Lífið á og eftir Café Riis
Veitingastaðurinn Café Riis á Hólmavík er líklega öllu Strandafólki kunnur en þar hafa svangir ferðalangar jafnt sem heimamenn getað satt hungur sitt í 26 ár. Veitingastaðurinn var stofnaður árið 1996 af hjónunun Magnúsi Magnússyni og Þorbjörgu Magnúsdóttur en árið 2005 urðu eigendaskipti. Bára Karlsdóttir og maður hennar, Kristján (Kiddi) Jóhannsson, voru á meðal nýrra eigenda en síðan urðu þau einu eigendurnir. Þau ráku Café Riis með ágætum í 17 ár eða til ársbyrjunar 2022 þegar Guðrún Ásla Atladóttir tók við. Við tókum stöðuna á Báru, sem býr nú á höfuðborgarsvæðinu, og forvitnuðumst um reksturinn, lífið eftir Café Riis og matarástríðuna.

Bára, sem er borinn og barnfæddur Hólmvíkingur, segir að sig hefði ekki grunað að hún færi út í veitingarekstur áður en það gerðist. Þá vann hún þó í mötuneyti Hólmadrangs eftir að hafa sinnt hinum ýmsu störfum en Kristján átti og starfaði í Vélsmiðjunni. Þau ákváðu að stökkva á tækifærið þegar það bauðst ásamt öðrum aðilum.
„Þetta var þannig að það var búið að selja þetta manni fyrir sunnan og hann sýndi enga liti í að opna og Hólmavík var ekki með neinn veitingastað. Þá var farið að ræða málin af alvöru … og svo ákváðum við að kaupa þetta, ég held við höfum opnað hálfum mánuði seinna og engin okkar komið nálægt svona. Ég hef náttúrulega verið með slatta af veislum bæði í Reykjavík, Hólmavík og annars staðar. Matur hefur alltaf verið áhugamál en ég hef ekkert lært. Við létum bara vaða.“
Engir erfiðleikar, bara lausnir
Að sögn Báru gekk Café Riis vel frá upphafi og gestum fjölgaði ár frá ári. Þó er veitingageirinn harður heimur og ýmislegt sem þurfti að yfirstíga en alltaf fundust lausnir til að útvíkka starfsemi staðarins.
„Í byrjun var þetta ekkert auðvelt … Þá var ekkert að gerast heima yfir vetrartímann en það þurfti náttúrulega að borga fasteignagjöld og hita og annað. Síðan fengum við mötuneytin fyrir Hólmadrang, skólann og leikskólann [í kringum 2010]. Fyrstu árin var ekkert mikið hægt að borga laun, þá þurfti maður að gera eins og mörg fyrirtæki úti á landi og redda sér yfir sumartímann … Þetta var bæði erfitt og skemmtilegt. Fyrstu árin var ég bara [eini] kokkurinn, svo fékk ég stelpur heima til að vinna með mér og kenndi þeim og þær voru fljótar að læra og gátu leyst af, ég hef alla tíð verið í að panta og að einhverju leyti verið með bókhaldið, það þarf að redda sér.“

Ekki dugði þó til að ráða heimafólk til starfa og með hjálp Viktoríu Ránar Ólafsdóttur, sem þá var kaupfélagsstýra á Hólmavík, fékk Bára til sín erlenda starfskrafta sem reyndust henni vel allt til enda.
„Fyrir svona 5 árum þá sótti eiginlega enginn um, þá var einhvern veginn erfitt alls staðar að manna, ekki bara hjá okkur, þá byrjuðum við að fá útlendinga. Fyrst réði ég 4: kokk og þjóna, reyndar þjálfuðum við alltaf einhvern líka við hliðina á kokknum í pizzum og svona. Ég vil meina að ég hafi alltaf verið heppin með starfsfólk, í yfir 90% [tilvika]. Ég fékk 2 litháíska kokka og önnur þeirra kom á hverju ári, frá því hún kom fyrst og þar til ég hætti. Ég fékk Litháa og Pólverja, Tékka aðallega [sem þjóna]. Þetta var mikil áskorun fyrir mig fyrstu árin að þurfa að tala ensku í eldhúsinu. Ég gat svona bjargað mér með handahreyfingum en þetta hefur verið skóli fyrir mig, auðvitað hlógu krakkarnir oft þegar ég var að bögglast við þetta en ég reddaði mér og þetta gekk vel að mínu mati. En þetta var mál, að þurfa að ræða matseðilinn. Það þurfti að steikja gellur upp úr smjöri og raspa á gamaldags hátt en þær vildu nota olíu. Maður þurfti kannski að taka smjörið og henda á pönnuna þegar þær sáu ekki til. Áherslurnar eru svo mismunandi á milli landa, þær voru stundum með ákveðnar skoðanir á hvernig átti að elda,“ segir Bára kímin.
Áður en Covid-faraldurinn setti allt í lamasess voru þau hjónin farin að huga að því að hætta störfum en lítill áhugi var á að kaupa veitingastað í þeim tíma svo þau neyddust til að halda áfram. Þvert á það sem ætla mætti, segir Bára faraldurinn ekki hafa leikið þau svo grátt.
„Ég held ég geti nærri því fullyrt það að það gekk aldrei eins vel eins og í Covid. Þá voru Íslendingar að ferðast, það dalaði aðeins þegar það voru settar þessar miklu takmarkanir, en þá vann maður í því að hafa færra starfsfólk og hlaupa hraðar sjálfur. Það voru erfiðustu ákvarðarnirnar á vorin að vita hvað ætti að ráða marga þessi 2 vor þar sem var Covid. En einhvern veginn heppnaðist þetta.“
Matur úr heimabyggð
Bára er mikill sælkeri og segist alltaf hafa haft áhuga á mat og matargerð. Hún var stórhuga þegar hún hóf reksturinn og vildi reyna að gera öllum til hæfis en fljótt kom í ljós að það gekk ekki til lengdar.
„Það þurfti að fikra sig áfram, við vissum náttúrulega ekkert hvað við vorum að fara út í. Þegar við byrjuðum. Við ætluðum við að vera með alls konar mat en komumst að því seint og um síðir að það var best að hafa bara það sem var þarna heima, lambakjöt og fisk. Á síðustu árum var ég bara að kaupa allt þar, fisk frá Drangsnesi og eitthvað að vestan, og lambakjötið frá Matta og Hafdísi í Húsavík. Það var það besta, svona fyrir útlendingana, að vera með allt í ‚nærheden‘ heima. Ekki mexíkóskar vefjur og alls konar dót eins og mér datt á tímabili í hug. Maður fikrar sig áfram. Svo höfum við mikið verið með pizzurnar, þær hafa alltaf verið vinsælar. Ég er svo mikil hlaðborðskona, mér finnst það skemmtilegt. Það er mikill áhugi, helst á að skera út ávexti, búa til blóm og alls konar.“

Litir, skraut og instagram-vænn matur
Fyrir utan að reka veitingastaðinn og mötuneytisþjónustuna, sáu Bára og hennar fólk einnig um ýmsar veislur og viðburði, svosem þorrablót, góugleði og jólahlaðborð. Við slík tilefni fékk hlaðborðskonan Bára sérstaklega að njóta sín og sleppa hugmyndafluginu lausu því hjá henni er matur allt í senn, áhugamál, ástríða og listgrein. Hún segir frá því hvernig hún uppgötvaði ávaxtaútskurð og glæsilegar borðskreytingar á siglinum í karabíska hafinu og rifjar upp ýmsar sniðugar veisluhugmyndir sem hún fékk í gegnum tíðina.

„Það var alltaf voðalega dauft yfir þorrablótunum, litlaust, súrmaturinn og allt þetta. Þannig við fórum fljótlega að stokka þetta aðeins upp. T.d. setti ég sviðakjammana um allt borð og setti rauðar rósir í trantinn á þeim, það lífgaði heilmikið upp á borðið. Einu sinni fengum við gæru og karlinn minn smíðaði grind undir hana, og einn karl heima átti frosinn hrútshaus í frystikistunni og við bjuggum til kind í réttri stærð, hengdum gemsa um hálsinn á henni og settum eyrnalokka í hrútshausinn, það þurfti aðeins að lífga upp á þetta…”

„Ég er rosalega hrifin af litum, ég vil hafa þetta mikið skreytt, kannski stundum of mikið. En af því maður borðar líka með augunum, þá þarf maturinn liti, þess vegna fórum við að gera svona … Ég fékk yfirleitt hugmyndirnar og [Kristján] framkvæmdi. Við gerðum bóndabæi úr rúgbrauðinu, svo keypti ég í Rammagerðinni litlar kindur og við settum þær á þakið, þetta var gaman. Hjá mér hefur hugmyndaflugið alltaf verið mjög öflugt en stundum erfitt að framkvæma. Ég hef gert einhverjar 3 veislur fyrir Gestgjafann og það voru þemu í því, þá fékk ég [Kristján] til að smíða bakka og einu sinni gerði hann disk eins og fisk með hlýraroði. Þá gat maður meira leikið sér, það var ekki svona ‚að reka-Cafe-Riis-alvara‘ … Þetta var sumt ótrúlegt, einhvern tíma smíðuðum við strætóbekk úr járni, því við vorum með Vélsmiðjuna, og létum kjúklinga sitja þar á og bíða eftir strætó með brúðarslör – þetta var fyrir brúðkaup. Þetta var skemmtilegt. Einu sinni datt mér í hug að hafa fiskabúr á veisluborðinu með lifandi fisk í og gosbrunn ofan í … Þetta voru svona öðruvísi veislur. Ég var bara montin af þessu, þetta var flott og skemmtilegt.“

Ánægja með ávaxtaútskurð á elliheimilinu
Eftir 17 ár á Café Riis ætluðu Bára og Kristján loksins að hafa það náðugt þegar þau seldu staðinn, ákváðu að flytjast suður og ráðgerðu að setjast í helgan stein. Það stóð þó ekki lengi. Stuttu síðar var Bára byrjuð að vinna á Hrafnistu þar sem hún fær að skera út ávexti af hjartans lyst.

„Það var það fyndnasta, ég var alveg til í meira. Það breytir miklu, að vera sinn eigin herra eða að vinna hjá öðrum. Það er gott, finnst mér, þegar ég er komin í aðra vinnu að hafa verið báðu megin við borðið, maður sýnir meiri skilning … Ég hélt að fólk á mínum aldri væri ekkert að fá vinnu í bænum en ég ákvað fljótlega að það myndi ekki henta mér að hætta að vinna þannig ég sótti um á 3, 4 stöðum [og] ég gat fengið þessar vinnur. Það var þessi 17 ára reynsla og svo að ég talaði íslensku. Ég fékk vinnu á Hrafnistu í Skógarbæ, í eldhúsinu. Ég er svo ánægð þar, gott starfsfólk, og eldri borgararnir sem eru þarna, mér finnst þetta skemmtilegt. Á föstudögum er alltaf morgunverðarhlaðborð fyrir starfsfólkið og fljótlega fór ég að skera út alls konar. Ég var að leika mér einn morguninn, gera falleg blóm og þau urðu mjög glöð með þetta. Þetta er orðið vinsælt hjá þeim. Ég er bara venjulegur launþegi … Þetta er bara svona venjuleg eldhúsvinna og svo er alltaf kaffi, ég er að sjá um smurbrauðið svo ég fæ að einhverju leyti að leika mér. Ég er mjög glöð að vera að vinna þarna og vera ekki alveg hætt að vinna. Þetta er tilbreyting, þá ertu bara í vinnunai og þarft ekki að vera hugsa um að skipuleggja neitt … en ég er mjög glöð þarna og fegin. Eins og ég segi, mér datt ekki í hug að 65 ára kella fengi vinnu einn, tveir og þrír. En ég fékk vinnu 2 tímum eftir að ég sótti um!“
Bára segist bera fullt traust til nýrra eigenda Café Riis (Guðrún Ásla sé jú náfrænka hennar) og hefur ekki áhyggjur af framtíð staðarins. Hún hefur heldur varla tíma til þess, enda upptekin í nýju vinnunni þar sem hún er hæstánægð. En ætlar hún þá bara ekkert að koma aftur heim?

„Ég fer alltof lítið heim, ég er bara búin að fara 1 sinni heim á þessu ári. Þegar ég fékk þessa vinnu fór ég bara að vinna á fullu alla daga og maður á ekkert frí þegar maður er að byrja. Fyrstu 3 mánuðina var ég að vinna aðra hvora helgi líka. En maður kíkir heim. Þetta er einhvern veginn þannig þegar maður hættir því sem maður var [að gera] alla tíð… þetta var lífið mitt í þessi 17 ár, það breytist heilmikið. Maður verður fyrst svolítið ‚hvað á ég að gera núna? Hvernig á að hafa þetta?‘ Við erum ekkert búin að brjóta allar brýr, eigum enn húsið heima. Við sjáum til, fikrar maður sig ekki bara áfram og sér til hvað maður gerir? Tekur einn dag í einu.“
Greinin var upphaflega unnin fyrir og birt á strandir.is árið 2022.
Myndir fengnar af facebook síðu Café Riis (nema sú fyrsta sem ég tók).