Þetta er þýðing á grein var unnin þegar ég var í starfsnámi hjá Reykjavík Grapevine árið 2015. Upphaflegu greinina má sjá hér.
Skondin samskipti á facebook fönguðu nýverið athygli mína. Íbúi sjávarþorps vildi panta sér pizzu. Hún sá fram á að eina leiðin til að fá pizzustaðinn til að senda heim, væri ef nógu margir pöntuðu svo hún hóaði í bæjarbúa og send var inn pöntun. En pizzustaðurinn var undirmannaður og neitaði heimsendingunni. Að lokum gat einn úr hópnum farið að sækja pizzurnar og dreift þeim til allra hinna. Svo allir fengu sína pizzu. En af hverju allt þetta umstang bara til að fá heimsenda pizzu?
Þetta fólk er á meðal íbúa Drangsness, lítils sjávarþorps á Ströndum sem telur um 60 íbúa í heildina. Næsti pizzustaður er á Hólmavík, stærri bær þar sem búa 337 manns. Fyrir 15 árum hefði engum dottið í hug að panta pizzu frá Hólmavík, það hefði tekið hátt í 2 klukkutíma að fara þá ferð fram og til baka. Ef maður vildi pizzu fyrir 15 árum, gerði maður hana bara sjálfur -það er það sem ég og vinir mínir gerði þegar við ólumst þar upp á tíunda áratugnum.
Ég var ættleidd frá Indlandi þegar ég var 8 mánaða, fyrsti ættleiddi íbúi Drangsness að mér skilst. Ég var víst dýrkuð og dáð en auðvitað eru ný börn í litlum byggðum alltaf fagnaðarefni. Ég tók lítið eftir því að ég væri eitthvað öðruvísi. Mér fannst ég fullkomlega tilheyra þessum stað og fólkinu þar. Íslendingar, sérstaklega af landsbyggðinni, tengja oft sterklega við staðina þar sem þeir alast upp -einnig ég. Fólk spyr Stundum hvaðan ég sé og þó ég viti að það er að spá í útlensku ræturnar mínar, er alltaf fyrsta viðbragðið mitt að svara:
“Ég er frá Drangsnesi.”
Sjávarþorpið myndaðist í kringum 1930. Miðin voru fiskisæl og byggt var frystihús og grunnskóli á fimmta áratugnum sem bæði eru enn mikilvægar stofnanir í samfélaginu í dag. Á meðan lítið var um miðstýringu á fiskveiðum gat þorpið blómstrað og taldi mest um 300 íbúa á sjötta áratugnum. En íbúafjöldinn hefur sveiflast í takt við þorskstofninn, rækju og aðrar fisktegundir sem efnahagur svæðisins byggir allur á. Núorðið gerir kvótakerfið sem innleitt var á níunda áratugnum, litlum útgerðum erfitt að keppa við stærri útgerðirnar. Hvernig getur einn trillukarl á fimm tonna báti keppt við flota af hundrað tonna togara?
Auðvitað var ég ekkert að spá í þessa hluti. Ég naut bara þeirra forréttinda að alast upp í þessu litla þorpi.
Í svona litlu samfélagi er óumflýjanlegt að allir þekki alla og mín reynsla er sú að fólk er til staðar þegar maður þarf stuðning. Í Reykjavík veit ég vart hvað fólkið í næstu húsum heitir en á Drangsnesi þekki ég alla með nafni og flestir þar eru skyldir mér. Börn geta verið frjáls úti fram á kvöld án þess að nokkur þurfi að hafa áhyggjur af þeim.
Sumar bestu bernskuminningar mínar eru af því að vera úti, að kanna fjörurnar og holtin, sveitina hjá ömmu og afa og busla í pottunum. Börn á öllum aldri léku sér saman. Þar sem stundum var bara einn eða 2 krakkar í árgangi, var alveg eðlilegt að 14 ára krakkar kæmu út í boltaleiki með 7 ára krökkunum.
Þannig var það líka í frímínútum í skólanum. Í skólanum eru yfirleitt á bilinu 15-20 krakkar, sem skipt er í 3 deildir, og 3-5 kennarar. Hlutfall kennara miðað við nemendur gerði kennurunum kleift að sinna hverjum og einum nemanda vel og vera skapandi í sínu starfi. Sem dæmi má nefna að tónlistarmaðurinn Borkó hefur kennt við skólann í nokkur ár og tekist að gera hljóðfæraleikara úr öllum krökkunum. Þegar ég var í skóla, hafði ég kennara sem hvöttu mig til skapandi skrifa. Einn þeirra var mamma bestu vinkonu minnar og var mér eins og önnur móðir. Hún hvatti mig á skapandi sviðum bæði í og utan skólans.
Líklega hefur það verið skrýtið fyrir vinkonu mína að kalla kennarann ‚mömmu‘ og vera alltaf með henni í vinnunni en í svona samfélagi lifa foreldrar og börn ekki aðskildu lífi og börn byrja oft að taka þátt í störfum foreldra sinna á unga aldri. Þegar ég var lítil, fannst mér fátt skemmtilegra en að fara niður á bryggju þegar pabbi var að landa fisknum eða að fara með þegar grásleppuhrognin voru söltuð eða grásleppan hengd til að láta síga. Grásleppa er sérdeilis ljótur fiskur sem er hálfgerð einkennisafurð Drangsness. Við segjum meira að segja „Lífið er grásleppa“.
Aldrei lognmolla á sjónum
Þegar ég var á fimmtánda ári, byrjaði ég að fara á sjóinn með pabba og það varð sumarstarfið mitt næstu árin. Á venjulegum sjódegi vakna ég á milli 3 og 5 um morguninn og keyri inn í höfn sem er 2 km frá þorpinu því þar er of vindasamt fyrir höfn. Síðan siglum við í allt að 3 tíma í leit að vænlegum fiskimiðum með hjálp dýptarmælis. Þegar góður staður er fundinn, setjum við út línur með mörgum krókum. Rúllar nemur sjálfkrafa hvenær fiskarnir bíta á og hífir upp línurnar, eða slóðana. Síðan losum við fiskana af krókunum og blóðgum þá, áður en við flokkum þá í kör eftir stærð og tegund. Ef það hljómar auðvelt, ertu að vanmeta styrk þorsks. Vinnudagurinn getur verið 1 klukkutími eða 14 eftir því hvernig gengur.
Lífið á sjónum er alltaf viðburðarríkt og orðatiltækið ‚að bölva eins og sjóari‘ á alltaf vel við þar. Ég hef lent í ýmsu minnisstæðu á sjónum. Einu sinni var hvalur að snuðra í kringum bátinn og gerði mér bylt við svo ég gargaði. Pabbi hló að mér. En svo kom hvalurinn upp með blæstri og pabbi skrækti. Sá hlær best sem síðast hlær. Annað sem var ekki jafn fyndið, var þegar pabbi ákvað að sigla hálfa leið til Grænlands (jæja kannski ekki, en allavega óvenjulega langt frá landi út á Hornbanka, því þar átti að vera gott fiskerí) og þá fór báturinn að leka. Aumingja pabbi fékk mikla bakþanka yfir að fara þetta með einkadótturina.
Sjávarþorp í hættu
Núorðið fylgist ég mest með lífinu á Drangsnesi í gegnum facebook. Samfélagsmiðlar veita samtakamætti smárra samfélaga nýja vídd því þannig á fólk auðvelt með að skiptast á upplýsingum og biðja um aðstoð, og panta pizzur. En samfélagið er í hættu því ungt fólk, eins og ég, fer burtu í menntaskóla og kemur bara aftur sem gestir eða í besta falli sumarstarfsmenn.
Sjávarþorp eins og Drangsnes eru í útrýmingarhættu, að hluta vegna stefnu stjórnvalda sem hyglir stórútgerðum á kostnað þeirra smærri og að hluta af því að ungt fólk virðist ekki jafn áhugasamt um sjávarútveginn. En kannski verður uppsveiflan í ferðamannabransanum til þess að halda þessum stöðum í byggð þar sem ferðamenn leita gjarnan að friðsælum stöðum úr alfaraleið. Ég vona í það minnsta að eitthvað verði gert til að bjarga þessum byggðum frá því að leggjast af svo að fólk geti áfram lifað á þennan hátt.
Þessi grein birtist upphaflega á ensku á grapevine.is.
Myndir: RÓG