda minn, sagði hann: .,já, það er þess vegna sem þér finnst gott maltviskí‘,“ segir Bjarnveig kímin en segist annars lítil drykkjumanneskja.
„Svo er best það sem maður borðar í æsku, Fiskur bestur, ég elska siginn fisk og selspik, og grásleppu með grænbaunastöppu, lúðu og súpu, þorskhausa og nýja soðningu. Ég vandist við allan súran mat. Það voru alltaf keröld í kjallaranum með súrsuðu slátri, hval, selhaus og selshreifum.“
Foreldrar Bjarnveigar voru gestrisið og vinamargt fólk og bar marga gesti að garði á Burstafelli.
„Þetta var eiginlega eina húsið á staðnum sem var með sturtu um tíma þannig fólkið kom mikið og fór í sturtu hjá okkur fyrir jólin. Þannig þegar kom að okkur loksins að fara í sturtu, þá var orðið kalt. Pabbi hafði mikið fyrir því að hlaupa upp og niður stigann til að bæta á kyndinguna fyrir vatnið. Það kom svo margt fólk. Mamma var sú sem klippti flest fólk heima. Þetta var svona miðsvæðið. Fólk fór í búðina sem var í næsta húsi, kom heim, oft upp um kjallarann, settist á koffortið í eldhúsinu og spurði um fréttir, fékk sér kaffi og fór svo aftur. Þetta var voða mikill samkomustaður, eldhúsið heima. Þangað komu margir pólitíkusar, hvar sem þeir voru í pólitík, þá fengu þeir að gista ef þeir voru að koma og halda framboðsræður. Þeim þótti svo gott að koma og fá siginn fisk og selspik, eða létu sig hafa það. Mamma var mikill höfðingi heim að sækja, var svo gestrisin og pabba þótti gaman að tala við alla. Hann stóð gjarnan á tröppunum og heilsaði öllum sem komu inn í þorpið og spurði hvaðan þeir væru.“
Nýjasta tæknin…
Á yngri árum Bjarnveigar var hvorki rafmagn né hitaveita á Drangsnesi en innreið slíkra tækniframfara höfðu mikil áhrif á líf fólks. Hún segir að pabbi sinn hafi áttað sig á því að heitt vatn væri að finna á staðnum þó það hafi ekki fundist fyrr en mörgum árum seinna.
„Oft á tíðum var mikill sjógangur. Það kom sjór alveg yfir veginn að húsinu, þá varð svo mikil hálka á götunni er frysti. Pabbi fór oft á skautum þegar hann fór í frystihúsið. Hann hafði bara járnin og skrúfaði þau undir stígvélin. Svo ræddi pabbi um það þegar hann kom heim í hádegismat, að það væri svo skrýtið, þegar hann færi framhjá Bræðraborginni, að það væri alltaf smá uppspretta þarna í fjörunni sem ekki frysi. Þetta lá þungt á honum og þegar ekki var frosið fór hann að virða þetta fyrir sér. Og sagði að það væri örugglega heitt vatn þarna undir því það legði ekki þarna þegar það var ís. Ég man að það fyrsta sem hann gerði þegar hann kynntist mínum manni (sem var að læra verkfræði þá) var að spyrja út í þetta, hvort það gæti verið heitt vatn þarna undir og hvort hann gæti talað við þá hjá Orkuveitunni fyrir sunnan og fengið þá til að skoða þetta. Svo kom á daginn að þarna var uppspretta og þetta finnst mér ekki hafa verið rætt, það er alltaf talað um það út af því að vatnið hafi farið í frystihúsinu og þá hafi þetta uppgötvast. En hann var búinn að tala um þetta í fjölda ára, að þarna festist aldrei ís.“
Bjarnveig segir símann og þvottavélina hafa verið með mestu tækniframförunum sem fylgdu rafmagninu sem hún upplifði í æsku.
„Það var ljósavél í Bæ sem framleiddi rafmagn fyrst þegar ég man eftir mér en rafmagnið kom seinna á Drangsnes. Ég man þegar það komu vinnuflokkar og fóru að setja upp rafmagnsstaura á staðnum. Mikið ofboðslega þótti okkur krökkunum mikið til koma, að hlaupa í kringum þá þegar þeir voru að setja upp staurana og það komu ljós, þetta var mikil stemming. En mesta breytingin, held ég að hafi verið þegar síminn kom. Svo kom hann til Guðmundar í Hamravík, í búðina, og þá var t.d. hægt að kalla í pabba og mömmu þangað. Þvottadagarnir hjá mömmu urðu léttari þegar rafmagnið kom. Hún handþvoði áður í bala og notaði þvottabretti og stór pottur sem hún sauð vatnið í. Skolaði þvottinn í trékari og setti á búkka, sem við eldri hjálpuðum oft með. Svo var hengt út á snúru. Svo fékk hún þvottavél og það var bara ein skrúfa sem sneri fram og til baka og vinda, og það var gríðarlega mikil framför, þá þurfti hún ekki að vinda allt í höndunum. Einhver okkar var gjarnan við trébala til þess að hjálpa henni við að skola þvottinn. Svo þurfti að hengja allan þvott út upp á snúru, svo var hann kannski frosinn, þurfti að taka hann inn og strauja. Þetta voru gjarnan 2-3 dagar sem tók að ganga frá þvottinum. En svo fóru að koma alltaf betri og betri vélar. Svo var það sláturtíðin. Í þessum sama potti sem vatnið var hitað í, þar var soðið slátur. Svo höfðum við keröld niðri þar sem var súrmeti, í einu þeirra var súr hvalur og selur, haus og hreifar, og í hinum voru lappir og hrútspungar og allt mögulegt. Svo var þetta venjulega hefðbundna en allur kjallarinn var undirlagður af alls konar sýrðum mat því þá var ekki kæliskápur eða frystir. En reyndar var frystihólf úti í frystihúsi fyrir kjötið.“
Afdrifarík dvöl á Akureyri
Aðspurð segir Bjarnveig að æskudraumar hennar hafi snúist um að gerast bóndi en af því varð þó ekki. Á táningsaldri fór hún að dvelja á Akureyri á veturna til þess að sækja þjónustu á sjúkrahúsinu og var boðið þar starf.
„Draumarnir hjá mér voru að mig langaði að fara í landbúnaðarskóla og verða bóndakona en samt að læra. En hann faðir minn sagði að það væri ekkert fyrir konur. Ef mig langaði að læra eitthvað svoleiðis, þá skyldi ég bara fara í húsmæðraskólann, t.d. á Staðarfell. Þá vildi ég frekar sleppa því. Svo veiktist ég og fór snemma að heiman, til Akureyrar til frænku minnar sem bjó þar. Ég var ekki nema 14 ára þegar ég fór fyrst til hennar og fór til lækninga. Svo var ég alltaf mjög mikið niðri á sjúkrahúsi að slæpast þar af því ég var mikið í röntgen og í rannsóknum. Yfirhjúkrunarkonan þar var mér einstaklega góð og bauð mér að vinna á sjúkrahúsinu. Ég var fyrst í léttari störfum t.d. bítibúrum, svo fór ég að vera mikið uppi á öldrunardeild. Mér fannst gaman með gamla fólkinu að dúlla við það, láta það labba um, greiða, þvo hár, setja rúllur og snyrta. Fljótlega tók alvaran við og fékk ég að kynnast öllum deildum. Mest spennandi var á fæðingardeildinni þar sem Bjarni Rafnar réði og á skurðdeild var stórhöfðinginn Guðmundur Karl Pétursson, það var og var aldrei lognmolla í kring um hann. Þvílík forréttindi að hafa fengið að starfa með þeim og öðru fólki sem voru þarna á þessum tíma. Ein eldri vinkona mín á B-deild, Jóhanna Tryggvadóttir frá Hamraborgum, orti þessar vísur er ég var að greiða henni og punta.
Veiga mín er glöð og góð
hún gleður unga sveina.
Engum gefur fagurt fljóð
fyrir brauðið steina.
/
Greiddu hárið gæða vel
göfug Strandadama.
Vildi ég geta valið þér
vænan dreng og frama.
Þegar ég var þarna snerist hugurinn og ég ákvað að vinna við það og ætlaði síðan í fóstruskólann en þá kynntist ég bónda mínum. Hann var þá menntaskólanum hinu megin á næstu lóð.“
Fyrsti þroskaþjálfinn við framhaldsskóla
Maður Bjarnveigar hét Ragnar Sigbjörnsson og var ættaður frá Borgarfirði Eystra. Hann kláraði stúdentsprófið á Akureyri en fór svo í verkfræðinám í Reykjavík og kláraði það í Danmörku, ásamt doktorsnámi. Hann hvatti síðan konu sína til að sækja sjálf nám.
„Við mættumst þarna á Akureyri, á miðri leið á milli Drangsness og Borgarfjarðar Eystra, og við fórum saman til Reykjavíkur. Ég vann í 2 ár í Reykjavík á meðan hann var í fyrri hluta í verkfræði og við eignuðumst okkar fyrstu dóttur. Ákváðum svo að fara til Danmerkur, hann fór að taka seinni hlutann í verkfræði. Okkur kom saman um að ég færi í nám þegar hann væri búin. Við höfðum ekki efni á að vera í námi bæði. Seint í hans námi fór Ragnar að ýta við mér tilbúin að fara að sækja um vinnu, svo ég gæti hafið nám. Þá hafði ég verið að vinna á heimili fyrir þroskahefta og ég sagði að ég væri ákveðin í því að læra en ég ætlaði að læra þroskaþjálfun, og gerði það og hef starfað við það allt mitt líf og sé ekki eftir því. Það er mjög gefandi og gott starf. Ég lærði í Danmörku og við vorum þar í 6 ár, svo fluttum við til Noregs og vorum þar í sex ár, ég vann þar líka.“
„Við fluttum svo heim, ég vann hérna á Skálatúni og fór í framhaldsnám í Þroskaþjálfaskólanum lauk 1995 tók svo B.E.D. gráðu í Kennaraháskólanum árið 2000. Fór að vinna í Borgarholtsskóla í sérnámsdeild fyrir þroskahefta 1996 og var fyrsti þroskaþjálfinn sem var ráðinn inn í framhaldsskóla. Ég var með í að stofna þessa fyrstu sérnámsdeild á framhaldsskólastigi, ásamt tveimur kennurum. Það var fyrsta deildin sem var stofnuð fyrir þroskahefta einstaklinga í framhaldsskóla. Kennararnir sáu meira um bóklegu kennsluna og þroskaþjálfinn um að þjálfa alhliða færni. Markmiðið var að efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi og að þjálfa þau í öguðum sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun, og kenna þeim að njóta menningarverðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Skólastjórinn, Eygló Eyjólfsdóttir, lagði áherslu á að það væri alltaf þroskaþjálfi á deildinni. Síðan er það orðið mjög algengt. Það voru ekki neinar kennslubækur til í þessu fagi, allar bækur sem voru til, voru á grunnskólastigi. Það þurfti að breyta öllu því þarna var fullorðið fólk þó það væri með skerta getu. Það þurfti einhverja breytingu frá efninu úr 9. og 10. bekk. Við fórum erlendis, m.a. til Skotlands, og sáum hvað verið var að gera þar. Það voru átta nemendur í fyrsta árganginum. Síðustu árin hafði ég umsjón með heimilisfræði á sérnámsdeildinni. Og síðan vorum við að fara með nemendurna út á vinnumarkaðinn, þau fengu að fara á vinnustaði og kynna sér ýmis konar vinnu. Þau lærðu reikning og annað sem þau gátu nýtt sér til gagns og mörg þeirra eru enn á þessum vinnustöðum en því miður var erfitt að koma þeim að. En þegar þau fá tækifæri, sést hvað þetta eru góðir vinnukraftar, samviskusöm og dugleg. Þau voru til dæmis í Hagkaup að sækja kerrur á bílastæðin.“
Bjarnveig segist eitthvað hafa fylgst með framgangi fyrrverandi nemenda sinna og segir misjafnt hvernig þeim hafi farnast á vinnumarkaði en mörg hafi t.d. farið í háskólanám.
Ferðalög um víða veröld
Ragnar var prófessor og sérfræðingur í jarðskjálftum mannvirkja, sveiflufræði og bylgjum. Hann var ráðinn til SINTEF rannsóknardeildarinnar við NTNU tækniháskólann í Noregi eftir nám til að reikna út burðarþol steinsteyptra olíuborpalla og svo síðar stærstu brúa og mannvirkja þar í landi. Vegna starfs hans ferðuðust þau hjónin mikið vítt og breitt um heiminn. Ég bað Bjarnveigu að segja mér ferðasögur.
„Við fórum mjög víða um heim á meðan við bjuggum í Noregi og eins á meðan við vorum hér. Við áttum alltaf annað heimili í Noregi og Ragnar var prófessor þar ennþá þegar hann skildi við þennan heim. Við ferðuðumst mikið því hann var í mörgum alþjóðlegum nefndum erlendis og fór á vegum þeirra í ferðir. Þ.á.m. áttum við þess kost að fara til Nýja-Sjálands og búa þar tvisvar í Christchurch þar sem jarðskjálftar voru, og í Bretlandi vorum við alltaf af og til. Við höfum dvalið í Portúgal, Þýskalandi, Austurríki og Nepal, og farið til Kína og Rússlands og víðar.“
„Þegar við bjuggum í Danmörku, þurfti Ragnar að fara á sumarnámskeið í Izmir í Tyrklandi. Við reiknuðum út að það væri ódýrara að við fjölskyldan myndum keyra þangað, heldur en að hann færi einn með flugi. Við fórum á bílnum og vorum með tjald en elsta dóttirin var með okkur, hún var sex ára. Mjög mikið ævintýri. Við keyrum yfir til Þýskalands og Austurríkis og þaðan í gegnum Júgóslavíu og Búlgaríu og þá fór að vandast málið með tungumálið. Þegar við vorum að leita að tjaldstæði í Búlgaríu, þá skildi enginn neitt. Við reyndum að fara á þessa staði sem ekki voru ferðamannastaðir þannig við fórum upp í landið. Það var alskemmtilegasta upplifun sem við höfum fengið, þarna í Búlgaríu. Það var farið í hringdansa og það var tekið svo vel á móti okkur, það var eins og við værum kóngur og drottning að koma þarna. Það var svo yndislegt. En svo héldum við áfram í áttina að Tyrklandi og þar skildi náttúrulega heldur enginn neitt. Við komum seint um kvöld yfir landamærin og leituðum okkur að móteli í sveitaþorpi því við þorðum ekki að gista á tjaldstæðum. Þá var farinn að vera svolítill órói í landinu, það var að brjótast út stríð á milli Tyrklands og Grikklands árið 1972.“
„Við vorum orðin svöng og þyrst og langaði í eitthvað að borða og þeir skildu ekki nokkurn skapaðan hlut. Bóndi minn var nú vel að sér í tungumálum og var búinn að reyna allt. Svo var hann að tala þýsku, þá sagði stelpan mín, Anna ‚jæja nú er pabbi orðinn reiður, hann er farinn að tala þýsku!‘ Það var það síðasta sem hann notaði. Svo þegar þeir skildu það ekki, þá lagðist hann bara niður á fjóra fætur og sagði ‚meee‘ og þá skildu þeir það og þutu og náðu í lambakjöt handa okkur og komu með veitingar og það var slegið upp veislu. Svo keyrðum við til Istanbúl og fórum svo með ferju yfir til Litlu-Asíu Þetta var alveg stórkostleg ferð en ég myndi nú ekki mæla með því að fara með barn í svona ferð. En við vorum ung og hugsuðum ekki um hvað við værum að gera. Svo vorum við í 5 vikur í Litlu-Asíu og sáum m.a. helli þar sem sagt var að María hefði verið með Jesú nýfæddan, það var mjög fallegt. Svo ætluðum við að fara yfir til Grikklands og keyra þá leiðina til Ítalíu og svo heim aftur til Danmörku. Þegar við komum út á eyju á miðju Grikklandshafinu, þá var allt stopp. Það var skollið á stríð, herforingjastjórnin búin að taka yfir og við vorum bara sett í stóra rétt og allir voru með byssur. Þetta var alveg skelfilegt og okkur var skipað að taka allt út úr bílnum. Maðurinn minn var mjög harður af sér, það haggaði honum ekki nokkur skapaður hlutur. Hann opnaði bara bílhúddið og sagði þeim að athuga sjálfir farangurinn, þótt þeir otuðu að honum byssunum.“
„Svo ætluðum við að panta far með ferjunni frá þessari eyju til Grikklands. Þetta var það eina sem við gátum ekki pantað frá Danmörku, annars vorum við búin að panta alla ferðina gegn um bifreiðasamtök í Danmörku. Svo fór Ragnar í bankann og ætlaði að fá farmiða en hann gat ekki tekið út peninga og okkur var sagt að við gætum fengið far fyrir bílinn yfir en ekki fyrir okkur. Við sögðum að við gætum ekki sent bílinn á undan okkur ef við gætum ekki farið sjálf. Okkur var sagt að ef við borguðum aukalega, þá gætum við fengið að vera á þilfarinu en bíllinn niðri á stæði. Þá þurftum við að bíða í sólarhring en ef við hefðum sent bílinn á undan, hefði það verið vika í þessu fangelsi. Þegar við komum á þilfarið og búin að ganga frá bílnum, þá er þar alls staðar fólk með hænsni eða hermenn eða eitthvað. Við létum ekki bjóða okkur þetta og ákváðum að við skyldum fara upp á fyrsta farrými og sjá hvað myndi ske. Þar voru fyrir Tyrkir og Grikkir og vildu ekki leyfa okkur að setjast. En Ragnar þóttist sjá að þeir væru þarna í leyfisleysi og kom svo valdsmannlega fram að þeir þorðu ekki að ónáða okkur. Þá voru þeir allir ólöglegir þarna, þannig við gátum verið á fyrsta farrými og það fór vel um okkur. Ef Ragnar hefði ekki verið svona harður og með stáltaugar, þá hefði þetta getað farið illa. Við þurftum að borga alveg heilan helling bara fyrir bílinn og fara með honum yfir, annars hefðum við þurft að bíða heila viku. Þetta var svona upplifun sem maður gleymir aldrei. Þannig núna í dag langar mig eiginlega ekkert að ferðast erlendis, ég er alveg búin að fá nóg af ferðalögum í gegnum ævina. Ég er búin að ferðast svo mikið. Nú vil ég bara vera heima.“
Heim á Strandir
Eftir dvölina í Danmörku og Noregi, komu hjónin heim og settust að í Mosfellsbænum en héldu þó áfram að ferðast um heiminn. Ég spurði hvort öll þessi ferðalög hefðu breytt sýn Bjarnveigar á heimahagana og hún segir svo vera.
„Já, ég horfi allt öðruvísi augum á allt og er smámunasamari og á erfitt með að horfa á allar breytingar. En dáist að öllum framkvæmdum samt sem áður, mér finnst voðalega gaman að fylgjast með hvað er að ske. Ég kann rosalega vel að meta landið mitt en mér finnst einhvern veginn jafnmikið að Noregur sé landið mitt og ég segi t.d. ‚heim til Noregs‘ og ‚heim til Íslands‘. En svo er alltaf ‚heim á Strandir‘. Ef ég er spurð að því hvaðan ég sé þá segi ég alltaf ‚af Ströndum‘. Það er alltaf heim og verður alltaf heim.“
Lífsins sviptingar
Bjarnveig lét af störfum sem þroskaþjálfi árið 2009 en Ragnar lést úr krabbameini árið 2015 og þá minnkaði Bjarnveig við sig og flutti sig um set í Mosfellsbænum og hefur síðan verið virk í ýmsum félagsstörfum og við að sinna áhugamálum.
„Ég var komin vel yfir þrítugt er ég eignaðist yngri stelpurnar tvær, fór seint að læra, og var að vinna á meðan Ragnar var að læra. Svo fór ég að læra. Við ferðuðumst víða og upplifðum mikið og hratt og höfðum ekki tíma til að vera í neinu svona. Vorum mikið í þessu vísindasamfélagi og svo að ala upp börnin. Við höfðum lengi þráð það, enda héldum við að við gætum ekki eignast fleiri börn. Anna Birna var mjög kærkomin, líka fyrir föðurömmu- og afa, og heitir hún nöfnum þeirra að ósk þeirra. Þær Sólveig og Bryndís voru himnasending næstum 12 árum seinna.“
„Svo eftir að þær fæddust og við komin heim, þá tók við þetta hefðbundna basl. Við komin með stóra fjölskyldu. Leigðum við íbúð í Mosó. Eftir umhugsun ákváðum við að byggja á mjög fallegri lóð við Leirvoginn i Mosfellssveit sem við gátum fengið. Vinirnir töldu þetta vera brjálaði í okkur, en það var ekki um annað að ræða. Stelpurnar völdu staðinn. Bóndinn minn sagði stundum að þetta væri herþjónusta Íslendinga, enda unnu allir sjálfir eins og þeir gátu. Ég held ég hafi hreinsað flestar spýtur. Ragnar gerði allt verkfræðilegt sjálfur og sá um járnabindingar. Húsið komst upp og eyddi ég miklum tíma í garðvinnu. Pabbi plantaði fyrstu trjánum, 6 stykki birki, niður með göngustíg 1986 og þau náðu honum upp að hné. Hann mældi jafnt og þétt og hætti svo er þau hurfu upp fyrir höfuð hans. Stoltur var hann. Þau eru í dag sirka 2,5-3 metrar. Já, við höfðum sérstök tengsl við þetta hús.“
„Þegar stelpurnar uxu til tók ég þátt í félagslífinu með þeim í skólanum, á meðan Ragnar hjálpaði þeim meira við heimalærdóm, enda alltaf að vinna heima við að skrifa vísindagreinar þegar vinnan í Jarðskjálftamiðstöðinni var búin. Ég var gjaldkeri í Sunddeild Ungmennafélags Aftureldingar. Ég var í stjórn þess um tíma og einnig í stjórn Ættingjabands Hrafnistu DAS, enda alltaf verið mikil verið félagsvera, þó sérstaklega eftir að Ragnar dó. Hann tók loforð af mér að einangra mig ekki. Ég ákvað að efna það. Þannig að ég byrjaði í Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ, og það er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Það er alveg sama hvernig ég er upplögð, er ég fer á æfingu því að æfingu lokinni er ég glöð og létt, þannig er kórinn eins og vítamínssprengja. Þakkað veri líka góðum kórstjóra og félögum. Ég er búin að eignast mikið af góðum vinum. Svo og í gegnum félagsstarfið, hef ég verið í tréútskurði, föndri og að mála, og verið í menningarnefndinni.“
Listakona af Guðs náð
Bjarnveig er einmitt mikil listakona. Hún hefur fengist við ýmis konar handaverk, ljósmyndun og listmálun og segist hafa fengið áhuga á því strax í æsku.
„Mamma var að kenna handavinnu í skólanum þegar ég var lítil en akkúrat þegar við systurnar vorum í skólanum, þá vildi hún ekki kenna handavinnuna vegna þess að hún vildi ekki að það væri verið að segja að hún tækir okkur fram yfir aðra. En við vorum mikið í smíðastofunni hjá Sveini og lærðum undirstöðuna í ýmiskonar smíði. Þannig hann var framarlega í þessu. Svo í Noregi var ég mikið að mála á tré, alltaf verið að mála á allt mögulegt. Á tímabili málaði ég mikið á rekavið. Ég byrjaði á myndlistinni þegar ég var í Reykjavík, 2 árum eftir að ég kom frá Akureyri. Þá fór ég að læra myndlist í kvöldskóla og var nokkurn tíma í því og hafði mjög gaman af því. Svo þegar ég fór í þroskaþjálfaraskólann í Danmörku, þá gátum við valið braut eftir grunnnámið. Ég valdi að fara út á verklega sviðið og þá lærði maður undirstöðuna í svo mörgu. Ég var að læra dúkristu og leðurvinnslu og að fara með liti og ýmislegt sem var undirstaða undir þetta sem ég er að gera í dag. Ég gerði heilmikið í leðri – veski og svoleiðis. Ég hef alltaf verið mikið fyrir föndur. Fór svo að vinna með þroskahefta á vinnustofum, bæði í Danmörku og svo í Noregi, þar sem þessi færni var þjálfuð upp. Einu sinni var ég með nokkra við borð og vorum við að vinna með leir. Tók ég þá eftir að ein stúlkan var alltaf að skrifa nafnið Anna í leirinn. Hún hafði lært það með því að horfa yfir borðið á Önnu mína skrifa nafnið sitt. Ég kenndi henni að bæta við H fyrir framan, hún hét Hanna, síðan var hún óstöðvandi. 50 ára hafði hún lært bæði að lesa og skrifa. Liðagigtin í fingrum hefur verið mér erfið í þessum efnum, nú bara mála ég.“
Næmni fyrir því yfirnáttúrulega
Ég hef bæði í gamni og alvöru oftast spurt viðmælendur mína um sýn þeirra á yfirnáttúru einhvers konar, því trú á drauga, fylgjur og önnur slík fyrirbrigði er nokkuð algeng. Það á einnig við um Bjarnveigu en hún uppgötvaði ung að hún sæi og heyrði ýmislegt óvenjulegt sem var öðrum hulið.
„Ég uppgötvaði það sem krakki. Átti oft erfitt með svefn. Sérstaklega ef vissar fjölskyldur komu í heimsókn daginn eftir. Ég þekkti hver kom, eftir því hvernig fylgjan skreið eða nuddaði sér upp við vegginn á tröppunum úti. Önnur fylgja, sem kom upp um kjallaratröppurnar, var hæverskari en sú sem kom upp tröppurnar aðaldyramegin. Ég varð alltaf samt eins og lömuð og þegar ég gat hreyft mig, skreið ég upp í til mömmu og pabba. Þau vissu þetta alltaf og ég sagði þeim hver kæmi, held það hafi ekki brugðist. Það bjó huldufólk í Hamrinum rétt fyrir innan staðinn. Ég hef ekki mikið verið að ræða um það. En mamma vissi það, ég sýndi henni hvar hurðin var, er við fórum að hengja út þvott fyrir innan Hamar. Í Klettunum fyrir innan bókasafnið heima, þar sem maður keyrir inn fyrir þorpið, þar var gangur sem ég gat klappað á og gengið inn í. Þar bjó fólk, og þar voru börn. Fyrir innan Hamarinn, þar bjó huldufólk. Svo hefur verið ýtt þarna, eða sprengt, til að taka af mesta nefið þarna þar sem keyrt er inn í staðinn. Ég er voða hrædd um að huldufólkið hafi flutt þaðan. Farið eitthvað annað. Ég hef ekki séð það þegar ég hef komið heim. Ég hef farið þarna að og húsið er farið. Þau voru lítil en ósköp venjuleg börn, bara minni en við.“
„Það var líka huldufólk í Einbúanum, klettum á túninu hans afa í Bæ. Þar var álagablettur og þar lékum við okkur krakkarnir, en það voru strangar reglur um það sem við máttum ekki gera til að ergja ekki huldufólkið og álfana. Á vetrarkvöldum vorum við á skautum og stundum var Bensi á Nesi með okkur og við skautuðum og sungum álfalög, hann vildi fá fólkið með og klappaði á steina og sagði ‚Komið þið sem komið viljið og farið þið sem farið viljið‘. Hann var bróðir Ísleifs Konráðssonar listmálara, skondinn karl sem fór á milli bæja og prjónaði eða spann á rokk. Hann var oft hjá ömmu i Bæ og gerði leikrit eða grín af því fólki sem hann var síðast hjá. Það er útúrdýr. Amma fór með brodd í könnu og færði huldufólkinu. Hún hét því að ef Skjalda fengi ekki doða (júgurbólgu) þá myndi hún færa þeim fyrsta broddinn. Semsagt, hún átti kú sem hét Skjalda og það var mjög mikilvægt að hún myndi ekki veikjast við burð. Og amma hét til álfana og huldufólksins í Einbúanum að þeir fengju fyrstu mjólkina, broddinn sem svo var kallaður, ef hún lifði. Eins þegar við vorum í kirkjunni, þegar við vorum til messu, þá átti ég til að líða út af því ég vissi aldrei hvort það var fólk hérna megin eða að handan sem var að koma og fara í kirkjunni. Mér leið ekkert alltof vel. Þegar ég varð eldri og kom til Reykjavíkur, varð ég að vinna með tilfinningarnar. En ég hef tekið á þessu seinni part ævinnar og hef þroskað þetta svolítið, farið meira út í þetta. Ég á mjög auðvelt með að setja mig í spor annarra. Ég er í Sálarransóknarfélaginu og fer á miðilsfundi, og þar hefur komið fram margt af mínu fólki, og þetta gengur miklu betur í dag.“
Styrkur í trúnni
Að sama skapi segist Bjarnveig alltaf hafa getað leitað í trúnna, ekki síst í gegnum þau áföll og veikindi sem hún hefur þurft að kljást við um ævina. Eins og áður hefur komið fram, glímdi hún ung við heilsubresti en fann styrk í bænum, undir áhrifum frá ömmum sínum.
„Föðuramma mín var mikið hjá okkur, Jóhanna, og hún las mikið fyrir okkur bænir og sálma og kenndi okkur. Hún var mjög trúuð kona. Seinna fór ég nokkrum sinnum til Hólmavíkur til lækninga, í ljós og sprautur. Þá bjó ég hjá Jóa afabróður mínum, langamma mín Ragnheiður bjó þá á Hólmavík og var hjá Þuríði afasystur minni. Hún var blind. Ég fór til hennar á daginn þegar ég var búin í sprautunum. Ég sat hjá henni og hún kunni reiðinnar býsn af kvæðum. Hún var skáld og hún var mikið trúuð líka, fór með ljóð og vers og bænir. En ég held ég hafi fengið þetta aðallega frá Jóhönnu ömmu. En pabbi stappaði í okkur krakkana stálinu og sagði alltaf. ‚Guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfur.‘ Ég er búin að verða fyrir áföllum og reyna ýmislegt. Ég hef séð inn í dauðann, hef orðið fyrir lífsreynslu þar sem ég hef verið við dauðans dyr. Í eitt skipti var ég mjög tæp, ég hafði semsé farið í liðskiptaaðgerð á hné árið 2019 og fékk mikla sýkingu, 3 mismunandi tegundir, var með háan hita og með óráði. Hjúkrunarfræðingur sem sat yfir mér, sagði mér seinna að ég hefði talað við fólk. Þá dreymdi mig… eða mér fannst að sitt hvoru megin við rúmið, sætu séra Andrés Ólafsson, sem var lengi prestur á Hólmavík, og yfirhjúkrunarkonan sem var á Akureyri, sem tók mig að sér þegar ég var 14 ára og kom til Akureyrar á FSA. Þá sátu þau sitt hvoru megin við rúmið hjá mér og báðu. Svo var eins og ég horfði eftir löngum gangi og þar inni sá ég bónda minn heitinn veifa mér, eins og hann vildi kveðja, minn tími væri ekki kominn.“
„Þetta er ekki í eina skiptið sem þetta skeður. Ég varð mikið veik úti í Noregi, þá tók langan tíma að fá síma lagðan í hús og það þurfti að fara langt til að fá lánaðan síma. Pabbi og mamma höfðu einhvern grun um að ég væri mikið veik. Þau skrifuðu Einari á Einarsstöðum – skyggn maður í Þingeyjasýslu – sem þau leituðu til ef eitthvað mikið var að. Pabbi hringir í hann og biður hann að hafa samband við mig. Hann segist ætla að senda lækna til mín. Svo skrifar mamma mér bréf. Bréfið berst mér ekki fyrr en daginn eftir að heimsókin kemur. Það kemur maður í hvítum slopp inn um dyrnar um nóttina, rauðhærður. Hann kemur og stendur fyrir aftan rúmið mitt. Horfir fyrst á mig og svo kemur hann að mér og segir ‚Ég held ég geti ekki læknað þig en ég held ég geti hjálpað þér til betri heilsu‘. Svo gefur hann mér sprautu í lærið og farið var í lærinu þegar ég vaknaði um morguninn. Þegar ég vakna og fer að skoða þetta, segi ég við Ragnar ‚skrýtið!‘ og fer að lýsa þessu fyrir honum. Hann segist hafa orðið var við þetta og það sem hann sá passaði líka. Og upp úr þessu hresstist ég. Daginn eftir kom bréfið frá mömmu þar sem hún sagði að pabbi hefði haft samband við Einar á Einarsstöðum. Ég hef farið til miðla hérna og þeir hafa sagt mér að Einar frá Einarsstöðum, sem er látinn, sé með mér. Hann fylgist með mér. Mér þykir það ekki slæmt.“
Bjarnveig segist í dag þakklát fyrir viðburðarríkt líf og hefur margs að hlakka til enn.
„Já, þegar hugsað er til baka, tel ég að ég hafi verið hamingjusöm og átt gott og viðburðaríkt líf. Ekki endilega alltaf auðvelt, en þannig lærir maður að takast á við hlutina. Ég var hamingjusamt barn. Ólst upp hjá yndislegum foreldrum í stórum systkinahópi. Öll mismunandi með sínar þarfir sem var lærdómsríkt og kenndi manni að taka tillit en standa á sínu. Allt dugnaðarfólk, held ég, Burstafellssystkinin. Ég eignaðist ung yndislegan, vel gerðan lífsförunaut til 50 ára. Hann féll frá alltof snemma, hann hafði svo mikið að gefa, hans viskubrunnur var ótæmandi. Börnin urðu þrjár dætur. Allar vel gerðar og duglegar. Tengdasynirnir þrír. Barnabörnin 8 og barnabarnabörnin eru 3 drengir og stúlka á leiðinni. Alls 14 afkomendur. Ég er stolt af þessum hóp. Tengdasonum líka ekki síður. Öll vel af Guði gerð. Ég er sátt við líf mitt í dag, fallegu litlu björtu íbúðina mína, þar get ég haft mína hentisemi, séð um mig sjálf, meðan heilsan leyfir. Keyrt bílinn, alltaf til í bíltúra, þó umferðin sé aðeins farin að draga úr mér. En er alltaf velkomin hjá börnunum mínum, ef ég þarfnast einhvers. Í vor er ferðalag með Vorboðum kór eldri borgara innanlands og tónleikar, svo er plönuð ferð með Átthagafélagi Strandamanna til Skotlands í haust. Og svo verð ég nú að skreppa á Bryggjuhátíð í sumar heim á Strandir.“
Myndir úr safni frá Bjarnveigu.