Hér var rætt stuttlega við Aðalbjörgu Óskarsdóttur, Ásbjörn Magnússon og Helgu Lovísu Arngrímsdóttur.
Þessir viðtalsstubbar voru teknir á Drangsnesi þegar ég var í starfsnámi hjá Reykjavík Grapevine árið 2015. Það var einhver hugmynd að búa til flokk smáviðtala sem héti Town Profiles og taka þá stutt spjall við fólk sem maður hitti á förnum vegi á ákveðnum stöðum og heyra hvað það væri að sýsla.
Ég tók nokkra svona stubba bæði á Hólmavík og Drangsnesi en síðan varð ekkert úr þessum greinaflokki hjá Grapevine og þetta hefur því aldrei verið birt fyrr.
Ég tók fjóra svona stubba á Drangsnesi en tók síðan viðtal í fullri lengd við einn aðilann fyrir strandir.is í fyrra svo ég sleppi því hér. En mér þykir dálítið vænt um þessa stubba því þarna var m.a. rætt við fólk sem nú er fallið frá.
1.
Fullt nafn og starfssvið?
Aðalbjörg Óskarsdóttir, kennari.
Hvers vegna býrð þú á Drangsnesi?
Ég bý á Drangsnesi að hluta til vegna þess að ég ólst upp á Drangsnesi og líður ofsalega vel hér á Drangsnesi. Er það ekki gott svar? Og fólkið mitt býr á Drangsnesi, og mér finnst frábært að gefa börnunum mínum það að fá að búa í nálægð við ömmur sínar og afa, kindurnar sínar og hafið. Eins og í gær fóru þau á sjó með pabba sínum, þau fóru að leggja trossur. Mér finnst það alveg frábært að þau fá að vera meira með okkur og þetta er dásamlegt. Við eigum líka kindur og Sigurbjörg var á næturvakt um daginn í fjárhúsunum með ömmu sinni, þannig þau fá bæði að fara á sjó og fara í fjárhúsin og í skólann. Það er svo margt í þessu.
Fékkst þú að upplifa þetta sama þegar þú varst lítil?
Já nema ég var meira að vinna og hjálpa pabba að vinna niðri í frystihúsi, ég var að sópa verkstæðið hans. Pabbi minn verður sjóveikur og fer aldrei á sjó sem er svolítið sérstakt þegar maður býr hér, og ég er svosem ekkert rosalegur jaxl á sjó. En já, ég fékk að vera með mömmu og pabba í sinni vinnu þegar ég var lítil og ég fékk að hlaupa til ömmu og afa og fá pönnukökur og allt þetta.
Hvernig finnst þér að kenna í svona fámennum skóla?
Það er áskorun. Maður þarf að geta kennt öllum allt og þarf að vera inni í ótrúlega mörgu sem er flókið. En það er rosalega skemmtilegt af því að þetta eru eins og börnin manns þessir krakkar og maður er með þau í skólanum og svo hittir maður þau eftir skóla. Það getur verið flókið að aðskilja vinnu og einkalíf í svona miklu samneyti við nemendur sína en að sama skapi eiga þau rosalega stórt pláss í hjartanu á manni. Á skólaslitum grenjar maður af því litlu börnin eru að fara og þau eru allt í einu orðin svo stór. Þetta eru svolítið skrýtnar tilfinningar sem maður upplifir þegar manni þykir svo vænt um þau og þau eru að fara, og þá eru þau líka yfirleitt að fara úr samfélaginu sem er svolítið leiðinlegt.
2.
Fullt nafn og starf?
Ásbjörn Magnússon og ég rek ferðaþjónustu.
Hvað felst í þeirri starfsemi?
Ég og konan mín við rekum gistingu, erum með 48 rúm í 3 húsum og í einu húsinu eru 10 prívat herbergi með sturtu og salerni, og í einu húsinu eru 4 herbergi með sameiginlegri aðstöðu og í nýjasta húsinu eru 4 herbergi með baði og eitt fjölskylduherbergi fyrir 5 og 2 herbergja íbúð með aðgengi fyrir fatlaða. Svo erum við með veitingar hér á Malarkaffi, sem er að breyta um nafn og mun heita Malarhorn Restaurant. Þuríður dóttir mín rekur það en við sjáum um morgunmatinn hérna í sömu aðstöðu en ætlunin er mögulega að vera með morgunverð á neðri hæðinni og lobbý þar. Svo erum við líka með ferðir út í Grímsey, byrjum 15. júní og erum til 10. ágúst, og sjóstöng með því ef pantað er og það er fram í september en það er ekkert farið í eyjuna eftir 15. ágúst, þegar allur fugl er farinn.
Hvers vegna byrjaðir þú á þessu öllu?
Það var lítið að gera yfir sumartímann og við hjónin byrjuðum á því að leigja okkur 2 íbúðir sem hreppurinn átti, leikskólann og skólaíbúð, og vorum með 10 rúm í þeim íbúðum. Við dunduðum við það yfir sumarið að sinna gestum og það komu svo margir að við áttum fyrir rúmunum. Svo var ætlunin að byggja lítið hús sem tæki 8 manns sem var aðallega ætlað fyrir beitningar- og vinnufólk þegar ég gerði bátinn út á línu. Það var mjög hagstætt á þeim tíma að leigja ýsukvóta og veiða ýsu og ég ætlaði að fara að gera út af krafti en kvótinn hækkaði og það var ekki lengur hagstætt að leigja ýsukvóta og gera út á ýsu en þá breyttum við þessu í ferðaþjónustuhús og byggðum í framhaldi af því 10 herbergja húsið og veitingaaðstöðuna, það var 2008 sem við gerðum það.
Hefur þú alltaf búið hér?
Ég hef búið hér síðan 1972 en konan mín er héðan en við bjuggum áður í eitt ár í Reykjavík, annars hef ég búið hér en er ættaður frá Ósi í Steingrímsfirði innan við Hólmavík.
Hvað finnst þér best við að vera hér?
Ég kann bara vel við mig, hér er gott að vera og mér sýnist ég hafa komið mér í þá aðstöðu að það verði nóg að gera í ferðaþjónustunni á meðan mér endist þrek og þróttur til.
Og hefur gengið vel núna?
Já sumarið er öllu betra en í fyrra, en það var ágætt í fyrra. Það kemur jafnvel til að verða talsvert betra núna. Við vorum með 3200 ferðamenn í fyrra en núna eru komnir um 2500 og það er meira en á sama tíma í fyrra þannig það lítur út fyrir að verða betra. Það bókast mikið yfir sumarið í gegnum booking.com.
Þannig það verður nóg að gera?
Þetta verður vonandi góður bissness í sumar já, svo stefnum við á að fara að reka þetta yfir veturinn líka að einhverju leyti. Það eru að koma aðstæður til þess.
3.
Fullt nafn?
Helga Lovísa Arngrímsdóttir
Hvað ertu að gera?
Ég er að beita.
Hvernig á ég að þýða það á ensku??
Ég veit það ekki, við höfum líka lent í vandræðum með það.
Geturðu lýst þessu?
Hérna er bali og hér eru bjóð og það eru yfirleitt 500 krókar á þeim, svo tekur maður krókana og setur beitu á þá og raðar þeim svo niður í balann. Svo er lagt úti á sjó.
Ertu búin að gera þetta lengi?
Já ég byrjaði fyrir 17 árum.
Finnst þér þetta skemmtilegt starf?
Já, þetta er bara fínt. Alveg erfitt en samt fínt. Fyrsta balann sem ég tók fyrir 17 árum þá fannst mér þetta alveg skelfilegt.
Hefur þú verið lengi á Drangsnesi?
Ég er fædd og uppalin í Bjarnarfirði og flutti svo hingað og hef átt heima hér síðan.
Hefurðu aldrei viljað vera annars staðar?
Nei, mér líður vel hér.
Þannig verður bara hér og heldur þessu áfram?
Já á meðan ég get, það er til margt verra en að beita.
Hefurðu sinnt öðrum störfum?
Já ég hef farið í frystihúsið.
Unnið fyrir grapevine.is árið 2015. Óbirt.
Myndirnar af fólkinu eru eftir Art Bicnick en þessa af Drangsnesi tók ég.