Frá Danmörku til Drangsness
Þegar komið er að búðinni á Drangsnesi er ekki ólíklegt að garðurinn hinumegin við götuna fangi athygli vegfarenda. Þar á mölinni liggja ýmis listaverk úr skrautsteinum, skeljum, fjörugrjóti, rekaviði, gömlum bátshlutum og fleiru. Garðurinn, sem er orðinn hálfgerður ferðamannastaður, er við hús hjónanna Birgis Karls Guðmundssonar og Önnu Svandísar Gunnarsdóttur. Við settumst niður í smá spjall með Önnu til að kynnast henni betur.
„Þetta er mestmegnis úr fjörunni, og nokkrir hlutir sem Bubbi bróðir minn gerði þegar hann var að koma hérna á Bryggjuhátíð. Þá skar hann út eitt svona listaverk í reka í hvert sinn. Svo málaði ég grjótið. Líka alls konar gamalt úr Gunnhildi, bátnum sem Biggi átti. Ég man ekki hvenær ég byrjaði, ég var þá búin að eiga heima hérna í nokkur ár. Áður var bara mold og það var kartöflugarður þar sem sveitabærinn er. Svo þróaðist þetta smátt og smátt og bættist alltaf við.“
Anna flutti á Drangsnes árið 1988 með unga dóttur sína eftir að hafa kynnst Birgi í Reykjavík þar sem hún fæddist 1947. Þar gekk hún í skóla og lauk 2 ára námi úr saumadeild gagnfræðaskóla verknáms. Þar var mesta áherslan á ýmis konar handavinnu og Anna hefur alla tíð verið mikil handavinnukona.
Langaði að prófa eitthvað nýtt
„Ég bjó í Reykjavík þar til ég var 17 ára. Þá fór ég á Fáskrúðsfjörð og var að vinna í mötuneyti á síldarplani, svo fór ég suður um veturinn. En svo fór ég aftur á Fáskrúðsfjörð og mamma og pabbi fluttu líka þangað.“
Á Fáskrúðsfirði byrjuðu foreldrar Önnu að leggja grunninn að því sem nú er skrautgarðurinn, því þau voru mikið áhugafólk um skrautsteina og fundu mikið magn af þeim í grennd við Fáskrúðsfjörð.
„Pabbi var svo glúrinn að finna þetta. Þetta var bara eins og venjulegt grjót kannski, svo brýturðu það í sundur og þá er það flott innan í. Svo var pabbi að slípa helling af þessu, hann keypti sér vél sem var bara í gangi á nóttunni með vatni í. Svo flytja þau aftur til Reykjavíkur og tóku alla steinana með sér í kassa, sem var niðri í kjallara og svo höfðu þau ekkert að gera við það. Það vildi þá enginn nema ég.“
Eftir nokkur ár á Fáskrúðsfirði, fannst Önnu tími til tilbreytingar.
„Það var stelpa sem ég þekkti á Fáskrúðsfirði sem var að fara til Danmerkur og þá langaði mig að breyta til. Ég fór 1971 til Danmerkur, og var 16 ár þar, ég byrjaði á hóteli og var þar í nokkra mánuði.“
Í Danmörku kynntist Anna barnsföður sínum, manni frá Pakistan, en þau unnu bæði í glerverksmiðju þar sem framleiddar voru flöskur. Þau giftu sig og áttu saman 2 börn.
Þau hjónin heimsóttu fjölskyldu hans í Pakistan nokkrum sinnum og Anna segist hafa fengið þar afar góðar viðtökur og einnig auka brúðkaup. Anna býr því yfir þeirri óvenjulegu reynslu að hafa fengið bæði vestrænt borgaralegt brúðkaup í Kaupmannahöfn og síðan annað brúðkaup að hætti múslima í Pakistan (að ógleymdu þriðja brúðkaupinu á Drangsnesi sem framkvæmt var af presti í heimahúsi).
„Það var byrjað kvöldið áður og gatan var lokuð, það var komið með tjöld sem voru skreytt eins og í indverskum bíómyndum með ljósaseríu. Þar var brúðkaupsveislan og það var bara verið að gefa okkur peninga af því við gátum ekki tekið neitt með okkur. En þetta var allt, allt öðruvísi. Ég var í svona spes fötum. Það var mussa og buxur. Þetta var hálfasnalegt, maður sat bara þarna og fólk var að koma til okkar,“ segir Anna sem greinilega kærir sig ekki um of mikið tilstand.
Aftur heim
Eftir 12 ára hjónaband, skildu Anna og barnsfaðirinn, og Anna varð þá einstæð móðir í Danmörku þar sem hún bjó áfram í nokkur ár og vann í kryddpökkunarverksmiðju.
Þegar heilsunni fór að hraka eftir áralangt streð í verksmiðjum, flutti Anna með 11 ára gamla dóttur sína heim til Íslands árið 1987, en sonurinn varð eftir hjá föður sínum. Nokkru síðar hitti Anna Birgi og árið eftir fluttu þær mæðgur til hans á Drangsnes. Þeim var vel tekið og Anna segir sér hafa líkað smæð þorpsins.
„Mér fannst það bara rólegt og gott. Þetta er náttúrulega lítill staður, munur að koma frá Reykjavík og Kaupmannahöfn á svona stað en það var allt í lagi. Það var ekkert vandamál að aðlagast og ég er ennþá hérna.“
Kennslustörf í skólanum
Anna byrjaði að vinna í frystihúsinu en fór síðan að starfa við kennslu í grunnskólanum.
„Ég var bara beðin um það. Það var Bragi Melax sem stjórnaði skólanum þá. Ég kenndi fyrst handmennt, smíði, heimilisfræði og síðan líka dönsku og íþróttir. En ég var ekki með neina menntun sem kennari, ég var bara sem leiðbeinandi. Þegar maður er ekki með kennaramenntun er maður kallaður leiðbeinandi.“
Anna kenndi að mestu fög sem lágu vel fyrir henni, ekki síst handmenntin og danskan sem hún talar auðvitað reiprennandi. Hún hafði líka gaman af eldamennsku og hvað íþróttirnar varðar, hefur Anna verið þekkt fyrir mikinn sjálfsaga í lýðheilsumálum. Það sem hún ekki kunni, tókst henni vel að setja sig inn í.
„Það var erfitt fyrst því maður vissi ekki hvað maður var að gera og enginn til að segja manni til. Nema jú, þegar ég var að kenna smíðina, þá sendi Einar Ólafsson [þáverandi skólastjóri] mig að tala við mann í Hafnarfirði, smíðakennara. Hann var að sýna mér það helsta sem maður gæti gert. Ég hafði aldrei smíðað áður, ég var bara beðin og þá reyndi ég það, og það gekk. Það var allt í lagi þegar maður var búinn að venjast því. Þá var það ekkert erfitt.“
En hvað var best við kennsluna?
„Mér fannst gaman að vinna með krökkum, var ekki svo mikið af börnum hjá mér, bara 1 dóttir sem fór svo fljótlega í menntaskóla. Mér fannst gaman að umgangast börnin, maður saknar þess mest þegar maður hættir. Mér fannst gaman að kenna.“
Að njóta lífsins eftir stritið
Eftir 12 ár í grunnskólanum, kenndi Anna einnig um skeið á leikskólanum en fór síðan að minnka við sig vinnu en vann þó dálítið við beitningu fyrir Birgi. Samhliða öllu því var alltaf að bætast í garðinn og fólk var farið að taka eftir honum. Kom það á óvart?
„Já, það var skrýtið fyrst, ef maður var úti var fólk að koma og spyrja hvort það mætti skoða. Það hafa útlendingar verið að banka ef sólskálinn er opinn og spyrja hvort búðin sé opin. Þá héldu þeir að það væri búð hér.“
Einmitt á meðan viðtalinu stendur birtist ferðamaður fyrir utan gluggann með símann á lofti til myndatöku. Daglegt brauð á sumrin en á veturna þarf að sinna viðhaldi.
„Það þarf oft að laga það sem er málað. Ég tek það inn á veturna. Það er flest tekið inn nema kúlurnar. Manni datt alltaf í hug eitthvað nýtt og nýtt. Það er nú komið ansi mikið núna, ætli þetta sé ekki orðið nóg.“
Eins og Anna veit vel, er lífið enginn dans á rósum, en fyrir 2 árum missti hún dóttur sína eftir langvinn veikindi, og lenti sjálf í slysi fyrir ári síðan þar sem hún brotnaði á öxl og úlnlið. Því sé ekki lengur mikið bætt við garðinn en hjónin verja tíma sínum til ferðalaga, bæði innanlands með hjólhýsið sitt og erlendis til sólarlanda eða til Danmerkur að heimsækja son Önnu þó þau komi alltaf aftur heim á Drangsnes.
„Við erum dugleg að ferðast bæði innanlands og erlendis. Við erum bæði hætt að vinna, svo maður verður að njóta þess á meðan maður getur það.“
Greinin var unnin fyrir strandir.is árið 2022.
Myndir: RÓG/Anna Svandís Gunnarsdóttir