Sögur af sjó og landi
Þýðing á grein. Upphaflegu greinina má finna hér.
Helga Mogensen tekur á móti mér á vinnustofunn sinni sem er nokkurn veginn eins og ég hafði ímyndað mér vinnustofu hönnuðar. Það gæti verið regla í samansafninu af verkfærum, efnum og litum sem er alveg skiljanleg í huga Helgu, eða kannski er bara allt á rúi og stúi, erfitt að segja.
Það eina sem gæti virst stinga í stúf á vinnustofu skartgripahönnuðar er ormétni rekaviðarstaflinn við vegginn. En noktun Helgu á því efni er eitt af því sem gerir hönnun hennar einstaka og er einmitt það sem vakti athygli mína.
Helga útskrifaðist frá listaháskólanum í Edinborg með BA gráðu í skartgripum og silfursmíði árið 2007 en vann síðan á leikskóla í tvö ár. Síðan tók hún loks af skarið og lét drauma sína rætast og varð hönnuður í fullu starfi.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/IMG_0575.jpg?resize=640%2C427)
Að uppgötva sögur
Helga segir ástríðu sína fyrir skartgripum hafa byrjað snemma og hún hafði alltaf áhuga á því að vinna með málm. Hún hafði einnig frá æsku áhuga á fornleifafræði og fögin tvö eru nátengd í huga hennar. „Mér fannst alltaf gaman að fara og grafa, að leita að gömlum hlutum,“ segir hún. „Það sem mér fannst áhugavert við fornleifafræðina var að finna gamla skartgripi í jörðinni og sjá hvernig málmurinn og yfirborðið hafði veðrast en samt staðist tímans tönn. Það finnst mér mjög áhugavert – saga málmsins.“
Verk Helgu segja einnig sína sögu. Hún vinnur aðallega með málma og rekavið sem hún safnar sjálf á leynistaðnum sínum á Ströndum –afskekkta og óaðgengilega svæðinu á austanverðum Vestfjörðum – þar sem fjölskylda hennar á summarbústað.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/pano1.jpg?resize=640%2C164)
Helga er mikið náttúrubarn og metur mikils að geta farið á slíkan stað. „Það eru engar tölvur eða neitt, ekkert rafmagn eða heitt vatn,“ segir hún. „Allir eru bara í elementinu sínu og það er bara ótrúlegt að hafa aðgang að svona paradís. Náttúran er bara þarna í öllu sínu veldi og maður verður bara eitt með henni. Það er ekkert sem maður getur breytt og ekkert sem maður myndi vilja breyta.“
Þar sem Helga hefur safnað rekavið þarna lengi, þekkir hún fjörurnar býsna vel. „Ég tengist rekaviðnum þannig að ég man sirka hvernær og hvar ég fann hverja spýtu. Það hljómar klikkað en til dæmis er ein tegund af mjög ormétnum rekavið á einum stað í einni fjöru og svo er fullt af litlum spýtum á öðrum stað í annarri fjöru.“
Tenging Helgu við rekaviðinn tengist líka áhgua hennar á fornleifafræði þar sem hún leggur mikla áherslu á náttúruna í hönnun sinni. „Það eru svo margar ósvaraðar spurningar um þetta hráefni,“ segir hún. „Þetta var einu sinni tré í ég veit ekki hvað mörg ár, og svo var það fellt, og svo hversu lengi hefur það verið í sjónum? Rekaviðurinn á sér sögu.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/IMG_0581.jpg?resize=640%2C424)
Að vera í núinu
Andleg málefni eru annar mjög stór þáttur í lífi Helgu sem einnig tengjast náttúrunni og hönnuninni. „Ég íhuga mikið, ég reyni að ná núvitund, að vera bara hér og nú,“ útskýrir hún. „Það tengist sterklega því að vinna með efni og leyfa ekki huganum að stjórna útkomunni. Það er tilvitnun eftir einhvern leikstjóra sem ég reyni að lifa eftir – ég held það hafi verið Cameron Crowe, það var í bíómynd: ‚The work most personal to the individual makar, tends to be the work that people like the most‘ [Það verk sem hefur mesta persónulega þýðingu fyrir þann sem skapaði það, er oft það verk sem fólk metur mest].“
Á HönnunarMars tekur Helga þátt í sýningunni Þríund í Hönnunnarsafni Íslands sem opnar 9. mars. Af því tilefni er Helga að vinna að því að smíða ný verk sem ég fæ að skoða. Hún segir nýju verkin ólík fyrri verkum að því leyti að hún sé í meira mæli að notast við liti en áður.
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/IMG_0584.jpg?resize=640%2C442)
Aðspurð að því hvort hún þurfi stöðugt að vera að leita leiða til að enduruppgötva sjálfa sig til að staðna ekki segir hún svo ekki vera. „Þú sérð eitthvað nýtt á hverjum degi, nýja lit og ný form og það besta er að mér finnst ég bara vera að lifa drauminn minn,“ segir hún brosandi. „Ég fer í vinnuna og finnst ekki eins og ég sé að vinna heldur bara leika mér…en fæ samt borgað fyrir það.“
Til viðbótar við Þríund, er verk eftir Helgu til sýnis í Hannesarholti og fylgir heimildarmynd sem gerð var um ‚Falin skóg,‘ hópsýningu sem fór fram í Djúpavík á Ströndum í fyrra.
Á meðan á myndatöku stendur spekúlera ég upphátt hvort hægt sé að ganga með skartgripina sem eru margir óvenjulegir og frekar fyrirferðamiklir. „Ég geri ekki shiny bling-bling,“ segir Helga. „Veistu, þetta snýst allt um að taka áhættu og sýna hver þú ert og hvað þú stendur fyrir. Þetta er svona andlegt, að hlusta alltaf á innsæi þitt og fylgja því eftir í vinnunni þinni. Það bara virkar.“
![](https://i0.wp.com/seiglugardurinn.is/wp-content/uploads/2023/05/IMG_0580.jpg?resize=640%2C436)
Gripi eftir Helgu má finna í versluninni Kirsuberjatréð, Vesturgötu 4, Reykjavík.
Þessi grein var upphaflega birt á ensku á grapevine.is árið 2016.
Myndir: RÓG (nema sú fyrsta var fengið að láni frá Helgu).