Fiskeldi endurvakið á Ásmundarnesi
Gísli Ólafsson, borinn og barnfæddur Grundfirðingur – sem þó rekur báðar ættir á Strandir – keypti Ásmundarnes í Bjarnarfirði fyrir tæpu ári. Stórtækar framkvæmdir og áætlanir um fiskeldi hafa vakið athygli og fréttaritari leit í heimsókn til að forvitnast um málið.
Í fyrrahaust dvaldi Gísli á Laugarhóli og líkaði þar svo vel vistin að hann fór að líta í kringum sig eftir sumarbústaðalóð.
„Í september í fyrra vorum við í verkefni fyrir BBC að taka upp heimildamynd hérna, bæði inni á Steingrímsfirði og upp við Gjögur í Reykjafirði. Svo átti ég tveggja daga frí á eftir, þurfti ekkert að flýta mér heim. Ég kom hérna og gisti á Laugarhóli í 2 nætur til að slaka á og leið svolítið vel. Ég fór að spyrja Viktoríu út í sumarbústaðalóðir hérna rétt hjá. Þá sagði hún ‚þú kaupir bara Ásmundarnes, ekkert með það, ekta fyrir þig!‘ og ég sagði ‚nei bölvað kjaftæði.‘ En daginn eftir ákvað ég samt að keyra hérna út eftir og kíkja, leist vel á en var ekkert rosalega mikið að spá í þessu.“
Gísli ræddi málið síðan við einn samstarfsmann sinn, Hríseyinginn Víði Björnsson, og lét sannfærast um að kaupa jörðina og hefja lítið silungseldi, þó það hafi ekki staðið til í upphafi.
„Víðir var bara strax ‚já, við bara setjum upp silungseldi og allt‘ og hann ætlaði að vera bústjóri og sjá um þetta. Þannig var það að ég ákvað að gera tilboð en ég var ekkert að spá í það með þetta eldi í huga. Var að horfa á heita vatnið með það í huga að setja upp sumarbústaði til að leigja út og svo bara eitthvað athvarf fyrir mig sjálfan. Það var hugsunin upphaflega.“

Læra fiskeldi af youtube myndböndum
Þó varð ekki úr litla silungseldinu, heldur var farið í mun stórtækari framkvæmdir við eldi á regnbogasilungsseiðum. Aðspurður segist Gísli ekki hafa neina reynslu af slíkri starfsemi.
„Nei, ég held ég hafi tekið einn kúrs í fiskeldi þegar ég var í bændaskóla á Hólum, og Víðir hefur verið áður í kræklingarækt en fiskeldi höfum við ekki mikið vit á. En við erum með góðan bakhjarl sem er að ráðleggja okkur og hjálpa okkur, Björn Theodorsson, hann hefur verið að aðstoða okkkur og hjálpa til. En meiningin var að byrja bara rólega með því sem var hérna, nota tjarnirnar og gamla húsið og körin sem voru hérna og fara bara í silungseldi. Síðan bauðst okkur samningur um að ala seiði fyrir fyrirtæki sem er staðsett í Hnífsdal og er með eldi þar uppfrá, regnbogasilung, og við tókum það að okkur að framleiða seiði fyrir þá í 5 ár og það var allt miklu stærra og þá urðum við að fara í þessar framkvæmdir. Þetta átti bara að vera hobbý, ætluðum a hafa þetta svona með hvalaskoðuninni.“
Miðað við framkvæmdirnar virðist þó sem þeir félagar viti vel hvað þeir eru að gera, eða hvað?
„Vitum við nokkuð meira en það sem Bjössi [Björn Theodorsson] hefur logið að okkur? Jú, að vísu erum við búnir að horfa svolítið á youtube myndbönd,“ segir Gísli sposkur.
-„Fake it ‘til you make it!“ skýtur Víðir inn í .
Annars segir Gísli helstu áskoranirnar hafa snúið að samskiptum við opinberar stofnanir vegna skipulags- og leyfismála. Vegna klúðurs þar hafi ferlið dregist umtalsvert á langinn áður en hægt var að fá hrogn til landsins. Einnig séu framkvæmdirnar afar kostnaðarsamar.
„Þetta er bæði búið að kosta meira og taka meiri tíma en við ætluðum okkur. Við hefðum gjarnan viljað vera komnir miklu lengra í þessu.“
„Við erum að gera á 8 mánuðum það sem aðrir eru að gera 2 árum,“ bætir Víðir við.

Framleiða allt að 500.000 seiði á ári
Gísli útskýrir fyrirætlanirnar betur.
„Við erum semsagt að fara í seiðaeldi, og erum að fara að framleiða á milli 400.000 og 500.000 seiði á ári, sem við ölum frá hrognum – fáum hrogn frá Danmörku – og hvert seiði er alið upp í um 100-120 grömm. Það tekur einhvern tíma fyrir þau að klekjast út og fara yfir í körin. Síðan vaxa þau og við færum þau á milli kara og færum þau út. En í grunninn er þetta bara að við fáum hrogn, ölum upp seiðin sem fara í júní í sleppingar í kvíar í Ísafjarðardjúpinu og Ísafirði.“
Til þess að gera þetta mögulegt hefur þurft að standa í ýmis konar framkvæmdum, m.a. að bora eftir vatni, leggja leiðslur og byggja hús.
„Við erum búnir að virkja, taka vatn úr tveimur ám hérna, við erum búnir að bora fimm holur til þess að reyna að finna meira af köldu vatni úr borholu. Við fundum ágætis vísbendingar um hvar við gætum borað eftir meira heitu vatni og ég reikna með að næsta sumar verði boraðar tvær djúpar heitavatnsholur til að fá meiri varma. Síðan erum við búnir að byggja þessa 480 fermetra skemmu sem er yfir þessu til að hafa þetta betur í stíl við umhverfið, ráða meira við sveiflurnar í náttúrunni, þetta snýst um það.“

Heita vatnið lykillinn
Þegar Guðmundur Halldórsson átti Ásmundarnes, lét hann bora eftir heitu vatni. Gísli segir það hafa skipt sköpum og vera í raun það eina nýtilega af því sem fyrir var vegna breyttra aðstæðna í greininni.
„Heitavatnsholan var lykillinn að því að við gátum farið af stað í þetta. Meiningin var síðan að nota það sem Guðmundur var með en eldi í dag er orðið allt annað en það sem það var þegar hann var að standa í þessu á sínum tíma. Þá voru menn með þetta í tjörnum og voru að nota náttúrulegan hita og náttúrulegar aðstæður með kvíaeldinu. Í dag þarf þetta að vera stýrt og sérstaklega ef þú ert í seiðaeldi sem má engan tíma missa – þeir vilja fá seiðin í júní til að geta komið þeim út í sjó til þess að nýta varmann yfir sumarið – þá þýðir ekki að vera með þetta svona í náttúrunni eins og upphaflega áætlunin var hjá okkur. Þannig að í sjálfu sér er það heitavatnsholan sem við höfum verið að nota. Guðmundur var búinn að finna eiginlega allar matarholur í vatni hérna á svæðinu, þannig við gátum gengið að því hvar var best að stífla og virkja lækina til að koma vatni til okkar, setja upp vatnsmiðlun. Við gerðum það nákvæmlega á sama stað og hann, bæði í bæjarlæknum og Geitaránni. Þá tókum við vatnið á nákvæmlega sama stað og hann hafði ætlað sér að gera en hann var að láta renna eftir yfirborðinu en við lögðum pípur í það. Við vitum alveg hvar varminn er, því við sáum hvar Guðmundur hafði verið að grafa ofan í uppsprettur til að ná hitanum. Hann var búinn að gera mikið, hann var búinn að leggja hér lagnir um allt tún og um allar koppa grundir voru lagnir, það var ótrúlegt. Það var hvergi hægt að stinga niður skóflu nema að fá upp rör. Það hefur verið mikið í gangi hjá honum greinilega, miklar hugmyndir. En tæknin hefur breyst mikið síðan. Þegar maður er að skoða skýrslur og gögn um fiskeldi, hvað menn voru að gera fyrir 30, 40 árum, og hvað menn eru að gera í dag, þetta eru svo gjörsamlega ólíkir hlutir.“

Margt hægt að gera á Ásmundarnesi
Gísli hyggst einnig byggja verkfæraskemmu til viðbótar við fiskeldisskemmuna, íbúðarhús fyrir sjálfan sig og eins og áður kom fram er hann með áform um byggingu sumarhúsa til útleigu. Honum hefur einnig komið til hugar að bjóða upp á afþreyingu tengda fiskeldinu en ekkert sé ákveðið í þeim efnum.
„Við ætluðum okkur að nota eina tjörnina og sleppa og bjóða fólki að veiða en við sjáum bara til með hvernig það verður í framtíðinni. Það var svoleiðis, það var hægt að kaupa veiðileyfi og borga bara fyrir það sem þú veiddir. Okkur langaði að gera það aftur, það fer vel með þessum sumarbústöðum sem við ætlum að byggja og leigja út, fólk getur komið og haft einhverja afþreyingu.“
Þar að auki er æðarvarp í eyjunum við Ásmundarnes sem gekk að sögn vel fyrsta árið þótt ekki sé mikið fyrir reynslunni að fara á því sviði heldur.
„Æðarvarpið kom ágætlega út í sumar, ég er bara mjög sáttur fyrsta árið og við vissum lítið hvað við vorum að gera. Ég hafði nú einhvern tímann komið aðeins í varp þegar ég var yngri. En starfsmaður hjá mér sem er skipstjóri í Grundarfirði, hún tók þetta að sér og sá um þetta fyrir mig, hún Josefine og það tókst vel og hún er með miklar hugmyndir fyrir næsta ár, hvernig á að verja þetta betur og merkja betur og búa betur að kollunni. Hún er búin að vera í sambandi við þá bæði í Stykkishólmi hjá Íslenskum æðardún og eins uppi í Fljótum þar sem við seldum hluta af dúninum. Í framtíðinni stendur til að reyna að gera eitthvað meira úr honum, búa til sængur til að selja sjálf og einhverjar vörur en það verður bara að koma í ljós hverju við nennum.“
Greinilegt er að af nægum verkefnum verður að taka í framtíðinni fyrir Gísla og hans fólk, ef þau nenna.

Ekki hægt að selja hvalaskoðun
Gísli hefur rekið hvalaskoðunarfyrirtækið Láki Tours frá árinu 2010 á Snæfellsnesi en hóf einnig ferðir frá Hólmavík árið 2016. Hann segir söguna af því hvernig það ævintýri byrjaði.
„Ég var með hótelrekstur í Grundarfirði og það fylltist fjörðurinn af háhyrningum þegar síldin kom þarna í Grundarfjörð og Kolgrafarfjörð. Maður var að reyna að búa til einhvern sölupakka til að fylla hótelið yfir veturinn og búinn að vera í samstarfi við norðurljósaferðir og þvíumlíkt. Ég hafði keypt gamlan trébát ásamt bróður mínum, til þess að bjóða upp á sjóstöng yfir sumarið, það var aðalhugsunin. Við vorum ekkert að spá í hvalaskoðun í sjálfu sér, kannski lundaferðir út í eyju sem er þarna hjá okkur. Svo í janúar eða desember birtust allir hvalirnir. Þá fylltist allt af háhyrningum og ég reyndi að hringja í allar íslenskar ferðaskrifstofur sem ég þekkti og var með ágætistengingar út af hótelrekstrinum. Það sögðu allir ‚það er ekkert hægt að selja þetta, þetta er eitthvað happening sem þú getur ekki selt.‘ En við vorum að fara út og sýna fólki þetta, taka myndir, þetta var í blöðum og fréttum og þá kom maður sem hafði verið að selja mikið fyrir okkur, Clive Stacey hjá Discover the World í Bretlandi – ein stærsta ferðaskrifstofan sem var að senda Breta til Íslands á þessum tíma. Hann hringdi í mig og sagði ‚ég kem bara á morgun‘. Hann kom og við sátum eina kvöldstund, bjuggum til pakka, hann setti það í sölu og er skemmst frá því að segja að hótelið var fullt hjá mér allan þann vetur og næstu vetur á meðan háhyrningarnir voru, þeir voru 3 eða 5 ár. Svo var það þannig að hvalurinn fór út í apríl, þá voru engir hvalir eftir inni í Grundarfirði nema einhverjar hrefnur. Þá ákvað ég að færa mig út í Ólafsvík yfir sumarið, keypti annan bát í það – var reyndar kominn með 2 báta því það var mikið að gera um veturinn í Grundarfirði – og fór með þann bát út í Ólafsvík. Við vorum með hvalaskoðun frá Grundarfirði á veturna og Ólafsvík á sumrin. Svo kaupum við annan bát frá Noregi þannig að við höfðun 3 bára og þá setti ég einn bátinn á sölu og fékk einhver tilboð sem mér líkaði ekki. Þá sá ég að það voru að koma 72 skemmtiferðaskip á Ísafjörð og ég vissi að það var engin hvalaskoðun þar svo ég ákvað að fara þangað með bátinn. Ég átti kunningja þarna sem ég var búinn að tala við og var tilbúinn að vera skipstjóri þannig ég ákvað að renna uppeftir til að kíkja á aðstæður.“

Logn og nóg af hvölum í Steingrímsfirði
„Ég tók með mér einn starfsmann, og þegar við komum yfir Þröskuldana þá sáum við að það var búið að loka Steingrímsfjarðarheiðinni vegna veðurs. Þegar við komum niður Steingrímsfjörðinn þá var bara golukaldi þar, ágætisveður og sólskin. Þetta var í apríl, og það voru blástrar út um allt, hnúfubakar um allan fjörð. Ég fór niður á bryggju og keyrði um og sá einn náunga sem ég kannaðist við, Má Ólafsson. Ég spjallaði við hann og hann sagði ‚veistu það ekki? Lognið býr hérna á Hólmavík, það er alltaf svona hérna, alltaf gott veður á Hólmavík‘. Og ég sagði ‚eru alltaf svona hvalir hérna?‘ ‚já, það er búið að vera fullt af hval síðan makríllinn kom.‘ Ég hafði ekki hugmynd um það svo ég fór á Galdrasafnið og hitti Sigga Atla sem ég þekkti líka og fór að spyrja út í ferðamannafjölda. Hann segir ‚af hverju ertu að spyrja að þessu?‘ ‚Ég er að spá hvort ég eigi að koma með hvalaskoðunarbát hérna‘ og hann bara tók mér opnum örmum. Það eiginlega vegna hans sem ég gerði þetta, því hann sá eiginlega um söluna hjá mér fyrsta árið og alla hluti og reddaði öllu fyrir mig. Síðan fór ég upp á vigtarskúr og fór að spyrjast fyrir um legupláss og aðstöðu og annað slíkt og þeir voru nokkrir sem leist ekkert alltof vel á þetta. Einhver spurði ‚hver ætlar að vera skipstjóri?‘ Um leið gekk Már inn og ég sagði ‚Már ætlar að vera skipstjóri‘ þá litu þeir á hann og sögðu ‚er það Már? Ætlar þú að vera skipstjóri?‘ Og hann sagði ‚já, er það ekki?‘. Ég hafði ekki einu sinni talað um það við hann og þetta varð úr að báturinn kom hérna uppeftir í júní og er búinn að vera hérna síðan. Þetta er búið að ganga vel og í sumar var metár hjá okkur, þrátt fyrir að hafa farið hægt af stað eftir Covid sem stoppaði okkur í 2 ár. Enda eru bara Vestfirðirnir að verða vinsælli. Það er mikil framtíð í því, ferðaþjónusta á eftir að aukast á þessu svæði, held ég. Þetta er mjög fallegt og gott svæði, þó það geti verið napurt í norðaustan áttinni. Þannig er nú ævintýrið um það hvernig maður fór í hvalaskoðun í Hólmavík.“

Athafnamaður fram í fingurgóma
Í framhaldi af því leikur fréttaritara forvitni á að vita meira um fortíð hins mikla athafnamanns.
Gísli segist hafa ætlað sér að verða bóndi og lært búfræði en fór síðan á sjó. Eftir 2 ára dvöl í Svíþjóð stofnaði hann útgerð og fiskvinnslu ásamt föður sínum og bróður.
„Þegar ég kem til baka frá Svíþjóð fæ ég endurgreiðslu á skattinum og ég spurði pabba hvort við ættum ekki að kaupa okkur trilluhorn fyrir þetta. Ég sá að það var pínulítill bátur til sölu í Ólafsvík, var þá að vinna á bátum og hafði verið á sjó lengi, en hvorugur okkar hafði nokkurn tímann stýrt bát eða gert nokkurn skapaðan hlut í því, þótt ég hafi verið á bæði togurum og netabátum. En hann var alveg til í það. Við keyptum þá pínulítið horn, rétt um 4 metrar, og sá bátur hét Láki. Hann semsé hét eftir manninum sem smíðaði hann og var afi [þess] sem átti hann, og hét Þorlákur, kallaður Láki. Þarna kom upp letin í manni, ég nennti ekki að skipta um nafn. Það var nýbúið að mála hann, svo ég leyfði honum bara að heita Láki. Síðan þegar við fórum að finna nafn á ferðaskrifstofuna þá fylgdi það bara að það hét Láki Tours, kom ekki annað til greina. Síðan hef ég alltaf átt 1 eða 2, stundum 3, báta sem heita Láki. Við fórum semsé í þessa útgerð saman, ég og pabbi, síðan kom bróðir minn Kristinn inn í þetta. Við vorum með útgerð og fiskverkun og byggðum okkur verkunarhús þar og vorum að verka bæði fyrir aðra og okkur sjálfa grásleppuhrogn og svo saltfisk yfir veturinn. Vorum með 2, 3 báta alltaf og síðan hættum við því 2006. Þá fór ég í verkefnisstjórnunarnám í háskólanum og var á þessum tíma í bæjarpólitíkinni heima, nóg að gera, en hótelið heima var að loka, það gekk eitthvað illa í rekstrinum. Þá kom það til tals að ég myndi kaupa það og ég setti upp dæmi að gamni mínu sem verkefni í skólanum. Það endaði með að ég keypti hótelið bara til að búa til verkefnið og rak það í 10 ár. Ég seldi það 2016 en var þá með lítið gistiheimili sem ég var búinn að setja við hliðina á því og átti það þangað til í fyrra, og veitingastað. Þannig ég var að reka 2 veitingastaði, hótel og gistiheimili um tíma með hvalaskoðun.“

Best að vera úti á sjó
Ljóst er að Gísli situr sjaldan auðum höndum. Þegar hann er spurður hvernig hann komist yfir öll verkin, segir hann svarið felast í góðu og traustu starfsfólki en hann er nú með 12 fasta starfskrafta, bæði á Snæfellsnesi og Ströndum.
„Auðvitað er þetta ekkert gert nema að vera með gott fólk í kringum sig og ég var t.d. mjög heppinn að ná í Víði, hann er nú búinn að vera hjá mér í nokkur ár, og virkilega heppinn að ná í Pavel í framkvæmdirnar hér. Svo er gaman líka að stuðningnum hér í kring. Fólkið hérna í sveitinni er jákvætt og ef það vantar eitthvað þá eru allir tilbúnir að hjálpa, sem er rosalega mikilvægt í svona starfsemi því ef maður fer af stað og einhver óánægja í kring, þá er þetta svo miklu erfiðara. Það þarf að vera í góðri sátt við alla. Ég hef bara alltaf verið rosalega heppinn með samstarfsaðila og starfsfólk í kringum mig. Ég treysti fólkinu fyrir því sem þarf að gera og það bara gengur. Ég þarf ekki alltaf að vera með puttana ofan í því sem aðrir eru að gera fyrir mig. Ég sinni bara mínu og ég hef mest gaman af því að vera úti á sjó sjálfur sem skipstjóri, eða í drullubuxunum að gera eitthvað. Ég er ekki mikill skrifstofumaður, alveg hryllilega lélegur skrifstofumaður, en gaman að vera úti á sjó og sérstaklega í hvalaskoðun. Það er það sem ég elska að gera, sjá farþegana hvað þeir verða ánægðir þegar gengur vel.“

„Ekki meiri rjómatertur!“
Gísli hefur lengst af búið og starfað á Grundarfirði en er þó meira en hálfgerður Strandamaður því foreldrar hans eru báðir af Ströndum. Hann segist þó eiga fremur blendnar æskuminningar af svæðinu.
„Pabbi minn er úr Steinstúni í Norðurfirði, tveir bræður hans bjuggu þarna mjög lengi, Gunnsteinn kaupfélagsstjóri og Gústi í Steinstúni. Ég man alltaf eftir því þegar við vorum að fara í sveitina þegar við vorum börn, þá var byrjað á að fara yfir í Bitru af því þar var skyldfólkið hennar mömmu og síðan var farið hérna norður og ég hataði Balana. Það var mjög lengi verið að keyra Balana þegar maður var krakki en þegar við komum norður undir Trékyllisvík, og það átti að fara að stoppa á einum bænum enn, þá fórum við krakkarnir hálfpartinn að grenja í bílnum, ,ekki meiri rjómatertur!‘ Því alls staðar á hverjum einasta bæ voru lagðar fyrir okkur rjómatertur og við vorum komin með upp í kok af rjóma þegar við komum í Trékyllisvíkina, þá vildum við eitthvað annað. Man alltaf eftir þessum ferðum norður í Steinstún til að heimsækja afa.“
Gísla virðist þó ekki hafa orðið meint af rjómatertunum og hefur komið sér og starfsemi sinni vel fyrir mitt á milli fjölskylduhaganna. Spennandi verður að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu þeirrar starfsemi í framtíðinni og áhrifum hennar á svæðið.

Greinin var unnin fyrir strandir.is árið 2022.
Myndirnar voru sumar teknar af mér en aðrar fékk ég sendar frá Gísla.