Símamær, póstmeistari og verslunarstjóri
Í búðinni á Drangsnesi stendur Ragnhildur Rún Elíasdóttir vaktina mestan hluta ársins og hefur gert frá árinu 2003. Ragnhildur, eða Ransý eins og hún hefur verið kölluð frá unga aldri, hefur alið aldur sinn á Drangsnesi fyrir utan einn vetur á Hólmavík. Hún hefur jafnan gegnt störfum sem staðsetja hana í miðri hringiðu mannlífsins á Drangsnesi. Við kíktum í kaffi til hennar til að kynnast betur þessari konu sem hefur heyrt svo margt í gegnum tíðina en lítið sagt.
Ransý er fædd árið 1959 og ólst upp í símstöðinni á Drangsnesi. Foreldrar hennar, hjónin Elías Svavar Jónsson og Ingibjörg Sigurjónsdóttir, höfðu umsjón með símstöðinni og Ransý og systkini hennar byrjuðu ung að taka þátt í störfum þeirra.
Einna helst í Drangsnessímanum
„Maður var að vinna á símstöðinni frá því maður var pínulítill. Í þá daga voru bara 4 hús með heimasíma, þeir voru inni í gömlu búð, skólanum, frystihúsinu og hjá Magga Guðmunds eftir að hann varð vegaverkstjóri. Allir aðrir urðu að koma í símstöðina – þar var svona símaklefi – og gátu talað þar. Fólk kom og vildi hringja eitthvert og mundi ekki endilega númerin sjálft en við mundum þau flest. Núna vitum við ekki einu sinni númerin heima hjá okkur. Svo komu allir og sóttu póstinn sinn, það var ekki borinn út póstur fyrr en 1980. Svo þurfti maður að hringja til Hólmavíkur og þeir gáfu samband ef það var verið að hringja utanbæjar, þar var kominn sjálfvirkur sími. Þetta var svona tæki sem maður stakk pinnum í eftir því hver var að tala. Ég byrjaði 8 eða 9 ára og var þar til sjálfvirki síminn kom 1980, eftir það var þetta bara pósthús. “
Þannig komust heimili innanbæjar í símasamband þegar einhver á símstöðinni tengdi saman númerin þeirra en ef hringja þurfti utanbæjar, var gefið samband við símstöðina á Hólmavík sem kom á sambandi við aðilann sem þurfti að ná í. Meðfram þessari fjarskipta- og póstþjónustu, sinntu foreldrar Ransýjar einnig öðrum störfum en móðir hennar vann í frystihúsinu og þau héldu skepnur en Ransý segist snemma hafa viljað sleppa við bústörfin.
„Á bakvið hús voru beljur og kindur, svo voru líka kindur uppi á hjalla en ég var nú ekki mikið fyrir það. Ég var svo heppin að það þurfti alltaf að vera einhver á símstöðinni þannig ég tók það að mér frekar. En konurnar komu og keyptu mjólk af mömmu, þær komu með fötu og náðu sér í mjólk. Það voru mjög margir með beljur og kindur á þeim árum og þeir sem ekki voru með beljur keyptu af hinum. Þá var búið í hverju hús og miklu fleiri í hverju húsi.“
Hún rifjar upp að oft hafi þau systkinin verið send af stað til að láta fólk vita að þess biði símtal.
„Ef einhver hringdi og vildi tala við einhvern, þá þurfti maður að hlaupa og segja fólkinu að koma. Við þurftum að hlaupa alveg inn á Fiskines til að segja fólkinu að koma, það væri sími til þeirra. Þetta er voðalega óraunverulegt í dag.“
Forvitin en fámál símamær
Þegar spurt er hvort eitthvað hafi verið um óvænt eða alvarleg atvik á símstöðinni er fátt um svör. Þagnarskyldan er greinilega ekki runnin út í huga Ransýjar því hún vill lítið lýsa þeim nema afar varfærnislega.
„Það kom fyrir já, eins og þegar Asparvíkuslysið varð. Þá var síminn úr Bjarnarfirði hér í gegn og mamma vaknaði við símhringingu um nóttina og fór fram. Þá var konan að tilkynna þetta.“
Þar vísar hún til harmleiks sem varð í Asparvík 13. Janúar árið 1966 þegar bóndinn þar varð fyrir voðaskoti og lést skv. frétt Morgunblaðsins daginn eftir.
Á heildina litið segir Ransý að sér hafi líkað lífið á símstöðinni vel. Þar var mikið um gesti og hún hafði áhuga á þeirra málum.
„Þetta var gestvænt heimili, konur sem komu að hringja komu oft inn í kaffi til mömmu. Ég var voða forvitin, bara um allt og ekkert. Ég sat og blakaði eyrunum.“
Ný en kunnugleg verkefni
Árið 1980 fengu heimilin á Drangsnesi sjálfvirka síma en Ransý hafði þá þegar stofnað til eigin heimilis með Tryggva Ólafssyni og einnig lést Ingibjörg móðir hennar 3 árum áður. Nærri má geta um að eftir það hafi símstöðin verið heldur tómlegri, þó hún hafi gegnt hlutverki pósthúss til ársins 1987 þegar Elías lét af störfum og pósthúsið var flutt upp á Holtagötu 10.
Ransý tók þá aftur til við póststörf í kjallaranum á Holtagötunni þar sem einnig var starfrækt bankaþjónusta. Í millitíðinni hafði hún tekið sér nokkuð hlé frá störfum til að sinna barnauppeldi og síðan unnið í frystihúsinu.
Árið 2003 varð Ransý verslunarstjóri útibús Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Drangsnesi og hafði líka póstinn með sér þangað. Þeirri stöðu gegnir hún enn í dag, þó nú sé hún reyndar verslunarstjóri Verslunarfélags Drangsness frá 2019.
Hún segir ekki svo miklar breytingar hafa fylgt skiptunum fyrir utan að Covid-faraldurinn fór að láta á sér kræla um svipað leyti.
„Þegar Covid byrjaði þá fóru heimamenn ekkert í burtu og voru bara hér, þá jókst salan alveg heilmikið en svo dalaði það nú. Fólk nennti ekki að hanga alltaf heima. Svo voru Íslendingarnir hérna mikið bæði í fyrra sumar og hittifyrra sumar og þeir versla nú meira en útlendingarnir.“
Lífið gengur sinn vanagang
Að öðru leyti séu áskoranirnar mikið til þær sömu. En hverjar eru þær?
„Það er að reyna að finna út hvað fólkið vill kaupa. Það getur verið rosalega erfitt. Sumar vikurnar þá fer mikið af þessu og svo allt í einu hætta allir að kaupa það og vilja þá eitthvað annað, eins og t.d. ákveðnar tegundir af skyri eða kökum. Þá er fullt sem rennur út.“
Ransý er mikil prjónakona og segir prjónaskap vera sitt helsta áhugamál utan vinnu. Það handverk sem ekki er gefið vinum og vandamönnum eða safnað í skápana heima, er selt í búðinni. En hver er framtíð búðarinnar á Drangsnesi?
„Ég veit það ekki, það fer eftir hvað verður verslað mikið. Þetta er erfið barátta.“
Ransý þykir þó gaman í vinnunni því þar hittir hún margt fólk og starfið er fjölbreytt (þó talningardagar séu ekki í uppáhaldi hjá henni). Hún sér ekki tilefni til sérstakra breytinga, enda sé hún býsna vanaföst.
Ransý er ekki kona sem spanderar orðum að óþörfu þrátt fyrir – eða mögulega vegna þess – að vera alin upp við orðaflaum annarra í símanum. Aðspurð hvernig á því standi, yppir Ransý öxlum og segist telja það meðfæddan eiginleika.
„Ég held ég hafi alltaf verið svona.“
Greinin var unnin fyrir strandir.is árið 2022.
Myndirnar eru teknar af mér og fengnar úr safni Ransýjar.